10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (3149)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 5. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, ræddi hér um húsnæðismálin og var mikið niðri fyrir. Hann lofaði mjög ágæti Sjálfstfl. fyrir vasklega framgöngu í húsnæðisvandamálunum. Það má kannske minna hann með örfáum orðum á afstöðu hans og flokks hans til húsnæðismálanna síðustu árin.

Sjálfstfl. ræður lögum og lofum í Reykjavík, þar sem húsnæðisvandræðin eru mest. Hvers vegna hefur hann ekki útrýmt braggaíbúðunum hér í Reykjavík? Ekki hafa sósíalistar staðið í vegi fyrir framkvæmdum í þeim efnum, og ekki vænti ég, að bæjarstjórnaríhaldið í Reykjavík þurfi að kvarta undan afstöðu ríkisstjórnar sinnar og ekki undan skilningsleysi eigin flokksmanna í bönkum landsins. Síðan 1946 hafa verið til lög um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, en á hverju ári síðan lögin voru sett hefur þessi hv. þm. og flokkur hans rétt upp hendur á Alþ. og samþ. að fresta öllum framkvæmdum um útrýmingu bragganna í Reykjavík. Á hverju ári höfum við sósíalistar flutt tillögur um fjárveitingar úr ríkissjóði í þessu skyni, en alltaf, í hvert eitt og einasta skipti, hefur Sjálfstfl, látið drepa slíkar till. Við sósíalistar höfum flutt till. um að skylda bankana til þess að lána nokkurt fé árlega til íbúðarhúsabygginga. Hverjir hafa drepið þær till.? Sjálfstæðismenn. Við höfum flutt till. um fjárframlög til verkamannabústaða, en íhaldið hefur drepið þær. Það er svo sem von, að íhaldið státi af framgöngu sinni í húsnæðismálunum! Og nú koma ný lög, sagði hv. þm. Lög, sem hækka vexti af íbúðarhúsalánum, lög, sem vafasamt er um að auki nokkuð framlög til íbúðarhúsabygginga almennt, en lög, sem tryggja eiga einum fulltrúa frá íhaldinu og einum fulltrúa frá Framsfl. vald til þess að úthluta öllum íbúðarhúsalánum næstu 6 árin. Ég efast ekki um, að þessi lög eru til ágóða fyrir Sjálfstfl. En hvað viðkemur lausn húsnæðisvandamálanna eða að minnsta kosti vandamála hinna fátækustu, er allt í fullkominni óvissu.

Hæstv. fjmrh. sagði hér, að í tíð nýsköpunarstjórnarinnar hefði alls ekkert verið gert í húsnæðismálunum. Samkvæmt opinberum skýrslum var þó byggt þá meira en nokkru sinni fyrr og siðar. Þá hófst nýbyggingarstarfsemi verkamannabústaða, og þá var sett sú byggingarmálalöggjöf, sem íhaldsstjórnir síðari tíma og hæstv. ráðh. hafa neitað að framkvæma nú að undanförnu.

Í umr. hér í gærkvöld margendurtóku hæstv. ráðh. þá íhaldskenningu, að ekki væri hægt að bæta kjör vinnandi fólks með því að knýja fram kauphækkun. Þessari kenningu er linnulaust haldið á lofti af ríkisstj., og engu er líkara en að sumir af ræðumönnum hennar séu farnir að trúa þessari fjarstæðu. Hvað þýðir þessi íhaldskenning? Í rauninni jafngildir hún því, að núverandi skipting á þjóðartekjunum sé nákvæmlega réttlát. Hún jafngildir því, að þjóðartekjurnar hafi ekki farið vaxandi á undanförnum árum og að hlutur vinnandi fólks af heildartekjum þjóðarinnar sé jafnréttlátur og sá hlutur, sem milliliðir og aðrir en hið vinuandi fólk taka árlega til sín af þjóðartekjunum. Hvort tveggja er þetta rangt. Heildartekjur þjóðarinnar hafa farið vaxandi á undanförnum árum, án þess að tekjur vinnandi fólks hafi hækkað að sama skapi. En hitt er þó enn þá ljósara, að milliliðir og aðrir aðilar en hið vinnandi fólk hafa dregið til sín miklu stærri hlut af þjóðartekjunum en hóflegt hefði verið.

