28.02.1955
Sameinað þing: 39. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er nú orðin venja að gefa svo fljótt sem verða má hv. Alþingi yfirlit um afkomu ríkissjóðs, og ég mun hér á eftir gefa hv. Alþingi yfirlit til bráðabirgða um afkomu ríkissjóðs árið 1954. Ég verð þó að gefa þetta yfirlit með þeim fyrirvara, að tölurnar geta breytzt nokkuð í endanlegum reikningum, en ég vona, að þær breytingar verði ekki svo stórfelldar, að það raski nokkuð niðurstöðunni sem heitið geti. Má þó samkv. fyrri reynslu fremur gera ráð fyrir, að báðar hliðar reikninganna hækki ofur lítið, en hinu gagnstæða.

Ég mun þá fyrst gefa hér yfirlit um rekstrarreikninginn. Tekju- og eignarskattur var áætlaður 56½ millj. kr., verður væntanlega 68.4 millj. kr. — Stríðsgróðaskattur, hluti ríkissjóðs, var áætlaður 3.4 millj. kr., verður væntanlega 2 millj. og 883 þús. kr. — Vörumagnstollur var áætlaður 24 millj. kr., verður væntanlega 29 millj. og 258 þús. — Verðtollur var áætlaður 117 millj. kr., verður væntanlega 151 millj. og 105 þús. kr. — Innflutningsgjald af benzíni var áætlað 9½ millj. kr., verður væntanlega 11 millj. og 220 þús. kr. — Gjald af innlendum tollvörutegundum var áætlað 7 millj. og 200 þús. kr., verður væntanlega 11 millj. og 28 þús. kr. Fasteignaskattur var áætlaður 700 þús. kr., en verður enginn, því að sá tekjustofn var afhentur sveitarfélögunum á árinu. — Lestagjald af skipum var áætlað 300 þús. kr., verður væntanlega 311 þús. kr. — Bifreiðaskattur var áætlaður 3 millj. og 300 þús. kr., verður væntanlega 4 millj. og 373 þús. kr. — Aukatekjur voru áætlaðar 4 millj. og 500 þús. kr., en verða væntanlega 8 millj. og 119 þús. kr. — Stimpilgjald var áætlað 10½ millj. kr., en verður væntanlega 13 millj. og 471 þús. kr. — Vitagjald var áætlað 1 millj., en verður 1 millj. og 712 þús. kr. — Leyfisbréfagjöld voru áætluð 200 þús. kr., en verða væntanlega 755 þús. kr. — Veitingaskattur var áætlaður 2½ millj. kr., verður væntanlega 2 millj. 423 þús. kr. — Útflutningsleyfagjald var áætlað 500 þús. kr., verður væntanlega 836 þús. kr. — Söluskattur var áætlaður 95 millj. og 500 þús., verður væntanlega 115 millj. og 744 þús. kr. — Leyfisgjöld ýmiss konar voru áætluð 2 millj. og 200 þús. kr., verða væntanlega 5 millj. og 280 þús.

2. gr. fjárlaga var áætluð 338 millj. og 800 þús. kr., en verður væntanlega að frádregnum eftirstöðvum, sem eru taldar munu verða um 12 millj. og 400 þús. kr., 414 millj. og 516 þús. kr.

Þá kemur 3. gr. A. Það er landssíminn, áætlaðar nettótekjur 4 millj. og 240 þús., en verða væntanlega 4 millj. og 865 þús. kr. — Áfengisverzlunin, var áætluð 54 millj. kr. sléttar, en verða væntanlega 68 millj. og 576 þús. kr. — Tóbakseinkasala, voru áætlaðar 40 millj. kr., verða væntanlega 43 millj. og 800 þús. kr. — Ríkisútvarpið, voru áætlaðar 658 þús. kr. nettótekjur, en verða væntanlega 2½ millj. kr. — Ríkisprentsmiðjan, voru áætlaðar 325 þús. kr., en verða væntanlega 555 þús. kr. — Landssmiðjan, voru áætlaðar 165 þús. kr. nettótekjur, en verða væntanlega 100 þús. kr. Ríkisbúin, voru áætlaðar 55 þús. kr., og er áætlað, að þær verði sem allra næst fjárhagsáætluninni, eða um 55 þús. kr. — Rekstrarhalli póstsjóðs var áætlaður 784 þús. kr., en verður væntanlega 790 þús. kr. — Tekjur allra ríkisstofnananna verða þá samkvæmt þessu 119 millj. og 661 þús. kr., en voru áætlaðar tæplega 99 millj. En frá þessu dregst svo tekjuafgangur ríkisstofnana, sem ekki skila tekjum sínum í ríkissjóð og eiga ekki að gera það lögum samkvæmt. Þær eru tvær, þ. e. ríkisútvarpið og landssmiðjan. Þannig dragast frá 2 millj. og 600 þús. kr., þannig að inn á rekstrarreikninginn kemur hagnaður ríkisfyrirtækja samtals 117 millj. og 61 þús. kr.

