09.05.1955
Sameinað þing: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég vil fyrst taka það fram, að um varnarmálin verður rætt af hendi framsóknarmanna annað kvöld.

Hv. 5. landsk. þm. og raunar fleiri voru að finna að því, að Framsfl. ynni með sjálfstæðismönnum. Ég mun kannske koma að þessu nánar annað kvöld, en ætli alþýðufólk til sjávar og sveita væri nú betur á vegi statt, ef Framsfl. einangraði sig og léti íhaldið stjórna eitt?

Hv. landsk. þm., Eggert Þorsteinsson, virtist hafa áhuga fyrir því að bæta við sig atkvæðum á Seyðisfirði, og ráðið var að sá sundrung um raforkumál Austurlands. Því máli verður ráðið til lykta á öruggan hátt fyrir Austurland. Um það munu þingmenn Austurlands ræða við umbjóðendur sína án milligöngu þessa hv. þm. Hér er rétt að segja það eitt, að ef átök allra þingmanna á Austurlandi væru eins og hans, þyrftu menn ekki að skiptast á skoðunum um það, hvort ein virkjunaraðferð væri betri en önnur, af þeirri einföldu ástæðu, að engin allsherjarvirkjun væri þá komin til mála.

Hér á hv. Alþingi hefur undanfarið verið rætt nokkuð um skatta á félögum, og þó að það hafi ekki borið á góma hér í umr. í kvöld, þá ætla ég að nota tækifærið til að segja um þetta örfá orð, áður en ég kem að aðalræðuefni mínu í kvöld.

i fyrra voru skattar einstaklinga lækkaðir um 26–28%. Ætlunin var að setja þá einnig alveg ný lagaákvæði um skattgreiðslur félaga, en það vannst ekki tími til undirbúnings slíkri löggjöf þá. Var því til bráðabirgða samþykkt 20% lækkun á skatti félaga, hlutafélaga og samvinnufélaga og allra annarra félaga. Fyrir þessu Alþingi hefur ekki heldur legið nýtt frv. um skattlækkun félaga, ekki náðst samstaða um það mál, og hefur því að sjálfsögðu verið gert ráð fyrir, að þessi 20% lækkun, sem í fyrra var gerð til bráðabirgða, gilti einnig nú í ár. Vegna áróðurs um það, að með því að hafa óbreytta skatta á félögum frá í fyrra sé verið að ívilna gróðafélögum, auðfélögum, eins og það er kallað, vil ég upplýsa eftirfarandi: Fyrir félög gilda nú þeir skattstigar, sem settir voru fyrir stríð, að viðbættum þeim, sem settir voru í lög 1942. Tekjur einstaklinga hafa verið umreiknaðar undanfarið, sem kallað er, til þess að koma í veg fyrir, að tekjuskattsbyrði á þeim færi hækkandi vegna hækkaðra tekna í krónutölu. Umreikningur á tekjum félaga var á hinn bóginn aldrei lögleiddur, og þess vegna hefur skattabyrði félaga farið síhækkandi og er orðin langt umfram það, sem löggjafinn ætlaðist til, þegar skattalögin voru sett. Þessi ákvæði eru þannig t.d., að félög, sem hafa skattskyldar tekjur yfir 200 þús. kr., borga 90% af því, sem er umfram 200 þús. kr. í tekjur, í skatta, en 200 þús. kr. tekjur jafngilda nú alls ekki meiru en 20 þús. kr. fyrir styrjöld. Hvaða manni mundi hafa dottið í hug fyrir stríð að láta félög borga 90% af tekjum, sem væru yfir 20 þús. kr.? Sannleikurinn er því sá, að skattar félaga hafa margfaldazt frá því fyrir stríð og orðið langt umfram það, sem löggjafinn ætlaðist til, og þessi 20% lækkun, sem samþ. var í fyrra, gekk í þá átt að bæta úr þessu, átti að koma sem bráðabirgðaúrræði í staðinn fyrir „umreikning“, sem verið hafði á tekjum einstaklinga. Annars hafa hinir ofsaháu skattstigar félaga ekki í reyndinni orðið til þess að skattleggja stórgróðann, þar sem menn hafa fundið upp það ráð að skipta atvinnurekstrinum niður í smærri og smærri hlutafélög. Þessi mál þurfa því öll endurskoðunar við, og það þarf önnur ráð til þess að skattleggja stórgróða en þau að láta skattstiga félaganna standa óbreytta. Það, sem um þetta hefur verið sagt hér á hv. Alþingi og í blöðum, er augsýnilega ekki heldur flutt fram af málefnalegum áhuga, heldur aðeins til þess að vekja tortryggni, enda með lýðskrumssniði svo glöggu, að ekki verður um villzt, hvað á spýtunni hangir.

