28.02.1955
Sameinað þing: 39. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (3160)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 8. landsk. þm. (BergS) spurði að því m. a., hvort hér hefði verið mikið traust á íslenzkum gjaldmiðli. Traustið á íslenzkum gjaldmiðli hefur verið þannig, að sparifjárinnstæður hafa nú á síðustu tveimur árum aukizt meira raunverulega en nokkru sinni eru dæmi til í sögu landsins og margfalt meira en þær höfðu aukizt á næstu árum á undan. Þetta sýnir, að menn höfðu fengið aukið traust á íslenzkum gjaldmiðli. Þetta er hinn ólygnasti vottur þess.

Þessi hv. þm. vitnaði hér nokkuð í ummæli frá hagfræðingi Landsbankans um, að það væri ofþensla hér, sem ekkert var raunar nánar til tekið í hverju væri fólgin. Hv. 8. landsk. var að gefa í skyn, að órói væri orðinn út af þessu meðal landsmanna. Ég vil í þessu sambandi benda á, að tveir úr hópi merkustu hagfræðinga landsins, hagstofustjórinn og Ólafur Björnsson prófessor, hafa íhugað þessi mál og komizt að þeirri niðurstöðu, að á síðustu tveimur árum hafi kaupmáttur launa svo sem ekkert breytzt, og þetta bendir óneitanlega ekki til þess, að þeir dómar, sem hv. 8. landsk. vildi fella um verðlags- og fjárhagsmál, séu réttmætir.

Þá vil ég benda á það í þessu sambandi, þó að það verði nú að teljast aukaatriði, að hv. 8. landsk. þm. og aðrir þeir hv. þm., sem hafa svipaða aðstöðu og hann, hafa skipað sér á móti stjórninni, hafa ævinlega beitt sér á móti öllum ráðstöfunum, sem hafa gengið í þá átt að minnka þensluna. Þeir hafa viljað láta afnema tolla í svo stórum stíl, að ef farið hefði verið að þeirra ráðum, hefði orðið stórfelldur halli á ríkisbúskapnum, sem óhjákvæmilega hefði haft í för með sér gífurlega verðþenslu og sett hér allt úr skorðum. Það situr miðlungi vel á mönnum, sem hafa haft slíka afstöðu, að koma hér fullir vandlætingar út af því, að stjórnin hafi ekki rekið nógu harðhenta fjármálapólitík. En það var ekki hægt að skilja annað en að það væri það, sem hv. 8. landsk. meinti með því að vitna hér í álit hagfræðings Landsbankans. Enginn dregur a. m. k. það í efa, að hagfræðingur Landsbankans á við, að það hafi ekki verið rekin nógu harðsnúin fjármálapólitík, það hafi ekki verið tekið nógu mikið af mönnum í sköttum og tollum, ekki hafður nógu mikill afgangur á ríkisbúskapnum til þess að safna inneignum í seðlabankanum og draga fé úr umferð. Það er vitanlega þetta, sem vakir fyrir með þeirri gagnrýni, sem hv. 8. landsk. þm. vísar til. En öllu skýtur þessu nú nokkuð skökku við, eins og við er að búast úr þessari átt. Það bar meira en litið á þessu sama hjá hv. 1. landsk. þm. (GÞG), og skal ég koma hér örlítið að því næst.

