08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði tilraun til þess hér áðan að gera okkur svartsýna og reyna enn á ný að telja okkur trú um, að verra árferði hlyti að vera fram undan á næsta ári heldur en því, sem nú er að líða. Þetta hefur nú verið hans pólitíska veðurspá allt frá því að ég kom hér á Alþ., en það er nú ekki nema síðan 1946. Mér finnst vera farið að slá í þessa bölsýniskenningu hans, og ég er fyrir löngu hættur að trúa á hana. Ég held líka, að hæstv. ráðh. þurfi að skjóta einhverjum stoðum undir það til þess að sannfæra hv. þm. um, að fram undan sé eitthvert voðaárferði, sem líklegt sé til að kippa stoðum undan tekjumöguleikum ríkissjóðs, svo að það verði að áætla tekjur hans um það bil 100 millj. kr. lægra en tekjurnar hafa reynzt í ár. Hann bendir á, að yfirstandandi ár hafi verið, eins og hér hefur verið tekið upp eftir honum af ýmsum, alveg einstakt góðæri, og segir, að hér hafi verið mikil eftirspurn eftir vinnuafli. Jú, það hefur verið hér í Reykjavík og í nágrenni Reykjavíkur. En er hæstv. ráðh. hættur að sjá út fyrir Hringbrautina? Sér hann aldrei neitt til Austfjarða? Veit hann ekki, hvernig atvinnuástandið er þar? Er þar samfelld atvinna? Er þar hver hönd notuð árið um kring? Er það þannig á Norðurlandi? Er það þannig á Vesturlandi? Nei, það er bara í þremur landsfjórðungum, sem vinnuafl landsmanna hefur verið illa notað á yfirstandandi ári, þ.e.a.s., það er stórt skarð fyrir skildi um þá tekjuöflun hjá þjóðinni á árinu í ár, sem hefði getað verið, ef öllum atvinnuvegum landsmanna hefði verið stjórnað af eitthvað svipaðri umhyggjusemi og ríkiskassanum sjálfum í þrengstu merkingu hefur verið stjórnað.

Hæstv. ráðh. var minntur á það líka, að þetta ár, sem nú er að líða, hefði nú ekki verið alveg áfallalaust. Það hefði verið síldarleysi, og togaraflotinn hefði verið stöðvaður, ég vil segja með stjórnaraðgerðum, í heilan ársfjórðung. Samt verða tekjur ríkissjóðs eitthvað yfir 550 millj. á þessu ári.

Það hefur verið svo mörg undanfarin ár, að tekjur ríkissjóðs hafa farið hækkandi frá ári til árs. Það eru engar líkur til þess, að það verði minni framleiðsluverðmæti á næsta ári; það eru engar líkur til þess, að það verði minni kaupgeta hjá fólki á næsta ári; það eru engar líkur til þess, að það verði minni innflutningur á næsta ári, og þar af leiðandi eru engar líkur til þess, að það verði minni tolltekjur eða skattatekjur, sem hæstv. fjmrh. fær fyrir ríkissjóðinn sinn á næsta ári, heldur en því, sem nú er að líða.

Ég tel því, að það sé ómögulegt fyrir hæstv: fjmrh. að komast hjá því að viðurkenna, að það er, eins og útlitið er núna, varlegt að áætla tekjur ríkissjóðs eins og þær hafa reynzt þetta ár, sem sé 550–560 millj. kr., og það er það, sem við í minni hl. fjvn. höfum gert. Við höfum áætlað tekjur ríkissjóðs 563 millj. kr.

Hæstv. ráðh. vék svo að því, að það mundu að vísu ekki verða afgreidd launalög á þessu þingi, en það mundu verða gerðar bráðabirgðaráðstafanir til þess, að embættismenn ríkisins fengju einhverja launauppbót, því að þeir væru orðnir mjög aðþrengdir og hjá því yrði ekki komizt, og hæstv. ríkisstj. mundi reyna að hafa till. tilbúnar um þetta fyrir 3. umr. fjárl. Af þessu höfum við í fjvn. fengið nokkurn pata og heyrt, að til stæði að ætla svona 7 millj. kr. upphæð til þess að mæta fyrirhuguðum hækkunum — lagfæringum — vegna fastlaunaðra starfsmanna og embættismanna ríkisins. Með einhverjum hætti á þetta að jafnast ofan á launin, líklega eftir hundraðshlutum, úr því að launalögin eru ekki komin það langt áleiðis hjá hæstv. stjórn, að þau eigi að fá afgreiðslu á þinginu. En svo sagði hæstv. ráðh.: En þetta á bara ekki að gefa neitt tilefni til nýrrar launahækkunaröldu. — Af hverju datt honum það í hug, að ef hækkuð væru embættislaun hjá ríkinu um 7 millj. kr., þeirra manna, sem hafa þó fastar, öruggar tekjur frá ári til árs og eru þannig allt öðruvísi og betur settir en Austfirðingarnir hans með stopula atvinnu og Norðlendingarnir og Vestfirðingarnir, sem verða að búa við lítið atvinnuöryggi, ósamfelldar atvinnutekjur, þá ætti ekki líka, þegar hæstv. ríkisstj. hefði sagt a, að segja b með því að bæta eitthvað launakjör þess fólks, sem býr við atvinnuleysi? Ég skil ekki þankaganginn hjá hæstv. ráðh. og skil raunar vel, að hann skyldi kippast við, þegar hann hafði talað um hina fyrirhuguðu hækkun vegna embættismannanna, og víkja að því, að það ætti þó ekki að hafa áhrif til hækkunar á almennar launagreiðslur hjá öðrum. En ekkert réttlæti væri í því. Ef það er ástæða til þess að hækka launin hjá nokkrum í þessu landi, þá er það vitanlega fyrst og fremst hjá tekjulægsta fólkinu og því fólki, sem sérstaklega hefur vegna fádæma illrar stjórnar á atvinnuvegum þjóðarinnar orðið að búa við atvinnuleysi og býr við það. Það er því alveg gefinn hlutur, að lagfæring á launakjörum fastlaunaðra starfsmanna og embættismanna ríkisins hlýtur að vera vísbending, fáni dreginn við hún af hendi ríkisstj. um það, að hún viðurkenni, að nú sé tími kominn til að bæta launakjör hinna lægst launuðu í þessu landi, hvort sem þeir eru embættismenn eða ekki.

