10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (3143)

Almennar stjórnmálaumræður

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Forsætisráðherrann ræddi í gærkvöld allmikið um vinstri stjórn. Sama gerðu þeir fjármálaráðherra og Einar Olgeirsson. Í kvöld hafa svo til allir ræðumenn, bæði dómsmrh. hæstv. og þm. Str., rætt um sama efni. Hæstv. forsrh. reyndi að bregða á glens í ræðu sinni, en það leyndi sér ekki, að honum var ekki jafnlétt í skapi og hann vildi láta lita út fyrir. Hann bar sig karlmannlega, fullyrti, að stjórn verkamanna og bænda væri hugarfóstur eitt. Það byggði hann á því, að Þjóðvfl. vildi engan hlut eiga að slíkri stjórn. Kallaði hann allt skraf Framsfl. um hana veiðibrellu eina. Einnig fullyrti hann, að kommúnistar mundu að sjálfsögðu sækja það fast að taka þátt í slíkri stjórn eins og reyndar öllum stjórnum og af sömu heilindum, þ.e. til þess að spilla fyrir stjórnarmyndun, gera stjórninni allt það ógagn, sem unnt væri. Það leyndi sér því ekki, hvar hæstv. ráðh. helzt vænti sér og sínum flokki liðstyrks til þess að sundra röðum andstæðinga íhaldsflokksins og koma í veg fyrir myndun frjálslyndrar umbótastjórnar.

Um Framsfl. sagði hann, að hann mundi kunna vel við sig í stjórnarsænginni og ekki hyggja á neinar breytingar. Það væri Hermann einn, þ.e.a.s. hv. þm. Str., sem einhver órói væri í og vildi nú skipta um sæng. Samt var það augljóst mál, að hæstv. forsrh. var alls ekki rótt. Hann fór að lýsa því, hvílíkt skaðræði slík stjórn mundi verða fyrir þjóðina, og dómsmrh. kom honum til aðstoðar nú nýlega, eins og áheyrendur hafa heyrt. Forsrh. líkti slíkri stjórn við kúabólu og rauða hunda, sem hann kvað hafa verið hinar verstu plágur, sem gengið hefðu yfir þjóðina. Í þessu sambandi þykir mér rétt að fræða hæstv. ráðh. um það, að kúabóla og rauðir hundar eru hér ekki lengur neinn þjóðarvoði, ekki lengur taldar hættulegar þeim þjóðum, sem komið hafa félagsmálum sínum í sæmilegt horf. Þar sem almenningur býr við sómasamleg lífskjör og heilbrigðismál og hreinlæti er á svipuðu stigi og hér hjá okkur, stendur ekki lengur nein ógn af þessum sóttum.

Nú er það annar sjúkdómur, krabbameinið, sem hægt og hægt læsir síg um allan líkamann frá dulinni meinsemd á einum stað og er ægilegasti voðinn og flestum tortímir og verður að fjörtjóni. Fjárhags- og atvinnulíf þjóðarinnar er sjúkt samkvæmt lýsingu hæstv. forsrh. sjálfs, helsjúkt. Meinsemdin er gróðastefna ríkisstj., stefna hennar í viðskipta- og fjármálum, sem skapar auðstéttum óþarflegan gróða á tapi framleiðslustéttanna. Þar er það krabbamein, sem stig af stigi sýkir þjóðarlíkamann og veikir viðnámsþrótt hans. Af þessum sökum tel ég það fyllstu nauðsyn, þjóðarnauðsyn, að breytt verði um stjórnarhætti og mynduð ný stjórn.

Íhaldsflokkurinn hefur að baki sér aðeins 38% af kjósendum samkvæmt síðustu alþingiskosningum. Hinir eru nálega 3/5 hlutar. Samt sem áður er það íhaldsflokkurinn, sem mestu ræður og markar stefnuna. Þar er rót meinsins. Ef unnt væri að sameina nægilega marga af þeim, sem virða lýðræði og telja sig andstæðinga íhaldsins, væru völd þess og áhrif að engu gerð. Beztu stuðningsmenn íhaldsins á undanförnum árum hafa jafnan reynzt vera kommúnistarnir og nú síðast Þjóðvfl. Með því að sundra og dreifa kröftum íhaldsandstæðinga hafa þeir komið í veg fyrir, að nægilegt þingfylgi væri fyrir hendi til þess að mynda stjórn verkamanna og bænda, eins og Alþfl. og Framsfl. gerðu árið 1934.

