10.05.1955
Sameinað þing: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. „Allir vildu Lilju kveðið hafa,“ var eitt sinn sagt.

Eins er nú farið með atvinnuleysistryggingarnar. Allir flokkar vilja nú tileinka sér þetta merkilega mál. Eysteinn Jónsson sagði, að ekkert verkfall hefði þurft til þess að fá samþykktar atvinnuleysistryggingarnar. Ólafur Thors sagði, að tryggingarnar væru framlag ríkisstj. til lausnar á deilunni. Og Eggert Þorsteinsson og Haraldur Guðmundsson sögðu, að Emil Jónsson hefði verið upphafsmaður málsins. Sannleikurinn er þó allur annar. Fjórtán ár eru síðan Brynjólfur Bjarnason flutti frv. um atvinnuleysistryggingar fyrst á Alþingi. Síðan hafa þm. Sósfl. flutt málið á flestum þingum. Alþýðuflokksmenn hafa ekki fengizt til þess að vera með um flutning málsins fyrr en nú í vetur, eftir að Alþýðusambandsþingið hafði ákveðið að mæla með frv. okkar. Þetta margra ára þingmál hefur oftast verið svæft í nefnd, og aðeins einu sinni hefur því verið skilað úr nefnd. Hægri menn Alþfl. hafa alltaf haft gagnstæða skoðun við verkamenn um fyrirkomulag trygginganna. En ósvífnust er þó kokhreysti Eysteins Jónssonar eftir allt, sem á undan er gengið, að halda því fram, að ekkert verkfall hefði þurft til þess að knýja málið fram. Komið var að þinglokum, og málið lá enn óafgreitt. Það var verkfallið og verkfallið eitt, sem kenndi ríkisstj. nauðsyn atvinnuleysistrygginganna.

Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, sagði, að Alþfl. vildi af heilum huga vinna að myndun vinstri stjórnar lýðræðissinnaðra íhaldsandstæðinga. Betur, að rétt væri. En ekki var ræða hv. þm. um vinstri stjórn og afstöðu Alþfl. sannfærandi. Skilyrði þessa þm., formanns Alþfl., fyrir þátttöku hans mikla flokks í vinstri stjórn var, að Sósfl. t. d., sem er sterkasti flokkur verkalýðshreyfingarinnar í landinu, legði sig niður og gengi í Alþfl. Þessi afstaða minnir ónotalega á fyrri afstöðu hægri manna flokksins, — mannanna, sem nú eru að reka þá menn úr Alþfl., sem af heilum hug vilja samstarf vinstri flokkanna, — mannanna, sem neita þeim Hannibal Valdimarssyni, forseta Alþýðusambandsins, og Gylfa Þ. Gíslasyni um ræðutíma í þessum umræðum. Hægri menn Alþfl. hafa alltaf staðið gegn vinstra samstarfi, sem raunverulega byggðist á samstarfi verkalýðsins alls í landinu, og af því eru hægri menn Alþfl. nú að losa sig með öllu við þá flokksmenn sína, sem ítök eiga í verkalýðshreyfingunni.

Eitt alvarlegasta vandamál íslenzkra atvinnumála um þessar mundir er látlaus flutningur fólks úr þremur fjórðungum landsins hingað til Reykjavíkur. Ríkisstj. er skilningssljó fyrir þessum vanda. Ár eftir ár höfum við sósíalistar flutt frv. og till. um ríflegar fjárveitingar til skipulegrar atvinnuuppbyggingar úti á landi. En ekkert hefur fengizt samþykkt. Úrræði ríkisstj. hafa verið algert fálm, smástyrkir, starfslaus jafnvægisnefnd, sem á að athuga málið, en dráttur hefur verið á öllum framkvæmdum. Svo rammt hefur kveðið að skilningsleysi ríkisstj. í þessum efnum, að efnt hefur verið til milligöngu um það að ráða fólk utan af landi til hernámsvinnunnar á Keflavíkurflugvelli. Á sama tíma sem knúðar voru fram stórfelldar umbætur á landhelgismálum Suðvesturlandsins, var beinlínis fórnað í hagsmunum annarra landsfjórðunga því, sem auðvelt var og eðlilegt að þar yrði gert til aukinnar friðunar fiskimiða.

