09.05.1955
Sameinað þing: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Sagt er, að sérhver þjóð fái yfir sig þá stjórn, sem hún á skilið, ekki betri og ekki verri. Sé svo, eru Íslendingar aumi lýðurinn að dómi þeirra stjórnarandstæðinga, sem í kvöld hafa í hundraðasta eða þúsundasta skipti lýst ríkisstj. sem fávísri stjórn, úrræðalítilli, athafnasmárri, íhaldssamri og illgjarnri, en stjórnina styðja sem kunnugt er nær 7 kjósendur í landinu af hverjum 10. Ég skal nú rétta hlut þjóðarinnar og þar með stjórnarinnar með því að sýna rétta mynd af stjórninni. Læt ég þá verkin tala. Þau eru þyngri á metunum en staðlausar staðhæfingar stjórnarandstæðinga nú og fyrr.

Núverandi ríkisstj. hefur farið með völd í rúm þrjú missiri. Hún gaf í öndverðu mörg fyrirheit, jafnvel svo, að mörgum þótti árinni fulldjúpt í tekið, og hvorki spöruðu stjórnarandstæðingar þá háð né brigzlyrði: „Gyllingar. — Orð, orð innantóm. — Loforð til að svíkja,“ hrópaði þessi sundurlausa hjörð og varð nú sammála, aldrei þessu vant.

En stjórnarliðið lét hrópyrðin sem vind um eyrun þjóta. Stjórnin tók til óspilltra mála. Meðan á henni dundu brigzlin um svík, gaf hún sig óskipt að efndunum. Enn er að vísu ekki komið að skuldadögunum, því að fyrirheit voru hvorki gefin um að framkvæma loforðin á einu ári né tveimur, heldur á kjörtímabilinu. En því ánægjulegra er fyrir stjórnarliðið að líta yfir farinn veg og sjá, hversu langt hefur miðað að settu marki, þótt enn sé kjörtímabilið ekki hálfnað.

Fyrsta boðorð stjórnarsáttmálans segir: Það er höfuðstefna stjórnarinnar að tryggja landsmönnum sem öruggasta og bezta afkomu. Þetta fyrirheit varðar líðandi stund. Allur landslýður stendur því vel að vígi um að dæma, hverjar efndirnar eru. Stjórnin biður þess eins, að hver einstaklingur spyrji sjálfan sig, hvort hann hafi fyrr haft jafnari og betri atvinnu, meira að bita og brenna, meiri velsæld, betri afkomu. Því miður geta ekki allar svarað þessum spurningum neitandi, en það geta flestir. Í öllum þeim vanda, sem við er að stríða, í örðugleikum líðandi stundar og áhyggjum um framtíðina er það óhagganleg staðreynd, að Íslendingar hafa aldrei búið við jafnmikla velsæld sem einmitt í dag. Stjórnarliðum dettur ekki í hug að ætla sér einum heiðurinn af þessu, það væri svipuð fásinna sem hitt að láta sér til hugar koma, að viturleg stjórn á málefnum ríkis og þjóðar skipti engu máli, en stjórnin hefur stýrt rétt og oft og víða haft farsæl afskipti, þar sem þörfin hefur kallað.

Þá gaf stjórnin fyrirheit um hallalausan ríkisbúskap. Í þeim efnum verður að miða við árið 1954, sem er eina heila árið, sem liðið er frá valdatöku stjórnarinnar. Fjárlög þess árs voru afgreidd í árslok 1953. Um þau urðu mikil átök milli stjórnarliða, sem voru fúsir til að slá af kröfum sínum til þess að tryggja greiðsluhallalaus fjárlög, og stjórnarandstæðinga, sem sáust ekki fyrir, gerðu taumlausar kröfur um vinsælar framkvæmdir, en skeyttu engu um afkomu ríkissjóðs.

