10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

Almennar stjórnmálaumræður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. (KGunn) talaði hér áðan og nefndi Þjóðvfl. oft í ræðu sinni. Ég skildi ræðu hans að vísu ekki vel, en helzt virtist mér hann vera á móti Þjóðvfl. Þá veit maður það. Ég er ósköp rólegur yfir þessu og spái því, að Þjóðvfl. lífi það af, þó að hv. þm. sé eitthvað á móti honum. Annars datt mér það einna helzt í hug undir ræðu þessa hv. þm., að mikið hljóti Alþýðuflokksmenn úti um land að vera ánægðir yfir skiptunum að hafa fengið hann hingað inn í umræðurnar í stað forseta Alþýðusambandsins, Hannibals Valdimarssonar.

Hæstv. fjmrh. gerði að vonum nokkra tilraun til að svara ádeilu minni á utanríkisstefnu hæstv. ríkisstj. Ráðh. sagði, að breytt hefði verið um stefnu í varnarmálunum. Eins og ég sýndi fram á í gærkvöld, er stefnan óbreytt í öllum þeim atriðum, sem verulegu máli skipta. Og hæstv. dómsmrh. vitnaði um þetta hér í umr. í kvöld. Annars þarf ekki hans vitnisburðar við. Hver maður, sem eitthvað fylgist með, veit, að í svokölluðum varnarmálum hafa engin straumhvörf orðið.

Hæstv. ráðh. lagði mikla áherzlu á að sanna, að til væru ýmsir flugvellir með jafnstórar flugbrautir og Keflavíkurflugvöllur. Þetta má rétt vera, en ég vek sérstaka athygli allra tilheyrenda á því, að hæstv. ráðh. dirfðist ekki að neita því, að Keflavíkurflugvöllur sé nægilega stór til afnota fyrir stórar sprengjuflugvélar. Kjarni málsins er sá, að Keflavíkurflugvöllur er í tölu hinna stærstu hernaðarflugvalla veraldar og hefur auk þess þann höfuðkost að vera staðsettur í strjálbýlu landi, sem í augum erlendrar herstjórnar — ég legg áherzlu á það — í augum erlendrar herstjórnar hlýtur óhjákvæmilega að vera hentugur árásarstaður í styrjöld og þá um leið hentugur til að taka á móti holskeflum gagnárásar. Eða fæst nokkur maður til að trúa því, að ameríska herstjórnin meti það ekki meir, ef í harðbakkann slær, að forða milljónum eða tugmilljónum manna af sinni eigin þjóð frá því að tortímast í vetnissprengjuárás heldur en að bjarga 100 þús. hræðum hér á hjara veraldar undan þeim örlögum? Eða þykist Eysteinn Jónsson vera þess umkominn að veita Íslendingum tryggingu fyrir því, að Bandaríkjamenn noti Ísland ekki til þess að taka á móti stærstu holskeflunum í kjarnorkustyrjöld?

Það er von, að framsóknarmenn kveinki sér undan gagnrýni á meðferð þeirra á utanríkismálum. Þeir ætluðu að leika sterkan leik, er þeir tóku þau í sínar hendur. Þeir hafa í því sambandi viðhaft alls konar loddarabrögð, eins og ég lýsti í gærkvöld, en þau hafa að litlu haldi komið.

Þjóðin sér í gegnum blekkingavefinn. Það stendur enn óhrakið, sem ég sagði hér í gær, að eini teljandi árangurinn af stjórn Framsóknar á Keflavíkurmálum er auknir gróðamöguleikar íslenzkra auðmanna og auðfélaga á hernámsbraski. Áhugi framsóknarleiðtoganna hefur fyrst og fremst beinzt að því að tryggja framsóknarfyrirtækjum sem ríflegasta hlutdeild í ógeðslegasta atvinnuvegi, sem nokkru sinni hefur þekkzt á Íslandi, hermangi. Það er óhrakið, að undir forustu Framsóknar hefur verið haldið í einu og öllu utanríkisstefnu Bjarna Benediktssonar, og afleiðingin er sú, að Íslendingar eru fastara reyrðir í viðjar hernáms en nokkru sinni fyrr.

