09.05.1955
Sameinað þing: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (3133)

Almennar stjórnmálaumræður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Þegar alþýðan gerir nú upp sakirnar við valdhafa landsins, koma margar spurningar fram í huga hennar, — spurningar, sem um leið eru bitur ákæra á hendur núverandi ríkisstj., — spurningar, sem heimta svar.

Hvernig stendur á því, að 7 þús. verkamenn og verkakonur verða að standa í harðvítugu verkfalli í sex vikur til þess að ná aftur nokkru af því kaupi, sem verkalýðurinn hafði 1947? Hvernig stendur á því, að stórgróðafélögum landsins helzt uppi að stöðva atvinnulíf Reykjavíkur í sex vikur til þess að reyna með því að svelta verkamenn til uppgjafar og brjóta samtök þeirra á bak aftur? Hvernig stendur á því, að ríkisstj., sem kaupir alla olíu til landsins, skuli síðan afhenda hana olíufélögunum til okurs og láta þessa skjólstæðinga sína nú í verkfallinu neita bæjarútgerð Hafnarfjarðar um olíu til þess að reyna þannig að stöðva fiskframleiðslu togaranna? Hvernig stendur á því, að okrið skuli blómgast þannig í Reykjavík, að ein vefnaðarvöruverzlun í Austurstræti skuli taka 6 millj. kr. að láni hjá okrurum og borga af því 4.2 millj. kr. á ári í vexti? Og hvernig stendur á því, að nokkur fyrirtæki helztu máttarstólpa auðvaldsins skuli hafa svo hundruðum milljóna króna skiptir að láni hjá bönkum ríkisins, meðan byggingarsjóðum verkamanna er neitað um eðlileg lán? Hvernig stendur á því, að það skuli vera fluttir inn á einu ári bílar, sem kosta yfir 110 millj. kr., en á sama tíma skuli fólkinu sagt, að það séu engir peningar til í þjóðfélaginu til þess að byggja mannsæmandi íbúðir í staðinn fyrir heilsuspillandi herskála, sem 3000 manns, þar af 1000 börn, eru látnir hírast í, en vart mundi þó kosta meira en 100 millj. kr. að útrýma þeim öllum, eins og Sósfl. hefur flutt frv. um? Og hvernig stendur á því, að meðan alla íslenzka atvinnuvegi vantar vinnuafl, skuli frá 1000 til 3000 manns rekið í hernámsvinnu suður á Keflavíkurflugvöll og að íslenzka ríkið skuli sjálft leggja fram 3 millj. kr. til þess að vera sjálft þátttakandi í hermangarafélagi fyrir Ameríkana á Suðurnesjum? Og hvernig stendur á því, að beitt skuli því ofbeldi undir yfirskini laga hér á Alþ. að setja frá löglega hreppsnefnd Kópavogshrepps, sem var tvíkosin á síðasta ári, til þess eins að reyna að fá kosinn þar meiri hluta, sem auðstétt Reykjavíkur hefur velþóknun á?

Það, sem gerzt hefur síðan 1947, er, að lítill hópur auðmanna og ofstækismanna hefur hafizt til valda í þjóðfélaginu, sölsað undir sig eina ríkisvaldið og beitt því æ óskammfeilnar með hverju árinu sem liður í eigin þágu. Og þegar ég hér eftir kalla þennan hóp auðstétt, þá á ég ekki við atvinnurekendur í heild, heldur þann fámenna hóp sérréttindamanna, sem einokar fyrir sig og handa sér auð og verzlun þjóðarinnar, þó að þessi auðstétt eigi auðinn ekki nema að nokkru leyti, heldur lætur ríkisstj. afhenda sér yfirráðin yfir honum, yfir útflutningnum, eins og t.d. saltfiskinum, yfir innflutningnum, eins og t.d. olíunni, yfir lánsfé bankanna, sem hún notar eins og hún eigi það.

Við þurfum að rannsaka, hvað það er, sem er að gerast í okkar landi, hver er hin raunverulega undirrót þessara ólíku fyrirbrigða. Undirrótin er vöxtur þessarar auðstéttar. Hún hefur vaxið þannig að valdi og auð, að hroka og yfirgangi á þessum sjö árum, að nú er komið að þeim vegamótum, þar sem vinnandi stéttir Íslands verða að gera það upp við sig, hvort þær ætla að láta þessa auðmenn brjóta þjóðina undir sig eða hvort alþýðan ætlar sjálf að sameinast og sjá um, að landi voru verði stjórnað í þágu alþjóðar, en ekki auðstéttarinnar.

Við skulum nú athuga efnahagslegu afstöðuna milli verkalýðs og auðvalds og hvernig hún hefur breytzt á undanförnum árum.

1942 settu núverandi stjórnarfiokkar gerðardómsfjöturinn á verkalýðssamtökin, bönnuðu verkföll og kauphækkanir, að viðlagðri fangelsun verkalýðsleiðtoganna og upptöku félagssjóða verkalýðsins. Verkalýðurinn svaraði þessari árás þá með skæruhernaðinum og braut gerðardómslögin á bak aftur. Verkalýðurinn meira en tvöfaldaði kaupgjald sitt og það ekki bara í íslenzkum krónum, heldur líka í dollurum og pundum. Þar með hóf hann að slíta þann í jötur fátæktarinnar af alþýðu Íslands, sem hún hafði verið hlekkjuð í, — þann fjötur, sem auðvaldið og núverandi stjórnarflokkar ætluðu að halda henni í áfram.