Ég fer að halda, að þessi hv. þm. hafi alls ekki verið hér viðstaddur, þegar ég flutti framsöguræðuna í dag. Ég sný nú að vísu baki við sæti hans og fylgdist því ekki með því, hvort hann hlustaði, en ég álykta helzt, eftir því sem hann talaði, að hann hafi ekki verið viðstaddur. Hann sagði eitthvað á þá leið, að hæstv. ráðh. hefði verið að guma af tekjuafganginum, — verið að guma af því, að tekjuafgangur ríkissjóðs hefði orðið 96 millj. Af þessu álykta ég, að hv. þm. hljóti að hafa verið fjarstaddur, því að þetta er svo fjarri öllu lagi. Ég lagði enga áherzlu á tekjuafganginn og hef aldrei gert á undanförnum árum, ævinlega á greiðsluafganginn, og því ætla ég að þessi hv. þm., sem er prófessor í hagfræði, hefði þó átt að geta áttað sig á. Ég hef ævinlega lagt höfuðáherzluna á greiðsluafganginn, en ekki tekjuafganginn á rekstrarreikningnum, sem segja má, eins og hann tók fram, að í þessu sambandi sé ekkert höfuðatriði. Ég hef ævinlega lagt höfuðáherzluna á það, hver áhrif ríkisbúskaparins væru á fjármálakerfið, einmitt með því að gera upp miðað við greiðsluafgang eða greiðsluhalla, en ekki tekjuafgang eða tekjuhalla á rekstrarreikningi. Ég hygg, að flestir landsmenn aðrir en þessi hv. prófessor hafi áttað sig á því, hvernig þetta dæmi hefur verið gert upp af minni hendi undanfarin ár. Í því sambandi vil ég m. a. vísa til ræðu minnar áðan, þar sem ég lagði höfuðáherzluna á, að greiðsluafgangur hefði orðið 35 millj., þegar búið var að draga frá allar greiðslur, sem hafa áhrif á peningakerfið, en lagði enga áherzlu á tekjuafganginn, svo sem vorkunnarlaust var að heyra. Ég dró svo þar að auki frá það, sem ráðstafað hefur verið til ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, til þess einmitt að sýna, að það væru þá ekki nema 19 millj. eftir, þó að tekjuafgangurinn væri 96 millj. Svo kemur hér einn hv. þm. og það prófessor í hagfræði og fer að tala um, að það sé mjög vafasamt af hæstv. ráðh. að vera að veifa hér framan í menn og guma af tekjuafganginum sérstaklega. Síðan fer þessi hv. þm. að benda á, hvernig skuldaskiptin hafa verið við Landsbankann, og flytur það hér eins og einhverja uppgötvun, að aðstaða ríkissjóðs í Landsbankanum hafi ekki batnað nema um 22 millj. á s. l. ári, þó að tekjuafgangurinn, sem ráðh. hafi verið að guma af, eins og hann orðaði það, hafi verið 96 millj. Þetta var þá saga til næsta bæjar, eða hitt þó heldur, þegar ég var búinn að upplýsa, að sá raunverulegi afgangur er um 19 millj. Er þá nokkuð einkennilegt, þó að aðstaðan í Landsbankanum hafi ekki breytzt til bóta nema um 22 millj.?

Þá sagði þessi hv. þm., að hér kæmu fleiri kurl til grafar, því að þar að auki hefði ríkisstj. tekið upp á því að hafa viðskipti við viðskiptabankana, fá hjá þeim fé til framkvæmda — sagði, að 18 millj. hefðu verið teknar í þessu skyni að láni hjá viðskiptabönkunum á s. l. ári, og mér skildist hann vilja blanda þeim inn í þetta dæmi, þær þyrftu líka að dragast frá, áður en sá greiðsluafgangur ríkissjóðs væri fundinn, sem væri hægt að tala um í sambandi við peningamálin. En þetta er byggt á misskilningi, því að ef þessar 18 millj., sem ganga til framkvæmda, eru lánaðar af viðskiptabönkunum af auknum sparnaði á árinu, þá þarf alls ekki að taka það inn í þetta dæmi, því að þá hefur aðeins það gerzt, að þessar 18 millj. hafa verið lánaðar til þessara framkvæmda, en hefðu ella verið lánaðar til annarra framkvæmda eða a. m. k. annarra þarfa.