Þau alvöruorð, sem ég mælti í gærkvöld um eðli hinnar svokölluðu vopnaverndar, voru sízt af öllu til þess töluð að vekja ástæðulausan ótta hjá þjóðinni. Því miður er það ómótmælanlegt, að á öld vetnissprengjunnar eiga þeir hættuna mesta yfir höfði sér, sem hafa innan vébanda sinna herstöðvar og stóra flugvelli, sem hægt er að nota í kjarnorkustyrjöld og hinn styrjaldaraðilinn telur sér stafa háska af. Það er ekki skynsamra manna háttur að haga sér eins og strúturinn og stinga höfðinu niður í sandinn. Við Íslendingar verðum því að horfast í augu við staðreyndir, hversu geigvænleg tíðindi sem þær kunna að boða. Tortímingarhættan af völdum herstöðvarinnar á Reykjanesi er enn þá stórkostlegri en flestir Íslendingar hafa gert sér fyllilega ljóst. Það eru ekki aðeins hinar fjölmennu byggðir við Faxaflóa, sem eiga voðann vísan, ef vetnissprengju yrði varpað á Reykjanesskaga, heldur meginþorri þjóðarinnar. Í skýrslu amerísku kjarnorkunefndarinnar, sem birtist 15. febr. s. l., er nákvæmlega lýst áhrifum vetnissprengingar. Þar segir, að sjálf sprengingin taki til svæðis, sem er 40 km í þvermál eða jafnvel enn meira. Á því svæði myljast öll mannvirki og slokknar allt líf. Hins vegar er það komið undir vindátt og veðri, hvert helmökkur sprengingarinnar berst, en hann getur borizt hundruð kílómetra. Hvað segir þetta okkur Íslendingum? Ef vetnissprengja félli nálægt Keflavíkurvelli í suð-suðvestanátt, mundi hinn lífshættulegi geislavirki mökkur berast norðaustur yfir alla Gullbringu- og Kjósarsýslu, Reykjavík og Hafnarfjörð, Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu, hluta af Dalasýslu og Strandasýslu, báðar Húnavatnssýslur, Skagafjarðarsýslu og Siglufjörð og á haf út norður af Siglufirði. þessu svæði búa um 2/3 hlutar allra landsmanna.

Núverandi valdhafar á Íslandi hafa stigið mörg óheillaspor. En óendanlega miklu þyngst er sú sök íslenzkra ráðamanna, að þeir berja enn höfðinu víð steininn á sviði utanríkismála og halda dauðahaldi í þá stefnu, sem haft getur svo geigvænlegar afleiðingar fyrir þjóðina, að engin orð fá lýst. Hvort ástæðan er ólæknandi blinda, alger forherðing eða það, sem líklegast er, skortur þreklundar til að hverfa frá villu síns vegar, það skiptir næsta litlu máli. Hitt er augljóst, að núverandi ráðamenn ætla ekki að bera gæfu til að hafa vit fyrir þjóðinni. Hún verður að hafa vit fyrir þeim. Hvernig er slíkt hægt, fyrr en í fyrsta lagi í næstu kosningum? mun margur spyrja. Það er hægt með því móti, að æ fleiri Íslendingar sameinist um kröfuna um uppsögn herstöðvasamningsins og algert hlutleysi Íslands í styrjöldum. Ef allir þeir, sem þegar skilja nauðsyn þessa, krefjast þess einbeittir og sameiginlega, að íslenzka þjóðin losni úr viðjum hernámsins, þá er hægt að tryggja málinu sigur. Ekkert óttast valdhafar meira en stórfellt fylgistap. Ef þeir finna strauminn nógu sterkan á móti sér, mun svo fara, að einhverjir þeirra að minnsta kosti taka að endurskoða afstöðu sína.

Verið þess minnugir, áheyrendur, hvar í flokki sem þið hafið staðið, að baráttan fyrir lausn Íslands úr fjötrum hernámsins er langt um mikilvægari en öll tryggð við gamla flokka. Þar er um að tefla tilveru þjóðarinnar í bókstaflegum skilningi.

Sú er vissulega von allra, sem gera sér þess nokkra grein, hversu ægileg tortímingaröfl hafa verið leyst úr læðingi, að þjóðir heims beri gæfu til að skipa málum sínum með friðsamlegum hætti, svo að hrjáðu mannkyni verði forðað frá að tortímast í Surtarloga kjarnorkustyrjaldar. Við Íslendingar erum ekki mikils megnugir og ráðum litlu um þróun alþjóðamála. Eitt er okkur í sjálfsvald sett: Við þurfum ekki að bjóða fram land okkar undir helsprengjustöðvar. Það er siðferðisleg skylda hinnar íslenzku smáþjóðar, bæði gagnvart sjálfri sér og öðrum þjóðum, að leggja sitt lóð á vogarskálina þeim megin, sem betur gegnir, friðarins megin.

Ótti gömlu flokkanna við hinn tveggja ára gamla Þjóðvfl. Íslands kemur fram í ýmsum myndum. Þótt flokkurinn eigi engan bakhjarl, hvorki utanlands né innan, annan en áhuga og fórnfýsi flokksmanna, þótt blaðakostur hans sé enn þá lítill og fjárskortur hái öllu útbreiðslustarfi, er enginn gömlu flokkanna óttalaus vegna aukins fylgis Þjóðvfl. og vaxtarmöguleika hans. Þetta hefur komið nokkuð fram hér í þessum umr. Einkum eru foringjar Framsóknar illa haldnir af Þjóðvarnarhræðslu. Þeir komast ekki hjá því að verða þess varir, að æ fleiri frjálslyndir menn hafa megna vanþóknun á íhaldsþjónkun Framsfl., og margir hafa þegar misst trú á, að sá flokkur eigi sér viðreisnar von sem vinstri sinnaður flokkur.