Tekjur af fasteignum voru áætlaðar 10 þús. kr., og munu verða sem næst því, 10 þús. kr. –Vaxtatekjur voru áætlaðar í millj. og 983 þús. kr., en verða 1 millj. og 550 þús. kr. — Óvissar tekjur voru áætlaðar 4 millj. og 100 þús. kr. og verða væntanlega 4 millj. og 250 þús. kr.

Allar tekjur ríkissjóðs á rekstrarreikningi voru áætlaðar 443 millj. og 552 þús. kr., en verða væntanlega eftir þessu 537 millj. og 387 þús. kr.

Þá kem ég að gjaldahlið rekstrarreikningsins. Vextir voru áætlaðir 3 millj. og 417 þús. kr., en verða 4 millj. og 107 þús. kr. — Forsetaembættið var áætlað 560 þús., en verður 1 millj. og 18 þús. kr. — Alþingiskostnaður var áætlaður 3 millj. og 744 þús. kr., en verður 4 millj. og 769 þús. kr.

10. gr. I, til ríkisstjórnarinnar, þ. e. ríkisstjórnarkostnaðurinn, stjórnarráðið o. fl., var áætlað 6 millj. og 416 þús. kr., en verður 9 millj. og 146 þús. kr., ég skal taka það fram við þennan lið strax, að meginhlutinn af þessari umframgreiðslu er vegna þess, að það hefur verið sett lægri fjárhæð í fjárlögin en reynslan hefur verið undanfarið. — Hagstofan var áætluð 1 millj. og 61 þús. kr., en verður 1 millj. og 81 þús. — Utanríkismál, var áætlað 6 millj. og 461 þús. kr., en verður 7 millj. og 469 þús. kr.

Dómgæzla, var áætlað 26 millj. og 398 þús. kr., en verða 27 millj. og 808 þús. kr. — Opinbert eftirlit, áætlað 1 millj. og 596 þús., en reikningur 2 millj. og 725 þús. kr. — Kostnaður við innheimtu tolla, áætlun 10 millj. og 704 þús. kr., en reikningur 12 millj. og 750 þús. kr. — Sameiginlegur kostnaður vegna embættisrekstrar, áætlað 550 þús. kr., en reikningur verður 674 þús. kr.

Heilbrigðismál, eru áætluð 30 millj. og 164 þús. kr., en verða væntanlega 31 millj. og 798 þús. kr. Vegamál, voru áætluð 41 millj. og 597 þús. kr., en verða væntanlega 48 millj. og 401 þús. kr. — Samgöngur á sjó, voru áætlaðar 8 millj. og 167 þús. kr., en verða væntanlega í1 millj. og 27 þús. kr. — Vita- og hafnamál, voru áætlaðar 12 millj. og 211 þús., en verða væntanlega 12 millj. og 517 þús. kr. Flugmál, áætlað 3 millj. og 310 þús. kr., hallinn á flugmálum, en hann verður væntanlega 2 millj. og 500 þús. kr.

Kirkjumál, áætlun var 6 millj. og 132 þús. kr., en útgjöld verða væntanlega 6 millj. og 311 þús. kr. — Kennslumál, áætlun var 59 millj. og 823 þús. kr., en útgjöld verða væntanlega 63 millj. og 58 þús. kr.

Opinber söfn og bókaútgáfa, — þ. e. a. s. A-liður 15. gr., er áætlaður 5 millj. og 44 þús. kr., en verður væntanlega 5 millj. og 325 þús. kr. — Rannsóknir í opinbera þágu, voru áætlaðar 6 millj. og 249 þús. kr., verða væntanlega 6 millj. og 850 þús. kr.

Til landbúnaðarmála voru áætlaðar 36 millj. og 287 þús. kr. og verða væntanlega 37 millj. og 657 þús. kr. — Til sjávarútvegsmála voru áætlaðar 6 millj. og 102 þús. kr., en verða væntanlega 6 millj. og 146 þús. kr. — Til iðnaðarmála voru áætlaðar 2 millj. og 123 þús. kr., verða væntanlega 2 millj. og 122 þús. kr. — Raforkumál, til þeirra voru áætlaðar 12 millj. og 774 þús. kr., verða væntanlega 12 millj. og 910 þús. kr.

Til félagsmála, voru áætlaðar 54 millj. og 339 þús. kr., en verða væntanlega 55 millj. og 602 þús. kr.

Eftirlaun og lífeyristillög, voru áætlaðar 12 millj. og 902 þús. kr., en verða 13 millj. og 702 þús. kr.

Til dýrtíðarráðstafana, voru áætlaðar 45 millj. og 900 þús. kr., en verða 51 millj. og 300 þús. kr. — Óviss útgjöld voru áætluð 1 millj. og 500 þús. kr., en verða væntanlega 4 millj. og 188 þús. kr.