Hæstv. ríkisstj. er ekki um, að rædd sé starfsemi milliliða. Hún veit, að sé kastljósinu beint að háttalagi þeirra, er augljóst hverjum manni, að kenningar hennar um, að ekki sé hægt að veita vinnandi fólki ríflegri hlut í skiptingu þjóðarteknanna, er fjarstæða. Spurningin, sem allt snýst um í þessum efnum, er því einfaldlega sú: Hvort eiga hagsmunir alþýðu eða milliliða og okrara að gilda við skiptingu þjóðarteknanna? Hér skal nú flett upp á nokkrum alriðum þessu til sönnunar.

Olíufélögin eru stærstu verzlunarfélögin á Íslandi í dag. Þau selja allar olíur til fiskiskipaflotans og alla olíu til húsakyndingar í landinu. Olíufélögin eru á hægra brjósti ríkisstj., enda eiga forustumenn stjórnarflokkanna þessi félög, að svo miklu leyti sem Íslendingar eiga þau. Eins og nú standa sakir kaupir íslenzka ríkið allar olíur til landsins með sérstökum milliríkjasamningi. Ríkisstj. hefur þó ekki borið sig að því að tryggja landsmönnum olíur með kostnaðarverði. Þess í stað hefur hún afhent olíufélögunum einokunarvald yfir allri olíusölunni og sjálfdæmi um verðlagningu í flestum tilfellum. Olíufélögin selja yfir 200 þús. tonn af olíum á ári. Sé verðlag á olíum hér og í nágrannalöndunum borið saman, kemur í ljós, að þetta olíumagn er selt á 40–50 millj. kr. hærra verði hér en þar. Hvað segja stjórnarvöld landsins við þessari verðlagningu? Telja þau, að útgerðin geti borið hið háa olíuverð? Telja þau, að almenningur geti risið undir hinu háa olíuverði? Stjórnarvöldin segja ekki eitt einasta orð um þetta. Hátt olíuverð er eins og hver annar sjálfsagður hlutur að dómi stjórnarvaldanna. Getur nokkrum manni blandazt hugur um gróða olíufélaganna? Hafa ekki allir landsmenn fyrir augunum tryllingslega fjárfestingu félaganna? Um allt land hafa þau komið upp þreföldu dreifingarkerfi. Hér í Reykjavík og nágrenni hafa þau á stuttum tíma komið upp tugmilljóna geymslustöðvum, stöðvum, sem eru margfalt dýrari og umfangsmeiri en nokkur þörf er á. Hvaðan hefur féð verið tekið til þessarar fjárfestingar? Hverjir eru látnir borga? Trúir því nokkur maður, að þessi félög hafi ekki tekið nema óhjákvæmilegan kostnað við dreifingu á olíunni?

Það eru önnur viðbrögð hjá hæstv. ríkisstj. við hækkun á olíuverði en við kauphækkun verkafólks. Ef vinnandi fólk krefst kauphækkunar, ætlar allt af göflunum að ganga. Þá þolir þjóðfélagið ekki kauphækkun, og þá er bent á hallarekstur atvinnuveganna. En hvað gerist, þegar olían er hækkuð í verði? Daginn, sem verkföllin miklu hófust í vetur, hækkuðu olíufélögin olíu til togaraflotans. Á það var hvergi minnzt. Þá var ekki bent á hallarekstur togaraflotans, sem gæti ekki mætt frekari útgjöldum. Um nokkurt skeið hefur legið fyrir krafa olíufélaganna um að hækka olíuverð til húsakyndinga og til bátaflotans um 60 kr. á tonn. Vegna verkfallsins þótti ekki hentugt að skella þessari hækkun á þá. En hver efast um, hvað gert verður við þessa hækkunarkröfu olíufélaganna, eftir að hafa hlustað á hæstv. viðskmrh. í gærkvöld?