Um svokallaða vinstri stjórn vil ég segja þetta: Slík stjórn verður ekki mynduð fyrir atbeina eða aðgerðir Alþýðusambands Íslands, sem er stéttarfélag verkalýðsfélaga, sem í eru menn af öllum pólitískum flokkum. Það er hlutverk Alþ., það er hlutverk kjósenda landsins og stjórnmálaflokkanna og alþm. að ráða því, segja til um það, hverjir mynda stjórn, hverjir sitji við stjórn á Íslandi á hverjum tíma.

Ég tel það þjóðarnauðsyn, eins og ég áðan sagði, að mynduð verði ný ríkisstj., mynduð af þeim mönnum, sem eru í raun og veru fulltrúar verkamanna og bænda, og að sú stjórn marki stefnu sína þannig, að verkalýðurinn, launastéttirnar og fólkið í sveitum landsins ljái henni stuðning og treysti henni, — stjórn, sem hefur það markmið að festa verðgildi íslenzkrar krónu og tryggja undirstöðu atvinnulífsins, stjórn, sem vinnur að réttlátari skiptingu þjóðarteknanna en nú er, stjórn, sem vinnur að því að afstýra vinnustöðvunum í stað þess að egna til þeirra, stjórn, sem stefnir að umbótum og framförum og félagslegu öryggi.

Slíka stjórn er ekki hægt að mynda með nægilegu þingfylgi án Framsfl. Það er augljóst mál. Hún verður þess vegna ekki mynduð í náinni framtíð, nema Framsfl. breyti um stefnu, segi skilið við íhaldið og taki upp samvinnu við Alþfl. á svipuðum grundveili og gert var 1934.

Vegna klofningsstarfsemi kommúnista og Þjóðvfl. er þó þetta ekki nóg. Alþfl. og Framsfl. hafa ekki nægan liðstyrk á Alþingi nú til þess einir að mynda stjórn, ekki nægilegt kjörfylgi við síðustu kosningar. Fáist hins vegar Þjóðvfl. eða þeir, sem hann hafa stutt við kosningar, til þess að hverfa frá villu síns vegar, hætta að styðja íhaldið með klofningsframboðum og ganga til samstarfs við Alþfl. og Framsfl., þá horfir stórum vænlegar um þingfylgið.

Vilji Framsfl. í raun og veru slíta samstarfinu við íhaldsflokkinn og taka upp samstarf við Alþfl. með svípuðum hætti og 1934–37, og ef það er rétt, sem í stefnuskrá Þjóðvfl. segir um innanlandsmál, ætti að vera hægt að finna grundvöll fyrir samstarfi þessara flokka.

Væri svo komið, eiga þeir, sem til þessa hafa kosið kommúnistaflokkinn, um tvennt að velja: Annað að segja sig úr lögum við þennan ílokk og styðja lýðræðissinnaða andstæðinga íhaldsins og ganga í samfylkingu með þeim gegn íhaldsflokknum. Hitt er að halda áfram að styrkja íhaldið með áframhaldandi klofningsstarfsemi og einangra sjálfa sig þannig frá pólitískum áhrifum.

Ég segi með ráðnum hug: kjósendur kommúnistaflokksins, en ekki kommúnistar, því að mér er vel kunnugt um, að ýmsir þeir, sem fylgt hafa kommúnistum að málum og léð þeim atkvæði sín, eru ekki kommúnistar, eiga ekki heima í þeim flokki og hafa mesta ógeð og fyrirlitningu á undirlægjuhætti kommúnistaflokksins og skilyrðislausri hlýðnisafstöðu hans við erlent stórveldi, sem gleggst hefur komið fram í afstöðu flokksins til utanríkismálanna.

Það eru þessir menn, sem verða að gera það upp við sjálfa sig, hvort þeir vilja halda áfram að styrkja og styðja íhaldið með því að sundra kröftunum eða taka upp lýðræðislega baráttu gegn íhaldinu og segja skilið við kommúnistaflokkinn og Moskvalínuna að fullu og öllu.