Samkvæmt heimildarlögum hafa verið greiddar 712 þús. kr., samkvæmt sérstökum lögum 2 millj. og 810 þús. kr. og samkvæmt þingsályktunum Í millj. og 31 þús. kr. — Samkvæmt væntanlegum fjáraukalögum hafa verið greiddar 130 þús. kr.

Niðurstaðan af þessu verður sú, að útgjaldahlið fjárlaganna var áætluð 405 millj. og 541 þús. kr., en verður væntanlega samkvæmt þessu 447 millj. og 658 þús. kr. Ég skal taka það strax fram, að launauppbótin, sem samþykkt var hér á hv. Alþingi, er vitanlega færð á hina einstöku liði, þannig að verulegur hluti af umframgreiðslunum er vegna hennar á þeim liðum, þar sem laun eru mest. Tekjuafgangur á rekstrarreikningi verður samkvæmt þessu 89 millj. og 728 þús. kr., en í fjárlögum var gert ráð fyrir 37 millj. kr. tekjuafgangi.

Þá kem ég að innborgunum og útborgunum á 20. gr., þ. e. a. s. eignahreyfingunum. Þar var gert ráð fyrir að inn kæmu samtals 3 millj. og 250 þús., en hefur orðið 7 millj. og 30 þús. kr.

En út af 20. gr. hafa orðið þessar greiðslur, og mun ég lesa það og bera saman við fjárl. eins og rekstrarreikninginn.

Afborganir lána, það eru föst lán ríkissjóðs. Fjárlög ráðgerðu 10 millj. og 640 þús., en afborganirnar verða 9 millj. 810 þús. Af erlendum lánum var gert ráð fyrir að afborganir yrðu 1 millj. og 314 þús., og þær verða 1 millj. 314 þús. Lán ríkisstofnana, þar er landssíminn, ráðgerðar afborganir 945 þús. og verða 974 þús. — Þá er það II. liður, greitt vegna ríkisábyrgðarlána í vanskilum, var gert ráð fyrir 8 millj., en verða 8 millj. 704 þús. En svo eru hér færðar ýmsar greiðslur á aðra liði, sem eru í raun og veru borgaðar vegna ábyrgða og ég kem að síðar, þannig að það er alls rúmlega 13 millj. og 200 þús., sem útlagt er á árinu vegna ríkisábyrgða, en á þennan lið eru færðar 8 millj. 704 þús., hinu geri ég grein fyrir síðar. — Þá kemur til eignaaukningar landssímans, þar var gert ráð fyrir 5 millj. og 100 þús., en verða 5 millj. 403 þús. — Til bygginga á jörðum ríkisins, þar var gert ráð fyrir 650 þús., en verða 690 þús. — Til ræktunar á jörðum ríkissjóðs, .þar var gert ráð fyrir 150 þús., en verða væntanlega 110. Þ. e. a. s., það er á þessum tveimur liðum samanlagt nákvæmlega fjárveitingin. — Til byggingar björgunar- og varðskips fyrir Norðurland var gert ráð fyrir 500 þús., verða 500 þús. — Til sementsverksmiðju var gert ráð fyrir 1 millj. og annarri milljón á heimildagrein, 22. gr., þannig að það verða þess vegna 2 millj. — Til viðbótarhúsnæðis ríkisspítalanna var gert ráð fyrir 1 millj. og 800 þús., og verður 1 millj. og 800 þús. varið í því skyni. Til byggingar fávitahælis voru áætlaðar 500 þús., verða 426 þús. — Til byggingar nýrra vita og vitavarðabústaða var gert ráð fyrir 1 millj., og við höfum sett hér á bráðabirgðayfirlitið 1 millj., sem er um það, sem búið er að verja í þessu skyni, en leggjum síðan til hliðar það, sem vitagjaldið fer umfram milljón, og kemur það fram síðar. — Til flugvallagerða, 1 millj. 320 þús., en verða 2 millj. 950 þús., eða 1 millj. og 530 þús. meira en fjárl. gerðu ráð fyrir, en þar af eru um 890 þús. samkvæmt sérstakri heimild í 22. gr., því að það er heimilað þar að láta flugmálin njóta þess í framkvæmdum, sem hallinn kynni að verða minni á rekstrinum en fjárl. gera ráð fyrir. Það má því segja, að þessi umframgreiðsla sé að mestu leyti samkvæmt heimild í 22. gr. — Til byggingar heimavistarhúss við menntaskólann á Akureyri, 250 þús. áætlaðar og verða 250 þús. — Til byggingar sjómannaskólans, 440 þús., verða 440 þús. — Til kennarabústaðar á Hólum, 75 þús. og verða 75 þús. — Til menntaskóla í Reykjavík, 1 millj. og 300 þús. og verða 1 millj. og 300 þús. — Til menntaskóla á Laugarvatni, áætlun 250 þús., verður varið 250 þús. — Til skólastjórabústaðar við menntaskólann að Laugarvatni 250 þús. og verður varið 250 þús. — Til viðbótar málleysingjaskólans eru 200 þús. kr. áætlaðar, og verður varið 200 þús. kr. — Til byggingar Kennaraskóla Íslands eru áætlaðar 550 þús., og verður reikningur 550 þús. kr. — Til skólastjórabústaðar við íþróttakennaraskólann á Laugarvatni, 100 þús., og verður varið 100 þús. kr. í því skyni. – Til bygginga á prestssetrum eru áætlaðar 1 millj. og 350 þús. kr., en verður í millj. 573 þús. kr. — Til útihúsa á prestssetrum, áætlaðar 350 þús. kr. og verða 440 þús. kr. — Til byggingar sýslumannabústaða, áætlaðar 600 þús. kr. og verða 668 þús. kr. — Til lögreglustöðvar í Reykjavík, 450 þús. kr. og verða 450 þús. kr. Til lögreglustöðvar á Keflavíkurflugvelli, 350 þús. kr. og verða 350 þús. kr. — Til rafveitu á Hólum, 150 þús. kr. og verða 150 þús. kr. Til byggingar beitarhúsa á Hólum, 25 þús. kr. og verða 25 þús. kr. — Til rafveitu á Hvanneyri, veittar 75 þús. kr. og verða 75 þús. kr. — Til fjósbyggingar á Eiðum, veittar 100 þús. og verða 100 þús. kr. — Til byggingar dieselrafstöðva, lánveitingar, 650 þús. kr. ráðgerðar og verða 650 þús. kr. — Til dvalarheimilis fyrir afvegaleidd börn, 400 þús. á fjárlögum, og verða 400 þús. kr. notaðar í því skyni.