En verkalýðurinn gerði meira. Um leið og hann bætti sitt eigið kaup, gerði hann þjóðina efnaða. Allar þær inneignir, 500 millj. kr., sem Ísland átti erlendis í stríðslok, voru að þakka þessari uppreisn verkalýðsins gegn gerðardómslögum núverandi stjórnarflokka og kauphækkun hans, sem þeir börðust á móti, því að útflutningur Íslands öll stríðsárin var sami og innflutningurinn, um 1270 millj. kr. hvort um sig, svo að ekki mynduðust neinir sjóðir af því. Hefði íslenzka auðvaldið og núverandi stjórnarflokkar ráðið stefnunni 1942, hefðu engar inneignir verið til í stríðslokin.

En verkalýðurinn gerði meira. Hann lagði á ráðin um, hvernig hagnýta skyldi innstæðurnar til að afla þjóðinni stórvirkra atvinnutækja, kaupa alla þá togara, vélbáta, flutningaskip og vélar í verksmiðjur og annan iðnað, sem atvinnulíf Íslands nú byggist á.

Á árunum 1942–47 hafði verkalýðurinn með baráttu sinni, þrotlausri vinnu sinni og að síðustu með stórauknum áhrifum á löggjöf og ríkisstjórn bætt hag sinn og þjóðarinnar og fengið framgengt mikilli og merkilegri umbótalöggjöf. Kaupmáttur tímakaups Dagsbrúnarmanns var 1947 50% meiri en 1938. En því fór samt fjarri, að þessi kauphækkun verkalýðsins svipti auðmennina öllum gróða; þvert á móti. Auðstéttin var rík. 100 ríkustu menn og félög Reykjavíkur áttu þá samkv. eigin uppgjöf í des. 1947 alls 1057 millj. kr. í skuldlausum eignum, miðað við tólffalt fasteignamat.

Hvað hefur svo gerzt síðan 1947 í atvinnulífi Íslendinga? Síðan 1947 hafa allir nýsköpunartogararnir komið í gagnið, allur vélbátaflotinn, allur hinn glæsilegi flutningaskipafloti vor, allar þær vélar, sem keyptar voru í iðjuverin á nýsköpunarárunum, og auk þess hafa Íslendingar fengið yfir 400 millj. kr. að gjöf. Siðan 1947 hefur því þjóðarauðurinn stóraukizt og þjóðartekjurnar vaxið upp í um 3000 millj. kr. Maður skyldi því ætla, ef réttlæti hefði ríkt, að verkalýðurinn hefði stórbætt lífskjör sín siðan 1947, að hann hefði uppskorið það, sem hann sáði til með starfi sínu og baráttu 1942-47.

En hverjar eru staðreyndirnar nú í ársbyrjun 1955? Í febrúar 1955 var raunverulegt kaupgjald verkamanns, miðað við neyzluvarning vísitölunnar, 17% lægra en 1947 samkv. óvefengjanlegum útreikningi hagfræðinganna Haralds Jóhannssonar og Torfa Ásgeirssonar. Og ef tekið er tillit til húsaleiguhækkunarinnar á þessu árabili, þá er kauplækkunin miklu meiri. Verkamenn þyrftu því nú 20% kauphækkun aðeins til þess að ná kaupmætti launa sinna 1947 hvað neyzluvarning snertir — þetta er náttúrlega miðað við kaupið fyrir verkfallið — og þeir þyrftu þá a.m.k. 30% kauphækkun til þess að bæta upp húsaleiguhækkunina líka frá 194I. Með öðrum orðum: Verkalýðurinn, sem gerði nýsköpun atvinnulífsins mögulega fyrir þjóðina, hafði ekki aðeins verið rændur öllum ávöxtum nýsköpunarinnar, heldur og meiru til. Auðmannastéttin hafði á árunum frá 1947 til 1955 ekki aðeins sölsað undir sig allan hinn aukna afrakstur þjóðarbúsins vegna nýsköpunartækjanna, heldur einnig rænt af verkalýðnum um fjórðungi þess kaupgjalds, er hann hafði 1947.

Þetta er árangurinn af sjö ára óskoraðri yfirdrottnun auðvaldsins á Íslandi, sjö ára stjórnarstefnu Sjálfstfl. með Framsókn í eftirdragi.

Hvernig gat þetta skeð? Hvernig stendur á þessum sorglegu umskiptum í sókn íslenzkrar alþýðu fram til betri lífskjara frá árinu 1947?

Orsökin er sú, að á því ári hóf auðstéttin þá árás á lífskjör íslenzkrar alþýðu, sem síðan hefur staðið, og kallaði til liðs við sig kaldrifjaðasta og harðsvíraðasta auðvald heimsins, ameríska auðvaldið, gerði við það bandalag á móti íslenzkri alþýðu og meðtók frá því þau fyrirmæli um stjórnarstefnu, sem Íslandi siðan hefur verið stjórnað eftir. Og þau boðorð eru ekki aðeins í andstöðu við hagsmuni íslenzkrar alþýðu, heldur og í skerandi mótsetningu við allt, sem hingað til hefur skapað þjóð vorri gæfu og réttlætt okkar þjóðarstolt.

Höfuðboðorð ameríska auðvaldsins var: Þú skalt hafa gróðann fyrir þinn guð. Þú skalt beygja allt íslenzkt þjóðlíf undir peningavaldið og miða alla löggjöf, alla stjórn við það, að peningarnir gefi peningamönnunum mikinn arð, mikinn gróða. Og þú skalt brjóta niður lýðræðið í landinu og láta peningana ráða atkvæðum. — Og samkv. þessu boðorði hafa stjórnarflokkarnir og þá fyrst og fremst Sjálfstfl. spilað undir þeim tryllta dansi um gullkálfinn, sem meira og meira er að heltaka íslenzkt þjóðlíf, og gerzt ábyrgir fyrir því gegndarlausa braski og okri, sem setur nú soramark sitt á íslenzkt efnahagslíf í dag.