Hæstv. ráðh. taldi ástæðu til að mótmæla því sem röngu, þegar verið væri af okkur í minni hl. að tala um hækkandi álögur og auknar tekjur ríkissjóðs frá ári til árs. Hann fullyrti bara, að þetta væri rangt, núverandi ríkisstj. hefði eiginlega ekkert annað fremur gert en að lækka tolla og skatta, og svo fór hann að telja upp og sagði, að menn hlytu þó að muna, að hæstv. ríkisstj. hefði fellt niður kaffi- og sykurtollinn, hún hefði fellt niður söluskatt af bifreiðaakstri, hún hefði gert sparifé skattfrjálst og svo hefði veitingaskatturinn verið afnuminn. Hvað ætli þetta hafi verið margar milljónir allt saman? Ég hygg, að þetta allt saman hafi ekki verið yfir tug milljóna. Ég man t.d., að veitingaskatturinn var seinast á fjárl. 2.5 millj. kr. Ég held einnig, að sú upphæð, sem skattfrelsi sparifjárins nemur, sé ekki geysihá. Þetta er meira til þess að nefna heldur en að það hafi nokkurt innihald.

En fram hjá hinu verður ekki komizt, að allir tekjuliðir fjárlaga hafa hækkað — einstakir tekjuliðir jafnvel um tugi milljóna. Hvað segja menn t.d. um verðtollinn? Hefur hann ekki hækkað um tugi milljóna stundum á einu ári? Hann hefur hækkað frá ári til árs og stundum um tugi milljóna á einu ári. Eða söluskatturinn? Hann hefur frá ári til árs hækkað nm tugi milljóna og er nú kominn á annað hundrað milljóna króna.

Ég tel það ekki vera neitt lof um hæstv. ríkisstj., þó að henni hafi ekki tekizt að ganga svo langt í skattpíningu að geta miðað skattana við sömu krónutölu og fyrir gengislækkun. Vitanlega hefur viðmiðunin að öllu leyti breytzt síðan og allt verðmætamat raskazt við þá ráðstöfun stjórnarvaldanna, og það væri vitanlega alveg ólíft í landinu, ef gengið væri í skattlagningunni niður í sömu upphæðir og skattar voru teknir af fyrir gengislækkun. En sannleikurinn er sá, að hæstv. ríkisstj. er búin að stórhækka tekjur ríkissjóðs, þ.e.a.s. herða á skattpíningunni á landsmönnum frá ári til árs.

Þá vék hæstv. ráðh. þessu næst að ríkisbákninu og spurði, hvers vegna við hefðum ekki borið fram frumvörp til laga um það að fækka embættum og gera ríkisbáknið einfaldara og ódýrara, úr því að við værum nú komnir að þeirri niðurstöðu, að til þess að framkvæma það, svo að nokkru næmi, þyrfti lagabreytingar. Ja, ég vil nú segja: Hefur hæstv. ríkisstj. ekki dottið það snjallræði í hug, ef hún er haldin af sparnaðaranda? Það væru nefnilega ólíkt meiri vonir, sem stæðu til þess, að sparnaðarfrumvörp um fækkun embætta næðu fram að ganga hér á hv. Alþ., ef hæstv. fjmrh. léti sér detta slíkt í hug og bæri slík frv. fram, heldur en við í stjórnarandstöðunni, því að það eitt er víst, að það færi í sömu körfu og allar okkar till. Það yrði ekki til þess að draga neitt úr kostnaðinum við ríkisbáknið, þó að við bærum slík frv. fram. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki borið fram slík frv. Hún hefur bætt við embættum frá ári til árs og aukið ríkisbáknið. Endrum og eins hefur hún þó lagt niður eitt og eitt embætti. Ég man, að fyrir nokkrum árum var lagt niður embætti veiðimálastjóra, en eftir tvö ár var það embætti komið inn á fjárl. aftur og hefur aldrei tekið til sín eins margar krónur og nú á fjárlögunum.

Þannig hafa iðrunarköstin staðið stutt, og þau spor, sem stigin hafa verið endrum og eins til sparnaðar, hafa verið stigin til baka aftur. Hvað eru þau mörg námsstjóraembættin, sem búið er að stofna á seinustu árum? Ég held, að námsstjórarnir séu orðnir 10 núna. Hvað eru þeir orðnir margir skattstjórarnir, sem búið er að unga út á seinustu árum? Og hvað ætli það séu margir nýir starfsmenn á jötu ríkisins, sem eru komnir inn á þessi fjárlög? Ég veit, að þeir eru á annan tug a.m.k.

Nei, þeirri ríkisstj., sem færir út embættisbákn ríkisins frá ári til árs, eins og núverandi hæstv. ríkisstj. gerir, er ekki sparnaður í hug, og hún þarf ekki að auglýsa eftír neinum frv. um fækkun embætta, því að þeim mundi ekki ætlað líf, ef þau kæmu frá stjórnarandstöðunni. En það, að þau koma ekki frá hæstv. ríkisstj., sýnir, að hún hefur ekki neina slíka sparnaðarviðleitni í huga.

Það er eitt af nýjustu sparnaðarafrekum hæstv. stjórnar að stofna eitt nýtt rándýrt ráðuneyti í viðbót við öll önnur.

Viljann til sparnaðar vantar hjá hæstv. ríkisstj., og hann hefur vantað lengi. Hann hefur vantað alla þá tíð, sem hún hefur setið við völd.