Þá hef ég gert grein fyrir öllum fjárlagaliðunum á 20. gr. Þeir voru áætlaðir samtals 40 millj. og 934 þús. kr., en verða eftir þessu 43 millj. og 982 þús. kr. Þar er innifalin þessi milljón, sem greidd er eftir 22. gr. til sementsverksmiðjunnar, og það, sem greitt er til flugmálanna eftir 22. gr. Það má því segja, að umframgreiðslur á þessum fjárlagaliðum séu í raun og veru ekki neinar.

Þá koma hér aðrir liðir en fjárlagaliðirnir á 22. gr. Það er aukið rekstrarfé ríkisstofnana, 1 millj., og aukið rekstrarfé áfengisverzlunarinnar vegna greiðslu á gæzluvistarsjóði, 3 millj. kr. Áfengisverzlunin hefur sem sé notað sem rekstrarfé gæzluvistarsjóðinn, en okkur þykir ekki skynsamlegt að hafa það þannig, vegna þess að það verður farið að nota hann, verða þess vegna lagðar til hliðar á árinu, eins og rétt er, 3 millj. kr., og þá verður áfengisverzlunin að fá það rekstrarfé af tekjum sinum og getur ekki borgað það inn. — Svo er greidd gömul skuld Skipaútgerðarinnar vegna viðgerðar á Esju, 1 millj. og 320 þús. kr., lán til atvinnuaukningar samkv. heimild í 22. gr., 3 millj. og 810 þús. kr., og lán til Sölufélags garðyrkjumanna samkv. heimild í 22. gr., 300 þús. kr. — Útlagt vegna vangreiðslna á ensku togaraláni, þ. e. a. s. vegna hinna 10 togara, sem keyptir voru, 2 millj. og 518 þús. kr. — Ýmis lán og fyrirframgreiðslur, 1 millj. og 17 þús. kr. —Aukið hlutafé í Skallagrími h/f samkvæmt heimild í 22. gr. fjárlaga, 600 þús. kr. — Greiddar afborganir og vextir vegna áburðarverksmiðjunnar af erlendu láni, 949 þús. kr., en áburðarverksmiðjan gat ekki lagt inn þetta fé, vegna þess að þeir voru enn að leggja í mikinn stofnkostnað hjá verksmiðjunni og höfðu ekki handbært fé til þess að leggja í þetta skipti fram vexti og afborganir af þessu láni, og varð ríkissjóður því að hlaupa undir bagga. — Svo er greitt vegna landa- og lóðakaupa samkv. lögum nr. 64 frá 1941 726 þús. kr., og síðan er lagt til hliðar til vitabygginga, þar sem vitagjaldið fór umfram áætlun, 712 þús. kr., og lagt til hliðar til byggingar stjórnarráðshúss samkvæmt þál. frá 1954 2 millj. kr. Síðan er fyrirframgreitt vegna sementsverksmiðjunnar fjárveiting á árinu 1955, hún er fyrir fram útlögð, af því að það þurfti svo mikið á fé að halda, 1 millj. og 553 þús. kr. — Þetta verða samtals, útgreiðslur á 20. gr., 65 millj. og 789 þús. kr.