Ég viðurkenni fúslega, að atvinnuárferðið og mörg önnur happaatriði hafa fært ríkinu óvæntar tekjur. En ýmis óhöpp hafa líka aukið útgjöldin. Og endirinn hefur orðið sá, að ríkisbúskapurinn skilar hreinum afgangi, sem nemur 35 millj. kr., sem nú hefur að mestu verið ráðstafað til þarfa atvinnulífsins. Er tekjuafgangurinn vitanlega mikið ánægjuefni, en festan, sem stjórnarliðið sýndi við afgreiðslu fjárl., og örugg og víðsýn fjármálastjórn skiptir þó miklu meira máli. Hið fyrra má kalla óvænt happ, hið síðara ber vott um hugarfar, ábyrgðartilfinningu, sem við eigum að rækta með okkur, hafa í hávegum og aldrei að glata. E.t.v. er einmitt þessi ásetningur ein mesta prýðin á samstarfi núverandi stjórnarflokka, allt frá 1950 og fram á þennan dag.

Hið næsta, sem stjórnarflokkarnir aðhöfðust til efnda á fyrirheitunum, var að leggja niður fjárhagsráð. Með því voru þeir hlekkirnir afhöggnir, er sárast hafði sviðið undan. Athafnafrelsi þjóðarinnar var stórum aukið, eigi aðeins til byggingar íbúðarhúsa, heldur var og miklu fargi létt af verzlun landsmanna. Hvers þjóðin metur hið aukna frelsi, skilst bezt, sé það skoðað í ljósi þess, hversu flestir þrá, að enn sé haldið áfram með öllum þeim hraða, sem auðið er, til sem fyllsts frelsis á sviði athafnalífsins. Það er svo aðeins eðli málsins samkvæmt, að engir hafa fagnað hinu aukna athafnafrelsi jafnmikið sem við sjálfstæðismenn. Við vitum, að aukið frelsi leysir bundin öfl úr læðingi og eykur þjóðinni þrótt og velsæld. Okkur hefur öðrum fremur skilizt, að sé framtakið lagt í hlekki, verður aldrei til langframa auðið að sækja þau gæði í skaut náttúrunnar, sem nægja mega til þess, að auðið sé að halda hér uppi menningarríki. Fögnuður okkar er því sterkur og einlægur, en þó mestur fyrir það, að öflug barátta okkar fyrir ágæti frelsisins hefur nú borið svo ríkulegan ávöxt, að sumir höfuðpaurar hafta, banna og einokunar látast nú vera heittrúa frelsisunnendur. Við höfum opnað augu þjóðarinnar. Þjóðarviljinn hefur beygt postula ófrelsisins.

Þá er næst að geta þess, að stjórnin hét að lækka beina skatta. Efndirnar urðu sem kunnugt er þær, að meðaltalslækkun á sköttum einstaklinga var þegar í stað á siðasta Alþ. ákveðin um 29%. Félagaskattur hefur til bráðabirgða verið lækkaður um 20%, en þess er vænzt, að endanlegar till. í þeim efnum verði lagðar fyrir næsta þing. Jafnframt hefur sparifé landsmanna verið undanþegið framtalsskyldu, sköttum og útsvari. Er hér um að ræða stórviðburð í skattamálum Íslendinga, er þannig hefur verið skapaður friðreitur, mönnum leyft að eignast eitthvað og eiga það í friði, og með þeirri leynd, sem e.t.v. vegur þyngra og er meir metin í þessu fámenna landi kunningsskapar en nokkurs staðar annars staðar. En fáum ríður meir en Íslendingum á, að þjóðin spari og safni. Það er eina heilbrigða leiðin til þess að afla þess fjár, sem með þarf, til þess að auðið verði að hagnýta ótæmandi auðlindir lands og sjávar og með því að skapa komandi kynslóðum sem bezt atvinnu- og afkomuskilyrði. Þori ég hiklaust að fullyrða í nafni allra sjálfstæðismanna, að sú meginstefnubreyting í skattamálum, sem þessi lagasetning lýsir, er mikils metin.

Eru þá ótalin þau tvö höfuðmál, er segja má að verið hafi hyrningarsteinar stjórnarsáttmálans, þ.e.a.s. rafvæðing landsins og veðlán til íbúðabygginga.