Ég kem þá að aðalefni þess, sem ég vildi koma hér á framfæri í kvöld.

Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur mundi kjósa það ástand á ný, sem hér var í fjárhags- og atvinnumálum á árinu 1949 og árin næst á undan. Flestar framleiðslugreinar voru reknar með tapi, þótt gífurlegir fjármunir væru saman dregnir með skatta- og tollaálögum í uppbætur á útflutninginn. Stórfelldur halli var á ríkisbúskapnum. Gjaldeyris- og vöruskortur var svo tilfinnanlegur, að jafnvel brýnustu nauðsynjar fengust ekki nema sem náðarbrauð. Svartur vörumarkaður blómgaðist á þá lund, að jafnvel helztu nauðsynjar ýmsar urðu gróðalind okrara. Framleiðslan dróst saman, og stórfellt atvinnuleysi var yfirvofandi. Sparnaður var sáralítill, þar sem menn þorðu tæpast að eiga peninga sína yfir nóttina af ótta við verðfall þeirra. Lánsfjárskortur varð því tilfinnanlegri með hverjum deginum sem leið og því fram undan samdráttur framkvæmda. Þótt stjórn sú, sem setið hafði frá 1947, hefði margt vel gert, einkum í landbúnaðarmálum, eftir að áhrif framsóknarmanna komu til á ný, þá hafði alveg misheppnazt að ná tökum á fjárhagsmálunum, enda satt að segja ekki við neitt lamb að leika sér, eins og ástatt var um fjárhagsmálin, þegar hún tók við, eftir að eyðslu- og verðbólgustefnan hafði verið sett í hásætið á árunum 1944–1946.

Sumarið 1949 skar Framsfl. upp herör gegn þessu öngþveiti með því að stofna til átaka um landsmálin í kosningum um haustið. Leiddu átökin til þess, að samtök náðust um nýja stefnu í fjárhags- og atvinnumálum snemma á árinu 1950. Höfuðatriði þeirrar stefnu voru að lækka gengi krónunnar til samræmis við það ástand, sem þegar hafði skapazt, og greiðsluhallalaus ríkisbúskapur, sem verða skyldi undirrót aukinnar framleiðslu og meira jafnvægis í verðlags- og efnahagsmálum. Verðlag erlendis á fiski varð um þessar mundir óhagstæðara en áður. Varð því litlu síðar að bæta við bátagjaldeyriskerfinu til ágóða fyrir bátaútveginn. Hér er ekki hægt tímans vegna að setja á langa ræðu um árangur þessarar stefnu, þar sem þá mundi ekkert tóm verða til að minnast hinna nýju viðhorfa, sem nú hafa myndazt. Verður þó að rifja hér upp örfá höfuðatriði.