Stjórnarflokkarnir hafa afnumið allar hömlur á verðiagi. Þeir hafa útrýmt öllum hindrunum fyrir húsaleiguokri. Þeir hafa sett heimsmet í vexti dýrtíðar. Þriðjungur til helmingur af tekjum verkamanns fer til þess að greiða húsaleigu, þó að sannað sé, að þjóðhagslega sé einn tíundi hluti af tekjum hans nægilegur til þess. Endurbótum, sem þjóðin hefur barizt fyrir og búið við um langt árabil, eins og lágir vextir til bygginga verkamanna og bænda, er rutt úr vegi til þess að skapa frelsi fyrir peningana, meðan frelsi mannanna til þess að eiga þak yfir höfuð sér er troðið undir hæl. Svo skefjalaus er þjónusta stjórnarinnar við gróðamenn landsins, að meira að segja ollan, sem ríkisstj. sjálf kaupir til landsins, að verðmæti 150–180 millj. kr. á ári, er afhent gróðafélögunum til sölu, svo að þau geti skattlagt landsmenn eftir vild. Sama er um sementið og fleiri vörur. Það hefur öllu viti í þjóðarbúskapnum og öllu velsæmi í viðskiptaháttum verið ýtt til hliðar til þess að þjóna því gróðasjónarmiði, sem orðið er drottnandi.

Ísland á afkomu sína fyrst og fremst undir togaraútgerðinni, en það hefur enginn nýr togari verið keyptur til landsins síðan 1948. Ríkisstj. hefur látið skjólstæðinga sína, einokunarauðvaldið, féfletta þannig togaraútgerð og vélbátaútgerð, að þjóðfélagið verður að halda hvoru tveggja uppi með fjárstyrkjum, svo að þessir burðarstólpar þjóðarbúskaparins brotni ekki. Sósfl. hefur ár eftir ár flutt frv. á Alþingi um, að ríkið kaupi inn tíu togara. Þetta frv. er alltaf svæft. Tíu togarar kosta 90–100 millj. kr. og geta aflað gjaldeyris fyrir 120 millj. kr. á einu ári. En það eru keyptir inn bílar fyrir 110 millj. kr. í ár.

Stjórnarflokkarnir líta því ekki á það sem verkefni sitt að hafa fyrirhyggju fyrir þjóðarbúinu og framtíðarþörfum þess. Auðstéttin lítur á þjóðina sem bráð fyrir sig og ríkisvaldið sem tæki til þess að skipta bráðinni og á stjórnarflokkana sem tæki til þess að ná ríkisvaldinu, og þeir sættast venjulega á að skipta bráðinni til helminga milli hræfugla sinna. Olían, sementið og fleira, öllu er því skipt til helminga milli gróðafélaga Sjálfstfl. og Framsóknar til þess að féfletta alþýðuna og atvinnulífið. Smáíbúðalánin áður og húsnæðismálin nýju nú lenda í helmingaskiptum þessarar skipulögðu spillingar stjórnarflokkanna, og þessir flokkar hika ekki heldur við að ræna eignum ríkisins til að svala gróðaþorsta sínum.

Veturinn 1952–53 ætluðu þessir stjórnarflokkar samkv. ráðleggingum ameríska alþjóðabankans að láta selja einkaaðilum öll hlutabréf ríkisins í stærsta fyrirtæki þjóðarinnar, áburðarverksmiðjunni, en þau eru 6 millj. kr. að nafnverði, og með því átti að gefa skjólstæðingum þeirra þetta mikla fyrirtæki, sem kostar 130 millj. kr. Sósfl. kom upp um þetta þá, og það var bætt við það í svipinn. Þing eftir þing hefur Sósfl. flutt frv. um að tryggja ríkinn sinn fulla eignarrétt á áburðarverksmiðjunni, sem það lögum samkvæmt á, en stjórnarflokkarnir svæfa það í sífellu, af því að þeir eru að reyna að ræna þessu fyrirtæki úr eigu ríkisins í eigu hlutafélags, þar sem þeir eiga fulltrúa eftir helmingaskiptareglunni. Þannig er ekkert óhult fyrir yfirgangi þessara hrægamma.

Það er aðeins, ef þeir rekast á eitthvað, sem hinn aðilinn hefur sölsað undir sig, að illa gengur að ræna ríkið. T.d. þegar Sjálfstfl. heimtar helmingaskipti um Skipaútgerð ríkisins, þá er komið við kaunin hjá Framsókn. Þess vegna hefur Skipaútgerðinni ekki verið skipt upp enn. Og þegar þannig lendir í rifrildi um bráðina, þá kemur jafnvel fyrir, að Framsókn heimti helmingastaðaskipti um saltfiskssöluna, en það þýðir ekkert, því að þá er komið við kvikuna á Sjálfstæðisflokknum.

Sú auðstétt, sem lætur þannig greipar sópa um tekjur verkamannsins og eigur ríkisins, hyggst að grundvalla yfirráð sín til frambúðar með því að hreyta manngildi íslenzkra kjósenda í peningagildi. Þess vegna hefur hún nú með Sjálfstfl. sem tæki hafið skipulagða skoðanakúgun og sannfæringarsölu um land allt, reynt að koma þeirri hugmynd inn hjá Íslendingum, að enginn maður nái rétti sínum nema ganga í Sjálfstfl. Þess vegna er erindrekum stjórnarflokkanna falin úthlutun íbúðalánanna, ekki bönkunum. Þess vegna er inntökubeiðnum í Sjálfstfl. safnað um leið og umsóknum um Bústaðavegshúsin er veitt móttaka. Þess vegna er nú með ærnum kostnaði og mannahaldi skipulagt af Sjálfstfl. að reyna að kaupa upp sex til sjö kjördæmi í landinu, svo að Sjálfstfl. megi þannig einn öðlast meiri hluta á Alþingi. Þetta heldur flokkur, sem kallar sig Sjálfstæðisflokk, að sé leiðin til þess að vinna til fylgis við sig þjóð Auðar Vésteinsdóttur og Ingjalds frá Hergilsey. Svona amerískur er skilningur hans á skoðana- og persónufrelsi orðinn.

