10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (3145)

Almennar stjórnmálaumræður

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er tvennt, sem hefur víst átt að vera þungamiðjan í þessu eldhúsi af hálfu andstæðinga okkar sjálfstæðismanna, bæði í gærkvöld og í kvöld: Í fyrsta lagi: Núverandi ríkisstj. er óalandi og óferjandi, hefur skipulagt verðbólgu, vaxandi dýrtíð og hallarekstur atvinnuvega, skattpínt þjóðina, sóað fjármunum hennar, spillt verzlunarháttum, brugðizt í húsnæðismálum, ofurselt landið, stofnað vísvitandi til verkfalla, undirbúið eftir amerískri fyrirmynd það allsherjarhrun, sem blasir alls staðar við. Og síðasti ræðumaður sagði, að stjórnin væri nú að eyðileggja saltfisksmarkaði okkar, enda væri hún óþrifnaður á þjóðarlíkamanum, eins og hann komst að orði. Í öðru lagi: Þar sem stjórnin er svo slæm, verður að skipta um stjórn. Og þá hefur manni skilizt, að eina ráðið sé að sameina hin góðu öfl hv. stjórnarandstöðu, sem reyndar er ekki nóg. Til viðhótar verður annar hinna voðalegu stjórnarflokka, Framsfl., að sjá að sér, sem formaður hans, Hermann Jónasson, virðist reiðubúinn til, þegar hið sundraða lið vinstri aflanna er reiðubúið til að safnast undir væng hans. Þá á „renessansinn“ eða endurfæðingin í íslenzkum stjórnmálum að vera fram undan með myndun hinnar margumtöluðu vinstri stjórnar.

Lítum á fyrra atriðið, getsakirnar, sem ríkisstjórn og stuðningsflokkum hennar eru gerðar. Emil Jónsson reið á vaðið og aðrir stjórnarandstæðingar fylgdu á eftir og staðhæfðu, að í tíð stjórnarinnar hefðu Íslendingar sett heimsmet í dýrtíðarhækkun. Vísítalan var 159 stig í septembermánuði 1953, þegar núverandi stjórn tók við. Hún er nú 162 stig í aprílmánuði 1954. Þetta eru staðreyndirnar. Ríkisstj. hefur beitt sér fyrir úrræðum til að sporna við hallarekstri bátaútvegs og togaraútgerðar og andstæðingarnir ekki bent á önnur úrræði, en rekstur atvinnuveganna hefur að öðru leyti verið mjög blómlegur.

Andstæðingarnir segja, að stjórnarsinnar hafi skattpínt þjóðina. Þvert á móti hafa orðið straumhvörf í skattamálum í tíð núverandi stjórnar, eins og bæði forsrh. og fjmrh. minntu á. Er það framhald af ályktun þingsins um endurskoðun skattalaga eftir till. sjálfstæðismanna og var eitt af samningsatriðum við stjórnarmyndunina. Allt að 29% lækkun á beinum sköttum almennings afgreidd á siðasta þingi, skattfrelsi sparifjár lögleitt og spariféð ekki framtalsskylt. 20% lækkun til bráðabirgða á sköttun félaga og atvinnurekstrar, en framhaldslausn í undirbúningi fyrir næsta þing.

Fjármunum hefur verið sóað, allt of mikilla tekna aflað handa ríkissjóði, er sagt. Hreinn greiðsluafgangur ríkissjóðs á s.l. ári, sem er eina heila reikningsár núverandi stjórnar, var 35 millj. kr. Honum er nú ráðstafað eins og Vilhjálmur Hjálmarsson gerði grein fyrir hér áðan. Eru aðalatriðin þannig, að varið er 8 millj. til ræktunarsjóðs, 8 millj. til fiskveiðasjóðs, 4 millj. til veðdeildar Búnaðarbankans, 3 millj. til útrýmingar heilsuspillandi íbúða á árinu 1955, og 6 millj. eru lagðar til hliðar upp í framlag ríkisins til atvinnuleysistrygginga. Af þessu mega menn sjá sóun fjármunanna.

