27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (3106)

216. mál, áburðarverð

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki látið hjá líða að láta ánægju mína í ljós yfir því, að þessari fsp. skuli nú loks svarað. Á þskj. 467 bar ég fram fyrir nokkrum vikum fsp. um það til hæstv. ríkisstj., hvaða verð Áburðarverksmiðjan h/f hafi fengið fyrir þann áburð, kominn um borð í skip, sem fluttur hafi verið úr landi. Eins og menn rekur vafalaust minni til, þótti það viðburður mikill, þegar fyrsti farmurinn af köfnunarefnisáburði, framleiddum hér á landi, var fluttur og seldur til útlanda. Hins vegar var ekki á því stigi málsins neitt látið í ljós um það, hvert verð hefði fengizt fyrir þennan áburð, kominn um borð í skip hér á Reykjavíkurhöfn. Það var á þeim tíma, sem ég bar þessa fsp. fram, rík ástæða til að spyrjast fyrir um þetta verð, þar sem hér er um ríkisfyrirtæki, að nokkru leyti a. m. k., að ræða og allar upplýsingar varðandi það eiga að sjálfsögðu að birtast almenningi. En þar sem liðinn er svona langur tími síðan ég bar þessa fsp. fram, hafa á þeim tíma birzt upplýsingar um þetta verð í verzlunarskýrslum, svo að það liggur í sjálfu sér ljóst fyrir nú, hvert verð fékkst fyrir þann áburð, sem fluttur var út að þessu sinni.

En ég bar einnig fram aðra fsp. í sambandi við þetta mál, á þá leið, hvaða verð bændur landsins hefðu greitt fyrir sams konar áburð og þann, sem fluttur var út, þ. e. a. s. kominn um borð í skip í Reykjavíkurhöfn. Ég spurði sem sagt um sambærilegt verð bænda fyrir áburðinn við það verð, sem fékkst fyrir áburðinn fluttan út. Þeirri fsp. hefur ekki verið svarað, og engar upplýsingar liggja fyrir um hana, ekki nánari en þegar ég bar fsp. fram, svo að að því leyti verður svarið væntanlega eins og til var ætlazt.

Nú sjá að sjálfsögðu hv. þm., að ástæða hefði verið til að bera hér fram þriðju fsp., þ. e. a. s. um kostnaðarverð áburðarins. Það hefði verið full ástæða til að spyrjast fyrir um það, hvað kostar að framleiða þennan áburð í áburðarverksmiðjunni. Ástæðan til þess, að ég bar þessa fsp. ekki fram að þessu sinni, var sú, að þessi fsp. var borin fram hér fyrr á þinginu, og þá svaraði hæstv. landbrh. henni á þá lund, að a. m. k. þá væri ekki unnt að gefa neinar upplýsingar um þetta atriði og að það tæki allmarga mánuði hjá verksmiðjunni að komast að því, hvert væri raunverulegt framleiðsluverð, hver væri hinn raunverulegi framleiðslukostnaður, hvert væri það verð, sem áburðarverksmiðjan þyrfti minnst að fá fyrir áburðinn. Ef nú hins vegar svo skyldi standa á, að hæstv. landbrh. hefði fengið upplýsingar um þetta atriði málsins, þá teldi ég mjög æskilegt, að það kæmi fram í sambandi við svar hans hér við þessari fyrirspurn.