10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (3146)

Almennar stjórnmálaumræður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi leiðrétta það, að í ræðu minni í gærkvöld, þegar ég nefndi nokkur hernámsfyrirtæki stjórnarflokkanna, kallaði ég eitt þeirra hlutafélagið Kistufell. Það fyrirtæki, sem ég átti við, heitir h/f Tungufell.

Hins vegar er hér í Reykjavík ungt fyrirtæki, sem heitir Kistufell. Það fæst eingöngu við vélaviðgerðir og er í engum tengslum við Keflavíkurflugvöll eða hernámsliðið. Bið ég hlutaðeigendur velvirðingar á þessum mistökum.

Hv. 9. landsk. þm., Karl Guðjónsson, sagði hér áðan, að Þjóðvfl. Íslands hafi ekki viljað styðja verkamenn til að fá kjör sín bætt. Þeir, sem hafa heyrt mál hv. 8. landsk. þm., Bergs Sigurbjörnssonar, vita vel, að þetta er fullkomið ranghermi. Um hið sama geta þeir borið, sem lesið hafa blað okkar, Frjálsa þjóð. Hitt er rétt, að við lögðum áherzlu á, að verkamenn og aðrar launastéttir fengju raunhæfar kjarabætur, allt yrði gert til þess að knýja fram verðlækkanir, sem verulega munaði um. Þessi hv. þm., Karl Guðjónsson, hefur látið ógert að leggja vinnu í það að skila áliti um frv. okkar þjóðvarnarmanna um lækkun verðlags, en hann á sæti í n. þeirri, sem hefur sofið á því máli í nokkra mánuði. Þetta er þó mesta hagsmunamál alþýðustéttanna, sem legið hefur fyrir þessu þingi. En kommúnistar leggja kollhúfur við því. Það felur í sér raunhæfar kjarabætur, ef samþ. væri.

Það vekur nokkra athygli í sambandi við þessar umræður, að hv. 3. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, fulltrúi Alþfl. í fjvn. og forseti Alþýðusambands Íslands, tekur ekki þátt í þeim. Skýringin er þó ekki langsótt. Hannibal er í banni hinnar hægrisinnuðu forustu flokksins og er meinað að tala máli hans samkv. miðstjórnarsamþykkt. Ritari flokksins, hv. 1. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, tekur ekki heldur þátt í þessum umræðum. Ástæðan til þess, að einnig hann er útilokaður, mun vera sú, að hann dirfðist að impra á því, að Hannibal yrði leyft að taka til máls. Þannig er þá ástandið á flokksheimili Alþfl.

Formaður Alþfl., Haraldur Guðmundsson, hv. 4. þm. Reykv., gaf okkur þjóðvarnarmönnum kost á að ganga í Alþýðuflokkinn. Hann minntist á það hérna áðan. Ég þakka vitanlega fyrir boðið, sem að hans dómi er sjálfsagt hið mesta kostaboð, en getur hann nú láð mér það, eins og högum er háttað á Alþýðuflokksheimilinu, þó að ég hugsi mig um til morguns?

Hv. þm. Str. talaði af helzt til miklum ókunnugleika um einangrun hersins, en þar tala staðreyndirnar ótvíræðu máli. Þannig er þess skemmst að minnast, að fyrir fáum dögum neyddist lögregla Reykjavíkur til að gera húsrannsókn í enn einu spillingarbæli hersins við aðalgötu í Reykjavík. Og allir þeir Reykvíkingar, sem á ferli voru um síðustu helgi, geta vitnað um það, að um langt skeið hafa amerískir hermenn ekki verið jafnfjölmennir á götum Reykjavíkur, á veitingahúsum og við bílastöðvar.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, sem talaði hér við umræðurnar í gærkvöld, var óvenju hógvær, mér liggur við að segja af hjarta lítillátur, ef mér gæti dottið í hug, að hann ætti þann eiginleika til. Hæstv. ráðh. var einkar ánægður með núverandi stjórnarfar og taldi ríkisstj. hafa verið duglega að framkvæma áhugamál sin. Um sementsverksmiðjuna sagði hann, að það mál þokaðist áleiðis. Það mjakast, er haft eftir karlinum, en það mjakast hægt. Vissulega ber það vott um nokkurt lítillæti að gera sig ánægðan með núverandi hraða á byggingarmálum sementsverksmiðjunnar. Annars sótti hæstv. forsrh. nokkuð í sig veðrið, þegar hann tók að ræða um Framsfl. og hugsanlega vinstri stjórn. Komst hann eftirminnilega að orði í sambandi við hugleiðingar sínar um utanríkismál vinstri stjórnar. Sagði ráðherrann, að þá yrði Framsfl. að gera það upp við sig, hvort hann ætti að hallast í austur eða vestur. En hvernig væri, herra Ólafur Thors, að hallast alls ekki neitt? Nei, það finnst hæstv. forsrh. óhugsandi, að nokkur vilji standa réttur í afstöðu til erlendra stórvelda. Ráðherranum tókst í þessari einu stuttu setningu að lýsa eftirminnilega utanríkisstefnu gömlu flokkanna. Hernámsflokkarnir snarhallast í vestur, í átt til Bandaríkjanna, kommúnistar í austur, í átt til Rússlands. Þjóðvarnarmenn einir hafa þann metnað fyrir Íslendinga hönd, að þeir standi réttir og hallist í hvoruga áttina.