Um hið fyrra er það að segja, að kostnaður af rafvæðingunni var áætlaður á næstu 10 árum 250 millj. kr. Það fé hefur ríkisstj. nú þegar tekizt að tryggja. Árleg framlög á fjárl. hafa verið hækkuð úr 7 millj. í 11 millj. kr., eða alls í 110 millj. á 10 árum. Afganginn hafa íslenzkir bankar lofað að leggja fram, þó að frádregnum þeim erlendu lánum, sem tekin kunna að verða í þessu skyni, t.d. til efniskaupa. Sýnt þykir nú, að kostnaður við þessar framkvæmdir hækki vegna hækkandi kaupgjalds í landinu. Vona menn þó, að auðið verði að halda þeim áfram með tilsettum hraða. Hefur nú þegar verið ákveðið um virkjanir og aðrar framkvæmdir á Austfjörðum og Vesturlandi, og verður hafizt handa um þær næsta sumar. Ræðir hér um eitt allra stærsta velferðarmál dreifbýlisins og eina hina nauðsynlegustu ráðstöfun til þess að halda jafnvægi í byggð landsins. Megum við, sem lengi höfum notið yls og birtu frá elfunnar beizlaða afli, fagna því einlæglega, að þeim, sem í dreifbýlinu búa, skuli nú loks fengið í hendur þetta vopn, sem megnar að sigrast á hinum langa, dimma og kalda íslenzka vetri.

Kem ég þá að hinu höfuðmáli stjórnarsáttmálans, útvegun lánsfjár til veðlána til íbúðabygginga. Á árinu 1954 hné stjórnin að þeirri bráðabirgðalausn að útvega 20 millj. kr. til svonefndrar lánadeildar smáíbúða. Hefur sú ráðstöfun orðið mörgum að nokkru liði, en nú var tekið að leita varanlegra úrræða. Mikil vinna hefur verið lögð í það að finna viðunandi lausn á því máli. Minnist ég þess ekki, að nokkurt eitt mál hafi verið jafntímafrekt og kallað á jafnmikla vinnu ríkisstj. þau ár, sem ég hef setið í stjórn landsins, sem þetta.

Á frumstigi málsins naut ríkisstj. aðstoðar dr. Benjamíns Eiríkssonar bankastjóra í Framkvæmdabankanum. Síðar var svo skipuð nefnd til að endurskoða frumtili. ríkisstj. og dr. Benjamíns. Á lokastigi málsins tóku fulltrúar Landsbanka Íslands þátt í endanlegum till. um lausn málsins, en þær byggjast á forustu Landsbanka Íslands og aðstoð banka, sparisjóða, tryggingarstofnana og félaga um fjárframlög í þessu skyni. Hirði ég ekki að rekja gang málsins né gera grein fyrir hinum ýmsu úrræðum, er til greina komu, enda er það efni í langa bók, en ekki stutta ræðu.

Þær till., sem ríkisstj. lagði fyrir Alþ., hafa verið raktar í blöðum landsins. Ég læt því nægja að geta þess, að megintilgangur frv. er að tryggja þeim, sem þess óska, leiðbeiningar um allt, er varðar húsabyggingar, og að greiða aðgang manna að veðlánum til íbúðabygginga. í þessu skyni er sett á stofn húsnæðismálastjórn, sem skal beita sér fyrir umbótum í húsbyggingarmálum og hafa yfirumsjón lánsfjáröflunar og lánveitinga til íbúðabygginga. Jafnframt skal koma á fót almennu veðlánakerfi til íbúðabygginga undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands. Veðdeildin fær í þessu skyni heimild til útgáfu vaxtabréfa, að upphæð 200 millj. kr., og mega allt að 40 millj. af þeirri fjárhæð vera með vísitölukjörum, þannig að binda má greiðslur afborgana og vaxta vísitölu framfærslukostnaðar. Er hér um nýmæli að ræða, sem fróðlegt er að sjá, hvernig reynist. Þá er og veðdeildinni heimil erlend lántaka til íbúðabygginga, enda hafi húsnæðismálastjórn mælt með því og ríkisstj. samþ. lántökuna. Lán veitast til byggingar íbúða og meiri háttar viðbygginga eða kaupa á nýjum íbúðum. Lánsupphæð sé allt að 2/3 hlutar af byggingarkostnaði íbúðar, þó ekki hærri en 100 þús. kr. á hverja íbúð. Fyrst um sinn verða lánin þó vart yfir 70 þús. kr. á íbúð. Lánstími er 25 ár, vextir væntanlega frá 51/4–7%.