Þegar gerð er upp heildarafkoma ársins, eða greiðslujöfnuðurinn, þá mundi ég gera það á þessa lund: Tekjuafgangurinn var 89 millj. og 728 þús. kr., innborganir á rekstrarreikningi, innborganir á 20 gr., aðrar en lántökur, voru 7 millj. og 30 þús. kr. Þetta eru samtals 96 millj. og 758 þús. kr. Frá þessu gengur síðan út á 20. gr. fjárlagaliðirnir allir, sem ég las áðan, 43 millj. og 982 þús. kr. Þá er aukið rekstrarfé ríkisstofnana, 1 millj., og vegna greiðslu áfengisverzlunarinnar á gæzluvistarsjóðnum, 3 millj. kr., greidd gömul skuld vegna viðgerðar á Esju, 1 millj. og 320 þús. kr., lán til atvinnuaukningar samkv. 22. gr., 3 millj. og 810 þús. kr., lán til sölufélags garðyrkjumanna samkv. 22. gr., 300 þús. kr., aukið hlutafé í Skallagrími samkv. 22. gr., 600 þús. kr., og útlagt vegna vangreiðslu á togaraláni, 2 millj. og 518 þús. kr., útlagt vegna afborgana og vaxta af áburðarverksmiðjuláni, 949 þús. kr., greitt vegna land- og lóðakaupa samkv. l. nr. 64 1941, 726 þús. kr., ýmis lán samkv. lista, 1 millj. og 17 þús. kr., geymt af vitagjaldi til vitabygginga, 712 þús. kr., og geymt til stjórnarráðshúss samkv. þál., 2 millj. kr. Þetta eru útgreiðslur, sem nema samtals 61 millj. og 934 þús. kr., en greiðsluafgangurinn verður þá samkv. því 34 millj. og 824 þús. kr., eða rétt um 35 millj. kr., og mun ég nú nota þá tölu til hægðarauka hér á eftir.

Samkvæmt þessu bráðabirgðayfirliti hafa rekstrartekjurnar orðið, eins og ég sagði, 537 millj. kr. og rekstrarútgjöld 447 millj. Tekjuafgangur á rekstrarreikningi hefur þá orðið 89 millj. kr., eins og ég drap á áðan. Til samanburðar má geta þess, að árið 1953, árið áður, var tekjuafgangur nærri jafnhár, eða 86 millj. kr., en þá urðu tekjurnar 510 millj. kr. og gjöldin 423 millj. kr. Hafa því tekjur og gjöld á rekstrarreikningi orðið rúmlega 5% hærri hvort um sig en árið áður. Er þetta áreiðanlega nokkuð önnur niðurstaða en sumir álitu í haust að verða mundi, og munu ýmsir hafa gert ráð fyrir stórfelldari hækkun á tekjunum frá því árið áður en raun er á orðin. Tekjurnar hafa farið allverulega fram úr áætlun á rekstrarreikningi, eða um 94 millj. kr. Er það um 21% hærra en fjárlög gerðu ráð fyrir og nærri nákvæmlega jafnmiklar umframtekjur tiltölulega eins og urðu árið 1953. Útgjöld á rekstrarreikningi hafa á hinn bóginn orðið um 42 millj. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þar af eru launauppbætur og uppbætur á lífeyri samkv. ákvörðun Alþingis nú rétt fyrir jólin og greiðslur samkv. sérstökum lögum, þingsályktunum og heimildarlögum rúml. 14½ millj. samtals. Raunverulegar umframgreiðslur á rekstrarreikningi eru því um 27½ millj., eða tæplega 7% af útgjaldahlið rekstrarreikningsins. Eru það lægstu umframgreiðslur tiltölulega, sem orðið hafa síðustu 30 ár a. m. k., utan einu sinni, árið 1950, að þær voru lægri.

Ekki er veruleg ástæða til þess að rekja einstaka liði af umframgreiðslunum, en á tvo liði verður þó sérstaklega að minnast, sem skera sig nokkuð úr. Annars vegar eru umframgreiðslur vegna vegaviðhalds, 4 millj. kr., hins vegar framlög til þess að greiða niður vöruverð, sem orðið hafa 5 millj. og 400 þús. kr. hærri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Vegaviðhaldið kemst upp í 25 millj., og er það jafnhá fjárhæð og veitt er á þessa árs fjárlögum til vegaviðhaldsins, enda var fjárhæðin núna í fjárlögunum miðuð við þá reynslu, sem við sáum að var að verða á s. l. ári. Varð ekki með neinu móti spornað gegn því, að þessi umframeyðsla ætti sér stað, vegna þess, hvernig ástatt er með vegina. Niðurgreiðslum vöruverðs var haldið svo að segja óbreyttum allt árið, og hefði því áætlunarfjárhæð fjárlaganna átt að duga í því skyni. Það sýndi sig þó, að ekki hafði verið gert nægilega mikið fyrir framleiðslu og söluaukningu innlendra vara, einkum mjólkurvaranna. Þar af stafar hækkunin fyrst og fremst. Þótti ekki fært að draga úr þessum niðurgreiðslum, þótt sýnilegt væri, þegar leið á árið, að umframgreiðslur mundu verða allverulegar á þessum lið.