Hér áðan birtist næsta óvænt frammi fyrir hljóðnemanum ný stjarna á stjórnmálahimninum, hv. 2. þm. S-M., Vilhjálmur Hjálmarsson, fylgihnöttur hæstv. fjármálaráðherra. Ekki varð nú séð, að nein pólitísk sól væri á loft runnin, heldur virðist þetta næsta þokuvafinn hnöttur. Helzta erindi þingmannsins upp í ræðustólinn var það að lepja upp ógeðfelldustu óhróðursgreinar blaðsins Tímans um þjóðvarnarmenn og Þjóðvfl. Þó tók hv. þm. Tímanum að sumu leyti fram. Hann reyndi af veikum mætti að gera gys að því, að við þjóðvarnarmenn höfum flutt þáltill. um það, að látin verði fara fram rannsókn á því, hvort ekki muni hagkvæmt að koma hér upp stálbræðslu og hagnýta það járn og stál, sem til fellur hér á landi. Þetta gera aðrar þjóðir með ágætum árangri, og það er ekki annað en ranghermi hjá hv. þm., að sannað sé, að þetta borgi sig ekki. Þm. sagði, að þessi till. hefði sofnað í nefnd. Þetta sýnir, að hann er ekki vandur í meðferð sinni á sannleikanum, þegar Þjóðvfl. á í hlut. Þessi till. kom úr nefnd. Tillögunni var af stjórnarliðinu vísað til ríkisstj., og till. þykir ekki meiri fjarstæða en það, að hæstv. iðnmrh. hefur á Alþ. gefið það fyrirheit, að sú rannsókn skuli látin fara fram, sem till. okkar þjóðvarnarmanna fjallaði um. Ætli það sé ekki sannast mála, að hv. þm. hafi munað eftir brotajárninu vegna þess, að undirvitundin segir honum, að hans eigin flokkur sé að verða pólitískt brotajárn?

Foringjar Framsfl. hafa nokkuð lengi þann steininn klappað að breiða út ýmiss konar óhróður um Þjóðvfl. Framsóknarmenn segja ýmist, að við þjóðvarnarmenn séum kommúnistar eða að við séum þjónar íhaldsins, allt eftir því, hvoru vænlegra þykir að skrökva hverju sinni. Nú er áherzlan einkum lögð á þá kenningu, að við séum hjálparmenn íhaldsins og ætlum að efla það til aukinna valda. Það þykir nú flestum óviðeigandi að nefna snöru í hengds manns húsi, og ósköp, fer það illa í munni framsóknarmanna, þegar þeir eru að brigzla öðrum flokkum um þjónustu við íhaldið. Er það ekki Framsfl., sem hefur haft samvinnu við það um ríkisstj. nær óslitið í 16 ár? Er það ekki hann, sem á allra flokka mestan þátt í því, að íhaldið situr nú yfir hlut hvers alþýðumanns í þessu landi? Ég held, að framsóknarleiðtogarnir ættu að leggja niður þann ávana að tala um íhaldsþjónustu annarra flokka, á meðan þeir sjálfir eru stoð og stytta íhaldsins. Nei, við þjóðvarnarmenn verðum aldrei íhaldshækja eins og Framsókn, kommar og kratar hafa verið til skiptis undanfarin 16 ár. Við erum reiðubúnir til þess að leita hverra tiltækilegra og skynsamlegra ráða til að vinna bug á íhaldinu og koma á heilbrigðu stjórnarfari í landinu.