Kommúnistar geta ekki verið þátttakendur eða stuðningsmenn í lýðræðisstjórn, svo að vel fari. Það hefur reynslan sýnt hvarvetna, einnig hér. Þeir, sem hvetja til samstarfs við kommúnista um stjórnarmyndun, vinna því óhappaverk. Þeir vinna gegn því, að slík stjórn komist á og hún geti lifað og starfað fólkinu til gagns. Umbætur, framfarir og friðsamleg þróun er eitur í beinum sannra kommúnista. Friðsamleg þróun sljóvgar byltingaráhugann, en hann telja þeir hið eina sanna hjálpræði.

Það er einnig vitað, að allmargir verkamenn og bændur, sem enga samstöðu eiga með þeim, sem ráða íhaldsflokknum og hafa gert hann að sínu einkafyrirtæki, hafa fylgt íhaldinu að málum til þessa og kosið frambjóðendur flokksins. Mér þykir næsta ótrúlegt, að þessir menn geti haldið áfram að kjósa íhaldsflokkinn og fela honum forustu í þjóðmálum eftir framkomu flokksins og ráðamanna hans í sambandi við nýafstaðna vinnudeilu. Ég get ekki skilið orð hæstv. forsrh., Ólafs Thors, í gærkvöld annan veg en þann, að hann vildi fullvissa áheyrendur um, að það væri víst, að krónan mundi smækka svo með eða án nýrrar gengisskráningar, eins og hann orðaði það, að kauphækkun sú, sem fékkst við lok vinnudeilunnar, yrði engin, alls engin, yrði að engu gerð.

Til hvers er þá barizt? Þess spyr ég þá menn, sem þátt tóku í verkfallinu og stutt hafa Sjálfstfl. Hvort orð forsrh. eru kölluð hótun eða nefnd öðru nafni, skiptir ekki máli. Niðurstaðan verður hin sama, ef spásögn hæstv. forsrh. rætist, og það gerir hún meðan hann heldur völdum, meðan hann ræður.

Hvað segja þeir sjálfstæðisverkamenn, sem nú hafa fengið 10% kauphækkun, um þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh.? Ef þeir sjá og skilja sína stéttaraðstöðu, jafnvel þótt þeir aðeins líti á sinn eigin hag, þá virðist mér, að svarið geti aðeins orðið á einn veg. Þeir hætta að kjósa íhaldsflokkinn, skipa sér í raðir andstæðinga hans, styrkja Alþfl.

Af þeim ástæðum, sem ég nú hef greint, hefur miðstjórn Alþfl. ákveðið að beita sér fyrir því, að viðræður verði hafnar um möguleika á að koma á samstarfi lýðræðissinnaðra andstæðinga íhaldsflokksins um myndun nýrrar ríkisstj., — stjórnar, sem fulltrúar starfandi fólks við sjó og í sveitum skipa, þ.e.a.s. fulltrúar launþega og bænda. Slík stjórnarmyndun þarf undirbúning. Það er ekki nóg að velja ráðh. og senda þá í stjórnarráðshúsið og Arnarhvol. Fyrst þarf að koma sér saman um málefnin, ná samkomulagi um starfsgrundvöll slíkrar stjórnar og tilhögun samstarfsins, líkt og gert var árið 1934. Að þessu vill Alþfl. vinna af heilum hug. Þess vegna skipaði hann sérstaka nefnd þegar í byrjun febrúar til þess að vinna að þessu máli. Eftir að áramótagrein formanns Framsfl. hafði birzt og með hliðsjón af yfirlýsingu hans við vantraustsumræðurnar taldi Alþfl. tilefni gefið til þess að hefja viðræður um þetta efni. Framtíðin verður svo að skera úr um það, hver árangurinn verður. Alþfl. hefur stigið fyrsta skrefið.

Mér hefur þótt rétt að verja svo miklum tíma til þess að gera grein fyrir afstöðu Alþfl. til myndunar svokallaðrar vinstri stjórnar vegna hins mikla umtals um þetta efni, bæði hér á Alþ. og meðal fólks um allt land, alþýðuflokksfólks og fjölmargra þeirra, sem fylgt hafa öðrum flokkum.

Ég hef reynt að segja skýrt og greinilega, hvað fyrir mér vakir í þessu efni, án tæpitungu. Þegar um svo mikilsvert mál er að ræða, eiga landsmenn heimtingu á að vita, hver er afstaða stjórnmálaflokkanna og hvers einstaks þingmanns.