Þá vék hæstv. ráðh. að till. mínum á undanförnum árum um að áætla tekjur ríkissjóðs réttar en gert hefur verið, og það skal ég játa, að hæstv. ráðh. var hógvær, þegar hann kom að því efni málsins. Hann sagði, að ef farið hefði verið eftir till. Hannibals Valdimarssonar, þá hefði halli orðið sum árin á fjárl., en stundum hefðu þau nú skriðið. Þetta er algert misminni hjá hæstv. ráðh. Á hverju einasta ári hefði orðið tekjuafgangur á fjárl. fyrir það, þó að hver einasta till. mín um rétta tekjuáætlun hefði verið samþ., — á hverju einasta ári, því að reynslan hefur alltaf komið út með hærri tölur að því er snertir tekjuliði fjárl. heldur en ég hef áætlað undanfarin 7 ár. Og þetta ár, 1954, hefðu orðið 90 millj. kr. umframtekjur á fjárl., þó að allar mínar till. í fyrrahaust hefðu verið samþ. En þær voru ekki samþ. allar, og það urðu 108 millj. kr. umframtekjur á árinu.

Ef hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. vildi viðurkenna staðreyndir og viðurkenna Alþ. þann rétt, sem því ber samkvæmt stjórnarskrá, að hafa fjárveitingavaldið í sínum höndum, þá ætti hæstv. ráðh. að heimila meiri hl. fjvn. að hækka tekjuáætlunina upp í 560 millj. kr., því að það er vitað eftir öllu útliti, að tekjur næsta árs geta ekki orðið undir 560 millj. kr., og þó eru allsterkar líkur fyrir því, að þær verði hærri. En þetta verður ekki gert, sannið þið til, og svo fáum við að haustnóttum að ári liðnu að heyra um mikinn tekjuafgang og jafnframt spádóma um mikið hallæri á árinn 1956. Þessa sögu þekkjum við.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að hv. frsm. meiri hl. fjvn. og reyna að útskýra fyrir honum það, sem hann sagði að þyrfti skýringa við í till. okkar hv. 11. landsk. Það má ekki minna vera eftir mikið og náið samstarf í fjvn. heldur en að maður reyni að tala svo skýrt við sína meðbræður í n., að nokkurn veginn skiljist það, sem sagt er og meint.

Hann hafði eftir mér, að ég hefði haft ákveðin ummæli eftir hæstv. forsrh., sem hefðu verið óviðurkvæmileg, því að hæstv. forsrh. hefði aldrei látið sér slíkt um munn fara, og væri ósæmilegt að hafa sjálfan forsrh. fyrir slíkum sökum um svo léttúðugt tal sem ég átti að hafa látíð mér um munn fara. Út af þessu vil ég aðeins segja við hv. frsm. meiri hl fjvn., að það er dálítill vandi að hlusta, og hlusta þannig, að maður skynji rétt það, sem er sagt, en það hafði honum ekki tekizt í þetta sinn, því miður. Þessi ummæli, sem ég lét mér um munn fara í minni framsöguræðu, eru sem betur fer skrifuð eins og ég flutti þau, og ég sagði ekki, að hæstv. forsrh. hefði sagt eitt eða neitt. Þegar ég hafði lýst aumlegu ástandi vélbátaútvegsins, sem yrði nú að fá útlendinga, þegar ég hafði rætt um erfiðleika togaraútgerðarinnar, sem hjarði á bílaskattinum til áramóta og enginn víssi svo, hvað tæki við, þegar ég hafði vitnað til hv. þm. A-Húna. (JPálm) og hv. 2. þm. Skagf. (JS) um kvenmannsleysið í sveitunum og það, að landbúnaðurinn þyrfti nú líka að fá útlendinga flutta inn, helzt hollenzkar stúlkur, því að hugur þessara tveggja þm. stæði aðallega til þeirra, og að atvinnulífið væri allt á opinberu framfæri hjá hæstv. ríkisstj., þá sagði ég, að ríkisstj. væri hollt að staldra við og athuga sinn gang og spyrja sjálfa sig, hvort hún hefði gengið til góðs, og í framhaldi af þessu sagði ég svo: Ef til vill sýnist stjórninni sem ofurgróði milliliða og braskara sé aðalatriðið, að dýtíðarflóðið sé búhnykkur, en ekki þjóðfélagsböl, og e.t.v. segir forsrh. bara með hressilegu handapati: Skítt með atvinnuvegina, lifi milliliðirnir. Ég sagði, að e.t.v. mundi hæstv. forsrh. taka þessu svona, því að hann hefur það stundum til að taka alvarlegum hlutum með brosi og handapati og með því að taka hressilega upp í sig. Þetta er ekkert ólíkt hæstv. forsrh., og er það víst þannig, að hv. frsm. hefur séð þessa mynd svo skýrt fyrir sér, að hann taldi, að ég hefði sagt, að hæstv. ráðh. hefði sagt þetta. — En það var nú ekki einu sinni svo, að hann væri hafður fyrir þeim sökum. Það var sagt, að e.t.v. gæti hann haft til að taka þessum málum með slíkum tilsvörum.

En mér skildist þó, að það, sem hv. frsm. langaði sérstaklega til þess að fá nánari vitneskju um, væru till. okkar hv. 11. landsk., og verð ég að segja, að sá vefur, sem hv. þm. óf um till. okkar, var melétinn vefur, mjög melétinn og götóttur vefur. (Gripið fram í.) Já, enda fór hv. þm. í gegnum hann, hann fór í gegnum götin, sem hann bjó sjálfur til. Hann sagði í fyrsta lagi um till. okkar, að við legðum til, að tekjuáætlunin væri hækkuð um 70 millj. kr.; þetta er nærri því rétt. Það eru 69 millj. kr., sem við leggjum til að tekjuáætlunin verði hækkuð. Þarna skakkar ekki nema einni milljón. (Gripið fram í.) — Já, það er lítið — það hækkar lítið í kassanum hjá hæstv. ráðh. við eina og eina milljón.