Framleiðslan hefur aukizt stórkostlega og framkvæmdir. Þessi breyting er svo mikil, að í stað þess að áður var atvinnuleysið höfuðvandamálið, þá hefur nú undanfarið verið skortur á fólki til nauðsynlegra starfa. Ríkisbúskapurinn hefur orðið greiðsluhallalaus allt tímabilið og stundum nokkur greiðsluafgangur, sem sumpart hefur verið varið til þess að grynna á óreiðuskuldum ríkissjóðs frá fyrri tíð og sumpart til þess að standa undir kostnaði við nauðsynlegustu framkvæmdir, einkum þó lánveitingum til framkvæmda í landbúnaði, sjávarútvegi og til íbúðabygginga. Á þessu tímabili hafa skattar verið lækkaðir stórkostlega, og er einsdæmi í sögu landsins, að sambærilegar skattalækkanir hafi verið framkvæmdar. Vegna greiðsluhallalauss ríkisbúskapar hefur verið hægt að draga úr viðskiptahöftunum, en slíkt afnám haftanna kom ekki til mála, meðan greiðsluhallabúskapur ríkissjóðs sat í öndvegi. Samkeppni um vörusölu hefur komið í staðinn fyrir vöruskortinn og svarta markaðinn, sem áður ríkti. Hafa menn undanfarið tvímælalaust búið við betri verzlunarkjör vegna þessarar samkeppni en áður höfðu þekkzt um skeið. Verðlag hækkaði að sjálfsögðu fyrstu missirin eftir gengisbreytinguna vegna áhrifa frá henni, en síðan áhrifum hennar lauk og í staðinn fór að gæta áhrifa frá greiðsluhallalausum ríkisbúskap og aukinni framleiðslu, hefur verðlag í landinu verið stöðugra. Má heita, að við höfum búið við stöðugt verðlag í meira en 21/2 ár. Af þessu leiddi aukna trú á verðgildi peninga og stóraukinn sparnað. Þannig safnaðist fyrir margfalt meira sparifé í bönkum landsins á árunum 1953 og 1954 en áður voru dæmi til, og hefði svo fram haldið, var þess bersýnilega ekki langt að bíða, að úr rættist lánsfjárskortinum, sem þjóðin hefur lengi búið við. Voru þar að verða mikil og góð tíðindi, ekki sízt æskufólki landsins, sem mjög þarf á lánsfé að halda við myndun nýrra heimila. Af sérstökum ástæðum höfðu á hinn bóginn skapazt vandamál í sambandi við rekstur togaraflotans. Höfðu menn þó gert sér vonir um, að úr þeim væri leyst í bili a.m.k. með því að leggja hátt aðflutningsgjald á fólksbifreiðar til stuðnings rekstri togaranna. Á hinn bóginn stóðu málefni bátaútvegsins þannig, að stjórnin ákvað um áramótin að draga um 10% úr bátagjaldeyrishlunnindunum. Tæpast mun nokkur maður leyfa sér að mótmæla því í alvöru, að ástandið undanfarið hafi verið miklu hagfelldara almenningi og þjóðinni í heild en það var áður en sú stjórnarstefna var upp tekin, sem fylgt hefur verið undanfarin ár. Allir mega heyra, að tilraunir hv. stjórnarandstæðinga til þess að halda öðru fram eru gersamlega utangarna. Og er þó ekki þar með sagt, að allt sé eins og það ætti að vera.

Ég gat um það áðan, að nú um skeið hefði verið meiri eftirspurn eftir fólki til starfa en hægt hefur verið að fullnægja. Mun þetta hafa orðið til þess að ýta undir þá skoðun meðal verkamanna, að jarðvegur væri fyrir kauphækkanir. Á hinn bóginn hafði hagstofustjóri komizt að þeirri niðurstöðu og annar hagfræðingur með honum, að kaupmáttur verkamannalauna mundi nú mjög svipaður því, sem hann var eftir verkfallið 1952. Hér í umr. hefur hv. 5. landsk. þm. og raunar fleiri stjórnarandstæðingar haldið því fram, að skatta- og tollahækkanir ríkisstj. hafi orsakað verðlagshækkun og orðið til þess, að launastéttirnar hafi orðið að reisa kröfur um hærra kaupgjald. Þetta er svo fullkomið öfugmæli, að á undanförnum árum hefur hver lækkunin á sköttum og tollum af hendi þingmeirihlutans og ríkisstj. rekið aðra.

