28.02.1955
Sameinað þing: 39. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst aðeins þakka hæstv. fjmrh. fyrir það yfirlit, sem hann hefur hér gefið þm. nú tæpum tveim mánuðum eftir að reikningsárinu 1954 er lokið. Og það tel ég vel, að menn fái fljótt að kynnast, hver útkoman hefur orðið eða niðurstaðan af reikningum ársins. Hins vegar, og ég vil nú skjóta því til hans, ef síðar kæmi til eitthvað svipað og ef um þetta hefði átt að ræða, hefðu reikningarnir eða þetta bráðabirgðayfirlit helzt þurft að liggja fyrir þm., áður en ræðan var flutt, til þess að þeir gætu haft hennar full not. Það er náttúrlega ekki hægt að grípa allar þær tölur á lofti, sem hæstv. ráðh. flutti hér, og gera upp þær niðurstöður, sem út úr þeim koma, á þeim mínútum, sem hann flytur ræðu sína, og gera sér ljósan þann kjarna, sem út úr því kemur. Hefði þess vegna þetta allt komið að betri notum, a. m. k. ef umræður hefðu átt um það að vera, ef þm. hefðu fengið þetta á pappír, áður en ræðan var flutt.

En sem sagt, ég tel þetta í rétta átt, að menn fái fljótlega að kynnast niðurstöðum reikninga ársins, og ólíkt skemmtilegra en að vera að samþykkja tveggja ára gamla reikninga, eins og við vorum hér að fyrir helgina. Heildarmyndin, sem út úr þessu reikningsyfirliti kemur hjá ráðherranum, er, að því er mér sýnist, að ríkistekjurnar hafa orðið 94–95 millj. kr. hærri á árinu 1954 en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi. Þær hafa farið um 21% fram úr áætlun, úr 443 millj. upp í 537 millj.

Ef ég man rétt, voru ríkistekjurnar árið 1952 420 millj. Árið 1953 voru þær komnar upp í 510 millj., eftir því sem ráðh. sagði hér áðan, og nú eru þær komnar upp í 537, þ. e. a. s., á tveim árum hafa ríkistekjurnar hækkað um 117 millj. kr., og hér koma þó sannarlega ekki öll kurl til grafar. Hækkanirnar, sem landsmenn í heild verða að borga, eru þó raunverulega miklu meiri en þessi tala segir, og á ég þar fyrst við þá hækkun, sem orðið hefur á bátagjaldeyrisálaginu á árinu 1954. Það er öllum kunnugt, sem það vilja vita, að bátagjaldeyrisálagið hlýtur að hækka á þessu ári, en sú hækkun kemur ekki inn á fjárlögin, vegna þess að þeim reikningi er haldið þar fyrir utan, illu heilli, vildi ég segja, því að hann á þar sannarlega heima. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um það fengið, hækkar bátagjaldeyrisálagið úr 75 og upp í sennilega í kringum 100 millj. kr. á árinu 1954, þó að það liggi ekki glöggt fyrir enn, þ. e. a. s. hækkunin á því, sem almenningur þarf að borga af þeim vörum, sem á frílista bátagjaldeyrisins eru, nemur um 25 millj. kr. Þar við bætist svo enn einn nýr skattur, sem hefur komið til á árinu, sem er gjaldið á bílana, sem er misjafnt eftir því, hverjir bílarnir eru, en líklega í kringum 100% af fob-verði. Þetta gjald á að nægja til þess að greiða með 2 þús. kr. á úthaldsdag hvers togara, sem gerður er út hér á landi. Þ. e. a. s., ef togarinn er gerður út í 300 daga, þá verður þetta um 600 þús. kr. á skip, eða á rúm 40 skip um 25 millj. kr., sem bætast við, þannig að hækkunin umfram það, sem talið er í fjárl. og á þessum tveim liðum einum, verður í kringum 50 millj. kr. M. ö. o., þær hækkanir, sem teknar hafa verið úr vasa landsmanna og teknar verða væntanlega á yfirstandandi ári, nema ekki, eins og fjárl. greina frá, um 117 millj. kr. á tveimur árum, heldur kannske nær 170 millj. kr. á aðeins tveim árum, sem liðin eru, 1953 og 1954, og skapar það náttúrlega tilsvarandi þröng í búi hjá þeim, sem þessa peninga verða að láta.