Það er nú vegið að lýðræðinu í landinu með öllum ráðum auðstéttarinnar. Í Kópavogi er lýðræðislega og löglega kosin hreppsnefnd sett frá með lögum, sem pískuð eru fram á Alþingi undir því yfirskini að gera Kópavog að kaupstað, bara af því að Sjálfstfl. líkar ekki meiri hluti hreppsnefndarinnar. Forsætisráðherrann lýsir því yfir á Alþingi, að undirskriftir, opinber atkvgr., sýni réttar vilja kjósenda en leynileg, og síðan er reynt að hræða Kópavogsbúa frá þátttöku í leynilegri atkvgr. Og svo er nú Kópavogsbúum hrundið út í sjöttu kosningarnar á 8 árum, allt til þess að reyna að fella frá völdum þá framfarastjórn undir forustu Finnboga R. Valdimarssonar, sem unnið hefur stórvirki þar syðra. En Kópavogsbúar hafa sýnt það í atkvgr. 24. apríl, að þeir láta ekki auðstétt Rvíkur og útsendara hennar hræða sig, og þeir munu sýna það enn í bæjarstjórnarkosningunum næst.

Svo hatrammur er orðinn yfirgangur Sjálfstæðisflokksins, eftir að hann tók að læra af ameríska auðvaldinu, að jafnvel blindir fá sýn. Framsfl. hefur nú tíu ára reynslu af samstarfinu við Sjálfstfl. um að vernda lýðræðið, og 2. okt. s.l.

kveður Tíminn upp eftirfarandi dóm, orðrétt, að fenginni þessari reynslu:

„Það eru braskarar, sem ráða Sjálfstfl., og þeir mundu nota valdaaðstöðuna án minnstu miskunnar og tillitssemi. Íhaldið mundi vissulega misbeita þannig valdinu, ef það fengi það einsamalt, að eftir það yrði ekki til lýðræði á Íslandi nema að nafninu til, og ekki mundi horft í að þiggja erlenda aðstoð, ef völdin yrðu ekki tryggð með öðrum hætti.“

Þetta eru orð Tímans um það „alræði braskaranna“, en svo heitir þessi ritstjórnargrein, sem bíður vor Íslendinga, ef svo er haldið áfram sem nú er stefnt. Það er verið að undirbúa þetta alræði braskaranna með allri þeirri pólitík, sem rekin hefur verið síðustu sjö ár og Framsókn hefur tekið þátt i. Það eru því síðustu forvöð, að alþýða Íslands taki í taumana, og það er það, sem alþýða Íslands nú er að gera.

Við skulum nú reyna að gera okkur nokkra mynd af þeim hildarleik, sem íslenzk alþýða með verkalýð Reykjavíkur í fararbroddi hefur háð síðustu árin og heyr nú við íslenzka og ameríska auðvaldið til þess að hindra, að Ísland verði alræði braskaranna að bráð. Ameríska auðvaldið lagði á ráðin 1947. Það krafðist kauplækkunar og hvers konar banna, og framar öllu heimtaði það, að verkalýðshreyfingin og Sósfl. væru sett í bann, því að þá aðila hugði amerískt auðvald mestan Þránd í Götu yfirráða sinna á Íslandi.

Og bandamenn ameríska auðvaldsins hlýddu. Þeir hófu árásina á kjör alþýðunnar, og eiginhagsmunir ameríska auðvaldsins komu þá brátt í ljós. Geigvænlegasta árásin var gengislækkunin. Ameríska auðvaldið fyrirskipaði árið 1950, að dollarinn skyldi allt að því þrefaldaður í verði, hækkaður úr kr. 6.50 upp í kr. 16.32. Næsta ár hernam ameríska auðvaldið landið og gerðist stærsti atvinnurekandi á Íslandi með 3000 manns í þjónustu sinni. Það hafði þá látið þjóna sína lækka kaup íslenzks verkamanns úr $1.40, sem það var 1947, niður í 69 cent, eða stolið helmingnum af tímakaupi hvers verkamanns. Á nokkrum árum græðir ameríska auðvaldið meira en 400 millj. kr., meira en Marshallgjafirnar allar, einungis á kaupmismun þeim, sem það greiðir íslenzkum verkamönnum, móts við ef það hefði orðið að greiða þeim amerískt kaup. Það er góður „business“ fyrir ameríska auðvaldið að vernda lýðræðið á Íslandi.

Það var bannað í hinu upprunalega gengislækkunarfrv. ameríska Alþjóðabankans, eins og Sjálfstfl. lagði það fyrir 1950, að hækka laun íslenzkra verkamanna nema lækka gengið um leið. Þar með átti að lögfesta laun íslenzkra verkamanna um alla framtið á því stigi, sem þau voru við gengislækkunina, m.ö.o. láta þau vera helming þess, er þau voru 1947, og leyfa aldrei neina raunverulega hækkun á þeim eftir það. - Það bann brotnaði strax í meðferð Alþ., og þrátt fyrir hótanir hefur það ekki verið framkvæmt síðan. Ameríska auðvaldið bannaði því næst að veita Íslendingum frelsi til að byggja sér íbúðarhús; það heimtaði, að íslenzkt vinnuafl byggði fyrst og fremst yfir ameríska liðsforingja, en bannaði, að það byggði yfir Íslendinga nema mjög takmarkað; það lét íslenzk börn hírast í bröggunum áfram. Og því hefur tekizt að draga svo úr byggingum íbúðarhúsa, að ekkert ár hefur bygging nýrra íbúða í Reykjavík enn komizt í námunda við það, sem hún var 1946, þegar 634 íbúðir voru byggðar. Og þegar þetta bann fyrir þrotlausa baráttu Sósfl. og verkalýðshreyfingarinnar var afnumið, þá gerir auðvaldið fátæku fólki illkleift að byggja með því að gera svo erfitt að fá lán og nú síðast að gera vextina svo háa og húsaleiguna svo dýra, að hún gleypir þriðjung til helming af kaupi verkamanns.