Á undanförnum árum hef ég notað hvert tækifæri, sem ég hef fengið, til þess að leggja á það megináherzlu, að óhugsandi er að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum og stöðugu verðlagi, nema stjórnarvöldin og hin sterku almannasamtök, sem hér hafa mikil völd og njóta fulls frelsis, og þá sérstaklega verkalýðssamtökin, stefndu að sama marki. Ég hef hvað eftir annað bent á, að þótt stjórnarvöldin geri skynsamlegar ráðstafanir til að halda jafnvægi í verðlagsmálum t.d., þá geta þær allar orðið að engu, ef verkalýðssamtökin miða ekki kaupgjaldspólitík sína við sama markmið. Á sama hátt mundi að sjálfsögðu fara, þótt verkalýðsfélögin miðuðu kaupgjaldspólitík sína við að halda stöðugu verðlagi, ef stjórnarvöldin gerðu ráðstafanir, sem ónýttu þau verk þeirra, t.d. með hallarekstri á ríkisbúskapnum, ábyrgðarlausri útlánapólitík eða öðru slíku háttalagi, sem hlyti að koma af stað verðhækkun og kjararýrnun hjá launastéttunum.

Enginn vafi leikur á því, að stjórnarvöldin og verkalýðssamtökin vinna eindregnast í þessa stefnu sameiginlega, ef pólitísk vinátta er þar á milli. Sameiginlegur málefnalegur áhugi stjórnarvaldanna og verkalýðssamtakanna ætti þó að réttu lagi að duga til þess, að báðir aðilar ynnu sleitulaust að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og stöðugu verðlagi og gengi. Þannig mundi það líka vera, ef hagsmunasjónarmið ein kæmu hér til og sæmileg framsýni. Á Norðurlöndum er nú pólitísk vinátta á milli stjórnarvaldanna og forustu verkalýðsfélaganna. Í Bretlandi er því á hinn bóginn ekki til að dreifa. Þar valda þó sameiginlegir hagsmunir því, að þar sýnist haldið skaplega á þessum málum, enda þannig ástatt í Bretlandi, að leiðtogar verkamanna geta búizt við því svo að segja á hverri stundu að taka við stjórn þjóðarskútunnar. Mun það því styrkja þá í þeirri skoðun, að rétt sé og sjálfsagt að halda öllu í sæmilegu lagi um borð, þótt þeir eigi ekki pláss í brúnni um stundarsakir.

Í framkvæmd verður stefnan þannig, að forráðamenn verkalýðsins reyna að gera sér grein fyrir því, hvað hægt sé að hækka kaupið mikið, svo að hækkunin verði hreinn ávinningur, en kastist ekki aftur í höfuð mönnum án tafar. Það gefur dálitla bendingu um, hvernig á þessum málum er haldið á Norðurlöndum t.d., að síðasta almenn kauphækkun í Noregi var um 4% og síðast þegar samið var í Svíþjóð, fengu flestir 3.6% kauphækkun.

Ég gat um það áðan, að sú skoðun mundi hafa orðið nokkuð útbreidd meðal verkamanna í vetur, að hægt væri og rétt að hækka kaupið. Ekki mun þetta þó í sjálfu sér hafa byggzt á því, að menn álitu atvinnuvegina aflögufæra suma hverja, eins og t.d. togaraútgerðina, heldur fremur á hinu, að mikil eftirspurn var eftir fólki til starfa, sótzt eftir yfirvinnu manna og mönnum sýndust margir græða.

Það er þó hæpið að treysta því, að hægt sé ævinlega að græða á kauphækkunum, þótt mikil eftirspurn sé eftir vinnuafli. Stafi aukin eftirspurn fyrst og fremst af aukinni framleiðslu vegna gróða á henni, þá er dæmið einfalt og hagurinn vís af kauphækkun, enda hún þá sjálfsögð og nauðsynleg. Stafi hin mikla vinna á hinn bóginn fyrst og fremst af mikilli fjárfestingu, þarf málið vandlegri íhugunar við.