Framsóknarmenn láta í ljós þann ótta, að Sjálfstfl. geti við næstu kosningar náð hreinum meiri hluta á Alþingi. Ég held, að sá ótti sé ástæðulaus. Hins vegar skal ég fúslega játa, að slíkt er í meira lagi ógeðfelld tilhugsun. Nú vil ég segja framsóknarmönnum þetta: Íhaldið hefur að baki sér aðeins rúman þriðjung kjósenda í landinu. Engar líkur eru til þess, að það auki þá hlutfallstölu í næstu kosningum. Vonir þess um meirihlutaaðstöðu á Alþingi byggjast allar á ranglátri kjördæmaskipun. Þær byggjast á því, að í nokkrum fámennum kjördæmum geti það í krafti auðs og valda hrifsað fáein atkv. til viðbótar, þar sem mjóu munar, tekið þau helzt frá Framsfl. Sé vilji fyrir hendi, þá er hægt að koma í veg fyrir þetta. Það er ekki aðeins hægt, heldur sjálfsagt, að breyta núverandi kjördæmaskipun og færa hana í réttlátara horf. Það lýðræði er naumast orðið nema skrípamynd, þar sem það er hugsanlegt, að flokkur með aðeins rúman þriðjung þjóðarinnar að baki sér geti haft möguleika á því að ná meiri hluta á Alþingi. Vill Framsfl. koma í veg fyrir hættuna af stórauknu þingfylgi íhaldsins, sem hann stundum talar um, með því að færa kjördæmaskipunina í réttlátara horf? Þjóðvfl. er þeirrar skoðunar, að þetta eigi að gerast, og hann mun ekki skorast undan viðræðum um það, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að halda íhaldinu í skák, meðan verið er að gera nauðsynlega stjórnarskrárbreytingu. Það er nú liðinn heill áratugur síðan Íslendingum var heitið nýrri stjórnarskrá, en það loforð er óefnt enn. Er Framsfl. tilbúinn til að efna það loforð? Er hann tilbúinn til að koma í veg fyrir þann hugsanlega möguleika, að minnihlutaflokkur með þjóðinni geti náð meiri hluta á Alþingi? Það mun sannast, hvenær sem viðræður um slíkt réttlætismál verða upp teknar, að Þjóðvfl. gengur ekki erinda íhaldsins, hvorki þá né endranær.

Þegar hæstv. núverandi ríkisstj. var mynduð sumarið 1953, skorti ekki loforðin um að drýgja dáðir og hrinda þjóðþrifamálum í framkvæmd. Hinn sjálfumglaði formaður Sjálfstfl., hæstv. forsrh. Ólafur Thors, steig í stólinn og ávarpaði þjóðina með þrumuraust sinni og gaf mörg og fögur fyrirheit. Þau nærfellt tvö ár, sem liðin eru síðan þessi loforð voru gefin, hafa frá náttúrunnar hendi verið góðæri. Fiskur hefur veiðzt í vaxandi mæli og sala fiskafurða yfirleitt gengið mjög greiðlega. Framleiðsla landbúnaðarafurða hefur verið mikil, miðað við þann takmarkaða liðskost, sem jörðina erjar. Þjóðartekjurnar hafa vaxið, ríkisstjórninni að þakkarlausu, og í ríkissjóð hafa flætt stærri fjárfúlgur en nokkru sinni fyrr. Að óreyndu mætti því ætla, að hæstv. ríkisstj. hafi gengið mætavel að framkvæma fyrirheit sín. Samkv. ræðum hæstvirtra ráðherra í gærkvöld eru sjálfir þeir dável ánægðir með afrek sín. Það kvað vera lélegur kaupmaður, sem lastar sína vöru. En hvort almenningur er eins hrifinn af hæstv. ríkisstj. og hún er af sjálfri sér, það dreg ég mjög í efa. Satt að segja er það ekkert til að hæla sér af, þó að varið hafi verið allmörgum milljónum til ýmissa framkvæmda, sumra gagnlegra. Núverandi hæstv. ríkisstj. og sú, er sat þar á undan, hafa árlega haft 400–500 millj. til að ráðskast með úr ríkissjóði, yfir 1300 millj. samtals af betli- og hernámsfé, og þar að auki aðgang að lánsfé bankanna. Væri hægt að hugsa sér svo dáðlausa ríkisstj., að hún gæti ekki bent á ýmislegt nýtilegt, sem hún hefði látið framkvæma fyrir allt það fé?