Hefur stjórnin spillt verzlunarháttunum, eins og sagt hefur verið ? Það ætti þá að felast í því að halda áfram þeirri stefnu að gefa verzlunina frjálsa, sbr. lög frá síðasta þingi um skipan innflutnings-, gjaldeyris- og fjárfestingarmála, – eða felst það kannske í því að hafa ekki innleitt aftur vöruskömmtunarkerfi, biðraðir og svartan markað, sem því miður voru ein höfuðeinkenni fyrstu stjórnar Alþfl. á Íslandi í verzlunarmálum? Alþýðan man enn þá tíð. Menn óska ekki afturhvarfs. Enda þótt hámarksverðlag láti vel í munni, er það almennt lítils virði, þegar varan fæst ekki á því verði, en svartur markaður ræður verðmyndun, eða vöruna skortir með öllu. Nægjanlegt vöruframboð með þar af leiðandi samkeppni verður neytandanum hagkvæmast til heilbrigðrar verðmyndunar, ef hann aðeins hirðir sjálfur að hagnýta sér kosti hinna frjálsu viðskipta.

Stjórnarandstæðingar eru ókvæða yfir aðgerðum ríkisstj. og flokka hennar í húsnæðismálunum, hafa meira að segja setið hjá eða greitt atkvæði á móti löggjöf ríkisstj. á þessu þingi um veðlán til íbúðabygginga o.fl. Karl Guðjónsson, síðasti ræðumaður, var einn þeirra, sem greiddu atkvæði á móti löggjöfinni, og hafa hlustendur nú heyrt í honum tóninn. Sannarlega sór þessi hv. þm. sig í ætt við hina neikvæðu niðurrifsstefnu kommúnista. Af hverju stafar andstaðan? Hún er vegna þess, að hér er nýmæli til umbóta, en slíkt er kommúnistum þyrnir í augum. Það eru mér ný sannindi, að það sé verra en ekki að fá 7% lán til 25 ára til íbúðabygginga. Þeim, sem nokkur kynni hafa haft af þessum málum á undanförnum árum, finnast þetta harla einkennileg sannindi, og mega kommúnistar sannarlega verma sig við eldinn af slíkum vísdómi.

Ríkisstjórnin og flokkar hennar byrjuðu á því nokkrum mánuðum eftir að stjórnin var mynduð að afnema fjárhagsráð og innleiða byggingarfrelsi til íbúðabygginga. Á s. l. ári var lánadeild smáíbúða aflað 20 millj. kr. til aukinna útlána. Nú hafa verið samþykkt lög um varanlegar úrbætur, sem ég skal ekki rekja að öðru leyti en því, að í þeim felst margra tuga milljóna króna aukið lánsfé til íbúðabygginga, grundvöllur lagður að varanlegu veðlánakerfi, stuðlað að umbótum í byggingariðnaði og ákveðin opinber framlög til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Afleiðingarnar eru þegar fyrir hendi.

Hið aukna byggingarfrelsi með afnámi fjárhagsráðs varð upphaf nýrra átaka í byggingarmálunum af hálfu framtakssamra og dugmikilla einstaklinga, sem biðu þess með óþreyju að fá óhindraðir að glíma við erfiðleikana. Fjárhagsráð hafði ráðgert fjárfestingu í íbúðabyggingum á árinu 1954 140 millj. kr. Fólkið byggði íbúðir á s. l. ári fyrir 245 millj. kr. Um nýtt lánsfé peningastofnana var þá aðeins að ræða 25 millj. til smáíbúða, sem ég gat um áðan.

Í árslok 1954 voru í byggingu á öllu landinu 2342 íbúðir, og er það langtum meira en nokkru sinni áður. Í Reykjavík einni voru í byggingu 1343 íbúðir 31. marz s. l. Íbúðir, sem lokið var við í Reykjavík á árinu, jukust um 43%, miðað við árið áður, og nærri 80%, miðað við árið 1951.

Það mátti líka heyra á Emil Jónssyni, sem talaði hér í gærkvöld, að honum ofbauð öll þessi framtakssemi, þegar hann sagði orðrétt: „Hin öra fjárfestingarstarfsemi sker úr um stjórnarstefnuna“ — þ. e. a. s. ófarnað hennar, að hans dómi.