Þá kemur sú spurning: Er nokkur ástæða til stjórnarskipta? Er ekki núverandi ríkisstjórn framfarasinnuð umbótastjórn? Eru ekki atvinnuvegirnir á traustum grundvelli? Er ekki þjóðartekjunum réttlátlega skipt?

Ég mun nú víkja nokkuð að þessu. Þeir, sem hlýddu með athygli á ræðu forsrh. og félmrh. í gærkvöld, munu hafa fengið staðfestingu á því, sem ég oftlega hef haldið fram hér á Alþ. og einnig í útvarpsumræðum. Ræður hæstv. ráðh. voru á þá leið, að Steingrímur Steinþórsson taldi upp allt það, sem gert hefði verið fyrir landbúnaðinn, aukin framlög til byggingarsjóðs, aukin framlög til ræktunarsjóðs, aukin framlög til veðdeildar Búnaðarbankans, aukin framlög til jarðræktar, rafvæðingu sveitanna o.fl., o.fl.

Upptalningin var ekki alveg jafnlöng hjá hæstv. forsrh., Ólafi Thors. Hann lagði áherzlu á, að stjórnin hefði afnumið höft og hömlur og innleitt frjálsa verzlun. Hann nefndi að þessu sinni ekki neitt, að hún hefði bjargað sjávarútveginum, hann vildi ekki gera það skop að sjálfum sér nú. Hann talaði ekkert um blessun og bjargráð gengislækkunarinnar, heldur varaði í orði kveðnu við slíku sem þjóðhættulegu.

Hvorugur þessi hæstv. ráðh. nefndi með einu orði félagslegar umbætur eða aðgerðir ríkisstj. í þessu efni, er frá var talið það, sem þeir sögðu um húsnæðisfrv. það, sem afgreitt var hér á þinginu í dag og ég ætla jafnvel, ef tími er til, að drepa nokkuð á síðar.

Þessi ummæli hæstv. ráðh. sönnuðu það, sem ég hef haldið fram áður, að samvinna þessara tveggja flokka byggist á — jafnvirðiskaupastefnunni, held ég, að það heiti á verzlunarmáli, á ófínu máli hrossakaupum, eins konar helmingaskiptum, þ.e.a.s. Framsfl. fellst á það, að Sjálfstfl. og íhaldsmenn skuli fá fullkomlega frjálsar hendur í viðskiptamálum og fjármálum. Hins vegar fellst íhaldsflokkurinn á það, að framlög til sveitanna skuli aukin og meira fé veitt þangað en áður var gert. Þetta er jafnvirðiskaupastefna. Af þessu leiðir það, að fjármál og viðskipta- og launamálin eru í höndum íhaldsflokksins. Fjárhagsmálefni þjóðarinnar, sem um leið eru líftaug atvinnuveganna, eru í þeirra höndum og yfirráðin yfir bönkunum, þótt svo heiti, að framsóknarmaður í orði kveðnu hafi lykilinn að ríkissjóði og innheimti tekjur hans, sem ekki er vinsælt verk.

Þá má ekki gleyma því, að afkoma ríkissjóðs segir ekki til um afkomu þjóðarinnar í heild. Afkoma ríkissjóðs er aðeins einn þáttur þjóðarbúskaparins, ekki sá veigamesti, þó að fjárlögin séu há. Þjóðin getur tapað og fjárhagur hennar verið á heljarþröm, þó að ríkissjóður innheimti 100 millj. kr. á ári umfram fjárlög. Einmitt hin hlífðarlausa skattpíning ríkissjóðsins á stórmikinn þátt í fjárhagsörðugleikum atvinnuveganna og alls almennings í landinu, eins og glögglega hefur verið sýnt fram á af samflokksmönnum mínum fyrr í þessum umr.