Ekki dreg ég í efa, hvernig forustumenn verkalýðssamtakanna í nágrannalöndum okkar hefðu farið að, ef þeir hefðu átt að ráða fram úr málum sinna manna við ástæður hliðstæðar þeim, sem hér voru í vetur. Þeir hefðu fengið í lið með sér hina færustu menn, sérfróða í efnahagsmálum, og reynt að gera sér grein fyrir, hvort þeir mundu geta látið kauphækkun verða að raunverulegum ávinningi fyrir verkamenn. Þeir mundu vafalaust alveg sérstaklega hafa athugað, hversu hátt væri rétt að spenna bogann, til þess að ekki yrði sú verðhækkunarskriða losuð, sem gerði að litlu eða engu það, sem ávannst í bili. Þá hefði einnig áreiðanlega verið á það litið, að á tæpt vað var að tefla eins og afkoma atvinnuveganna hér óneitanlega er, og þess því verið vandlega gætt að taka ekki með holt og bolt kauphækkunarkröfur frá öllum stéttum, hvort sem þær voru hátt eða lágt launaðar, vel eða illa settar, því að með því móti étur hver upp bróðurpartinn af annars hækkun, þegar 80% eða svo af landsmönnum tekur orðið tekjur sínar í kaupgjaldi. Þannig vinna áreiðanlega yfirleitt þeir menn, sem líta á verkalýðsfélögin sem hagsmunafélög verkamanna og telja sér skylt að stjórna baráttu þeirra í samræmi við það.

Allir vita, að hér hjá okkur eru ekki svona hreinar línur í þessum málum. Sterkustu verkalýðsfélögunum í Reykjavík er, þótt merkilegt megi virðast, stjórnað af félagsbundnum kommúnistum. Það þýðir, að þeim er í raun réttri stjórnað af kommúnistaflokknum. Við vitum af kenningu kommúnista, til hvers verkalýðsfélög eru að þeirra skilningi. Þau eru til þess að herða stéttabaráttuna, magna átökin. Það verða að eiga sér stað langvinnar deilur og árekstrar. Kjarabætur án tjóns og átaka eru einskis virði að dómi ósvikinna kommúnista, verri en ekkert, því að þeir fyrirlíta umbætur. Verkföll verkfallanna vegna, það er þeirra hugsun. Hagsmunir verkamanna og kommúnistaflokksins fara því ekki saman. Aldrei hefur það máske sézt betur en nú síðustu vikurnar. Enginn kann tveimur herrum að þjóna. Það er ekki hægt að samræma það hagsmunum verkamanna að beita samtökum þeirra pólitískt á þann hátt sem kommúnistaflokkurinn krefst.

Það ætti engum að koma á óvart, að kommúnistaforkólfar verkalýðshreyfingarinnar hafa haldið hér þannig á málum í vetur, að þeir hafa sýnilega viljað, að hér yrði langt verkfall og afleiðingar þess landsmönnum örlagaríkar. Öll vinnubrögð þeirra eru slík, hvar sem á er litið. Byrjað er með því að draga óhæfilega lengi að leggja fram nýjar kjarakröfur. Þá er neitað till. ríkisstjórnarinnar um skipun rannsóknarnefndar með þátttöku frá deiluaðilum til þess að athuga skilyrði fyrir kauphækkunum og hvaða ráðstafanir hægt væri að gera án verkfalla til kjarabóta fyrir verkamenn. Slík rannsókn gat þó aldrei orðið neinum til tjóns. Er nú eftir á augljósara en nokkru sinni fyrr, að hún hefði t.d. áreiðanlega orðið til þess, að atvinnuleysistryggingar hefðu komið inn í málið, áður en verkfall kom til greina, og annaðhvort orðið stutt eða ekkert verkfall.

Þá voru kröfur þær, sem fram voru settar, sýnilega til þess ætlaðar að framkalla langt verkfall. Kröfur um 34–76% hækkun nálgast ekki neitt þá kauphækkun, sem gæti komið að nokkru gagni, þótt samþykktar væru. Ég hef enga heyrt halda slíku fram aðra en kommúnista. Samt sem áður er þetta sett fram og vikum saman haldið fram alveg óraunhæfum tölum í þessu sambandi og þannig komið í veg fyrir, að viðunandi niðurstaða gæti náðst fyrir verkamenn án óbærilegra fórna af þeirra hendi.