Launauppbæturnar verða að sjálfsögðu til þess, að umframgreiðslur koma fram talsverðar á öllum launaliðum, eins og ég gat um áðan.

Allar greiðslur á rekstrarreikningi umfram fjárlög, aðrar en vegaviðhald og niðurgreiðslur, hafa þá numið rúmlega 18 milljónum. Mikill hluti þessara fjárhæða er lögboðin útgjöld, en nokkur hluti er á rekstrarliðum, sem reynzt hafa of lágir í fjárlögunum, þótt reynt hafi verið að veita aðhald. Umframgreiðslur þessar stafa að talsverðu leyti af því, að lögboðin útgjöld og önnur óhjákvæmileg útgjöld eru blátt áfram ekki áætluð af nægilegri framsýni hjá stofnunum þeim, sem eiga að vera þessum hnútum kunnugastar.

Greiðslur á 20. gr., sem ekki eru á sjálfu útgjaldayfirliti fjárlaganna, þótt þær séu greiddar samkv. 22. gr. fjárlaganna, margar hverjar, og aðrar samkv. lögum og sérstökum heimildum, eru þessar helztar, — ég hef dregið það saman eftir eðli greiðslnanna:

Það eru greiðslur samkv. 22. gr. fjárlaga, þar eru samtals af þessum greiðslum 6 millj. 520 þús. Það er til sementsverksmiðjunnar, til flugmálanna, til atvinnuaukningar, til sölufélags garðyrkjumanna og aukið hlutafé í Skallagrími. Greiðslur sem sagt samkv. 22. gr. fjárlaga nema á 20. gr. 6 millj. og 520 þús.

Þá er það næsti flokkur greiðslna á 20. gr. Það er vegna ríkisábyrgða. Þar er umfram á þeim lið sjálfum, fjárlagaliðnum, 704 þús., eins og ég gat um áðan, en auk þess útlagt vegna áburðarverksmiðju, sem ég er líka búinn að taka fram, 949 þús., og vegna vanskila á togaralánunum, 2 millj. 518 þús., og vegna landshafnar í Keflavík, 322 þús., sem talið var með ýmsum lánum í upplestrinum áðan. M. ö. o., að umframgreiðslur vegna ríkisábyrgða nema 4 millj. 494 þús., en allar greiðslur vegna ríkisábyrgða nema 13 millj. og 200 þús., eins og ég tók líka fram áðan.

Þá koma greiðslur samkv. lögum á 20. gr. Það eru landa- og lóðakaup, 726 þús., og svo greidd gömul skuld vegna Esju, sem ég tók einnig fram áðan, lagt til hliðar vegna vitagjalds og þingsályktunar um stjórnarráðshús og loks aukið rekstrarfé ríkisstofnana. Þetta, sem ég nú hef talið, nemur 20 millj. og 72 þús. Og þetta sýnir, að þær 20 millj., sem greiðslurnar á 20. gr. nema meiru en fjárlögin gerðu ráð fyrir, eru yfirleitt nær undantekningarlaust borgaðar samkv. sérstökum heimildum Alþingis, samkv. lögum og þingsályktunum frá Alþ. og vegna ríkisábyrgða. Þessar greiðslur eru því alls ekki raunverulegar umframgreiðslur í venjulegri merkingu þess orðs.

Eins og ég hef frá skýrt, urðu umframgreiðslur á rekstrarreikningi um 94 millj., og á 20. gr. kom inn 3 millj. 750 þús. meira en gert var ráð fyrir. Umframtekjur samtals urðu því rúmar 97 milljónir kr. Greiðsluafgangur samkv. bráðabirgðayfirlitinu verður um 35 millj. kr. 62 millj. hefur því verið ráðstafað í stórum dráttum þannig samkv. því, sem ég nú hef upplýst, — ég dreg það saman í útgjaldaflokka:

Það er fyrst: Greidd samkv. sérstökum ákvörðunum og heimildum Alþ. í lögum, þingsályktunum og á 20. gr. fjárlaga 24½ millj.

Í öðru lagi: Útlagt vegna ríkisábyrgða umfram fjárlög 4½ millj.þriðja lagi: Umframgreiðslur vegna niðurborgana á verðlagi 5 millj. og 400 þús., og vegna vegaviðhalds 4 millj. Þetta tvennt: 9 millj. og 400 þús.