Með gengislækkuninni 1950 var í raun réttri eignum landsmanna skipt upp að nýju. Þá var ekki mikið verið að hugsa um friðhelgi eignarréttarins. Fasteignaeigendur fengu eignir sínar tvöfaldaðar í verði. Skuldakóngar bankanna fengu skuldir sínar lækkaðar um helming með skjótum hætti. Tugþúsundir alþýðufólks, sem lagt hafði sparifé sitt í bankana, séð þeim þannig fyrir starfsfé og hugðist að safna sér til elliáranna eða til þess að reisa bú og eignast þak yfir höfuðið, urðu að horfa á það án þess að fá rönd við reist, að verðmæti sparifjárins var lækkað með hverjum mánuði. Og þessi töp þeirra sköpuðu gróða fjáraflamanna og skuldakónga. Það, sem af sparifjáreigendunum var tekið, var flutt í hinna vasa. Samhliða gengislækkuninni og í kjölfar hennar voru svo gerðar ráðstafanir til þess að leggja í rúst þær varnir, sem áður höfðu verið reistar gegn ágengni fjármálamanna á pyngju almennings, og allar varnir gegn vexti dýrtíðarinnar. Verðlagseftirlit og hámarksálagning var þegar afnumið, húsaleigulögin og eftirlit með húsaleigu að engu gert, vinnumiðlun lögð niður, vextir hækkaðir, bönkum lokað fyrir þeim, sem leituðu byggingarlána. Svarti markaðurinn var þar með löggiltur, lánastarfsemi okraranna stóraukin og gróðamöguleikar þeirra, eins og nú þegar er viðurkennt af Alþ. sjálfu með skipun okurnefndarinnar nýlega. Engar ráðstafanir voru gerðar til þess að festa eða tryggja hið nýja gengi, engir varasjóðir myndaðir til að mæta sveiflum og festa hið nýja gengi. Þvert á móti, lán var tekið til að auka innflutninginn, feiknum af óþörfum varningi var hrúgað inn í landið; á þeim varningi var mest að græða. Byggingarefnið var skammtað, jafnvel torfengin lóðaréttindi voru gerð að brask- og gróðavöru.

Því fór sem fór. Gengislækkunin kom að engu haldi. Þeir, sem átti að bjarga, útvegsmenn, voru jafnilla settir eftir sem áður. Verðhækkun útflutningsvörunnar var étin upp af verðhækkunum innanlands og auknum framleiðslukostnaði.

Þá var gripið til bátagjaldeyrisins, nýrrar gengislækkunar, og loks til bílaskattsins, sem nú er fjárhagsgrundvöllur togaraútgerðarinnar, eins og kunnugt er.

Þetta er nú traustleiki atvinnuveganna í dag. Svipað var hlutskipti verkafólks og annarra launþega af hálfu hæstv. ríkisstj. Hver kauphækkun varð fljótlega að engu í flóði vaxandi dýrtíðar, sem framfærsluvísitalan, því miður, er ekki fullkomlega réttur mælikvarði á. Ríkisstjórninni nægði ekki að gera nýja skiptingu á eignum landsmanna, einnig tekjuskiptingunni var breytt. Hlutur verkafólks og launastétta af þjóðartekjunum var lækkaður til þess að auka hlut milliliða, gróðafélaganna. Jafnframt þessu var svo, eins og ég fyrr sagði, stöðvuð þróun félagslegra framkvæmda, sem gerðar höfðu verið til þess að tryggja hag almennings og eðlilega aukningu atvinnumöguleika og framkvæmda, ekki aðeins hér við Faxaflóa, heldur um landið allt.

Á árunum 1928–48 mátti heita stöðug framþróun í félagsmálum á Alþ. Þá var sett löggjöf um kosningarrétt fátæklinga, afnám fátækraflutninga, lágmarkshvíld á togurum, byggingu verkamannabústaða, byggingarsjóði sveitanna, ný lög um réttindi sjómanna, um iðnnám, um skipulega afurðasölu bænda og útgerðarmanna, um orlof, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, um alþýðutryggingar, um almannatryggingar, um verðlagseftirlit, vinnumiðlun, húsaleigueftirlit o.s.frv. Í þessum efnum fylgdum við á þessum árum fordæmi nágrannaþjóða okkar, ýmist urðum þeim samferða eða jafnvei í stöku atriðum heldur á undan. Kjörum launastéttanna þokaði stöðugt í rétta átt. Raunverulegt kaupgildi launanna fór hækkandi. Stundum kostaði þetta átök. Oft tókst þetta þó með samningum án langra vinnustöðvana.