Talið er tryggt, að eftir þeim fjáröflunarleiðum, sem till. stjórnarinnar byggjast á, verði rúmar 100 millj. kr. á ári handbærar til útlána til íbúðabygginga árin 1955 og 1956. Þar af eru 46 millj. kr. á ári nýtt fé. Af því eru byggingarsjóði ætlaðar 12 millj. á ári, en til íbúðarhúsa í kauptúnum og kaupstöðum renna þá 34 millj. kr. þessi tvö ár. Enda þótt í till. þessum sé aðeins miðað við tvö ár, væntir ríkisstj. þess, að hér sé stofnsett varanlegt veðlánakerfi með árlegum fjárframlögum.

Þá eru í frv. ákvæði um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, er mæla svo fyrir, að ríkissjóður skuli í því skyni leggja fram allt að 3 millj. kr. á ári næstu 5 árin, annaðhvort sem lán eða óafturkræft framlag, ef sveitarfélög leggja fram jafnháa upphæð til þessa. Er þetta innifalið í greindum upphæðum.

Þessar till. ríkisstj. verða endanlega samþ. á Alþ. á morgun.

Við, sem að þessari löggjöf stöndum, væntum þess, að hún feli í sér mikilvæg úrræði til varanlegrar lausnar á húsnæðismálunum. En eins og allir vita, hefur þörf almennings og þá ekki sízt hinna efnaminni lengi kallað hárri röddu til hins opinbera um hjálp til þess, að þjóðfélagsþegnar fái leyst úr einni frumstæðustu og brýnustu lífsþörfinni, þeirri að geta eignazt þak yfir höfuð sitt og ástvina sinna. Er það stjórnarliðum vissulega jafnt til gleði sem sóma að hafa nú heyrt þessar raddir og hlýtt þeim. Við þykjumst með því einnig hafa heyrt rödd okkar eigin samvizku og hlýtt henni.

Í sambandi við afgreiðslu þessa máls skeðu þau undur, að ýmsir stjórnarandstæðingar, þó ekki þjóðvarnarmenn, ýmist sátu hjá við atkvgr. eða greiddu atkvæði móti frv.

Það, sem ég nú hef greint, sýnir, að á stuttum valdatíma hefur stjórnin efnt flest sín fyrirheit og með því sannað, að hún er athafnasöm, dugmikil, víðsýn, en raunsæ framfarastjórn, sem skilur þarfir þjóðarinnar, leitar að úrræðum til að fullnægja þeim og finnur þau. En samfara efndunum hefur stjórnin að sjálfsögðu glimt við margan og margvíslegan vanda. Nefni ég þar til síldarleysi fyrir Norðurlandi, veiðibrest haustvertíðarinnar í Faxaflóa, mæðiveikina og margt annað svipaðs eðlis.

Þá hefur stjórnin og borið fram til sigurs mörg þörf og merk umbótamál, svo sem bókasafnsfrv., frv. um fjármál skólanna, iðnskóla, læknaskipan, fiskveiðasjóð og aðstoð togurunum til handa, framlengingu á merkustu landbúnaðarlöggjöf og breytingar á jarðræktarlögum og margt fleira, enn fremur þokað áleiðis byggingu sementsverksmiðjunnar og leitar nú lána til aukinna landbúnaðarframkvæmda, til hafnarbóta, frystihúsa, skipakanpa, svo að nokkuð sé nefnt af öllu því, sem sigrazt hefur verið á og vonir standa til að ráðið verði fram úr.

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar eru ólík. Þegar stjórnin í öndverðu gaf fyrirheitin, treystist enginn til að vefengja, að um mikil þjóðþrifamál væri að ræða, gallinn væri aðeins sá, að loforðin yrðu svikin. En nú, þegar stjórnarliðar hafa snúið svikabrigzlum andstæðinganna í áþreifanlegar efndir, virðist helzt sem stjórnarandstæðingar vildu fegnir skipta á svikunum, sem þeir spáðu, og efndunum, sem þeir fengu. Þjóðin er á öðru máli.

Það er vandi að vera í stjórn landsins, a.m.k. mikill vandi að vera góð stjórn. En eymd, vesöld og horjarmur stjórnarandstöðunnar bendir til þess, að það sé nærri enn örðugra að vera sæmileg stjórnarandstaða, þegar velviljuð og viti borin stjórn situr að völdum.