En ameríska auðvaldið bannaði framar öllu öðru samstarfið við Sósfl., og stjórnarflokkarnir hlýddu. Sömu flokkarnir sem 1942–1947 höfðu ýmist setið vikum saman eða mánuðum að samningum við okkur sósíalista til þess að fá okkur í stjórn með sér og talið ófært að mynda stjórn í landinu, nema við værum með, og sumir síðan setið í ríkisstj. með okkur árum saman, — þessir sömu flokkar fóru nú eftir erlendri fyrirskipun að lýsa því yfir, að það mætti ekki mynda ríkisstj. með Sósfl. Og það var lagt blátt bann við að samþ. þá endurbót á löggjöf, er flokkurinn hefur barizt fyrir þing eftir þing, endurbæturnar á alþýðutryggingunum, stórfelldar umbætur húsnæðislöggjafarinnar, hækkun orlofsins upp í 6%, lengingu hvíldartímans á togurum upp í 12 stundir, atvinnuleysistryggingar, en öll þessi frv. hefur flokkurinn flutt í 6–10 ár og hið síðastnefnda, atvinnuleysistryggingarnar, nú í 12 ár. Þau voru öll svæfð eða drepin af stjórnarflokkum þingsins. Það mátti ekki hafa samstarf við sósíalista. En þá var það sterkari aðilinn, sem tók í taumana.

Verkalýðurinn tók málið í sínar hendur. Togarasjómennirnir gerðu 12 tíma hvíldina að staðreynd með mánaðar verkfalli. Verkamenn gerðu fjölskyldubætur og mæðralaun að lögum með 3 vikna verkfalli. Og nú í vor tóku verkalýðssamtökin til sömu ráða; atvinnuleysistryggingar og 3 vikna orlof urðu lög með 6 vikna verkfalli.

En það er dýrt fyrir þjóðina alla, að verkalýðurinn skuli þurfa að setja réttlætið í lög með fórnfrekum verkföllum, þegar hægt var að leiða þau réttlætismál í lög á Alþ. með samstarfi við Sósfl. Það er dýrt fyrir þjóðina, að auðvaldið íslenzka og fylgifiskar þess skuli vera að stritast við að stjórna landinu á móti voldugasta aðilanum, verkalýðnum, sem ber þjóðfélagsbygginguna á herðum sér, vitandi, að þeir geta það ekki, enda eru nú loksins allar fyrirætlanir ameríska auðvaldsins um einangrun Sósfl. að brotna í rúst. Sósfl. stjórnar ekki aðeins ýmsum bæjum landsins með samstarfi við aðra vinstri flokka, heldur voru nú í fyrsta sinn, síðan amerískra áhrifa tók að gæta á Alþingi Íslendinga, samþ. veigamiklar till. frá Sósfl. einum, svo sem ákvörðunin um að skipa þingnefnd til þess að rannsaka okrið, enda lýsti nú annað stjórnarmálgagnið, Tíminn, því yfir í vetur, að einangrun kommúnista, eins og þeir orða það, væri nú rofin. Ameríska banninu á samstarfi Íslendinga hefur verið hnekkt.

Öll þessi bönn hins ameríska auðvalds og nýríkrar auðstéttar Reykjavíkur hafa brotnað á þeirri bjargföstu staðreynd, að alþýða Íslands er of sterk til þess að verða brotin á bak aftur, að alþýða Íslands er of skynsöm til þess að láta Rússagrýlur hræða sig, að alþýða Íslands er of heiðarleg til þess að láta stinga samvizku sinni svefnþorn, að alþýða Íslands er of hugrökk til þess að láta áróðurinn skelfa sig.

Umskiptin, sem marka straumhvörf í íslenzkri sögu, beina þróuninni burt frá því alræði braskaranna, sem hún stefndi að, og að lýðstjórn og samstarfi vinnandi stéttanna, þau umskipti hafa gerzt í vetur. Þegar þetta Alþ. hefur setið lengst af verklaust við að bíða eftir lélegum frv. úrræðalausrar ríkisstj., á meðan nákrumla einokunarauðvaldsins í Reykjavík dæmdi Alþingi Íslendinga til aðgerðaleysis, tók alþýða Íslands gang málanna í sínar hendur. Í nóvember í vetur myndaði þing Alþýðusambands Íslands, fulltrúar 27 þúsund verkamanna, verkakvenna, sjómanna, iðnaðarmanna og sveitafólks, einingarstjórn undir forustu Hannibals Valdimarssonar og samþykkti einróma að leggja til atlögu allsherjarkauphækkunar til að endurheimta til alþýðunnar nokkuð af því, sem auðstéttin hafði rænt á undanförnum 7 árum. Og í hörðustu stéttaátökum íslenzkrar sögu, 6 vikna verkfallinu í vor, hefur nú þetta Alþýðusamband, þessi einhuga verkalýðshreyfing, sýnt sig að vera sterkasta valdið á Íslandi, af því að það vald berst fyrir réttlætinu, af því að það réttir hlut þeirra vinnandi manna, sem afskiptir voru.

Kaupkröfum verkamanna í Reykjavík, sem settar voru fram í samræmi við hina einróma ákvörðun Alþýðusambandsþings, var vel tekið af almenningi. Allt vinnandi fólk taldi sanngjarnt, að verkamenn fengju nú sem mestan hluta þess, er rænt hafði verið af þeim síðan 1947, — að kaupið nálgaðist nú það að vera það, sem það þá var. Bændur og opinberir starfsmenn höfðu samúð með verkamönnum, enda áttu báðir sömu hagsmuna að gæta og þeir. Gekk nú svo langt, að Tíminn, málgagn Framsfl., sem oft hefur verið íhaldssamur í launamálum, tók undir um, að það yrði að hækka launin.