Bæjarstjórn Reykjavíkur færði sér í nyt gefin fyrirheit um aukið lánsfé til íbúðabygginga, hófst handa þegar á s. l. ári með víðtækum áformum í trausti þess, sem verða vildi. Nú launar sig sú fyrirhyggja. Skipulagt hefur verið raðhúsahverfi með allt að 200 íbúðum, mest fjögurra herbergja. Fyrstu 45 íbúðirnar eru senn fokheldar, verið að bjóða út til viðbótar 58 íbúðir, einnig undirbúnar framkvæmdir íbúðabygginga í fjölbýlishúsum, fyrst um sinn 48 tveggja og þriggja herbergja íbúðir. Þannig hafa hinar nýju fyrirætlanir í lánsfjármálum gert kleift að hefjast handa um byggingu og undirbúning 150 íbúða af hálfu bæjarstjórnar Rvíkur, sem fyrst og fremst eru miðaðar við að uppfylla þau fyrirheit, að hægt sé að útrýma herskálum á næstu fimm árum og aðstoða aðra, þar sem þörfin er mest aðkallandi. Samkv. áætlun bæjarstjórnar og nýsettri löggjöf ættu að vera til ráðstöfunar hér í Reykjavík á næstu fimm árum til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum allt að 25 millj. kr., framlög ríkis og bæjarsjóðs samanlagt, og kostur lánsfjár í sama skyni allt að 50 millj. kr., eða alls 75 millj. kr. Hér er myndarlega áformað til þeirra framkvæmda, sem einna sárast kalla að, að rifnir verði allir herskálar og heilsusamlegar íbúðir byggðar þeirra í stað.

Ómerkja þessar staðreyndir sleggjudóma margra stjórnarandstæðinga í þessum umræðum, að engin viðleitni sé sýnd til þess að hjálpa hinum efnaminni. Enn fremur fær ekki staðizt það, sem fullyrt hefur verið, að alveg hafi verið skilin eftir byggingarstarfsemi verkamanna. Í 7. gr. hinna nýju lánalaga eru ákvæði um það, að byggingarsjóði verkamanna verði lánað aukið starfsfé úr hinu nýja veðlánakerfi. Mun reynslan skera úr því. En tilgangur þess sjóðs er einmitt að lána þeim lægst launuðu. Þarf að vísu að tryggja betur en verið hefur, að svo sé, því að eftir lánareglum byggingarsjóðs er um að ræða stórkostleg hlunnindi, sem líkja má við beina styrki til þeirra, sem þeirra njóta. Ef ríkissjóður t. d. legði byggingarsjóði 10 millj. kr. og þyrfti að afla þess fjár með 7% vöxtum, og enda þótt það væri til 42 ára, gæti sjóðurinn ekki endurgreitt með sinum lánareglum — 42 ára lán, 2% vextir — nema 48% lánsins og aðeins 62% lánsins með 3½% vöxtum, sem nú eru ákveðnir. Samsvarar þetta því, sem hæstv. landbrh. gerði grein fyrir varðandi vaxtakjör ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs sveitanna.

Á sama tíma sem þessar staðreyndir liggja fyrir, tala svo þingmenn hér í umræðum um það, að af þessum ógurlegu vaxtakjörum, að hækka vextina um 1½%, á sama tíma sem innlánsvextir og útlánsvextir hafa hækkað miklu meira, frá því að þessi ákvörðun var gerð, — þá tala þingmenn um, að af þessu muni stafa héraðsbrestur, ef ekki landsbrestur, eins og hv. þm. Bergur Sigurbjörnsson komst að orði.

Landið hefur verið ofurselt, segja kommúnistar og þjóðvarnarmenn. Hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundssyni, fannst í senn svo friðvænlegt í heiminum og auk þess tilkoma vetnissprengjunnar slík, að af þessum sökum þyrftum og ættum við ekki að vera lengur í varnarbandalagi vestrænna þjóða. Má vera, að friðvænlegar horfi nú en áður. En hverju er það þá að þakka nema einmitt varnarbandalagi hinna vestrænu ríkja, viðbúnaði Atlantshafsbandalagsins? Í þeirri staðreynd er kjarni málsins fólginn. Menn hafa ekki gleymt útþenslu og landvinningum hinna rauðu herja eftir stríðslok, ekki gleymt leppríkjum, sem hvert af öðru urðu bráð kommúnismans, ekki gleymt átökunum í Berlin, loftbrúnni, sem bugaði áform kommúnista. Menn hafa ekki gleymt Kóreustríðinu. Menn muna, hvert stefndi, og vita, að aðeins aukinn styrkur samstilltra ríkja Vesturálfu hindraði áframhaldandi ofríki kommúnismans. Af þessum sökum er ömurlegt hlutskipti manna og flokka eins og Þjóðvfl., því að ef ráðum þeirra hefði verið fylgt hér og í öðrum vestrænum ríkjum, þá hefði kommúnismanum ekki verið veitt viðnám með afleiðingum, sem ég þarf ekki að útskýra fyrir íslenzkum almenningi. Þessu til viðbótar hefur annar þm. Þjóðvfl. hér í kvöld, Bergur Sigurbjörnsson, sýnt innræti sitt og svokallaðs Þjóðvfl. með því að sletta úr klaufunum í garð Eimskipafélags Íslands, aðallega þó með upplestri lélegustu sorpskrifa Tímans fyrir nokkrum árum um þetta fyrirtæki, sem á sínar djúpu rætur í huga íslenzks almennings. Slíkur málflutningur er ekki til annars fallinn en þess eins að skilja eftir soramarkið á þeim, sem beitir honum.

