10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (3142)

Almennar stjórnmálaumræður

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Landsmenn hafa nú hlýtt á framsögu flokkanna í þessum umræðum og rúmlega það. Hæstv. ráðherrar hafa rakið hina ýmsu þætti stjórnarstarfanna og greint frá framgangi margra þjóðþrifamála. Hv. stjórnarandstæðingar hafa hins vegar dregið fram gamlar plötur úr pússi sínu.

Alþfl. harmar enn horfna tíma vöruþurrðar, svartamarkaðs og hafta. Og hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, sem ásamt flokksbræðrum sínum fagnaði því, þegar risinn í austri marði undir járnhæl sínum frelsisunnandi smáþjóðir við Eystrasalt og víðar, talaði enn sem fyrr um íslenzk viðhorf á þann hátt, að fullhraustum mönnum slær fyrir brjóst, en viðhefur að öðru leyti slíkan munnsöfnuð, að furðu gegnir um svo dagfarsprúðan mann. En landsmenn eru farnir að sjá í gegnum grímuna. Feigðarför kommúnista niður hjarnið er hafin, formælingar og fláttskaparmál Einars Olgeirssonar fá þar engu um breytt.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar byggist nú sem fyrr að miklu á yfirboðum og vanmáttugum tilraunum að breiða yfir það, sem betur hefur tekizt síðustu missiri. Tekjuafgangur ríkissjóðs í ráðherratíð Eysteins Jónssonar hefur verið þeim sár þyrnir í holdi, og enn í gærkvöld er reynt að gera hann tortryggilegan og fjargviðrast um auknar álögur, þótt vitað sé, að engir nýir tekjustofnar hafa verið á lagðir, en beinir skattar lækkaðir. Alþingi afgreiddi í gær lög um ráðstöfun tekjuafgangsins 1954, en hann nemur um 35 millj. og verður varið sem þar hermir: Til ræktunarsjóðs 8 millj., fiskveiðasjóðs 8 millj., lán til veðdeildar Búnaðarbanka 4 millj., til útrýmingar heilsuspillandi íbúða 3 millj., uppbætur á sparifé 11/2 millj., brúasjóður, til endurbyggingar gamalla stórbrúa, 11/2 millj., til skólabygginga og hafnarbóta 3 millj. og til væntanlegra atvinnuleysistrygginga 6 millj. kr. Til viðlíka mála hefur tekjuafgangurinn runnið undanfarin ár, og hver er sá, sem harmar, að fé var fyrir hendi til þessara hluta?

Stjórnarandstæðingar segja, að ríkisstj. eyði landsbyggðina, en smali fólki til vinnu á flugvöllinn. Hvað er svo hið rétta í málinu? Jú, enn sem fyrr leitar fólk til höfuðstaðarins og nágrennis, en þar kemur fleira til en varnarframkvæmdir. Ég nefni það eitt, að samtímis því sem fiskigengd hraðvex við Suður- og Suðvesturland vegna áhrifa landhelginnar og vinna í landi við hagnýtingu aflans margfaldast við það, að ísfisksölur stöðvast, samtímis þessu hverfur síldin frá Norður- og Austurlandi og viðvarandi aflabrestur á þorskveiðum háir útgerðinni á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Það sýnir nokkuð, hversu föstum fótum þeir standa í framleiðslulífi þjóðarinnar eða hitt heldur, sem geta gleymt svona hlutum, þegar þessi mál ber á góma. Hvað hefur svo ríkisstj. gert í þessu sambandi? Jú, jafnvægisnefnd er til, skipuð vitrum mönnum og vöskum, þó að enn sé of snemmt að dæma störf hennar. Og það má líka hiklaust segja, að einn snarasti þátturinn í störfum ríkisstj. er einmitt sá að beina fjármagni til framleiðsluaukningar og framkvæmda úti á landi.

Tíminn leyfir ekki að fara langt út í þessa sálma. Stjórnarandstæðingar vilja gera lítið úr gagnsemi atvinnuaukningarfjárins svokallaða, og víst er, að þeirrar fjárhæðar sæi lítinn stað, ef henni hefði verið varið til snjómoksturs eða annarrar atvinnubótavinnu í gömlum stíl. Og þó að hér sé um margar milljónir að tefla, já, milljónatugi, hefðu þær hrokkið skammt til að stofnsetja ríkisrekstrarfyrirtæki til framfærslu fólksins úti á landi. En einmitt vegna þess, hvernig fénu hefur verið ráðstafað til stuðnings framtaki áhugamanna í hinum ýmsu byggðarlögum, — einmitt vegna þess hefur það stórmikla þýðingu fyrir vöxt þeirra og viðgang. Þetta skiljum við úti á landi, þar sem nálega hver maður stendur tveim fótum mitt í önn framleiðslunnar.