Fjölmargir atvinnurekendur vildu semja, einkum hinir smærri, sem sjálfir vita, hvað það er að vinna og að ekki er hægt fyrir fjölskyldumann að lifa af 3000 kr. á mánuði. Verkalýðsfélögin frestuðu verkfallinu í 3 vikur, til þess að hægt yrði að semja án verkfalls. Þjóðin bjóst við samningum í síðasta lagi fyrsta sunnudag verkfallsins, en þá greip önnur hönd í taumana.

Í innsta hring Sjálfstfl., sem einnig ræður Vinnuveitendafélagi Íslands, var tekin örlagarík ákvörðun varðandi kaupdeiluna, og það er ekki í fyrsta skipti, sem slík ákvörðun er tekin þar. Við, sem barizt höfum með reykvískri alþýðu s.l. aldarfjórðung, vitum, hvað slíkar ákvarðanir boða. Í nóv. 1932 var tekin sú ákvörðun í miðstjórn Sjálfstfl. að hefja almenna kauplækkunarherferð með því að lækka kaup þeirra verkamanna, er unnu í atvinnubótavinnu, úr kr. 1.36 niður í 1 kr. Það átti að níðast á þeim allra fátækustu, þeim, sem aðeins höfðu vinnu eina viku í mánuði og sultu hálfu hungri. Þessari hungurárás Sjálfstfl. var hrundið af reykvískum verkalýð hinn sögufræga dag, 9. nóv. 1932. Það varð ekkert úr kaupkúguninni þá.

Nú um miðjan marz var aftur tekin ákvörðun í innsta hring Sjálfstfl. um að láta skríða til skarar, eins og það var orðað þar. Verkalýðshreyfingin skyldi brotin á bak aftur. Verkamenn Reykjavíkur skyldu sveltir til uppgjafar. Verkfallið var af auðstéttinni og flokki hennar gert að aflraun milli einokunarauðvaldsins og verkalýðshreyfingar Reykjavíkur. Í sex vikur stóðu 7 þús. verkamenn og verkakonur í Reykjavík og Hafnarfirði með 25 þús. manns á framfæri sínu í verkfalli.

1944 þótti okkur sósíalistum og hæstv. forsrh., Ólafi Thors, það gæfa að geta afstýrt verkfalli, firrt þjóðina því grandi, en nú þótti auðstétt Reykjavíkur sjálfsagt að leggja út í lengsta fjöldaverkfall Íslandssögunnar til þess að reyna að brjóta verkalýðinn á bak aftur. Ekkert var til sparað, sem auður og vald geta veitt, til þess að reyna að kúga verkamenn. Auðstéttin hirti ekkert um, þótt þjóðinni glötuðust tugir millj., jafnvei hundruð millj. kr. í verðmætum, ef aðeins væri hægt að kúga alþýðuna. Olíuhringarnir gripu til opinskárra lögbrota við kúgunartilraunir sínar. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sem sósíalistar og Alþfl.- menn stjórna í sameiningu, hafði samið við verkamenn. Olíuhringarnir lýstu banni á hana. Þeir neituðu að selja togurunum olíu, — olíu, sem ríkisstj. Íslands kaupir til landsins fyrir fiskinn, sem togararnir framleiða. Einokunarauðvaldið sveyfst einskis, ef verða mætti, að verkalýðurinn yrði sveltur til undanhalds. En allt kom fyrir ekki. Auður og vald reyndist ekki almáttugt. Á móti stóð afl, sem þeim var æðra. Eining verkalýðsins stóðst alla raun.

Þrotlaust stóð verkfallsvörðurinn, brautryðjendalið íslenzkrar alþýðu, og samninganefnd verkalýðsfélaganna undir forsæti Eðvarðs Sigurðssonar sinn vörð um rétt hins vinnandi manns. Verkfallsmenn hjálpuðu hver öðrum, báru hver annars byrðar, einn fyrir alla, allir fyrir einn. Verkamenn stóðu saman, Dagsbrúnarmenn, Iðjufólk, iðnaðarmenn, Alþfl.-menn og Sósfl.-menn. Engir peningar, mútur, ógnanir né grýlur gátu klofið fylkingu þeirra. Samt svarf að mörgum heimilum, en aldrei heyrðist æðruorð. Og utan af landi bárust hvarvetna samúðarkveðjur í orði og verki, frá verkakonum á Siglufirði, sjómönnum í Eyjum, bændum á Barðaströnd. Það var samhjálp hinna fátæku. Það var bræðralag hins vinnandi lýðs. Það var stálvilji verkfallsmannanna, sem vann sigur á auðstétt Reykjavíkur. Máttur bræðralagsins, æðri öllu valdi peninganna, sigraði í þessu verkfalli, og það er þessi siðgæðismáttur alþýðunnar, sem mun endurnýja íslenzkt mannfélag, forða manngildishugsjón Íslendinga frá þeirri eyðileggingu, sem auðstéttin með peningagildið fyrir eina mæilkvarðann býr henni, vísa þjóðinni leið til fegurra og gæfuríkara lífs. Eining verkalýðsins, sköpuð á Alþýðusambandsþingi í haust, hlaut sína eldskírn í þessu verkfalli og sigraði. Og vel hverjum þeim, sem héðan af reynir að rjúfa þá einingu.

Dýrmætt var það, sem verkamenn Reykjavíkur unnu í þessu verkfalli, 10–11% grunnkaupshækkun, þriggja vikna orlof, 4% atvinnuleysistryggingar, 12 árum eftir að Sósfl. flutti þær fyrst og á fyrsta árinu, sem Sósfl. og Alþfl. fluttu frv. um þær í sameiningu. En dýrmætast af öllu var þó meðvitund verkalýðsins um mátt hans til að sigra, um ósigrandi mátt hins góða málstaðar.