Ég kveð svo hv. stjórnarandstæðinga með enn meiri velvild en virðingu.

Þá ætla ég að víkja örfáum orðum að talinu um vinstri stjórn. Geri ég það m.a. vegna margra fyrirspurna, sem mér hafa borizt frá flokksbræðrum mínum víðs vegar af landinu, og bið þá um leið velvirðingar á, að mér hefur ekki unnizt tími til að svara bréfum þeirra.

Það er með vinstristjórnarkvillann líkt og mæðiveikina; hann leynist alltaf með einstaka manni eins og mæðiveikin í kind og kind, en mæðiveikinni mæta menn með niðurskurði og fjárskiptum, og hættan líður hjá.

Að þessu sinni hófst vinstristjórnarfaraldurinn með útvarpsræðu, sem formaður Framsfl. flutti á s.l. hausti. Hann reyndi þá að telja kjósendum sínum og þjóðinni trú um, að allt væri betra en samstarf núverandi stjórnarflokka, sem hann þó hafði tekið þátt í sem ráðh. frá því í marz 1950 þar til í september 1953.

Hv. 5. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, talaði næstur og sagði eitthvað á þá leið, að formaður Framsfl. hefði nú gefið bændum í Framsfl. umhugsunarefni. Bændurnir mundu þó e. t. v. hugsa meir um þetta en formaðurinn kærði sig nm.

Var nú kyrrt um málið um skeið. En brátt tók Tíminn að skýra og verja þessi ummæli formannsins. Ástæðan var án efa sú, að óánægju hafði orðið vart utan af landsbyggðinni, enda vitað, að bændur í Framsfl. telja sínum hag bezt borgið með samstarfi við hinn bændaflokk landsins, Sjálfstfl., en nær allir bændur landsins eru sem kunnugt er í þessum tveimur flokkum.

Formaður Framsfl. er enginn veifiskati. Hann harðnaði við andstöðu flokksmanna sinna og rak á rembihnútinn með langri áramótagrein, þrunginni ádeilu á Sjálfstfl. Ég dreg í efa, að formaður Framsfl. hafi nokkru sinni haft trú á því, að auðið yrði að koma á laggirnar vinstri stjórn, hvað þá að til farsældar yrði. Hann veit vel, að flestir höfuðleiðtogar framsóknarmanna, innan og utan þings, lita sömu augum á málið sem bændur í Framsfl. Þeir telja þess konar vinstri stjórn víti, sem varast beri, líka af því að hún yrði öruggasta ráðið til þess að tryggja Sjálfstfl. meiri hl. á Alþ., en það vilja framsóknarmenn að sjálfsögðu forðast, þótt sambúðin sé að öðru leyti sæmileg.

Þar við bætist, að sumir rauðu flokkarnir, sem til var biðlað, eru alls ekki í tilhugalífi. Þjóðvörn skoðaði samstarfstilboðið sem veiðibrellu, með stjórnarsamstarfi ætti Framsókn fyrst og fremst að ná kjósendunum aftur frá Þjóðvörn.

Í Alþfl. er ein fróm sál, sem heitþráir þetta samband. Aðrir eru ýmist hikandi eða andvígir því.

Kommúnistar vilja í stjórn, jafnt þessa stjórn sem aðra, aðeins í stjórn. En þá langar til að komast þangað lifandi. Formaður Framsfl. hefur hins vegar krafizt þess, að þeir skeri sig í tvennt, Moskvakommúnista, sem hann neitar að meðganga, og framsóknarkommúnista, sem hann segist þekkja ættarmótið á vegna frjálsmannlegs svipmóts og vinstri lyktar.

Kommúnistar munu því rannsaka, hvort þeir eru maðkur eða maður. Úrslitin eru óviss og þar með vinstri stjórnin, þótt ekki væru aðrir meinbugir á. Af þessu sést, að þm. vinstri stjórnar mundu varla verða fleiri en jólasveinarnir, sem voru einn og átta og komu af fjöllum ofan, alveg eins og hugarórarnir um vinstri stjórn.

