20.04.1955
Sameinað þing: 53. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í D-deild Alþingistíðinda. (3105)

216. mál, áburðarverð

Forseti (JörB):

Út af ummælum hv. 8. landsk. þm. vil ég segja það, að fsp. hefur jafnan verið tekin, eins og hann reyndar minntist nú á; á dagskrá í sameinuðu þingi, eins og vera ber. Í fyrsta sinn var hæstv. landbrh. ekki tilbúinn að svara fsp. og hafði þá ekki unnizt tími til að afla sér þeirra gagna, sem með þurfti til að svara henni. Í eitt eða tvö skiptin næst þar á eftir ætla ég að hæstv. ráðh. hafi verið lasinn og gat ekki mætt á þingfundum, og var þess vegna engin von til þess, að hann svaraði fsp. þá. Í tvö önnur skipti veit ég til, einmitt þessa daga, hefur hæstv. ráðh. verið forfallaður frá að mæta hér, og ég veit til þess, að hæstv. ráðh. var tilbúinn til þess að svara fsp. nú. Nú er hann í öðru héraði við jarðarför í dag.

Hv. þm. vildi telja, að það væru skýlaus fyrirmæli þingskapa, að ráðherra skyldi svara í fyrsta sinn, þegar fsp. kemur á dagskrá og henni á að svara.

Ég hygg nú, að svo mikið megi ekki leggja í þetta ákvæði. Það byggist vitaskuld á því fyrst og fremst, að ráðherra sé við því búinn að geta svarað fsp., hafi fengið þær upplýsingar, sem hann telur að verulegu máli skipti til að geta svarað henni. Og ef ráðherra er forfallaður að geta mætt á þingi af lögmætum og gildum ástæðum, þá er vitaskuld ekki hægt að segja, að það sé brot á þingsköpum, þó að fsp. sé ekki svarað. Og ákvæði þingskapa má engan veginn taka svo bókstaflega, enda ef lögleg forföll eru til staðar, þá er vitaskuld ekki unnt að svara fsp.

Nú vil ég segja hv. 8. landsk. það, að næst, svo framarlega sem einhver sérstök forföll hindra ekki, mun fsp. verða svarað, og vil ég vona, að hv. þm. láti sér það lynda. Af minni hálfu hef ég ekki getað annað en tekið hana á dagskrá í þeirri von, að unnt yrði að svara henni.