Í raforkumálum hafa Austfirðingar og Vestfirðingar verið dregnir á efndum árum saman. Og svo þegar framkvæmdir eiga að hefjast, er allt skorið við nögl, því að annað þótti of dýrt. Aukið fjármagn til framleiðslustarfa úti á landi getur stóraukið þjóðartekjurnar, en höftum Reykjavíkurvaldsins og hömlum á öllum sviðum, peninga, verzlunar og atvinnumála, verður að létta af landsbyggðinni. Til stórátaka í þessum efnum þarf nýja ríkisstj. Núverandi stjórn getur ekki og mun aldrei sinna þessum verkefnum.

Umræðum þessum er nú að ljúka. Þær hafa leitt það í ljós enn þá skýrar en áður, að núverandi ríkisstj. er stjórn milliliða og braskara, en skilur ekki og vill ekki skilja hagsmuni hins vinnandi fólks í landinu. Þær hafa sýnt, að ríkisstj. viðurkennir ekki þær forsendur, sem voru til þess, að verkafólk krafðist kauphækkana. Ríkisstj. viðurkennir ekki, að 30% verðhækkun á rafmagni s. l. haust hafi ýtt undir þörf launþega til þess að bæta kjör sín. Hún viðurkennir ekki, að hækkandi vextir hækki húsaleigu. Hún tekur hækkandi olíuverði sem sjálfsögðum hlut. Hún telur vaxandi gróða milliliða enga ástæðu til þess, að verkafólk krefjist launahækkana. Það er í samræmi við þetta, sem ríkisstj. segir ekki eitt einasta orð nú, þegar olíufélögin hækka þjónustustörf sín um 35%. Það er út frá þessu sjónarmiði, sem ráðherrarnir lýsa nú yfir, að sjálfsagt sé, að allt vöruverð í landinu hækki og að ríkissjóður með 100 millj. kr. tekjuafgang eigi að hækka tolla, hækka skatta á launamönnum í landinu. Á meðan orsakir kaupdeilnanna eru til staðar, verður ekki hægt að koma í veg fyrir vinnustöðvanir. Og meðan stjórn landsins metur meir hagsmuni afætulýðsins og milliliða en hag hins vinnandi fólks, þá verða verkföllin löng og kosta þjóðarheildina gífurlegar fórnir. Það eru þessi sannindi, sem ekki verða umflúin.

Aðstaða Íslendinga er nú á margan hátt betri en nokkru sinni áður til þess að geta bætt lífskjörin í landinu. En til þess að svo megi verða, verður að breyta um stjórnarstefnu. Með breyttri stefnu gagnvart framleiðsluatvinnuvegunum mætti auka framleiðslu togaraflotans um 100 millj. kr. á ári a. m. k. Með aukningu togaraflotans mætti gera enn betur. Á sama hátt má stórauka framleiðslu bátaflotans og auka verðmætasköpunina með stóraukinni vinnslu aflans. En grundvallarskilyrði þessa er að létta milliliðaokrinu af framleiðslunni. Með réttri beitingu á vinnuafli landsmanna væri auðvelt að stórauka útflutninginn. Eitt stærsta skrefið, sem þar þarf að stíga, er að uppræta með öllu hernámsvinnuna og næststærsta skrefið er að gera ókleift fyrir milliliðina að sóa vinnuafli hundraða manna í ónytsamleg gróðabrallsstörf.

Í verkföllunum kom samtakamáttur hins vinnandi fólks ljóslega fram. Þá stóðu hlið við hlið Alþýðuflokksmenn og sósíalistar og margir framsóknarmenn. Þá mátti ekki sjá nokkurn mun á afstöðu Alþýðuflokksmanna og sósíalista á Alþingi, og það vakti almenna athygli, að blað Framsfl., Tíminn, stóð meir með verkamönnum en atvinnurekendum í deilunni. Það var eins og Framsfl. fyndi til óþæginda af samstöðunni við íhaldið. Slík samstilling þeirra, sem viðurkenna rétt hins vinnandi fólks sem rétt númer eitt, gæti vissulega fengið miklu áorkað.

Ekki er um að villast, að merkileg tímamót eru að verða í íslenzkum stjórnmálum. Sú samvinna gróðamanna og fulltrúa bænda, sem þvinguð hefur verið fram um skeið, er að leysast upp. En hvað kemur í staðinn? Verður það meiri hluti íhaldsins, alræði braskaranna, eða verður það hlutskipti hins vinnandi fólks að knýja fram þá stjórnarstefnu, sem hagsmunir þess krefjast? Svarið veltur á alþýðunni sjálfri til sjávar og til sveita. — Góða nótt.