Á öðrum degi verkfallsins buðu atvinnurekendur 7% kjarabætur. Á fáum dögum hefði verið hægt að fá þá tölu hækkaða, ef kommúnistar hefðu ætlað sér eitthvað annað en langt verkfall, hvað sem öðru leið. En í stað þess var hangið í hinum háu tölum og málið gert óleysanlegt í sex vikur.

Hver er svo niðurstaðan af þessu vinnubrögðum, sem kommúnistar gera að pólitískum heræfingum í stað kjaradeilu? Verkamenn hafa tapað sex vikna vinnutekjum og fá máske 2% meiri kauphækkun en þeir hefðu fengið án verkfalls eða með fárra daga verkfalli. Ofan á þetta bætist svo, að mjög er vafasamt, að verkamenn hafi nokkurn minnsta ávinning af þessum aukaprósentum, sem við bættust, vegna sex vikna vinnustöðvunar, að ekki sé meira sagt. Þær kauphækkunarprósentur, sem gefa verkamönnum nettóhagnað, eru þær prósentur, sem hægt er að bæta ofan á kaupið, án þess að tilsvarandi hækkanir þurfi að verða á öllu verðlagi og þjónustu. Það, sem kaupið er hækkað þar fram yfir í lotunni, verður ekki gróði, ef kauphækkunin er almenn. Fyrir þá hækkun, sem gefur hagnað, er mikið á sig leggjandi fyrir launþegana, en hitt gera engir nema kommúnistar að halda mönnum í margra vikna verkfalli til að bæta ofan á fáanlega kauphækkun örfáum prósentum, sem aldrei geta skilað neinum hreinum ávinningi.

Þá hefur verið haldið þannig á þessum málum, að ekki eru á öðru horfur en að kauphækkun verði almenn, þar sem ekki var tekið það ráð að taka þá út úr, sem verst voru settir.

Ríkisstj. og þingmeirihlutinn, sem hana styður, lagði það til lausnar þessari deilu að gefa fyrirheit um atvinnuleysistryggingar. Það er mikilsvert mál fyrir verkalýðinn, sem býr við lítið öryggi um stöðuga vinnu, þótt nú horfi vel um atvinnu. Ekkert verkfall hefði þurft til þess að fá fyrirheit um atvinnuleysistryggingar. Hefði verið að því gengið samkv. tillögum ríkisstj. að rannsaka gaumgæfilega fyrir fram, hvað hægt væri að gera til þess að bæta kjör verkamanna, þá hefði atvinnuleysistryggingin komið þar til greina í fremstu röð. Það var auðvitað ekkert siður hægt að heita atvinnuleysistryggingu til þess að fyrirbyggja yfirvofandi verkfall en til þess að leysa verkfall.

Forusta kommúnista verður verkalýðnum dýr. Þeir líta ekki á verkalýðssamtökin sem hagsmunasamtök alþýðu í lýðræðisþjóðfélagi, heldur sem pólitískt tæki í baráttu sinni við að liða sundur þjóðfélagið. Þó að verkalýðurinn hafi mest gagn af kauphækkunum, sem er svo í hóf stillt, að ekki framkallar verðhækkanir á móti, þá hafa kommúnistar ekkert gagn af slíkum kjarabótum, allra sízt ef þeim er komið fram án verkfalla eða átaka. Kommúnistar þurfa á að halda löngum verkföllum, miklum illindum og að lokum hækkunum, sem leiða af sér verðhækkanir og óvinsælar ráðstafanir.

Sumir segja, að fara hefði átt niðurfærsluleið til lausnar vinnudeilunni, lækka verðlag, og því er stundum fleygt, að það hafi verið á valdi ríkisstj. að fara þá leið. Meira að segja hefur því verið haldið fram með ákafa hér í þessum umræðum í kvöld, að ríkisstj. hafi haft það á valdi sínu að fara verðlækkunarleiðina, hafi haft á sínu valdi töfrasprota, sem hún hafi ekki viljað nota. Um þetta vil ég fara örfáum orðum til þess að skýra málið.