Og það er ekki nóg með, að þetta hafi hækkað, heldur hafa orðið ýmsar fleiri hækkanir, sem ríkisstj. hefði átt að geta ráðið við og hefði átt að ráða við. Ég nefni þar til dæmis þær hækkanir, sem orðið hafa á rafmagni, á vöxtum og ýmsu fleiru, þannig að mér finnst, að hæstv. ríkisstj. hafi gengið á undan með að hækka það, sem hún gat, hækka gjöldin til ríkissjóðs, hækka það, sem lagt er á bátagjaldeyrinn, sem hefði verið hægt að halda niðri, taka með beinum framlögum gjaldið af bílunum, hækka rafmagnsverðið, hækka vextina og hækka yfirleitt það, sem hún gat hækkað. Ég nefni þetta vegna þess, að í þessu kemur fram, að mér finnst, mjög óheilbrigð stjórnarstefna og stjórnarstefna, sem hlýtur að leiða til þess, að þeir, sem eiga að borga þessi hækkuðu útgjöld, krefjist einhverra möguleika til þess að geta greitt þessar hækkanir, og eina leiðin, sem þeim þá er fær, er að hækka það kaup, sem þeir taka. Mér finnst þess vegna, að ríkisstj. hafi kallað yfir sig þær aðgerðir, sem verkalýðsfélögin í landinu eru að gera í dag, með því að hækka stöðugt þau útgjöld, sem hún tekur af almenningi, og láta auk þess líðast, að teknar séu stórfelldar hækkanir á ýmsum öðrum sviðum, sem hægt hefði verið að komast hjá.

Við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1954 var flutt till. um það, að söluskatturinn væri felldur niður, og það var líka flutt till. um það, að ef söluskatturinn væri ekki felldur niður, þá væri nokkrum hluta hans ráðstafað til bæjar- og sveitarsjóðanna víðs vegar um land. Hvorugt þetta var samþ. En hvað kemur nú í ljós? Það kemur í ljós, að tekjur ríkissjóðsins á árinu 1954 eru nákvæmlega jafnhárri upphæð hærri en áætlunin var sem söluskattinum nemur í áætluninni. Tekjur ríkissjóðsins reynast á reikningi vera rúmum 94 millj. kr. hærri en gert er ráð fyrir í fjárl. eða fjárhagsáætluninni, en söluskatturinn er þar áætlaður 95 millj. kr.

Ef ekki hefði verið talið fært að fella niður þessa upphæð, þá hefði þó verið fært að fella niður nokkurn hluta hennar til þess að gera bæjar- og sveitarsjóðunum kleift að lækka sína útsvarsbyrði, sem margir bæjar- og sveitarsjóðir eru í mjög miklum erfiðleikum með.

Ég skal ekki fara mjög miklu fleiri orðum um þessa skýrslu hæstv. ráðh. Ég er sem sagt þakklátur honum fyrir það, að hún var flutt og flutt svona snemma, og tel það röggsamlegt, að hún sé svona snemma til. En ég hefði óskað eftir því, að hún hefði legið fyrir í aðgengilegra farmi, því að það er ekki hægt að gera sér grein fyrir þessum mörgu tölum, sem hæstv. ráðh. las hér upp, á svona stuttum tíma. Mér finnst ég geta lesið út úr henni þennan boðskap, sem ég tel hættulegan, að það eru teknar af mannfólkinu í landinu hærri upphæðir en þörf er á, og þó eru ekki taldar í fjárl. allar upphæðirnar, sem teknar eru og skyldar eru þeim gjöldum, sem getið er á reikningi ríkisins. Þá hefur þess ekki heldur verið gætt af ríkisstj. að halda niðri þeim gjöldum, sem hún gat ráðið við og átti að ráða við og átti að halda niðri, ef hún vildi reyna að fá hlutina til þess að ganga áfram á sama hátt og þeir höfðu gengið, því að það er enginn möguleiki fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að hugsa sér, að hún geti hækkað útgjöldin á almenningi í landinu áfram og áfram, án þess að sá sami almenningur hljóti einhverjar hærri tekjur í staðinn.