Aðrar umframgreiðslur, bæði á lögboðnum útgjöldum og rekstrarliðum, 18 millj. og 200 þús. Aukið rekstrarfé ríkisstofnana 4 millj. og 300þús. Og greidd gömul skuld vegna viðgerðar á Esju 1 millj. og 300 þús.

Þetta eru samtals 62 milljónir. Á þessa lund hefur umframtekjunum verið varið, þ. e. a. s. þeim hluta umframteknanna, sem er ekki greiðsluafgangur.

Þetta yfirlit sýnir, að Alþ. hefur sjálft ráðstafað 24½ millj. af umframtekjunum fyrir fram í raun réttri, og Alþ. mun ráðstafa greiðsluafganginum, 35 milljónum. Alþ. mun því ráðstafa beinlínis 59½ millj. af umframtekjunum, eða sem næst 60 milljónum. Mismunurinn, 38 milljónir, hefur farið í ríkisábyrgðatöp, vegaviðhald, niðurgreiðslur, aukið rekstrarfé og loks venjulegar umframgreiðslur, sem að miklu leyti eru lögboðin útgjöld, en áætluð lægra en þurft hefði að gera.

Samkv. bráðabirgðayfirlitinu nemur greiðsluafgangurinn rétt um 35 millj. kr. Af því fé hefur ríkisstj. með samþykki þingmeirihlutans, sem hana styður, ráðstafað til ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs 16 millj. kr., 8 millj. kr. til hvorrar stofnunar um sig.

Ræktunarsjóður og fiskveiðasjóður eru meðal hinna þýðingarmestu lánsstofnana. Var þeim mjög fjárvant í haust og er raunar því miður enn þá. Var til þess gripið að bæta nokkuð úr af ríkisfé. Verður leitað samþykkis og staðfestingar Alþ. á þessari ráðstöfun, en þingfylgi fyrir fram tryggt, eins og ég sagði áðan, enda aldrei til þess komið, að fé hefði verið fram lagt til þessara sjóða, hefði ekki legið fyrir samþykki meiri hluta alþingismanna.

Drögum við þessar 16 millj. frá greiðsluafganginum, verða eftir 19 milljónir. Því miður er það smávægileg fjárhæð, hefði sannarlega þurft að vera hærri til þess að vega á móti þeirri miklu þenslu, sem nú er í fjárhagskerfi landsins og mjög verður vart, að ég nú ekki tali um, ef ríkissjóður ætti að vera þess megnugur að hjálpa til að leysa þau fjáröflunarvandamál, sem fastast knýja nú á. Þessi fjárhæð þyrfti að geta gengið til þess að grynna á lausaskuldum eilítið og til framkvæmdasjóðs, sem geymzt gæti þangað til honum yrði varið til gagnlegustu framfara, án þess að með því væri framleiðslustarfsemi og efnahagskerfi landsins fært úr skorðum vegna of örrar fjárfestingar og þar af leiðandi skorts á vinnuafli. Það væri skynsamleg stefna nú að hafa greiðsluafgang, sem lagður gæti orðið til hliðar í þessu skyni. Það mundi styrkja peningakerfið, vinna á móti verðhækkunum og verða drjúgt til atvinnujöfnunar og aukinna framkvæmda, þegar til lengdar lætur. En þessi fjárhæð verður smá, þegar rætt er um þetta markmið, en enn þá ljósara verður þó, að ríkissjóður hefur því miður ekki fyrningar eftir þetta góða ár, sem leysa mikinn vanda, þegar athuguð eru öll þau fjáröflunar- og greiðsluvandamál, sem verið er að glíma við þessar vikurnar. Ég nefni nokkur til þess að bregða ljósi yfir viðfangsefnin.

Sparifjárbætur þarf að greiða lögum samkvæmt og það helzt í peningum. Fyrirsjáanlega þarf meira fé í raforkuáætlun ríkisstjórnarinnar en gert var ráð fyrir í byrjun. Er það ekkert nýtt, að slíkar framkvæmdir verði fjárfrekari en í öndverðu var ætlað. Ræktunarsjóður er févana, eins og nú stendur, og óafgreiddar eru meira að segja mjög margar lánbeiðnir út á framkvæmdir fyrra árs. Veðdeild Búnaðarbankans skortir starfsfé. Fiskveiðasjóð vantar fé. Ógreiddar eru milljónir og aftur milljónir upp í hafnargerðir og skólabyggingar, sem búið er að framkvæma. Fjárþörf er brýn til íbúðalána í sveitum, kaupstöðum og kauptúnum. Fjár er vant til þess að endurbyggja hrynjandi stórbrýr. Handbært fé til sjúkrahúsabygginga er sárgrætilega lítið miðað við þörfina og það, sem færzt hefur verið í fang. Þetta eru aðeins örfá dæmi um verkefnin, en ekki tæmandi upptalning á þeim framfaramálum, sem fé skortir til, eins og nærri má geta, en það verður ekki mikið úr 19 millj. andspænis þessu, þótt ekki sé fleira til tekið. Enn þá minna verður þó úr þessu, þegar þess er gætt, að greiðsluafgang ríkissjóðs hefði þurft að leggja til hliðar til þess að auka framkvæmdir síðar, en draga úr ofþenslu nú. Það mun koma fram síðar á hv. Alþingi, hvað ríkisstj. leggur til að gert verði í þessu máli.