Harmagrát kommúnista yfir því, að landið sé í vestrænu varnarbandalagi og þannig ofurselt, hirði ég ekki að ræða. Þessir menn eru að harma það, að þeim hafi mistekizt þau áform að færa hinum alþjóðlega kommúnisma frelsi landsins á silfurbakka.

Hv. 2. þm. Reykv., sessunautur minn Einar Olgeirsson, sagði í gærkvöld: Einangrun sósíalista er nú rofin. — Jæja, hann hefur þá fundið einangrun sósíalistanna. Það var mikilsverð játning. Hitt er því miður ofskynjun þessa hv. þm., þegar hann er kominn í stemningu hér í ræðustólnum, að sú einangrun sé rofin. Þvert á móti mun vaxa einangrun þessa óþjóðlega og óþjóðholla flokks, og hefur hún aldrei verið meiri en nú í lok nýafstaðins verkfalls.

Þá kem ég að þeirri fullyrðingu, að ríkisstj. hafi stofnað til verkfallsins. Hvað finnst mönnum um slíkan málflutning? Ég hygg, að hann dæmi sig sjálfur. En hæstv. dómsmrh. og fjmrh. hafa annars gert því máli svo góð skil, að ég þarf ekki að eyða í það tíma.

Það var annars broslegt að heyra hv. 4. þm. Reykv., Harald Guðmundsson, halda því fram, að verkamenn ættu að snúa baki við Sjálfstfl., af því að Ólafur Thors hefði varað við, að kjarabætur úr verkfallinu kynnu að verða rýrar. En Framsfl. mega verkamenn víst kjósa, enda þótt Eysteinn Jónsson hafi í sinni ræðu einmitt rökstutt sömu efasemdir og Ólafur Thors.

Þá er það að lokum hið margumtalaða allsherjarhrun, sem við á að blasa. Þjóðin á að hafa glatað trúnni á gjaldmiðilinn, krónuna, í tíð núverandi og fyrrverandi stjórnar, enginn þorir að spara, allir vilja eyða öllu, er sagt. Sannleikurinn er sá, að núverandi og fyrrverandi stjórnir hafa endurvakið sparnaðarvilja og sparnaðargetu landsmanna. Á síðustu þremur árum hefur sparifjáraukning landsmanna numið hvorki meira né minna en 442.5 millj. kr. Sjáum við bezt mikilvægi þessarar staðreyndar með samanburði við fyrri ár.

Í árslok 1949 námu allar sparifjárinnstæður landsmanna í bönkum og sparisjóðum 563.8 millj. kr., og er það aðeins liðugum 100 millj. kr. meira en sjálf aukningin síðustu 3 árin. Sparifjáraukningin hefur numið þessu síðustu árin: 1950 16.9 millj. kr., 1951 15.8 millj., 1952 94.5 millj., 1953 177.1 millj. og 1954 170.9 millj. kr.

Sparifjáraukningin s. l. ár er þeim mun athyglisverðari, þegar haft er í huga, að íbúðabyggingar voru aldrei meiri en þá, varið 245 millj. kr. til þeirra, eða á annað hundrað millj. kr. meira en áætlað var í árslok 1953. Enn fremur voru keyptar til landsins bifreiðar fyrir marga tugi milljóna króna.