Hann var augsýnilega að undirbúa þessa olíuhækkun. Og ráð hans var handhægt til afsökunar. Hann kenndi verkfallinu um stóraukin útgjöld olíufélaganna, sem þurft hefðu að greiða stórfé í Liðpeninga fyrir olíuskipin, sem lágu hér í verkfallinu. Og niðurstaðan á svo að verða almenn verðhækkun olíu, sem þegar er margfalt dýrari hér en nokkurs staðar í nálægum löndum.

Olíufélögin vita, að þau eru undir vernd ríkisstj. Þau haga sér líka eftir því. Þó kemur fyrir, að græðgi þeirra verður svo mikil, að vernd ríkisstj. hrekkur ekki til. Nýlega hefur eitt þessara félaga verið dæmt af hæstarétti fyrir eitt stórkostlegasta verðlagsbrot, sem heyrzt hefur um hér á landi. Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert til þess að koma í veg fyrir, að slík verðlagsbrot endurtaki sig? Ekkert, nema rætt hefur verið um að sæma hið brotlega félag með því að veita því 50 millj. kr. ríkisábyrgð til þess að kaupa fyrir olíuskip.

Okur olíufélaganna liggur eins og mara á sjávarútveginum. En við ekkert fæst ráðið. Einn af þekktustu togaraútgerðarmönnum landsins, kunnur sjálfstæðismaður, sagði fyrir nokkru, þegar rætt var um vandamál togaraútgerðarinnar, að olíufélögin ættu að láta íslenzka togaraflotann fá ókeypis olíur í eitt ár til leiðréttingar á okri þeirra undanfarin ár.

Það eru fleiri milliliðir en olíufélögin sem draga til sín óeðlilegan hluta af þjóðartekjunum. Bankar landsins stæra sig af 40–50 millj. kr. gróða á hverju ári. Hvaðan kemur þessi gróði bankanna? Heldur ríkisstj., að hann falli af himnum ofan? Nei, hún veit það ofur vel, að þessi gróði bankanna er tekinn úr atvinnulífi landsins. Hann er ein orsökin til þess, að atvinnuvegir landsins eru reknir með tapi. Hann er ein orsökin til þess, að atvinnuvegirnir eiga örðugt með að greiða hinu vinnandi fólki það kaup, sem því að réttu ber af þjóðartekjunum. Ríkisstj. hefur samþykkt vaxtahækkunarstefnu bankanna. Hún telur hækkandi vexti miða að jafnvægi í efnahagslífinu. Þessu til staðfestingar lætur ríkisstj. hækka alla vexti, með lögum á Alþingi, eftir því sem aðstaða hennar stendur til. Hækkandi vextir af lánum landbúnaðarins eiga að auka á jafnvægið. Hækkandi vextir af íbúðalánum verkamanna eiga að auka á jafnvægið. Og hækkandi vextir sjávarútvegsins eiga að auka á jafnvægið. Hvers konar jafnvægi er það, sem hæstv. ríkisstj. leitar eftir? Er það fólgið í auknum vaxtagróða bankanna og milliliða, en hækkuðum rekstrargjöldum bænda, verkamanna og atvinnuveganna almennt? Þegar verkafólk vill fá kauphækkun, fá ríflegri hluta af þjóðartekjunum, þá er slíkt ekki hægt samkvæmt íhaldskenningu stjórnarflokkanna. En þegar bankar og milliliðir hækka vexti og önnur þjónustustörf, þá er allt í lagi. Það þola atvinnuvegirnir. Þá þarf ekki að koma til vinnustöðvunar í 1½ mánuð.

Í hópi þeirra gróðafélaga, sem gæðingar ríkisstj. stefna á atvinnuvegi landsins, eru vátryggingarfélögin. Þau hafa á undanförnum árum rakað til sín gróða. Eitt þessara félaga tilkynnti nýlega opinberlega, að það hefði á þeim 7 árum, sem það hefði starfað, grætt rúmar 20 milljónir. Auðvitað er gróði þessara félaga miklu meiri en þau almennt gefa upp. En með góðu samþykki ríkisstj. innheimta þau sinn skatt af atvinnuvegum landsmanna.