Með þessu, að leiðrétta hina röngu tekjuáætlun um 69 millj., væri sem sé gengið út frá því hjá okkur, að tekjurnar væru 563 millj. kr. Á þessu ári er okkur sagt að þær muni vera um 552–553 millj. kr. Þær eru því aðeins hærra áætlaðar hjá okkur á næsta ári en okkur er tjáð nú að þær séu eða verði á þessu ári. M.ö.o.: Við trúum því ekki, að það verði miklu meira hallæri af völdum guðs eða manna eða ríkisstjórnarinnar á næsta ári heldur en á þessu.

En hvað þá með till. okkar gjaldamegin? Jú, við gerum ráð fyrir því, að rekstrarútgjöld á fjárl. hækki nokkuð, og berum fram ákveðnar till. um það. Nú eru rekstrarútgjöld á fjárlfrv. 432 millj. kr. Það mun vera rétt. Við erum samþykkir 13 millj. kr. hækkun af þeim till., sem hv. meiri hl. n. leggur til. Það mun líka vera rétt. Þá er það með hækkunartill. okkar á gjaldabálkinum að öðru leyti, að þar erum við samtals með hækkanir upp á 28.4 millj. kr., en þar hefur hv. frsm. fjvn., held ég, aðallega flaskað á því, að hann hefur lagt allar okkar hækkunartill. saman og komizt þá vitanlega að þeirri niðurstöðu, að þarna væri um nokkuð marga milljónatugi að ræða. En honum hefur aðeins láðst að draga frá þær upphæðir gjaldamegin, sem eru fyrir á fjárlfrv. Við höfum lagt til, að 2 millj. kr. verði ætlaðar til malbikaðra vega. Fyrir eru á fjárlfrv. 100 þús. kr., og er þá hækkun okkar 1.9 millj. kr. frá frv. Þá höfum við lagt til, að lánasjóður stúdenta fái 800 þús. í stað 500 þús., sem eru á frv., og er hækkunin þar 0.3 millj. kr. Þá höfum við lagt til, að nýr liður verði tekinn upp, sem sé 10 millj. kr. að upphæð, og ætlaður bæjar- og sveitarfélögum til kaupa á fiskiskipum samkvæmt skilyrðum, sem ríkisstj. setji. Það eru 10 millj. kr. í hækkun; það er allur liðurinn. Og þá er það enn fremur, að við leggjum til, að nýjar raforkuframkvæmdir fái 12 millj. kr., en á frv. eru fyrir 5 millj. 860 þús.

Það verða því 6.2 millj. kr., sem koma til hækkunar hjá okkur. Þá höfum við enn fremur lagt til, að raforkusjóður fái 10 millj. kr. framlag, en þar eru 5 millj. kr. fyrir á fjárlfrv. — kemur til hækkunar um 5 millj. kr. Til verðlækkunar á rafmagni ætlum við 1 milljón, sem er nýr liður, og er það 1 millj. kr. í hækkun, til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði samkv. 3. kafla l. nr. 44 frá 7. maí 1946 3 millj. kr., sem er nýr liður og kemur til hækkunar um 3 millj., og að endingu til byggingar verkamannaskýla í hafnarbæjum 1 millj. kr., sem ekki er fyrir á frv., og kemur því til hækkunar 1 millj. Þetta eru — segi ég og skrifa — 28 millj. og 400 þús. kr. (Gripið fram í: Gleymir hv. þm. söluskattinum?) Nei. (Gripið fram í.) Það er nú ekki að marka það; hæstv. fjmrh. er svo rangeygður, og eftir því sem mér er sagt frá orðaskiptum hans og Árna Pálssonar einu sinni, þá sagði Árni Pálsson, sem var nú ekki alveg rétteygur: Ég var ekki nærri því eins rangeygður og þú, Eysteinn, á þínum aldri.

Þessar hækkanir„ sem hér er um að ræða, eru þá komnar upp í 41.4 millj., og væru þá gjöldin á fjárlfrv. samkv. okkar till 473 millj. og 400 þús. kr. Og svo gleymirðu söluskattinum, segir hv. 2. þm. Eyf. (MJ). Það er alveg rétt, að við höfum lagt til, við hv. 11. landsk., að 1/3 af áætluðum söluskatti, 126 millj. kr., skuli renna til bæjar- og sveitarfélaga, það eru 42 millj. kr. Nú bæti ég 42 millj. kr. við gjaldabálkinn, 473 millj., eða dreg þær frá tekjubálkinum, og þá er ég sem sé kominn, ef ég fer að samkv. fyrri aðferðinni, í 515.4 millj. gjaldamegin. 563 millj. var áætlunin hjá okkur teknamegin, og séu 515.4 millj. dregnar þar frá, þá eru eftir 47.6 millj. kr. í rekstrarafgang á fjárl. eftir okkar till., en enginn rekstrarhalli. Hér er 47.6 millj. kr. rekstrarafgangur samkv. okkar niðurstöðum.