En segjum nú, að vinstri stjórnin fæðist. Hvað mundi hún gera? Hver yrði stefnan? Mundi hún afgreiða fjárl. án greiðsluhalla, eins og Framsfl. vill, eða með t.d. 100 millj. kr. halla, eins og hinir væntanlegu samstarfsflokkar hafa verið að myndast við að reyna? Mundi söluskattur haldast, eins og Framsfl. vill, eða afnuminn, eins og hinir heimta? Á verzlunin að vera sem frjálsust, eins og Framsfl. segist vilja, eða ríkiseinokun, eins og nýju bandamennirnir vilja, sumir hverjir a.m.k.? Svona mætti lengi spyrja.

Og hver yrði svo stefnan í utanríkismálum? Á að halda áfram samstarfi við frelsisunnandi þjóðir, eins og Framsfl. vill, eða taka upp náið samstarf við þá, sem austan járntjalds búa, eins og hinir vilja? Á að halla sér til vesturs eða austurs?

Ætli slík stjórn yrði ekki eitthvað undarleg í kollinum, svona eins og maðurinn, sem sagði: „Heim er ég kominn og halla undir flatt, því hausinn er veikur og maginn“?

Vinstri stjórn yrði stefnulaus og ráðalaus, sjálfri sér sundurþykk og því dáðlaus og máttlaus, hreint stjórnmálaviðundur, svona eins konar — ja, svona eins konar pólitískur hænuhani. Þetta vita allir, sem til þekkja, og enginn betur en formaður Framsfl., sá séði og æfði stjórnmálamaður.

Vinstristjórnarhjalið hefur því aldrei átt við nein rök að styðjast og engin alvara fylgt því. Ég ann Hermanni Jónassyni þessa sannmælis. Einhvern skaða kann það þó að hafa gert, t.d. að ýta undir kommúnista til verkfalls. Einnig kann að vera, að form. Framsfl. hafi skaðað sinn flokk með því að löggilda Þjóðvörn sem ákjósanlegan flokk til stjórnarsamstarfs, sem þá auðvitað enginn glæpur er að veita brautargengi við alþingiskosningar, og enn kann að vera, að bændur treysti því meir á Sjálfstfl. sem vinstra bros formanns Framsfl. verður blíðara og leiti því í enn ríkari mæli trausts og halds hjá Sjálfstfl. en nokkru sinni fyrr. Er það vel farið og vel þegið.

Ég held sem sagt, að menn þurfi hvorki að óttast stórubólu né rauða hunda eða vinstri stjórn. Áhyggjuefnin eru önnur. Í mínum huga er hið síðasta verst. Ég óttast afleiðingar verkfallsins. Um áramótin virtist allt horfa sæmilega. Atvinnan var meiri og öruggari en dæmi eru til, afkoman betri en nokkru sinni fyrr. Vísitalan hafði að heita má haldizt óbreytt í 21/2 ár. Verzlunar- og athafnafrelsi fór vaxandi. Reikningar gegn útlöndum stóðu vel, og flestar loftvogir efnahagslífsins spáðu kyrrð og batnandi afkomu.

Í áramótahugleiðingum, sem ég flutti í útvarp á gamlaárskvöld, bað ég þjóðina að meta réttilega sitt farsæla hlutskipti, rasa nú ekki um ráð fram, en una glöð við sitt. Ég lýsti þeim ótta, að hækkað grunnkaup í landinu mundi að öðru óbreyttu geta teflt krónunni í voða. Ég sýndi fram á, að fall krónunnar væri þjóðarböl, og skoraði á menn að slá skjaldborg um verðgildi hennar.

Stjórnarandstæðingar guldu við illkvæðum einum. Þeir reyndu að telja almenningi trú um, að aðvörunarorð mín væru grímuklæddar hótanir, sem lýstu illvilja í garð launastéttanna.

Skömmu síðar hófst mikil kaupdeila. Kröfurnar, sem fram voru bornar, voru svo æðisgengnar, að sérhver sæmilega fróður maður sá, að samþykkt þeirra hlaut að leiða til gengisfalls. Ekki höfðu atvinnurekendum borizt kröfur þessar, margbrotnar, flóknar og þjóðhættulegar, fyrr en yfir vofði verkfall. Nokkur frestur var þó veittur til að athuga þær, enda vinna lítil í höfninni, með því að skip voru ekki að landi komin eftir matsveinaverkfallið.