Þessi þróun var stöðvuð árið 1950, þegar framsóknarmenn og íhaldsmenn tóku sameiginlega stjórnartaumana í sínar hendur og áhrif Alþfl. á löggjöf og stjórnarframkvæmdir voru með því að engu gerð. Síðan hefur svo að segja hver till., sem fram hefur verið borin til umbóta á sviði félagsmála, verið svæfð eða drepin. Síðan 1950 hefur Alþfl. borið fram ár eftir ár frv. og till. í þessa átt. Ég skal nefna lengingu hvíldartíma á togurum upp í 12 stundir, þ.e.a.s. fjórskiptar vaktir; hækkun orlofs úr 15 og upp í 18 virka daga eða orlofsfjárins úr 5% upp í 6%; sömu laun fyrir sömu vinnuafköst, hvort sem konur eða karlar áttu hlut að máli; aukin framlög til verkamannabústaða, togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar; að ríkið sjálft annist sölu á olíum, sem það kaupir til landsins, en láti ekki olíufélögin græða á henni; að reynt verði að koma fram verðlækkunum og takmarka gróða milliliða og álagningu þeirra með frjálsu samkomulagi, ef unnt er, en ef sú leið ekki reynist fær, þá með löggjöf um verðlagseftirlit, hámarksálagningu á vörum og þjónustu og ákveðnu hámarksverði. Enn fremur höfum við flutt hvað eftir annað till. um stofnun atvinnumálastofnunar ríkisins og um atvinnuleysistryggingar, án árangurs. Allar þessar till. hefur hæstv. ríkisstj. eða hennar stuðningsmenn annaðhvort svæft eða drepið.

Eina frv. á sviði félagsmála, sem fram hefur gengið, er húsnæðismálafrv. ríkisstj., sem nefnt var hérna áðan. En um það er það að segja, að það kemur fyrst og fremst eða kannske eingöngu að notum þeim stéttum manna og mönnum, sem eru svo efnum búnir, að þeir geta annaðhvort lagt fram yfir 100 þús. kr. af eigin fé, vaxtalaust, til að eignast íbúð eða eru færir um að greiða yfir 2 þús. kr. á mánuði í húsaleigu, og er þá ljóst, að það er minni hluti þjóðarinnar, sá sem sízt þarf hjálpar við, sem mest not hefur af þessum nýju lögum.

Afleiðing þessara stjórnarhátta hefur svo að vonum orðið sú, því miður, að verkalýðurinn hefur neyðzt til að reyna aðrar leiðir en gegnum Alþ., löggjafarsamkomuna, til þess að koma fram ekki aðeins lagfæringum á kaupi, heldur einnig öðrum félagslegum umbótum.

Á síðustu 30 mánuðum hafa þrjár umfangsmiklar vinnudeilur verið leystar með umbótum á félagsmálalöggjöfinni, með því að auka við almannatryggingarnar. Fyrst er vinnudeilan í desember 1952. Þá tókst eftir 3 vikur að ná samkomulagi um nokkra niðurfærslu á verðlagi og auknar tryggingar til barna og einstæðra mæðra. Snemma á árinu 1954 var kaupdeila sjómanna og útgerðarmanna leyst með því, auk nokkurrar hækkunar á fiskverði, að hækka dánarbætur til eftirlifandi vandamanna sjómanna, einkum ekknanna, mjög verulega. Og nú 1955 er lausn kaupdeilu, sem kostaði 6 vikna vinnustöðvun, fengin með fyrirheiti um löggjöf um atvinnuleysistryggingar, sem þrásinnis, þing eftir þing, hefur verið neitað af ríkisstj. og hennar stuðningsmönnum að taka í mál að leiða í lög.

Eina undantekningin, sem ég veit í vinnudeilum frá þessari reglu, sem ég nefndi, er sú, þegar togaraútgerðarmenn og sjómenn sömdu árið 1954. Sú deila var leyst án lagasetningar. Undirbúningurinn af hálfu þeirra, sem að henni stóðu, sjómannanna, var svo góður, að þeir fengu 30% hækkun og bót á kjörum sínum, án þess að til vinnustöðvunar kæmi. Eitt atriði, sem tekið var upp í þá samninga, var það, að hlutur sjómanna skyldi hækka á þann hátt, að gæðaverðlaun yrðu veitt fyrir meðferð aflans.

Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., Ingólfi Jónssyni, sem hann sagði hér í gær, að það væri aðeins á Ísafirði, sem þessi regla hefði verið tekin upp. Hún var tekin upp í samninganefnd 1954, og það eru sem betur fer ýmsir togarar hér í Reykjavík, sem einnig hafa notið kauphækkunar gegnum gæðaverðlaunin.

Ég sé, að hæstv. forseti gefur. mér auga, svo að ég verð víst að geyma framhaldið.