Eða hvernig horfir við í sveitum landsins? Aldrei verið gert meira fyrir landbúnaðinn en s. l. ár, sagði hæstv. landbrh. Þm. Str., Hermann Jónasson, sagði að vísu, að framgangur landbúnaðarmála á þingi væri kominn undir styrk Framsfl. Ég man nú ekki betur en Framsfl. hafi tapað einum þm. í síðustu kosningum og að núverandi stjórn sé undir forsæti Sjálfstfl., en á sama tíma hefur aldrei verið gert meira fyrir landbúnaðinn, eftir því sem hæstv. landbrh. segir. Héruð landsins breyta um svip hvert af öðru með stóraukinni ræktun og byggingarframkvæmdum.

Rafvæðing landsins til sjávar og sveita hefur verið lögfest með tíu ára áætlun, sem nemur um 300 millj. kr., og verið að hefjast handa um lokavirkjun Sogsins.

Ný löggjöf hefur verið sett um fiskveiðasjóð á þessu þingi að tilhlutun Ólafs Thors sjútvmrh., og endursköpun og nýbygging bátaflotans hafin samhliða stórfelldum áætlunum um bætta aðstöðu í landi með nýbyggingu fiskiðjuvera og frystihúsa. Veitt voru á s. l. ári lán til 58 nýrra vélbáta, þar af 31 trillubátur. Um áramót voru lánabeiðnir hjá fiskveiðasjóði 51 millj. kr., mest til báta af meðalstærð, 60–70 að tölu. Í sjóðnum var þá handbært fé 18 millj. kr., svo að verða mun mikið átak að rísa undir þessari nýsköpun.

Í baksýn þessa alls eru svo stórframkvæmdir eins og sementsverksmiðjan, sem byrjað er að byggja, og virkjanir við Laxá og Sog og áburðarverksmiðja, sem þegar er lokið.

Ef til vill er ekki alveg áhættulaust, að við Íslendingar reisum okkur hurðarás um öxl með þeim mikla hraða mikilla framkvæmda, sem nú er á flestum sviðum, en ekki hafa stjórnarflokkarnir sætt ámæli fyrir það í þessum eldhúsumræðum.

Nú vildi ég minnast á það, sem við á að taka. Upp úr þessu öllu á að vaxa vinstri stjórn allra íhaldsandstæðinga. Fyrst ættu vinir okkar í andstöðunni að sameina sjálfa sig, síðan gæti komið að því að mynda stjórn. Alþýðuflokkurinn — hvað er hann? Er hann tveir eða þrír flokkar eða bara flokksnefna, eins og nú standa sakir? Sósíalistaflokkurinn — hverjir eru Moskvukommúnistar og hverjir ekki? Framsóknarflokkurinn — vill hann vinstri stjórn eða vill bara formaðurinn og hans fylgismenn vinstri stjórn, aðrir flokksmenn alls ekki? Að vísu verður ekki séð, að Þjóðvarnarflokkurinn, þ. e. Bergur og Gils séu klofnir, en það skyldi þá líka vera, að hvorugur þeirra vildi vinstri stjórn.

Í bæjarstjórn Reykjavíkur höfum við fimm minni hluta: þrjá kommúnista, einn Alþýðuflokksmann, einn framsóknarmann, einn þjóðvarnarmann og einn utanflokka. Aldrei hafa svokallaðir íhaldsandstæðingar verið svo smátt saxaðir.

Sjálfstfl. vann í síðustu alþingiskosningum fjögur kjördæmi, hlaut 21 þm., og hefur aldrei átt stærri þingflokk. Tilraun til að sundra raðir flokksmanna þá er liðin undir lok, kom m. a. fram í því, að í Reykjavík jók flokkurinn fylgi sitt frá því í júní í alþingiskosningunum 1953 og þar til í janúar í bæjarstjórnarkosningum 1954 um 3397 atkv., úr 12245 atkv. í 15642 atkv. Í mörgum kjördæmum skortir Sjálfstfl. örfá atkv. til að ná þingsæti. Mér sýnast því öll rök hníga að því, að svokallaðir íhaldsandstæðingar muni kannske fyrr en varir eiga þess kost að sameina sig, en það verður ekki í stjórnarsamstarfi, heldur stjórnarandstöðu, eftir að Sjálfstfl. einn hefur náð hreinum meiri hluta í næstu alþingiskosningum.