Hins vegar er svo eftir ýmislegt af okkar till.. en það eru till., sem við leggjum til að komi á heimildagrein, 22. gr. Fyrsta till. okkar þar var sú, að af tekjuafgangi yfirstandandi árs, 1954, verði 20 millj. kr. teknar og lagðar í Fiskveiðasjóð Íslands. Okkur er tjáð, að tekjuafgangur muni vera á þessu ári óráðstafaður um 60 millj. kr., og höfum ekki gert neinar till. um að ráðstafa nema þriðja partinum af því, þessari upphæð í fiskveiðasjóð, sem beinni hjálp við atvinnulífið. 40 millj. kr. ættu þá a.m.k. að vera eftir til ráðstöfunar til næsta árs, þar sem Alþ. hefur ekki enn þá gert neinar ráðstafanir til þess að ráðstafa því. Með þessu, að reikna með 60 millj. kr. rekstrarafgangi á s.l. ári, er sem sé búizt við því, að hæstv. ráðh. hafi farið með í umframeyðslu eitthvað yfir 40 millj. kr., þar sem umframtekjurnar voru alls 108 millj. Síðan gerum við till. um að taka upp heimildir til hæstv. ríkisstj. á 22. gr., 10 millj. kr. í atvinnubætur. Það hafði hv. 2. þm. Eyf. tekið sem 10 millj. kr. hækkun á fjárlfrv., en það er tæpast rétt hjá honum, því að 5 millj. kr. atvinnubótaliður er fyrir á frv. Ef hæstv. forseti ætti að fara að bera upp þessar till., þá tæki hann fyrst þá hærri. Ef hún væri felld, þá kæmi hin til atkvæða, og væri þessi samþ., þá yrði það aðeins 5 millj. kr. hækkun umfram það, sem áður var inni á frv. En hann hafði reiknað þarna með 10 millj. kr. hækkun. Þá höfum við einnig lagt til, af því að við teljum ekki sanngjarnt að taka eingöngu á eins árs tekjur það, sem væri ráðstafað til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum í landinu, að heimilað væri að taka 40 millj. kr. til þeirra mála, 15 millj. í byggingarsjóð kaupstaða og kauptúna, 15 millj. í smáíbúðalánadeildina og 10 millj. til byggingarsamvinnufélaga. Og að síðustu leggjum við til að heimíla ríkisstj. að lána sveitarfélögum til að endurlána til eflingar og uppbyggingar atvinnulífs í þremur landsfjórðungum 50 millj. kr. Þetta er allt saman á heimildagrein og ekki ætlað rekstri næsta árs að bera það, heldur er ætlazt til þess, að hæstv. ríkisstj. jafnvel að meira eða minna leyti taki lán til þessara útgjaldaliða og endurlánaði bæjar- og sveitarfélögum aftur til þess að koma fótum undir atvinnufyrirtæki, sem væntanlega gætu fyrr eða síðar endurgreitt eitthvað meira eða minna af því á ný.

Það er þess vegna ekki stefnt í þann voða, sem hv. frsm. meiri hl. vildi vera láta, þegar hann var að túlka okkar till. áðan. Það er ekki með okkar till. stefnt í neinn ægilegan rekstrareða tekjuhalla við afgreiðslu fjárl., þó að allar okkar till. tekna- og gjaldamegin væru samþ. Og það væri miklu sómasamlegra fyrir hv. Alþ. samþ. okkar till., því að þá væri tekjuáætlun fjárl. einu sinni eftir margra ára bil orðin eitthvað nær því rétta heldur en verið hefur, og það væri snúizt að einhverju leyti við þeirri höfuðskyldu ríkisstj. á hverjum tíma að sinna atvinnulífinu eitthvað og leggja því lið heldur en að keppa við það eitt að hafa sem flesta milljónatugi sem tekjuafgang að nafninu til á fjárl. frá ári til árs. Það er ekkert takmark til að keppa að út af fyrir sig, ef þessu fé er ekki varið til þess að bæta lífsaðstöðu fólksins í landinu.

Ég vona nú, að ég hafi með því, sem ég nú hef sagt, gert hv. frsm. meiri hl. nokkru skiljanlegra en áður, hvað við meinum með okkar till. og hvernig þær koma út, þegar þær eru rétt færðar til bókar, en það hafði hv. frsm. ekki tekizt, eins og hann lagði það fyrir í ræðu sinni hér áðan. Þar hafði margt skolazt hjá honum og eins og ég sagði mörg göt komið á þann vef, sem hann óf um þessar till. okkar.

Ég skal svo láta lokið máli mínu um fjárlfrv. í heild. Ég vænti þess, að ýmsar lagfæringar fáist á því milli 2. og 3. umr., því að enn á fjvn. eftir að blessa yfir þetta fóstur hæstv. fjmrh.

Að endingu skal ég svo aðeins minnast á tvær till., sem mælt hefur verið fyrir hér af öðrum hv. þm., og vil ég þá taka undir það, að ég tel, að það væri full ástæða til að samþ. till. hv. þm. N-Ísf. (SB) um ferjubryggju í Skálavík við Mjóafjörð. Sú bryggja á þeim stað mundi vera til mikilla samgöngubóta, mikils hagræðis fyrir alla búendur við Mjóafjörð og veita þeim sams konar aðstöðu og fólkið í flestum öðrum byggðum við Ísafjarðardjúp hefur þegar fengið með ferjubryggjunum í Bæjum, Melgraseyri, Arngerðareyri, Reykjanesi, Vatnsfirði og Ögri. Sé ég ekki neitt réttlæti í því að hafa veitt fé til

ferjubryggnanna á hinum stöðunum, en neita Mjófirðingum um sams konar aðstoð til þess að koma sínum afurðum á markað. Ég mundi því fyrir mitt leyti mæla fastlega með því, að orðið yrði við þessari ósk hv. þm. N-Ísf., og vænti, að sú till. mæti skilningi, ekki aðeins í fjvn., þar sem hún verður tekin til afgreiðslu fyrst, heldur einnig í þinginu.

Af öðrum till., sem ég hef veitt sérstaka athygli og mælt hefur verið fyrir hér í kvöld, þótti mér merkileg till. hv. 1. landsk. (GÞG) um að koma upp mannfræðideild við þjóðskjalasafnið með það fyrir augum, að þar væri samin spjaldskrá yfir alla íslendinga með upplýsingum um hvern einstakling og jafnvel mynd af hverjum einstaklingi, af því að það væri sennilega einstakt í veröldinni, ef slíkt safn væri til hjá nokkurri þjóð, og njótum við þess í því efni, að þessir möguleikar eru fyrir hendi, að íslenzka þjóðin er svo fámenn sem hún er. Ég tel, að þetta sé merk till., sem ég trúi ekki öðru en að hv. Alþ. hafi skilning á og samþykki.