Tvö skipafélög annast aðalvöruflutninga að og frá landinu. Stjórnarflokkarnir hafa hvor um sig hreiðrað um sig í þessum félögum. Bæði hafa þessi félög rakað saman gróða á þjónustustarfi sínu fyrir landsmenn. Annað þessara félaga hefur byggt sig upp frá grunni á örfáum árum og á nú 6 millilandaskip. Hvaðan hefur það fjármagn komið, sem byggt hefur upp þennan skipakost? Það hefur allt verið tekið af landsmönnum í okurháum farmgjöldum. Skipafélögin, sem tekið hafa framleiðslu vélbátaflotans og togaraflotans og flutt hann á erlendan markað, hafa rakað saman fé. Þau hafa ekki þurft að lifa á bónbjörgum eins og fiskiflotinn. Þau hafa ekki legið undir hamrinum fyrir vanskil. Þau hafa ekki legið bundin um hásumarið eins og togaraflotinn vegna hallarekstrar. Því er haganlega fyrir komið, því skipulagi, sem lætur fengsælustu fiskibáta veraldarinnar vera rekna með tapi og afkastamestu fiskiskip í heimi, íslenzku togarana, stynja undan hallarekstri, en hrúgar hins vegar upp gróða olíufélaga, banka, skipafélaga, vátryggingarfélaga, ríkissjóðs og heildsala, svo að nokkur dæmi af mörgum séu nefnd. En þetta skipulag er haft á þennan veg að vel íhuguðu máli. Það er hentugt að geta bent vinnandi fólki á tap framleiðslunnar. Það er sterk aðstaða að geta hótað verkafólki og sjómönnum með því, að verði kaup hækkað, þá sé óhjákvæmilegt að hækka allt vöruverð í landinu, skatta og tolla, því að ástand atvinnuveganna sé þannig, að þeir þoli ekki kauphækkun. En hvenær kemur að því, að þessu vopni verði snúið í höndum ríkisstj. og hún rekin til þess af atvinnuvegum landsins og vinnandi fólki að skila til baka milliliðagróðanum? Þjóðartekjur Íslendinga leyfa vissulega kauphækkun, og þær leyfa líka hallalausan rekstur framleiðslunnar, en skilyrði fyrir þessu er, að milliliðagróðinn sé afnuminn, að komið sé í veg fyrir, að okurstarfsemin haldi áfram.

Í umræðunum hér í gærkvöld spilaði hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, sína gamalkunnu kommúnistaplötu. Kommúnistar komu verkföllunum af stað, sagði hann; þeir ætluðu að steypa ríkisstj. og mölva niður þjóðfélagið. Kommúnistar vildu ekki heyra verðlækkunarleiðina. Þeir vildu, að verkfallið yrði sem allra lengst. Mikið eru nú þessi slagorð orðin gatslitin. Í hvert skipti, sem verkafólk leitar eftir rétti sínum, glymur þetta viðkvæði við: Kommúnistar, kommúnistar. — Allt illt er þeim að kenna. Hæstv. ráðh. læzt ekki vita þá staðreynd, að síðasta Alþýðusambandsþing, fjölmennasta fulltrúaþing, sem verkalýðssamtökin hafa haldið, samþykkti einróma að hefja þessa launabaráttu. Ráðherrann læzt ekki vita, að verkalýðsfélög, sem telja á annan tug þúsunda meðlima, ákváðu á fjölmennum fundum launakröfur sínar. Ráðherrann þykist ekki vita, að það voru þúsundir verkafólks í Reykjavík, á Akureyri og í Hafnarfirði, sem framkvæmdu verkfallið, sem stóðu verkfallsvörð og að lokum ráku hann og ríkisstj. til undanhalds.