Greiðsluafgangur ríkissjóðs á s. 1. ári er óneitanlega minni en hann hefði þurft að vera í jafnóvenjugóðu ári. Leit út fyrir framan af árinu, að afkoma ríkissjóðs mundi verða betri en hún hefur orðið. Tekjur voru á þeim tíma verulegum mun hærri en í fyrra. Á síðustu mánuðum ársins varð á þessu breyting, og dró úr tekjunum, samanborið við það, sem verið hafði framan af árinu. Það má þó segja, að afkoma ríkissjóðs á s. l. ári hafi orðið dágóð, en alls ekki óvenjugóð og ekki nógu góð, þegar litið er á þá miklu þenslu, sem nú er í þjóðarbúskapnum og ég drap á áðan, og endurtek ég það, að ríkissjóður hefði þurft að hafa verulegan greiðsluafgang til þess að vega á móti ofþenslu annars staðar í fjárhagskerfinu. Leggja hefði þurft fé til hliðar beinlínis og verja til nauðsynlegra framkvæmda síðar, þegar minna var um að vera hjá öðrum aðilum. Greiðsluafgangur hefði getað orðið allmiklu meiri en raun er á, ef hv. Alþingi hefði ekki með löggjöf og með því að samþykkja heimildir, sem átti að nota, ráðstafað fyrir fram milljónatugum af umframtekjunum, eða samtals 24½ millj. eða svo, samkvæmt því sem ég gaf yfirlit um áðan. Kröfur um fjárframlög úr öllum áttum eru háværar og pressa mikil á lögð. Hélzt hv. Alþingi og ríkisstj. því ekki vel á fé, þótt nauðsyn hefði verið á öðru til að styrkja afkomu þjóðarinnar út á við og trúna á fjármálakerfi landsins inn á við. Stjórnarandstaðan hér á hv. Alþingi hefur það einkennilega sjónarmið, að hún telur til ódáðaverka, ef greiðsluafgangur verður. Er það þó meira en skrýtið, að svo skuli vera, þegar litið er á öll hin óleystu verkefni. Á hinn bóginn mun verða haldið fast við það grundvallaratriði að hafa greiðsluhallalausan ríkisbúskap. Geta menn þá af og til orðið að gera sig seka um þann glæp að hafa fremur afgang en hitt. Annars væri nokkurn veginn víst, að menn mundu lenda vitlausu megin við strikið af og til og fá greiðsluhalla á ríkisbúskapinn. Greiðsluhallalaus ríkisbúskapur hefur stuðlað að frjálsari viðskiptum, stöðugu verðlagi, aukinni framleiðslu, auknum sparnaði, aukinni atvinnu og velmegun yfirleitt. Það eru til öfl í þjóðfélaginu, sem geta sett verðbólguhjólið af stað aftur þrátt fyrir greiðsluhallalausan ríkisbúskap, eyðilagt allt það, sem áunnizt hefur síðustu árin í þá átt að auka traust á fjármálakerfi landsins, grafið undan verðgildi peninganna og trú manna á því að leggja fyrir fé, geta stöðvað þá aukningu innlenda fjármagnsins, sem var að verða traust undirstaða áframhaldandi framfara og velmegunar. Þetta telja kommúnistar t. d. sig geta nú, og máske geta þeir það. Þá er að taka því. En þung er ábyrgð þeirra manna, sem fela þeim forsjá mála sinna með þvílíkum hætti, að afleiðingarnar yrðu slíkar.

Loks vil ég minnast á, hvað álykta má af þessu bráðabirgðauppgjöri um afkomuhorfur yfirstandandi árs. Það verður þá því miður að segjast, að sízt getur þetta yfirlit aukið bjartsýni manna í þessu efni. Þegar gengið var frá fjárlögum ársins 1955, gerðu þeir, sem kunnugastir voru, ráð fyrir því, að ríkistekjurnar 1954 yrðu fremur yfir en undir 550 millj. Var tekjuáætlun þessa árs byggð á því mati. Nú sýnir þetta yfirlit, að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að tekjurnar nái 550 millj. Tekjuhorfur verða því að teljast óvænlegri en þegar gengið var frá fjárlögunum. Hér við bætist, að vísitalan hefur dálítið hækkað frá því, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs, þegar þau voru samin, og nemur það milljónaútgjöldum. Það er því augljósara nú en nokkru sinni fyrr, að á þessu ári verður ekki pinklum á bætt, nema nýrra tekna verði aflað á móti.