Fyrr en varði skall óveðrið á. Undir forustu kommúnista var stofnað til viðtækra verkfalla, sem skyndilega og geigvænlega lömuðu atvinnulíf þjóðarinnar. Ríkisstj. skarst nú í málið og beiddist þess, að aðilar féllust á að fresta deilunni, þar til nefnd, skipuð umboðsmönnum ríkisvaldsins og aðila, gæfist kostur á að rannsaka gjaldgetu atvinnurekstrarins, svo að auðið yrði að gera sér grein fyrir, hvort hann þyldi þessar kauphækkanir.

Atvinnurekendur féllust á þessa ósk, en umboðsmenn verkalýðsins höfnuðu henni, þar eð hún væri of seint fram komin. Átti sú viðbára ekki við rök að styðjast, því að vart höfðu höfuðkröfur verið fram bornar, fyrr en hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, bar fram uppástungu um þessa nefndarskipan, en auðvitað var ekki hægt að dæma um kröfurnar, fyrr en menn þekktu þær.

Það var mikið óhapp, að þessum tilmælum ríkisstj. var hafnað, og gegnir raunar furðu, því að allir vita, að kauphækkanir, sem byggjast ekki á batnandi verzlunarárferði eða aukinni framleiðslu, leiða ekki til kjarabóta, heldur til krónufellingar. Þegar hér var komið, gat stjórnin við ekkert ráðið og hafðist ekki að um skeið, en aðilar áttust við. Hinn ágæti og mikilhæfi sáttasemjari, Torfi Hjartarson, sem allir telja manna hæfastan til að gegna hinu vandamikla embætti sáttasemjara, reyndi stöðugt að miðla málum, þótt lítið þokaðist áleiðis. Sáttasemjari óskaði síðar, að stjórnin skipaði honum menn til aðstoðar. Var það tafarlaust gert og vel til vandað um val manna. Gekk svo enn um skeið án íhlutunar stjórnarinnar, en þar kom, að ríkisstj. tók upp frekari afskipti af málinu og átti að lokum allmikinn óbeinan þátt í lausn þess. Vil ég að gefnu tilefni taka skýrt fram, að enda þótt ég kæmi mest fram á lokastigi málsins og þá fyrst og fremst vegna óvenjulegra anna félmrh., þá tók ég að sjálfsögðu engar meiri háttar ákvarðanir án samráðs við samstarfsmenn mina og samþykkis þeirra. Varð aldrei ágreiningur okkar í milli um neitt, sem máli skipti. Við bárum þannig t.d. allir ábyrgð á því, sem nú eftir á sætir nokkurri gagnrýni, að lögreglan hafði ekki haft sig nægilega í frammi, enda þótt tillagan um þá hlédrægni kæmi frá hæstv. dómsmrh. Ég tel mér heiður að því að hafa samþykkt þá till. Bjarna Benediktssonar og sé enn betur nú en þegar hann bar hana fram, að það var viturlega ráðið.

Öll var stjórnin líka á einu máll um stofnun atvinnuleysistrygginga, og öll fylgdist hún með málinu á lokastigunum til þess að kveða upp úr um, hvort hún vildi standa við framlög ríkissjóðs við aðstæðurnar frá degi til dags.

Ég veit, að öll sáttanefndin undir forustu Torfa Hjartarsonar vann sleitulaust að sáttum. En málið var óvenju vandmeðfarið. Gjaldgeta undirstöðuatvinnuveganna vildi að mínu viti ekki kauphækkanir. Kröfurnar, sem fram voru bornar, voru hóflausar. Til smekkbætis var svo látið fylgja, að tilgangurinn væri að steypa ríkisstj., sem styðst við fylgi 37 þingmanna af 52, — ríkisstj., sem frá öndverðu þó var ætlað að leysa verkfallið. Til skjalfestingar þessum byltingarhug gerði Alþýðusambandið sig að því veraldarviðundri að bjóðast til að hafa forgöngu um myndun nýrrar ríkisstjórnar og hafði þó til þess ekkert þingfylgi utan forseta sinn, Hannibal Valdimarsson.

„Út reri einn á báti Ingjaldur í skinnfeldi“.