Alþjóð veit, að þegar hæstv. ráðh. talar um kommúnista, þá á hann við vinnandi fólk í landinu. Það var það, sem ákvað verkfallið, það var það, sem stóð í verkfallinu, og það var það, sem sigraði ríkisstj. Kommúnistar vildu ekki verðlækkunarleiðina, sagði hæstv. ráðh. Hver bauð verðlækkun? Hvar eru tilboð ríkisstj.? Vill ekki hæstv. ráðh. sem ræðumaður íhaldsins, eins og hann venjulega er að undanförnu, skýra frá því tilboði, sem gert var í þessum efnum? Verkalýðssamtökin lýstu yfir ósk sinni um verðlækkun, en ráðh. og ríkisstj. taldi ekki fært að lækka verðlagið, slíkt hefði dregið spón úr aski hennar nánustu. — Kommúnistar eru á eyðimerkurgöngu með verkamenn, sagði fjmrh. Það er aumlegt hlutskipti, sem þessi foringi bændanna í landinu hefur valið sér. Hann hefur manna mest unnið að því að hræra þannig saman flokki bænda og flokki kaupmanna og braskara, að ekki verður á milli greint, hvað er hvað.

Það er nú orðið hlutskipti Eysteins Jónssonar að tala á Alþ. fyrir skattalækkun auðfélaga íhaldsins í Reykjavík. Það er hans hlutskipti að boða bændum blessun vaxtahækkunar á lánum landbúnaðarins. Það er hans hlutskipti að halda vörð um sérhagsmuni milliliða og okrara í Reykjavík. Það er hans hlutskipti að verja það skipulag, sem tryggir kaupmönnum Reykjavíkur rétt til frjálsrar álagningar á vörur þær, sem landsmenn kaupa. Eitt sinn barðist þessi hæstv. ráðh. gegn Reykjavíkurvaldi íhaldsins. Eitt sinn tileinkaði hann sér það kjörorð, að allt væri betra en íhaldið. Eitt sinn stóð hann hér á Alþ. og lýsti meinsæri á hendur foringjum íhaldsins. Eitt sinn boðaði hann samstarf verkamanna og bænda. Eitt sinn lofaði hann kjósendum sínum hátíðlega, að aldrei mundi hann samþykkja hersetu í landinu á friðartímum. Mikill umskiptingur er þessi maður orðinn. Hlutskipti hæstv. ráðh. er ekki öfundsvert. Hann hefur manna mest stutt íhaldið til valda, og nú er hann aðaltalsmaður þess, þarfasti þjónn þess, og ef til vill tekst honum að koma íhaldinu í hreinan meiri hluta á Alþingi.

Það er engin furða, þó að Eysteinn Jónsson nefni eyðimerkurgöngu. Líklega hvíslar samvizka hans þessu orði að honum, því að er hann ekki sjálfur á sannkallaðri eyðimerkurgöngu með Framsfl.? Sérgrein Eysteins hefur jafnan verið skattheimtan. Íhaldið er orðið sérlega ánægt með hann sem skattheimtumann. Nú er svo komið, að svo til allir skattar og tollar eru innheimtir af almenningi. Gróðafélög íhaldsins bera sáralítinn hluta af skattbyrðinni. Helzt hefur Eysteinn komizt í þrot með nafngiftir á nýja tolla og nýja skatta. Í gærkvöld lofaði hann nýjum tollum og nýjum sköttum í tilefni af verkföllunum, og nöfn voru þegar fundin á nýju skattana. Þeir skulu bera nafn kommúnista, sagði hæstv. ráðherra. Það er mikil furða, hve takmarkalaust vald íhaldið hefur á hæstv. fjmrh. Sjálft hefði íhaldið ekki þorað að boða nýjar álögur til viðbótar 100 millj. kr. rekstrarafgangi ríkissjóðs. En Eysteinn tekur að sér að boða þessi tíðindi. Það er mikill misskilningur hæstv. ríkisstj. að halda, að vinnandi fólk í landinu láti bjóða sér nýjar álögur og hækkað vöruverð án mótaðgerða. Ríkisstj. verður knúin til þess að skerða gróða milliliðanna, ella að víkja.