Þegar séð varð, að verkalýðshreyfingin mundi segja upp samningum, athugaði ríkisstj. einmitt þessa hlið málsins gaumgæfilega og sneri sér til þeirra aðila, sem hér gátu átt hlut að máli. Athugun leiddi í ljós, að hægt mundi vera að koma fram nokkuð lækkaðri verslunarálagningu, ef kaupgjald stæði óbreytt, einkum hjá kaupfélögum. Á hinn bóginn kom að sjálfsögðu í ljós, að með hækkandi kaupgjaldi var ómögulegt að koma á lækkun verðlags. Það er ekki hægt að fara bæði upp og niður í senn. Það kom líka undireins í ljós í viðtölum, sem fram fóru við fulltrúa verkalýðsfélaganna, að sá árangur, sem hugsanlegt var að ná í verðlækkunarátt, varð að engu þegar hann var borinn saman við þær stórfelldu kröfur, sem ætlunin var að gera. Því var einnig blátt áfram lýst yfir, að kauphækkunarleiðin yrði farin, um annað væri ekki að ræða.

Andi kommúnista sveif yfir vötnunum. Hvað þýða líka verðlækkunarráðstafanir, sem nema t.d. 3–4% af framfærslukostnaði, svo að einhver tala sé nefnd, í hugum þeirra manna, sem ganga með kröfur um 30–70% kauphækkanir í vasanum, eins og kommúnistar gerðu? Þó gæti verið meira gagn að 3–4% lækkun á framfærslukostnaði en 70% almennri kauphækkun. Það skilur og viðurkennir meginþorri landsmanna.

Sumir hafa talað um að auka niðurgreiðslur á vöruverði með ríkisfé í þessu sambandi, en eftir að ríkisstjórnin upplýsti, að kosta mundi um það bil 51/2 millj. að borga niður vöruverð sem svarar einu stigi í vísitölunni, sáu allir, að slíkt var ekki framkvæmanlegt.

Kommúnistar hafa nú vissulega beðið hnekki vegna þess, hvernig þeir hafa haldið á málum. En að einu leyti hafa þeir unnið sigur frá sínu sjónarmiði skoðað. Augljóst er, að í landinu ris ný verðhækkunaralda á næstunni, því að kauphækkanir verða sýnilega almennar, enda þannig til stofnað. Stjórnarvöldunum er skylt að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að draga úr þeim verðhækkunum, sem óhjákvæmilega leiðir af almennum kauphækkunum, eins og hér er nú ástatt, og gera allt, sem unnt er, til þess að forðast verðrýrnun peninga.

Enginn mannlegur máttur getur þó breytt þeirri staðreynd, að nú hefur verið brotið blað í efnahags- og verðlagsmálum landsins. Áætlað er, að 10% kauphækkun hækki vísitöluna um 4 stig eða svo næsta haust vegna hækkana á verðlagi landbúnaðarafurða, og samtals um 71/2 stig í fyrstu umferð, áður en langt um líður, og sennilegt þykir, að afleiðing 10% kauphækkunar nemi 11 vísitölustigum, þegar öll kurl eru komin til grafar. Um þetta er heldur enginn ágreiningur, og man ég ekki betur en að hv. 5. landsk. þm., sem er í stjórnarandstöðunni, gæfi svipaðar upplýsingar hér í kvöld.

Ríkisútgjöldin hljóta að hækka stórkostlega vegna launahækkana, vísitöluhækkunar og atvinnuleysistrygginga, að ekki sé fleira talið. Í stað skatta- og tollalækkana, sem menn hafa átt víð að búa undanfarið, hljóta að koma skatta- og tollahækkanir. Allt mun þó verða gert, sem unnt er og samtök nást um, til þess að gera sem bezt úr því, sem orðið er, en það væri mikil blekking, ef menn væru leyndir því, að nýtt viðhorf hefur skapazt.