Auðvitað eru fram komnar margar aðrar merkar till. frá einstökum þm., því að margt þarf að laga, fleira en fjvn. getur lagt liðsyrði innan þess þrönga stakks, sem hún starfar. Er flest af því, sem hv. þm. færa fram till. sínum til stuðnings, á fyllstu rökum reist, og held ég, að eins og stakkurinn er skorinn fjárlfrv., þá verði óhætt fyrir þm. að sýna talsvert mikið frjálslyndi í því að samþ. þær till., sem nauðsynlegastar eru og mest hafa til síns máls, því að það er enginn vafi á því, að ef ekki verða gerðar leiðréttingar á fjárlfrv. í samræmi við till. okkar hv. 11. landsk., þá er rúm fyrir að leiðrétta margt og mikið samkv. till. einstakra þm. Það er staðreynd, að hæstv. fjmrh. lumar á þó nokkuð mörgum milljónatugum, sem ekki er betur til annars varið en að leiðrétta lendingarbætur, leiða rafmagn um landið og annað þess konar, sem bætir aðstöðu fólksins til að lifa úti um byggðir landsins.

Lúðvík Jósefsson: Herra forseti. Það voru nokkur orð, sem ég vildi segja, aðallega í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh. Hann hefur nú flutt sitt innlegg í þessar fjármálaumr., af hálfu síns flokks væntanlega og af sinni hálfu sem fjmrh. Ég verð að segja það, að í mínum augum var innlegg hans harla lítils virði.

Hæstv. ráðherra reyndi hér enn á ný að neita þeirri staðreynd, að fjármálastefna núverandi ríkisstjórnar og þeirrar ríkisstjórnar, sem hér fór með völd næst á undan þessari, hefði einkennzt af því að leggja sífellt hærri og hærri skatta á landsmenn og auka eftir ýmsum leiðum þannig tekjur ríkissjóðs. Það er alkunna, að hæstv. ráðherra ætlar sér oft æði mikið í þeim efnum að halda því fram, að rétt sé rangt og rangt sé rétt. Þó að tölur liggi fyrir úr hans eigin bókhaldi, sem sanna það, að tekjur ríkissjóðs hafa farið stórum hækkandi á undanförnum árum, þá neitar hann þeim alveg hiklaust. Hann nefnir að vísu ekki oft þær staðreyndir, að ríkisbókhaldið segir, að tekjur ríkissjóðs hafi verið fyrsta árið eftir gengisbreytinguna, árið 1950, 306 millj. kr. og núna fimmta árið eftir gengisbreytinguna, árið 1954, muni ríkistekjurnar verða 550 millj. kr. Hann nefnir ekki oft þessar tölur. En hann skirrist hins vegar ekki við því að segja, að álögur ríkisins á þegna landsins hafi farið lækkandi. Og svo kemur hann með þennan einkennilega prósentureikning sinn, sem hann viðhefur í þessum efnum æ ofan í æ, og ætlar að reyna að telja mönnum trú um það, að raunverulega séu álögurnar á landsmönnum alltaf að lækka.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að þær tölur, sem ég legg hér til grundvallar, eru allt saman tölur, sem fram koma í ríkisreikningi eftir að gengisbreytingin var gerð. Munurinn yrði að sjálfsögðu miklum mun meiri, ef teknar yrðu tölur úr reikningi áður en gengisbreytingin var gerð, enda væru þær þá ekki að öllu sambærilegar.

Ef litið er á nokkrar fleiri tölur úr ríkisreikningi, elns og t.d. viðvíkjandi verðtolli, þá segir ríkisreikningurinn 1950, að verðtollur hafi verið innheimtur 58.8 millj. kr. En hvað verður verðtollurinn mikill á þessu ári? Verður hann 58 millj. eins og árið 1950? Nei, hann verður 155 millj. kr. eða þar um bil. Hæstv. fjmrh. er hvergi hræddur að koma fram og segja á eftir ofan í þessar tölur: Auðvitað höfum við verið að lækka tollana. Höfum við ekki afnumið sykurtollinn? Höfum við ekki lækkað kaffitollinn? Og hefur ekki tollskránni verið breytt í nokkrum efnum? Hvernig sem reynt verður að halda á því með slíkum loddarabrögðum sem hæstv. fjmrh. hefur haft hér í frammi, sanna þessar tölur það alveg ótvírætt, að tollaálögurnar á landsmönnum hafa farið hækkandi. Þær hafa farið hækkandi af ýmsum ástæðum, m.a. af þeirri, að nú í seinni tíð hefur stórum aukizt innflutningur á þeim vörutegundum, sem eru í hærri tollflokki. Áður fyrr var þröngt um innflutning á ýmsum vörum og sérstaklega bitnuðu innflutningshömlur á ýmsum tollháum vöruflokkum. Nú hafa hins vegar þessir vöruflokkar verið fluttir inn í stórum stíl, og hefur það vitanlega þýtt í framkvæmd, að tekjur ríkissjóðs hafa stórum hækkað og þær fjárfúlgur, sem landsmenn hafa greitt í ríkissjóðinn, hafa farið hækkandi. Auðvitað hefði þetta, ef eðlilega hefði verið á haldið, veitt ríkissjóði aðstöðu til þess að lina á skattaálögum sínum á skattþegnunum í ýmsum öðrum efnum, ef ekki hefði verið haldið áfram á þeirri braut að hækka í sífellu tekjurnar og auka útgjöldin að sama hlutfalli.

Árið 1950 var söluskatturinn, sem raunverulega verkar alveg eins og tollur, 54 millj. kr., en nú í ár mun söluskatturinn verða 126 millj. kr. Hann hefur meira en tvöfaldazt.