Hv. þm. Bergur Sigurbjörnsson reyndi áðan að vekja tortryggni bænda út af vaxtahækkun hjá sjóðum Búnaðarbankans. Hæstv. landbrh. rakti ljóslega í ræðu sinni í gær ástæður sjóðanna, hversu þeir áttu fyrir sér að tærast upp vegna gífurlegs vaxta- og greiðsluhalla, ef ekki var að gert. En þrátt fyrir vaxtahækkun og aukin framlög úr ríkissjóði standa sjóðirnir höllum fæti að þessu leyti. Þetta eru óvefengjanlegar staðreyndir. Hitt er svo eðlilegt, að samhliða því að draga fram óhagræði vaxtahækkunarinnar sé einnig litið á aðrar aðgerðir stjórnarvalda varðandi landbúnaðinn, svo sem margföldun útlána úr byggingar- og ræktunarsjóði, ný stórfelld fjárframlög til ræktunarsambanda og viðtækar breytingar jarðræktarlaga til hækkunar á þýðingarmiklum liðum, svo að eitthvað sé nefnt. Nart hv. stjórnarandstæðinga út af vaxtahækkuninni fellur um sjálft sig, þegar málin eru skoðuð í heild. En það er dágott sýnishorn af málflutningi þeirra yfirleitt.

Fulltrúar Þjóðvfl. fara geyst í umræðum, svo að ætla mætti, að þeir ættu nokkuð undir sér. Það er því ekki úr vegi að skoða ögn þeirra eigin afrekaskrá. Viðbrögð þingfulltrúanna tveggja í hinu pólitíska umkomuleysi í þingsölunum eru stundum smáskrýtin, en jafnan gersneydd þeim þrótti og ljóma, sem ætla mætti að einkenndi æskuár eins stjórnmálaflokks. Skyldleikinn við ástæður þess manns, sem gripur síðasta hálmstráið, leynir sér ekki. Hér er fálmað eftir flotholti. Ég nefni örfá dæmi, tekin af handahófi út þingskjölum. Brotajárnið var þeim hendi næst, svo óvænlegt sem það nú virðist til að fleyta einu né neinu. Um þetta stórmál flutti flokkurinn samtímis þáltill. og lagafrv. í þingbyrjun. En þegar að var gætt, skorti hér allan grundvöll að dómi kunnáttumanna. Þáltill. fékk því kurteislega frávísun og frv. væran svefn í nefnd. Þjóðvarnarmenn hafa flutt frv. um verðlagsmál og gumað af því í umr. hér í gær. Þar er m.a. lagt til að gefa einu stéttarsambandi fullt vald og jafnvel skyldu til að ákveða hámarksverð á nálega öllum vörum og þjónustu, sem ekki lýtur sérstökum lögum. Enginn hefur séð sér fært að ljá málinu liðsinni í þessu formi. Frv. þetta átti að stuðla að verðlækkun, en samtímis flutningi þess einbeitti flokkurinn sér gegn frjálsum brunatryggingum og gegn því, að Reykvíkingar fengju notið þeirrar iðgjaldalækkunar, sem eðlileg samkeppni tryggingarfélaganna bauð þeim. Slíkur var verðlækkunaráhuginn, þegar á reyndi. Kannske varð reisn hins nýja þingflokks aldrei minni en þá, er hann flutti sitt fræga vantraust á hálfan ráðherra, á 1/12 hluta þeirrar ríkisstj., er hann berst gegn, en slíkrar eindæma stórmennsku finnast ekki nokkur dæmi í þingsögunni fyrr né síðar. En eitt sinn átti þó að sigla hátt. Hv. þingmenn, Gils og Bergur, fluttu till. til þál. um stuðning Íslands við fjórveldaráðstefnu. Skyldi ríkisstj. Íslands falið að hlutast til um, að Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Rússland efni þegar í stað til ráðstefnu sín á meðal um tiltekið efni. „Það er ófátt, sem mínu elskulega hjarta getur dottið í hug,“ sagði bróðirinn Júst um skjólstæðing sinn, Ólaf Kárason Ljósvíking. En það er ekki laust við, að Þjóðvfl. minni stundum á þá sérstæðu sögupersónu Kiljans, hinn guðs volaða Ljósvíking.