Alþýðan um land allt, verkamenn, starfsmenn hins opinbera og bændur, þið munuð nú á næstunni uppskera ávextina af þeim sigri, er verkalýður Reykjavíkur vann fyrir ykkur öll. Þið munuð njóta þeirra kjarabóta, er unnust í þessu harða stéttastríði. En nú er eftir yðvarr hlutur. Stjórn Alþýðusambands Íslands sá fyrir hættuna á því, að auðvaldið notaði ríkisvaldið til þess að ræna alþýðuna ávöxtum sigranna. Þess vegna sneri hún sér til allra andstöðuflokka Sjálfstfl. með tilmælum um að ræða við sig möguleikana á myndun stjórnar, er ynni í þágu alþýðunnar. Það er ykkar, alþýðunnar um allt land, að sjá um að gera þá hugmynd að veruleika. Auðvaldið tygjar sig nú þegar til ránsins. Olíuhringar þess hafa þegar riðið á vaðið. Ríkisvaldið er enn í höndum auðstéttarinnar. Munið, að það er ekki minni vandi að gæta fengins fjár en afla. Það, sem vannst með órofa einingu Sósfl. og Alþfl. — alls verkalýðsins — á vettvangi verkfallsins, það verður að varðveita með órofa einingu flokkanna – alls verkalýðsins — á vettvangi stjórnmálanna. Hver sá gerist vargur í véum, sem reynir að eyðileggja þá einingu. Þrátt fyrir allan skoðanamismun, sem er á milli vor, þá verður lífsnauðsyn alþýðunnar á einingu vorri að yfirgnæfa það allt. Ella glatast það, sem vannst, og meira til. Það er meira í húfi en réttlátt kaupgjald, tryggingar og lýðréttindi handa verkalýðnum, — meira en réttlátt fiskverð og meira öryggi handa sjómönnum, — meira en lágir vextir, betri lán og öruggir markaðir handa bændum og fiskimönnum, — meira en sómasamlegt húsnæði handa öllum þeim, sem nú búa við óviðunandi kjör í því efni, og er þó allt þetta nóg tilefni til þess að mynda stjórn, sem alþýðustéttirnar á Íslandi geta stutt.

Auðvald Ameríku heimtaði ekki aðeins af auðstétt Reykjavíkur, að hún í bandalagi við sig arðrændi alþýðu Íslands. Höfuðboðorð ameríska auðvaldsins var: „Þú skalt gefa mér land þitt, þú skalt fórna mér þjóð þinni, og þú skalt færa mér dætur þínar til munaðar og syni þina til að reisa mér hús og bursta mér skó.“ Og einnig það var gert og gróðanum skipt til helminga í stjórnarherbúðunum. Gegn þessari niðurlægingu hernámsins hefur þjóðin nú risið. Ísköld fyrirlitning alþýðunnar umlykur innrásarherinn á Keflavíkurflugvelli, svo að veslingarnir klaga nú til stóru mömmu í Washington yfir Íslendingum. Stjórnarliðið hefur orðið að hopa undan ár frá ári, nú loks orðið að lofa að geyma verndarana í gripheldum girðingum, svo að Íslendingar sjái þá sem minnst fyrir augum sér. En allt þetta er ekki nóg. Aðeins uppsögn hernámssamningsins, eins og Sósfl. hefur borið fram frv. um á hverju ári siðan 1951 og nú loks í fyrsta skipti verið samþ. til nefndar, — aðeins brottför ameríska hersins af Íslandi getur bjargað í þessu efni. Yfirráð okkar Íslendinga yfir landi voru og sú þjóðmenning, sem við með réttu erum svo stoltir af, er í veði, ef við þolum smán hernámsins í landi voru, ef við þolum það hervald, sem er að eitra þjóðlífið, og yfirráð þeirrar auðmannaklíku, sem hefur kallað það inn í landið og gert það að bandamanni sínum gegn íslenzkri alþýðu.

Líf þjóðar vorrar liggur við, ef heimsstyrjöld hefst. Sú vítisvél, sem Keflavíkurflugvöllur er í þéttbýlasta svæði landsins, mundi draga til dauða 2/3 hluta Íslendinga, ef við ekki hefjumst handa til að firra þjóðina þessu grandi með öllum þeim ráðum, sem við getum fundið.

