20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

216. mál, áburðarverð

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það er nú orðið svo langt um liðið, að ég man ekki nákvæmlega, hvenær það var, sem ég bar hér fram fsp. til hæstv. landbrh. um verð á áburði, en það mun vera a. m. k. 4, ef ekki 5 vikur síðan, og þessi fsp. hefur, eins og gert er ráð fyrir og mælt fyrir í þingsköpum, verið tekin á dagskrá á fundi í Sþ. í hvert sinn, sem fundur hefur verið haldinn síðan. En svo hefur við brugðið, að hæstv. landbrh. hefur aldrei mætt á þessum fundum, að undanskildu því, að á fyrsta fundi, sem þessi fsp. var á dagskrá, var hann mættur, en lét þess þá getíð, að hann væri ekki tilbúinn að svara fsp.

Nú segir í 31. gr. þingskapa, með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi síðar en viku eftir að fyrirspurnalista er útbýtt, skal forseti síðan taka á dagskrá þingsins í upphafi fundar sérstakan lið, er nefnist fyrirspurnir. Ráðherra sá eða ráðherrar, er hlut eiga að máli, svara þá fyrirspurn þeirri eða fyrirspurnum, sem leyfðar hafa verið, og er þingmönnum þá rétt að taka þátt í umræðum.“

Annað en þetta segja þingsköp ekki um það, hvern frest ráðherrar hafa til að svara fsp. Það virðist því alveg ljóst, að þeim sé skylt að svara fsp. eigi síðar en viku eftir að þing hefur leyft það, að hún skuli fram borin.

Af þessum sökum vil ég mótmæla því broti á þingsköpum, sem mér sýnist hér ótvírætt vera fyrir hendi. Ég hefði í sjálfu sér getað fallizt á einhvern frest fyrir hæstv. landbrh. til að svara fsp., en þegar um jafntvímælalaust og jafnítrekað brot á þingsköpum og hér er að ræða, get ég ekki látið undir höfuð leggjast að mótmæla því hér mjög alvarlega í sameinuðu þingi og þá sérstaklega með það fyrir augum, að aðrir hæstv. ráðherrar taki sér ekki þetta til eftirbreytni.