27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

194. mál, kaupstaður í Kópavogi

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Nýlega gerðust þau merku tíðindi, sem ekki gerast nú á hverjum degi, að tveir hæstv. ráðh. að viðbættum einum fyrrv. ráðh. eignuðust áhugamál mikið, hugsjón, liggur mér við að segja.

Þetta áhugamál er þess eðlis, að flm. telja slíka lífsnauðsyn, að því verði framgengt án tafar, að öll önnur störf Alþ. verða fyrir því að þoka. Svo mikið virðist hér í húfi, að þessi virðulega stofnun, sem oft þykir nokkuð svifasein að afgreiða mál, jafnvel þau og ef til vill ekki sízt þau, sem þjóðfélagsþegnana varðar mestu, hefur verið látin leggja svo að segja nótt við dag til að fóstra þetta efnilega afkvæmi hæstv. ráðh. svo að það megi sem allra fyrst rísa á legg í löggjafarformi.

Þetta mikla þjóðþrifamál er tafarlaus stofnun kaupstaðar í Kópavogi. Mál þetta hefur nú farið í gegnum allar umr. í hv. Nd. og er komið til n. í hv. Ed.

Við 1. umr. frv. í Nd. gerði ég nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls en hún er sú. að eðlilegast sé, að Kópavogur sameinist Reykjavík.

Ég hafði þá ætlað mér að spyrja hæstv. ráðh. um fáein atriði, sem snerta þetta mál, en þeir voru þá ekki viðlátnir fremur en stundum endranær og gátu því ekki eða höfðu ekki tök á að taka þátt í umr. gefa skýringar eða svara fyrirspurnum sem til þeirra væri beint.

Ég hef því brugðið á það ráð að beina í fyrirspurnatíma fáeinum spurningum til hæstv. fjmrh. Þessar spurningar snerta aðeins einn tiltölulega lítinn þátt þessa máls, þann, hver verða muni óhjákvæmilegur kostnaður ríkissjóðs, er leiddi af þeirri ráðstöfun að gera Kópavog að sérstökum kaupstað.

Það hefur örlað dálítið á þeirri kenningu og hún hefur víst átt að gera kaupstaðarhugmyndina fýsilegri í augum Kópavogsbúa, að það skipti ekki miklu máli, þótt stofnun kaupstaðar og þeirra embætta, sem slíku fylgja, kosti nokkurt fé, þar eð verulegur hluti þess kostnaðar mundi lenda á ríkissjóði. Þetta er sjónarmið, sem hv. alþm. geta ekki viðurkennt. Séu menn þeirrar skoðunar, að brýna nauðsyn beri til að gera eitthvert sveitarfélag að kaupstað og stofna þar með ný embætti. þá er að sjálfsögðu ekki skynsamlegt að horfa um of í kostnað, fremur en til annarra nauðsynjamála. En ef menn eru sannfærðir um það að slík ráðstöfun sé ekki einungis óþörf, heldur allt að því fáránleg, þá er ekkert vit í því að fleygja peningum úr ríkissjóði til þess eins ef til vill að seðja metorðagirnd fáeinna manna.

Hæstv. fjmrh. mælir þannig stundum, að ærnar byrðar séu lagðar á ríkissjóð, og maður skyldi ætla, að hann kærði sig ekki um, að nýjum pinklum sé bætt á Skjónu algerlega að þarflausu eða þarflitlu. Ekki mun afkoma ríkissjóðs heldur batna af völdum hins víðtæka verkfalls, sem nú hefur staðið í 6 vikur. Þá bregðast jafnvel hinar öruggustu tekjulindir ríkissjóðs, gróði af brennivínssölu meira að segja, hvað þá annað.

Þó að segja megi, að kostnaður ríkissjóðs af stofnun og rekstri kaupstaðar í Kópavogi geti naumast ráðið úrslitum um afstöðu manna til þess máls, þá er þar vissulega um atriði að ræða, sem vert er að gefa gaum og fróðlegt að fá nokkrar upplýsingar um. Því hef ég leyft mér að bera hér fram fyrirspurnirnar á þskj. 605 og vænti þess, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að svara þeim, að svo miklu leyti sem auðið er að gera grein fyrir kostnaði ríkissjóðs af þessu kaupstaðarævintýri á þessu stigi málsins.