Tilburðir hæstv. ráðherra í þeim einkennilega leik að reyna að halda því fram, að álögur hafi verið lækkaðar á landsmönnum, eru æði skringilegir. Það hefur nokkuð verið vikið að því hér af öðrum ræðumönnum, að hann er að tilnefna ýmsar eftirgjafir, sem eru vægast sagt ákaflega hlægilegar og vega ekki nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Eitt af því, sem hann taldi upp og ekki hefur verið minnzt hér á af öðrum, hygg ég, var það, að ríkissjóður hefði gefið eftir fasteignaskattinn. Þetta lítur sæmilega út, þegar það er sagt svona eins og hæstv. ráðherra sagði. En ef menn virða fyrir sér þessar tölur, sem hér er um að ræða, hvað segir þetta þá mikið? Ég fletti upp á því í ríkisreikningi, strax eftir að ráðherra hafði nefnt þetta, hvað þessi skattur hefði numið miklu á undanförnum árum, og seinustu ríkisreikningar segja þetta: Árið 1950 nam þessi upphæð hvorki meira né minna yfir allt landið en 767 þús., árið 1951 724 þús., heldur minna, og árið 1952, siðasta reikningsárið, sem liggur fyrir, 755 þús. kr., rétt þrem fjórðu úr einni millj. af 551 millj. eða þar um bil, sem innheimt er af landsmönnum. Það getur litið nógu laglega út að segja: Gaf ég ekki eftir „treikvart“ millj., þó að ég hafi hækkað hins vegar innheimtuna af landsmönnum um meira en eitt hundrað millj. á ári? — En sannindin eru ekki mikil, sem á bak við þetta standa.

Þá nefndi hæstv. ráðherra, að hann hefði einnig gefið meira en þetta; hann hefði líka gefið eftir núna alveg nýlega veitingaskattinn. Hann nam árið 1952 2.8 millj. Því var lýst yfir hér á Alþingi, og hygg ég, að allir fari nokkuð nærri um, hvað það þýðir í framkvæmd, að þetta væri gert til þess að bæta nokkuð hag þeirra manna, sem reka hér veitingastaði í Reykjavik fyrst og fremst. Auðvitað hefur það verið vel meint af hæstv. ríkisstj. að gefa þeim eftir þennan skatt. Ég hygg, að aðrir hafi ekki heldur grætt á því, að þessi veitingaskattur var gefinn eftir, en þessir tiltölulega fáu aðilar. Almenningur í landinu hefur ekki notið mikils góðs af því. Það er áreiðanlegt.

Í þessu efni vildi hæstv. fjmrh. gera grín að því, að ég hafði minnzt á það, að réttlátara væri að afla ríkissjóði tekna á annan hátt en þann, sem gert hefði verið að undanförnu, aðallega í formi tolla og söluskatts. Og ég minntist þá á, að þeir, sem breiðust hafa bökin, ættu að taka ríkulegri þátt í því að greiða til ríkisins en nú hefur verið.

Það var engu líkara en hæstv. ráðherra teldi það hreina fjarstæðu að láta þá, sem breið hafa bökin, borga nokkuð í ríkissjóð. Það var eins og hann vildi halda því fram, að þetta væri með öllu ógerlegt, á engan hátt hægt að koma þessu við. Og svo minntist hann á tekjuskattinn í þessu efni. Hæstv. ráðherra veit það manna bezt, að tekjuskatturinn hefur þannig verið framkvæmdur á undanförnum árum og um alllangan tíma, að hann er fyrst og fremst að verða í framkvæmd skattur á launafólk. Það er að fara svo, að skattaframtölin virðast ekki ná til annarra en þeirra, sem taka launatekjur í einu eða öðru formi. Hinir, sem almenningur í landinu veit að breiðust hafa bökin, þeir, sem raka að sér gróða eftir ýmsum löglegum og ólöglegum leiðum, sleppa jafnan við tekjuskattinn til ríkissjóðs að mestu leyti. Og það er sannarlega ekki okkur, sem erum í stjórnarandstöðu, að kenna, að þannig hefur verið haldið á framkvæmd skattamálanna, að þessu hefur farið svona fram. Auðvitað eru leiðir til þess að handsama gróðamennina og láta þá greiða í ríkissjóð; það eru margar leiðir til þess, og hæstv. ráðherra þekkir þær.

Það eru líka auðveldar leiðir til þess að taka ýmislegt af þeim gróðalindum, sem þessir gróðabrallsmenn hafa, að taka þær af þeim og fá ríkissjóði þær tekjur. Við sósíalistar höfum flutt hér á Alþingi till. um það, að ríkið tæki í sínar hendur verzlun með ýmsan glysvarning, sem annars er verzlað með í landinu, verzlun með gosdrykki o.þ.h., og gæti haft af því álitlegan hagnað. Hæstv. fjmrh. hefur ekki komið auga á þennan möguleika eða aldrei viljað hlýða á neinar till. um þetta efni. En hitt er svo aftur vitað, að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa eftir þessum leiðum rakað að sér stórgróða.

Í stíl við þetta var svo sú beina rangfærsla hæstv. ráðherra, þegar hann greip til þess að reyna að halda því hér fram í sinni ræðu, að ég hefði verið að gera hér kröfu um, að áfengi yrði selt á sérstaklega lágu verði og helzt gætu menn fengið það næstum fyrir ekki neitt. Það hæfði öllum hans málflutningi að grípa svo til þessa í lokin. Ég hafði sem sagt lýst því yfir, að við sósíallstar værum í meginatriðum andvígir þeim tekjuöflunarleiðum, sem ríkissjóður byggir nú tekjur sínar á, sem sagt því að innheimta meginhlutann af sínum tekjum eftir tollaleiðum og eftir söluskattsleið, og svo hafði ég minnzt á það, að þriðja leiðin í tekjuöflun ríkissjóðs væru tekjur af sölu á áfengi og tóbaki.