Kommúnistar munu kannske halda, að skattahækkanir, verðhækkanir og annað af slíku tagi, sem fram undan er, verði vatn á þeirra myllu. Til þess er sem sé leikurinn gerður, losa skriðuna, þykjast svo hafa samúð með þeim, sem fyrir henni verða. Þetta er skollaleikur þeirra kommúnista. En þeir hafa nú leikið þetta svo oft, að menn sjá vel, hvað þeir eru að fara. Þess vegna mun hver nýr skattur, hver ný verðhækkun minna menn á þá.

Kommúnistar hafa á hinn bóginn beðið einn sinn versta ósigur í sambandi við það verkfall, sem nú er lokið, að því leyti, að aldrei hefur mönnum verði ljósara en einmitt nú, í hvert öngþveiti forusta þeirra kemur málefnum verkalýðsstéttarinnar. Aldrei hefur það orðið ljósara en nú, hvílíkt tjón það leiðir yfir alþýðu landsins, þegar fjöregg hennar lendir í höndum manna, sem misnota það. Og ofan á aðfarir kommúnista í sjálfum verkalýðssamtökunum bætist, að kommúnistum hefur á undanförnum árum tekizt að einangra verkalýðsstéttina pólitískt til stórtjóns fyrir hana og þjóðina í heild sinni.

Það er orðin þjóðarnauðsyn, að verkalýðsstéttin losi sig við hina kommúnistísku forustu í verkalýðssamtökunum, þar sem hún enn þá er til. Þá er hitt ekki síður aðkallandi, að þeir, sem hafa stutt kommúnista undanfarið, en ekki vilja koma hér á skipan kommúnismans, fylki sér undir merki umbótasinnaðra lýðræðismanna og bæti úr þeirri sundrung alþýðustéttanna, sem kommúnistum hefur tekizt að viðhalda árum saman.

Mér finnst nú sem nærri því hver maður viðurkenni óstjórn kommúnista á málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Ég minnist þess ekki, að ég hafi nokkurn tíma áður orðið var við svo glöggan og almennan skilning á því sem nú, að óstjórn þessi stafi ekki öll af klaufaskap eða fyrirhyggjuleysi, heldur blátt áfram af því, að það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. Hagsmunir verkamanna og kommúnistaflokksins fara ekki saman. Það er ráðningin á gátunni. Það er gott, að þetta skýrist, en það þarf einnig að skýrast fyrir mönnum, að hin pólitíska skemmdarstarfsemi kommúnista á Alþ. og alls staðar annars staðar, hvar sem við verður komið, er ekki síður hættuleg. Hana þarf að lama. Þá rýfst pólitísk einangrun verkalýðsins, og þá nást pólitísk samtök alþýðustéttanna. Þá kemst á samstarf stjórnarvaldanna og alþýðusamtakanna og aukið jafnvægi í þjóðmálum, fyrr ekki til neinnar hlítar.

Það er nú augljóst mál, að nýrra úrræða þarf við í verkalýðsmálum. Framsóknarmenn hafa sterkan áhuga á því að finna nýjar leiðir í þeim málum í samvinnu við verkalýðssamtökin. Munu aðrir ræðumenn af hendi Framsfl. gera grein fyrir ýmsu því, sem þar kemur til greina að dómi framsóknarmanna. En pólitísk einangrun verkalýðsins, sem er honum til tjóns, þjóðinni skaðleg og hættuleg, hverfur ekki fyrr en forustumönnum alþjóðakommúnismans hér á landi verður hnekkt enn rækilegar en orðið er og sundrungaröflum Þjóðvarnar, sem svo kallar sig, hefur verið kennt svo eftirminnilega, að þau gleyma því ekki, að þjóðin þarf á öðru að halda nú en aukinni sundrungu og málefnalausum klofningsflokkum. Þetta verður alþýða landsins að gera hispurslaust og blátt áfram. Verkalýðsstéttirnar geta ekki lengur látið bjóða sér sundrung eina og pólitíska útlegð í eyðimerkurgöngu með kommúnistum. — Góða nótt.