Þetta voru örfá sýnishorn af málatilbúnaði þjóðvarnarmanna á Alþingi. Þau skýra mætavel undirrót þess ákvæðis í frv. þeirra sjálfra um breytingar á kosningalögunum, að nöfnum meðmælenda skuli haldið leyndum. Það hefur þótt eðlileg varasemi að leyfa engum að keppa um þingsæti, nema tiltekinn fjöldi kjósenda leggi þar við nafn sitt. Þetta á m.a. að hindra óhlutvanda menn í því að hafa kosningar að fíflskaparmálum og rýrir í engu gildi leyndarinnar á kjördegi. En það er skiljanlegt, að þjóðvarnarmenn óttist, að fólk verði ofur lítið feimið við það í framtiðinni að binda nöfn sín við bjástur af því tagi, sem hér hefur verið lýst.

Það er hvarvetna reynsla lýðræðisþjóða, að mikill fjöldi stjórnmálaflokka sé til ills eins. Sums staðar hefur flokkamergðin valdið miklum þrengingum. Þegar sjatna tóku deilur okkar við Dani, hófust þrír landsmálaflokkar á Íslandi um stefnu samvinnu, samkeppni og þjóðnýtingar. Þetta var eðlileg þróun. Síðar efldust kommúnistar til áhrifa í íslenzkum stjórnmálum. Tildrög þess verða eigi rakin hér, en afleiðingarnar eru augljósar. Með pólítískum klofningi verkalýðsins hefur sú fjölmenna stétt orðið meira og minna óvirk í stjórnmálunum. Þetta er óheillaþróun. Sex vikna verkfall er nýafstaðið með stórfelldri sóun verðmæta. Verkalýðssamtökin hefðu vissulega haldið á þeim málum á annan veg, ef þau hefðu verið óháð kommúnistum og ef stjórnmálasamtök verkamanna hefðu átt hlut að ríkisstjórn á sama tíma. Stofnun Þjóðvarnarflokksins er ekki spor í rétta átt, heldur hið gagnstæða. Hún sundrar, en sameinar ekki, og er ferð án fyrirheits, sem enda hlýtur í algerri erindisleysu, nema hún kynni að geta orðið íhaldinu að liði í kosningum hér og þar.

Hv. stjórnarandstæðingar deila á Framsfl. fyrir samstarf við íhaldið. En þeir mega vara sig. Barátta stjórnarandstöðunnar síðustu missiri hefur verið neikvæð í hæsta máta. Hin neikvæða afstaða er íslenzku þjóðinni lítt að skapi. Það hefur aldrei þótt björgulegt að koma úr róðri með öngulinn í rassinum. Og það er enginn öfundsverður að mæta fyrir umbjóðendum sínum með pólitískt brotajárn af því tagi, sem þjóðvarnarmenn reiða nú heim með sér af þingi.

Framsfl. gengur til stjórnarmyndunar, þegar nauðsyn krefur, þegar hann telur að rétt stefni skútan í höfuðdráttum og að tryggður sé framgangur viðhlítandi margra stórmála þeirra, er hann ber fyrir brjósti. Hitt gefur auga leið, að í samstarfi tveggja ólíkra flokka verða þau mál mörg, er eigi ljúkast og bíða hljóta betri tíma. Í núverandi ríkisstj. fer Framsfl. með fjármál, utanríkismál, landbúnaðarmál, raforkumál félagsmál o.fl. Og hver er árangurinn af stjórnarsamstarfinu? Hallalaus ríkisbúskapur án nýrra tekjustofna. Stórbætt ástand í varnarmálum. Meiri framfarir í raforku og stóriðnaði en nokkru sinni fyrr og framhald stórframkvæmda tryggt. Milljónatugum hefur verið beint til landbúnaðar og útgerðar til uppbyggingar þessara framleiðslugreina. Húsbyggingar við sjó og í sveit fá stóraukna fyrirgreiðslu, og grundvöllur er lagður að raunhæfri framtíðarlausn. Ekki má hætta við hálfnað verk, og framundan bíða æ stærri verkefni óhreyfð.

Framsfl. heldur baráttunni áfram, en málefni og aðstæður ráða því, hvort hann stendur að ríkisstjórn og hverjir verða samstarfsaðilar. En það fólk, sem í sannleika vill umbætur og framfarir í þjóðfélaginu, það á ekki að sóa orku sinni í myndun smáflokka. Og það þarf þess ekki.