En þegar maður athugar nokkru gerr, hvar hæstv. ríkisstj. er á vegi stödd um framkvæmd stjórnarsamningsins, þá er vissulega ekki af miklu að státa. Efndir loforðanna láta nokkuð á sér standa. Um sementsverksmiðjumálið er það að segja, að á það hljóp óþægileg snurða, sem enn hefur ekki tekizt að losa af þeim þræði. Hæstv. ríkisstj. virðist hafa komizt í algert þrot við að afla fjár til að koma upp þessu mannvirki, og er þó talið, að sementsverksmiðja á Íslandi muni reynast mjög öruggt fyrirtæki. En það hefur hlaupið snurða á fleiri þræði. Efndirnar á loforðum um bætta framkvæmd herstöðvasamningsins eru alkunnar. Hæstv. utanrrh. hefur fetað þar flestar götur fyrirrennara síns, og þrátt fyrir ýmsa sýndarmennsku hefur árangurinn enginn orðið að heita má nema á einu sviði: Aðstaða íslenzkra hermangara til að græða stórfé á niðurlægingu og ógæfu þjóðarinnar hefur enn batnað.

Löggjöf um framtíðarlausn húsnæðismálanna átti að vera eitt af höfuðverkefnum þess þings, sem nú er að ljúka. Mánuð eftir mánuð beið Alþ. aðgerðalítið eftir þeim till., en þær létu á sér standa. Hefðu þær legið fyrir í nóvember eða desember, mátti hæglega ljúka þingi fyrir jól og spara milljónaútgjöld. Loks í aprílmánuði var lausnin fundin, og stjórnarblöðin tóku upp sitt stærsta fyrirsagnaletur, eins og þegar slyngur kaupahéðinn auglýsir miður útgengilegar vörur. Og nú var auglýst af kappi: Stórfelld framlög til húsbygginga. Hið mikla frumvarp ríkisstjórnarinnar lagt fram á Alþingi. — En hér sannaðist hið fornkveðna: Þótt fjöllin hefðu tekið jóðsótt, fæddist aðeins lítil mús.

Lánsfé til húsbygginga mun að vísu heldur aukast, en vextir lánanna eru svo háir og lánstíminn svo skammur, að mönnum með lágar tekjur og jafnvel miðlungstekjur verður eftir sem áður allsendis ókleift að koma upp þaki yfir höfuð sér.

Hvað líður þá skrautblóminu í loforðakransi hæstv. ríkisstjórnar, rafvæðingu hinna dreifðu byggða landsins?

Á Alþingi í fyrra var að frumkvæði ríkisstj. samþ. löggjöf, þar sem ákveðið var, að á næstu tíu árum skyldi varið 250 millj. kr. til að koma upp rafveitukerfi um land allt og rafvæða sveitir og kauptún landsins. Var fullyrt, að fjármagn væri þá þegar tryggt til þessara miklu framkvæmda. 140 millj. yrðu fengnar að láni hjá bönkunum, en 110 millj. lagðar fram úr ríkissjóði, 11 millj. árlega í 10 ár.