Oft var Íslandi þörf á róttækri stjórn, en nú er lífsnauðsyn, að mynduð sé þjóðleg, framsækin ríkisstjórn, sem alþýða landsins getur stutt og stjórnar með hag vinnandi stéttanna fyrir augum og heill þjóðarheildarinnar að leiðarljósi. Slík ríkisstjórn mundi stórefla sjávarútveginn, landbúnaðinn og iðnaðinn um allt land, koma upp tugum nýrra togara, vélbáta, koma upp fiskiðjuverum um landið, hraða vélvæðingu landbúnaðarins og ræktun landsins og rafvæðingu þess og útvega jafnt landbúnaði sem sjávarútvegi næga markaði erlendis. Slík ríkisstj. mundi þannig setja aleflingu íslenzks atvinnulífs í stað þess ameríska hermangs, sem er niðurdrep íslenzkra atvinnuvega, eyðing íslenzkra byggða og svívirðing íslenzkrar menningar. Slík stjórn mundi ekki aðeins rétta hlut allrar alþýðu, hún mundi og hafa góða samvinnu við alla íslenzka atvinnurekendur, sem efla vilja atvinnulíf vort eftir sínum einkaframtaksleiðum. En það hringa- og hermangaraauðvald, sem sýnir sig að kúga og niðurlægja þjóðina, verður að víkja fyrir samvinnu og sameign þjóðarinnar sjálfrar. Slík stjórn getur tryggt vinnufriðinn í landinu, því að hann verður aðeins tryggður með réttlæti í garð hinna vinnandi stétta. Slík stjórn getur hindrað, að hér verði komið á því alræði braskaranna, því nýlenduástandi eftir suður-amerískri fyrirmynd, sem ameríska auðvaldið stefnir að hvað Ísland snertir. Slík stjórn ein er fær um að varðveita lögin og friðinn, sjá um, að Íslendingar slíti hvorugt. Slík stjórn ein getur skapað og varðveitt þá samheldni þjóðarinnar, sem of rík og of voldug yfirstétt nú grandar. Það er á valdi alþýðunnar að skapa slíka stjórn. Sú alþýða, sem hefur máttinn til að rísa gegn auðstéttinni og sigra hana, eins og verkalýður Reykjavíkur nú hefur gert, — sú alþýða býr líka yfir mættinum til þess að frelsa Ísland. Tökum því höndum saman, vinnandi stéttir Íslands og þjóðhollir Íslendingar, hvar í flokki sem þið standið. Allir þið, sem hafið ábyrgðartilfinningu fyrir þjóð vorri, tökum höndum saman um að skapa slíka stjórn. Við verðum að rísa og stækka, þora að vera þeir menn að taka örlög þjóðarinnar í vorar hendur á úrslítastund og hindra, að það svefnþorn, sem Morgunblaðið og Sjálfstfl. hefur stungið samvizku þjóðarinnar, verði lengur til að láta þjóð vora sofa, á meðan mesti voðinn vofir yfir henni, sem nokkurn tíma hefur vofað yfir henni í allri hennar sögu.

Sú veröld vetnissprengjunnar, sem við lifum i, þarf á því að halda, að sannað sé, að mennirnir geti lifað saman í friði og eindrægni þrátt fyrir ólíkar skoðanir. Og við Íslendingar höfum þau fordæmi úr okkar sögu, að okkur ætti ekki að vera vorkunn nú á tímum, þegar meira liggur við en var árið 1000, að finna leiðir til að bjarga okkar þjóð út úr ógöngum.

Ísland þarfnast þess, að verkalýðshreyfingin sé látin skipa þann forustusess í þjóðlífinu, sem henni ber. Ég segi ykkur það, þingmenn og hæstv. ráðherrar stjórnarflokkanna, það er ekki aðeins illt verk að vera að strita við að stjórna þessu landi á móti verkalýðnum, það er líka vonlaust verk. Það þýðir að gera Ísland að vettvangi eilífra hjaðningavíga. Það þýðir, að verkalýðurinn verður með eins til tveggja ára millibili að leggja út í dýr verkföll til þess að ná aftur því, sem þið rænið af honum, og setja lög með verkföllum, — lög, sem þið árum saman þrjózkizt við að setja hér á Alþ., en látið síðan undan að hætti Þorkels háks, þegar Rimmugýgur alþýðusamtakanna er reidd að höfði auðvaldsins, sem þið þjónið.

Þjóð vor er of óspillt þjóð, til þess að henni verði til lengdar stjórnað í þágu harðsvíraðs peningavalds. Íslenzk þjóð er of stolt þjóð, til þess að hún þoli til lengdar niðurlægingu erlendrar hersetu. Eldur minninganna úr þúsund ára sögu hennar brennur of heitt í blóði hennar til þess að una svo auvirðilegu hlutskipti. Íslandi verður ekki stjórnað á móti verkalýðnum. Án þeirrar samhjálpar hinna fátæku, án þess bræðralagsanda hinna vinnandi stétta, sem í sex vikna verkfalli sigraði ískalda viðurstyggð peningavaldsins, er ekkert gróandi þjóðlíf fram undan, aðeins andleg eyðimörk auðvaldsins. Án þess siðgæðismáttar, sem gerði alla íslenzka alþýðu eina þjóðarsál í afstöðnum átökum, án þess máttuga valds, sem 27 þús. meðlimir Alþýðusambands Íslands eru, án þess stórhugs og þeirra framtíðarhugsjóna, sem Sósfl. mótar sögu þjóðarinnar með á úrslítastundum hennar, án verkalýðshreyfingarinnar verður ríkisstjórn á Íslandi þegar bezt lætur hrossamarkaður, þegar verr lætur ræningjabæli og þegar dýpst er sokkið leppstjórn erlends hervalds á Fróni.

Íslenzk ríkisstjórn er óhugsandi án verkalýðsins. Þetta sannar ekki aðeins dýrkeypt reynsla þjóðarinnar. Mikilhæfustu leiðtogar sjálfra stjórnarfiokkanna viðurkenna einnig, að Íslandi verði ekki stjórnað gegn vilja verkalýðsins. Hermann Jónasson, form. Framsfl., hv. þm. Str., játar það í orði í ræðum sínum og nýárshugleiðingum, og Ólafur Thors, form. Sjálfstfl., hæstv. forsrh., viðurkennir það í verki, hvenær sem íslenzkt raunsæi þess stjórnmálamanns fær að njóta sín fyrir gráðugri ásókn auðvaldsins, utanlands og innan.

Það er ekki eftir neinu að biða með að skapa þá stjórn alþýðunnar í þessu landi, sem réttir hlut alþýðunnar eftir 7 ára ránsherferð auðvaldsins, — stjórn, sem réttir hlut þjóðarinnar eftir 7 ár erlends yfirgangs. Myndun ríkisstjórnar, sem styðst við samtök verkamanna, bænda, fiskimanna, menntamanna og millistétta, alls hins vinnandi lýðs, er mikilvægasta hlutverkið, sem nú þarf að vinna í íslenzkum stjórnmálum. Það er á valdi ykkar, sem orð mín heyrið, alþýðunnar um allt land, að vinna það verk. Ef þið takið höndum saman og hefjið upp ykkar raust, þá verður ykkar einingarorð boðorð hér í sölum Alþingis. — Góða nótt.