En það eru fleiri en Framsfl. sem óttast það, að eigin gerðir komi þeim í koll og sú vantrú, sem þjóðin hefur fengið á stefnu þeirra og starfsaðferðum, muni verða Þjóðvfl. til eflingar. Flestar leiðir hafa verið reyndar til að gera Þjóðvfl. tortryggilegan og varna því, að hann geti kynnt stefnu sína fyrir þjóðinni.

Annar landsfundur Þjóðvfl. Íslands var haldinn í Reykjavík í lok nóvembermánaðar s. l. Fund þennan sóttu um 60 fulltrúar úr öllum landsfjórðungum. Störf þessa fundar einkenndust af miklum áhuga, fullkominni eindrægni og vitundinni um það, að flokksins biði mikið hlutverk í íslenzkum stjórnmálum. Markmið Þjóðvfl. er að fylkja liði til nýrrar frelsisbaráttu og vinna að sameiningu lýðræðissinnaðra vinstri manna til baráttu gegn íhaldi og spilltum auðhyggjumönnum. Flokkurinn gerir sér ljósa nauðsyn þess, að myndaður verði nýr vettvangur, þar sem vinnandi fólk þjóðfélagsins, sjómenn, verkamenn, bændur, iðnaðarmenn og aðrar starfsstéttir, geti tekið höndum saman og unnið hlið við hlið að uppbyggingu réttláts og frjáls þjóðfélags, án allrar knékrjúpandi dýrkunar á stórveldum í vestri eða austri.

Á öðrum landsfundi Þjóðvfl. var samþ. stjórnmálaályktun, þar sem gerð var ljós grein fyrir eðli flokksins og meginstefnu. Eins og flestum landsmönnum er kunnugt, hefur það jafnan viðgengizt, a. m. k. þegar stjórnarflokkarnir hafa haldið þing sín og landsfundi, að ríkisútvarpið hefur verið notað jafnvel dag eftir dag til að kyrja yfir landslýð öllum samþykktir þeirra. Hafa ekki aðeins verið lesnar stjórnmálaályktanir þessara flokka, heldur hvers konar samþykktir og till. En þegar Þjóðvfl. átti í hlut, var frjálslyndi hins hlutlausa ríkisútvarps ekki meira en svo, að þar fékkst lesin örstutt tilvitnun í stjórnmálaályktunina, einnar eða tveggja mínútna lestur. Annað ekki. Ég vil því leyfa mér að lesa hér örstuttan kafla úr stjórnmálaályktun flokksþingsins, þar sem stefna Þjóðvfl. verður ekki betur kynnt öðruvísi í stuttu máli. Þar segir:

„Með stofnun Þjóðvfl. Íslands er gerð tilraun til að fylkja vinstri öflum landsins á þjóðlegum grundvelli utan um kjarna allrar raunhæfrar vinstri stefnu, baráttu fyrir lýðræði, ekki aðeins í stjórnmálum, heldur einnig í fjárhags- og atvinnumálum, til tryggingar hag og heill almennings með því frjálsræði, að svigrúm veitist til að nýta kosti alls í senn, opinbers rekstrar, samvinnurekstrar og einkarekstrar, eftir því sem hentar íslenzkum viðfangsefnum hverju sinni. Þjóðvfl. Íslands er þannig stofnaður í tvíþættum tilgangi: Til þess að taka upp merki hinnar nýju sjálfstæðisbaráttu og til þess að kalla saman á nýjum vettvangi hinar sundruðu fylkingar vinstri sinnaðra og þjóðhollra Íslendinga. Flokkurinn er reiðubúinn til samstarfs og samvinnu við alla þá, jafnt einstaklinga sem félagssamtök, er taka vilja upp þessa baráttu á þeim forsendum, sem hér hefur verið lýst. Söguleg nauðsyn knýr til slíkra stjórnmálasamtaka, því að annað hefur verið reynt til þrautar. Hinn gamli þríklofni meiður vinstri aflanna er fúinn niður í rót og hlýtur að falla. Annar landsfundur Þjóðvfl. Íslands skorar á alla einlæga og þjóðholla vinstri sinna að taka höndum saman við þjóðvarnarmenn í úrslitatilraun til að efla með þjóðinni sterkan vinstri flokk, er sé óháður jafnt austri sem vestri og standi trúan vörð um frelsi og sjálfstæði Íslands í nútíð og framtíð.“

Þetta var úr stjórnmálaályktun Þjóðvfl. Íslands. Þrjú eru þau meginatriði, sem flokkurinn leggur höfuðáherzlu á: Að breytt verði um stefnu í utanríkismálum; að breytt verði um stefnu í atvinnu- og viðskiptamálum, hætt að hlaða undir braskara og auðhyggjumenn, en stjórnað með almannabrag fyrir augum. Og til þess að koma þessu tvennu í framkvæmd: að sameina hin sundruðu vinstri öfl til markvissrar baráttu fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum á þjóðlegum grundvelli. Þegar það tekst, en fyrr ekki, mun létta þeirri þoku íhalds og auðhyggju, sem nú grúfir yfir íslenzku þjóðinni.