Við meðferð málsins lét hæstv. raforkumálaráðherra mörg orð falla um þann fagra ásetning ríkisstj. að leiða birtu og yl inn á hvert býli í landinu. Jafnframt þessari nýju raforkumálalöggjöf voru samþykkt lög um tvennar stórvirkjanir, aðra fyrir Austfirði, hina fyrir Vestfirði. Var það nokkur furða, þó að menn í þessum landshlutum, sem telja sig að vonum hafa verið helzt til lengi afskipta um þau þægindi og þá möguleika, sem raforka veitir, gerðu fastlega ráð fyrir, að nú hillti undir lausn þessara mála? Þess eru að vísu nokkuð mörg dæmi frá hinum mörgu samstjórnarárum íhalds og Framsóknar, að samþ. hafi verið lög um framkvæmdir, lög, sem skarta fallega á pappírnum, en hvergi annars staðar. Sum þeirra hafa sjálfsagt aldrei haft annan tilgang en að skarta á slíkum plöggum; önnur eru strönduð sakir þess, að íslenzkt fjármálalíf er sjúkt. Fjármagnið leitar allt til braskara og milliliða, en er ófáanlegt eða nær ófáanlegt til þjóðnytjaframkvæmda. Á ofanverðu s. l. sumri fengu Austfirðingar pata af því, að loforð hæstv. ríkisstj. um skjóta og varanlega lausn á raforkuþörf fjórðungsins mundu ekki gulls ígildi. Bárust þær fréttir austur þangað, að í stað hinnar fyrirhuguðu stórvirkjunar væri nú á hærri stöðum helzt flaggað með því að leysa málið til bráðabirgða með því að leiða þangað raforku frá Laxárvirkjun í Þingeyjarsýslu með nýrri og lítt reyndri aðferð, sem jafnvel var óvíst um, hvernig kynni að gefast. Þetta þótti flestum Austfirðingum næsta hæpin leið, og reis þar upp almenn óánægja með þá snöggu vendingu, sem málið hafði tekið í höndum hæstv. ríkisstj. Var hæstv. landbúnaðar- og raforkumálaráðherra sendur austur til að reyna að friða hv. kjósendur, en fékk fremur kaldar viðtökur og mun hafa orðið að skýra stjórnarbræðrum sínum frá því eftir heimkomuna, að erindislok hafi ekki verið mjög góð. Síðan hefur ekki heyrzt mikið um raforkumál Austfirðinga, nema það helzt, að stjórnarherrarnir beiti öllu flokkavaldi sínu til að fá þá til að hlýða, en þó er eftir að vita, hversu vel Austfirðingar sætta sig við þessa meðferð.

Eitt þeirra loforða, sem hæstv. ríkisstj. gaf, var að lækka skatta. Í fyrra var tekjuskattur lækkaður nokkuð, og auglýstu stjórnarliðar það sem mikla hetjudáð. Hversu lítil sú skattalækkun er, sést bezt á því, að hún mun naumast nema hærri upphæð en 14–15 millj. kr., en samanlagðar skattaálögur ríkis og bæja munu nema fast að 600 millj. Er dæmið því auðreiknað. Heildarskattabyrðin hefur við þessar aðgerðir verið lækkuð um rúmlega 2%. En hæstv. ríkisstj. vann á þinginu í fyrra annað afrek, einmitt sömu dagana og hún var að fella till. okkar þjóðvarnarmanna svo og till. annarra stjórnarandstæðinga um mikilvægar umbætur á skattalögunum, — umbætur, sem komið hefðu öllu láglaunafólki og mönnum með miðlungstekjur til góða. Það var samþykkt stjórnarfrv. um gagngerar breytingar á svonefndum aukatekjum ríkissjóðs. Það afrek var ekki básúnað mikið í Morgunblaðinu eða Tímanum, enda naumast við að búast. Með þeirri löggjöf voru hækkuð stórlega flest eða öll þjónustugjöld, sem ríkið tekur af þegnunum við margvísleg tækifæri og bæjarfógetar og sýslumenn innheimta. Var þar um að ræða dómsmálagjöld alls konar, stimpilgjöld, þinglýsingargjöld, gjöld fyrir leyfisbréf og skírteini, skrásetningargjöld og margt fleira. Ég skal nefna eitt dæmi þess, hversu óhófleg sum þessi gjöld eru orðin. Það dæmi er ekki tilbúið, heldur tekið beint úr veruleikanum: Verkamaður í kauptúni úti á landi kaupir lítið hús á 120 þús. kr. Hann fær 50 þús. kr. lán út á húsið. Skuldabréfinu þarf hann að þinglýsa og stimpla það um leið. Afsalið er líka stimplað og þinglesið á hans kostnað, grunnleigusamningurinn einnig. Svo sem lög mæla fyrir, sendi hann sýsluskrifstofunni nefnd skjöl til innfærslu í veðmálabækur og til stimplunar, og eru þau í tveimur samritum. Annað eintakið af hverju þessara þriggja skjala er svo endursent með póstkröfum. Hvað þarf nú kaupandi hússins að greiða fyrir svona dáðmikla stjórnarathöfn? Hvorki meira né minna en 4005 kr. Sannast hér hið fornkveðna, að viða koma Hallgerði bitlingar. Hæstv. fjmrh. lætur ekki að sér hæða, þegar hann kemst í tæri við skattþegninn, en til þess hefur hann óteljandi ráð. Geta menn svo gert sér í hugarlund, hvort þessar og þvílíkar skattheimtur hins opinbera eigi ekki sinn þátt í vexti verðbólgu og dýrtíðar.