Ingjaldur kom aldrei aftur. Hannibal ekki heldur. Hann fórst á stjórnarskaki.

Eftir sex vikur leystist deilan. Flestir fögnuðu. Ég er meðal þeirra. En þó finn ég þörf á að gefa skýringar.

Ég er enn sömu skoðunar sem ég var um nýárið. Ég harma þess vegna, að aðvörunarorð mín voru að engu höfð. Ég óttast, að verkamenu hafi ekki fengið kjarabætur, vegna þess að nú sigla aðrar stéttir í kjölfarið, sumar samkv. lögum, aðrar vegna fordæmis. Þannig hefur það alltaf farið, og þannig fer það nú. Jafnframt hækka skattar og álögur, svo að hið opinbera fái staðið undir afleiðingum kauphækkananna. Þegar komið er á leiðarenda, hafa allir fengið fleiri krónur, en þær verða smærri, þótt auðvitað verði reynt að forðast að viðurkenna verðfellingu krónunnar með því að breyta skráðu gengi hennar. Þetta ætti fólk nú að vera farið að skilja. Hitt er svo óráðin gáta, hvernig t.d. útvegurinn fær risið undir þessum kauphækkunum, en þær verða um eða yfir 20%, þegar með er talin sú hækkun vísitölunnar, sem af þeim leiðir vegna hækkaðs verðiags landbúnaðarafurða o.fl.

Það, sem skeð hefur eftir sex vikna baráttu, sem kostar þjóðina of fjár, er því það, að krónan hefur rýrnað í gildi, en litlar líkur eru til, að verkamenn hafi fengið aðrar kjarabætur en þá þær, sem felast í atvinnuleysistryggingunum. Samfara þessu er voveifleg hætta færð yfir atvinnu- og fjármálalíf þjóðarinnar. Þetta er því hörmuleg saga.

Sjálfan langar mig svo aðeins til að bæta því við, að enda þótt ég haldi, að þjóðinni mundi miklu farsælla, að engar kauphækkanir hefðu farið fram, nema þá e.t.v. til hinna allra lægst launuðu, taldi ég og samstarfsmenn mínir í ríkisstj. okkur skylt að bera klæði á vopnin. Slík heljarátök verða einhvern tíma að enda, margra vikna atvinnustöðvun skapar verkalýðnum og þá einkum þeim efnaminnstu miklar þrengingar og eru allri þjóðinni hættuleg blóðtaka. Ríkisstj. hlaut þess vegna að reyna að sætta, enda þótt hún sé vantrúuð á varanlegt gildi málalokanna. Að sjálfsögðu mun ríkisstj. reyna að draga úr áhrifum kauphækkananna og forðast, ef og meðan þess er nokkur kostur, að breyta skráðu gengi krónunnar. Hitt hljóta allir að skilja, að ríkisstj. gat ekki fengið framgengt minnkandi álögum og lækkuðu verðlagi einmitt samtímís því, sem allur tilkostnaður átti að hækka vegna hækkandi kaupgjalds.

Varðandi afstöðu okkar sjálfstæðismanna til verkalýðsins og launastéttanna almennt vil ég að lokum segja þetta: Bætt kjör fólksins byggjast á tvennu, því, sem við ekki ráðum yfir, þ.e.a.s. verzlunarárferðinu eða hlutfallinu milli verðlags á aðfluttum og útfluttum vörum, og hinu, sem við höfum að nokkru leyti á okkar valdi, að bæta tæknina, láta vélina vinna fyrir manninn, til þess þannig að auka aðdrætti í þjóðarbúið. Með þeim hætti verður mest til skiptanna og hlutur hvers einstaklings því stærstur. Sá flokkur, sem dyggilegast hefur unnið að bættri tækni, sá, sem mest hefur lagt fram til nýsköpunar atvinnulífsins, bæði af hendi hins opinbera og einstaklinga, er því raunbeztur vinur verkalýðsins í landinu. Allir vita, að í þessum efnum skarar Sjálfstfl. fram úr, og það er einmitt fyrir vaxandi skilning almennings í landinu á þessum staðreyndum, sem Sjálfstfl. er stærsti flokkur landsins og mun þó enn stækka. — Góða nótt.