Ég skal að vísu játa, að ég er einn þeirra, sem eru þeirrar skoðunar, að þó að ríkissjóður græði drjúgt á áfengi á ríkisreikningi, þá sé sá gróði ekki heillavænlegur fyrir þjóðfélagið, þegar til lengdar lætur, og það sé ekki allt talið sem hreinn gróði, sem þannig er bókfært, og sá gróði mætti gjarnan minnka. Og ég vil minna hæstv. ráðh. í þessu efni á það, þegar hann reynir að skjóta sér undan eðlilegum umr. á þennan hátt, að það var ég og það var minn flokkur, Sósfl., sem stóð alveg samstilltur um það, þegar áfengismálin voru hér til afgreiðslu á Alþingi, að vilja loka sem mest fyrir sölu á öllu áfengi, þegar hann og ríkisstj. voru að berjast hér um á hæl og hnakka og reyna að koma fram lagaákvæðum í þá átt að greiða enn meira en áður hefur verið fyrir sölu á áfengi, fyrir því að veita ýmsum samkomustöðum aukið svigrúm til þess að selja mönnum áfengi á uppsprengdu verði, til þess að þeir gætu grætt meira en þeir gerðu áður. Það situr því sízt á hæstv. ráðh. að drótta nokkru að mér og mínum flokki í þessu efni, að við séum að gera kröfur um það, að áfengi verði selt á innkaupsverði eða framleiðsluverði, eins og hann sagði hér, og það væri sú stefna, sem við túlkuðum. — Hitt stendur hins vegar eftir, að tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs eru síður en svo giftusamlegar eða réttlátar. Tollaleiðin verður aldrei talin réttlát, söluskattsleiðin ekki heldur, og áfengisgróðinn er ekki giftusamlegur.

Þá vék hæstv. ráðh. að því með allmiklum þjósti, hvers vegna við í stjórnarandstöðunni töluðum um vaxandi ríkisbákn, útþenslu í starfsmannakerfi ríkisins, en flyttum hins vegar ekki frv. um það, að dregið yrði úr þessum kostnaði, og þar þóttist hann hafa komið hníf sínum í feitt, þegar hann gat bent á þetta, og margendurtók þetta. Ég vil minna hæstv. ráðh. á það, til þess aðeins að gera honum nokkuð til góðs í þessu efni: Minnist hann þess ekki, að við sósíalistar höfum flutt hér við afgreiðslu fjárlaga till. um það, bæði í fjvn. og hér á Alþingi, að ríkisstj. yrði gert að skyldu á því fjárlagaári, sem þá hefur verið fram undan, að lækka launin í embættiskerfinu sem næmi um 15%? Og ég minnist þess a.m.k., að hæstv. fjmrh. var ekki að hika við að drepa þessa till. Það er nefnilega hægara sagt en gert og ósköp auðvelt að snúa sér þannig út úr málum og segja við stjórnarandstöðuna: Af hverju flytjið þið ekki till. um það að breyta yfirleitt öllu embættismannakerfinu í landinu ? — Til þess þyrftum við að flytja sennilega fjöldamörg frv. til þess að grípa þar inn í hvert fyrir sig og gera þar á nauðsynlegar breytingar. Þetta er yfirleitt starfssvið, sem minni hl., stjórnarandstaðan, hefur ekki tækifæri til á Alþingi. Það eina, sem hún getur gert í þessum efnum, er það, sem við höfum gert og ekki hefur borið árangur, að leggja til, að að vissu marki verði ríkisstjórninni falið að draga úr þeim kostnaði, sem er af embættiskerfinu, og svo verður það vitanlega að vera framkvæmdaratriði ríkisstj. sjálfrar að vinna að því að framkvæma þennan sparnað að þessu marki, sem þingið vill setja. En þingið hefur bara ekki viljað samþ. slíka leið sem þessa. — Það er ekki heldur mikið örvandi fyrir alþm. að flytja frv. í þessa átt, á meðan þau dæmi liggja fyrir til sönnunar, að ríkisstj. er alltaf að bæta við, er alltaf að þenja út embættiskerfið, er alltaf að fjölga starfsmönnum. Þá virðist sú stefna vera ríkjandi, sem fer í aðra átt en þá að draga úr þessu mikla bákni.

Ég vil svo í sambandi við þessar athugasemdir mínar við ræðu hæstv. fjmrh. að lokum benda á það, að þau stóru atriði, sem ég minntist hér á í minni ræðu fyrr í þessum umr. sem afleiðingar af fjármálastefnu ríkisstj., standa hér öll alveg óhögguð. Því hefur ekki verið mótmælt, ekki einu sinni af hæstv. ráðherra, að afleiðingar af fjármálastjórninni hafa m.a. komið fram í því, að aðalatvinnuvegir landsmanna hafa ekki getað starfað á eðlilegum grunni. Strax eftir gengisbreytinguna 1950, sem átti að bjarga vélbátaútveginum, varð að grípa til bátagjaldeyrisálags. Þá varð að grípa til þess að leggja á landsmenn nýjan skatt til þess að halda uppi bátaútveginum, en nú í ár nemur þessi aukaskattur, sem ekki er talinn með í skattlagningu til ríkissjóðs, 100 millj. kr. Það varð að grípa til þessa vegna þess, að fjármálastefna ríkisstj. hafði leitt til þess, að annars lá allur fiskibátafloti landsmanna stöðvaður. Og fjármálastefna ríkisstj. hefur einnig leitt til þess, að togararnir geta ekki heldur gengið án þess að fá einhvern hliðstæðan stuðning. Á síðastliðnu ári lá togaraflotinn óstarfræktur 2–4 mánuði, og það er óhætt að segja, að það skipti orðið tugum millj. kr., sem þjóðarheildin tapaði á því í framleiðsluverðmætum. Þessar staðreyndir liggja allar fyrir, þær hafa allar komið í dagsins ljós, þeim verður ekki í móti mælt. Þetta hefur ekki gerzt vegna þess, að það hafi verið ríkjandi í landinu svo sérstaklega heillavænleg fjármálastefna, heldur einmitt af hinu, að fjármálastefnan hefur verið svona ómild, svona óþæg atvinnuvegum landsmanna.

Ég held því, að það sé full ástæða til þess, að við afgreiðslu fjárlaga sé bent á þau sannindi, að fjármálastefna ríkisstj. er ekki sú, sem við þurfum að hafa. Það þarf að breyta henni í grundvallaratriðum, og væri það miklu líklegra til vænlegs árangurs heldur en þurfa að viðhalda öllu því styrkja- og skattakerfi, sem nú er haldið uppi og bitnar aftur óhjákvæmilega á framleiðsluatvinnuvegunum.