Ég er hv. þm. alveg sammála um það, að heilbrigt er að hafa afgang á ríkisbúskapnum, þegar þensla er, ætti þá frekar að leggja út í að hafa halla, þegar of lítið er um að vera hjá öðrum en ríkinu. Þetta er einmitt það, sem ég hef verið að prédika hér ár eftir ár. Menn skyldu vera rólegir, þó að einhver afgangur væri á ríkisbúskapnum, bæði þyrfti á honum að halda í margvíslegu skyni, þannig að lítt héldist á honum, og svo þyrfti á góðum árum að leggja fyrir til framkvæmda síðar og til þess að hafa heilbrigð áhrif í þjóðarbúskapnum, þegar hætta væri á þenslu og ekkert atvinnuleysi. Þetta hef ég prédikað svo að segja í hvert skipti sem ég hef talað um þessi mál undanfarin ár. Mér þykir vænt um, að þessi hv. þm. tekur undir þetta núna. Á hinn bóginn get ég ekki komizt hjá því að minna á, að úr herbúðum stjórnarandstæðinga, og það líka úr herbúðum hv. þm. og það meira að segja nú síðast áðan af hendi formanns þingflokks Alþfl., hefur það verið harðlega gagnrýnt á undanförnum árum, að ríkissjóður hafi haft afgang fremur en hitt. Nú uppgötvast það allt í einu hins vegar á elleftu stund af hagfræðiprófessor stjórnarandstöðunnar, að þetta tal þeirra hefur allt saman verið bara misskilningur. Nú er tónninn sá, að stjórnin hafi ýtt undir verðþenslu með því að hafa of lítinn afgang og úthluta honum svo stundum ofan í kaupið. Ég skal játa, að það hefur stundum verið teflt á tæpt vað einmitt með því að úthluta greiðsluafganginum. Hefði þurft að safnast meira fyrir af honum í Landsbankanum. En það þurfti ekki þennan hv. þm. til að segja mér þetta; mér var þetta alveg ljóst áður. Að hinu leytinu er fróðlegt að heyra þetta nú úr herbúðum stjórnarandstæðinga eftir allt það, sem á mér hefur dunið undanfarið út af því, að ég hef reynt að stilla svo til síðustu árin, að greiðsluafgangur yrði. Meira að segja nú rétt áðan talaði hv. 5. landsk. þm. nokkur orð og sagði m. a., að niðurstaðan af ríkisbúskapnum á síðasta ári sýndi, að það hefði verið tekið meira en þörf var á af landsmönnum. En hv. 1. landsk. þm. (GÞG) heldur því fram, að ekki hafi orðið nógu mikill greiðsluafgangur til þess að styðja peningakerfið. Ég held því alveg hiklaust fram, að áhrif ríkisbúskaparins á peningakerfið á s. l. ári og á síðustu árum, eða síðan 1950, hafi verið hagstæð, en ekki óhagstæð. Þegar á heildina er litið, hefur orðið nokkur afgangur, og þótt miklu af honum hafi verið úthlutað, hafa lausaskuldir ríkissjóðs lækkað á þessu tímabili, og það er gleggsti mælikvarðinn. Ég álít þess vegna, að sú gagnrýni, sem hér hefur ofur lítið bólað á í sambandi við þessar umræður nú í fyrsta skipti í nokkur ár og í algerri mótsögn við allt, sem komið hefur úr herbúðum stjórnarandstæðinga á undanförnum árum, að ríkisbúskapurinn hafi haft óhagstæð áhrif á peningakerfið undanfarið, sé alveg úr lausu lofti gripin, það megi halda hinu fram, að átt hefði að stilla svo til, að hagstæð áhrif ríkisbúskaparins yrðu meiri en þau hafa orðið. Það er annað mál. Áhrifin hafa óneitanlega verið hagstæð og verkað í þá átt að halda við fjárhagslegu jafnvægi og verðlagi stöðugu, enda sýnir þróunin í verðlagsmálum þetta. Það hefur óneitanlega verið nokkuð erfitt að fá samtök um þessa fjármálastefnu vegna þess, hve fast er sótt hér á hv. Alþingi að fá alls konar framlög úr ríkissjóði og hve fast er sótt á um úthlutun eða ráðstöfun greiðsluafgangsins hverju sinni. Og stjórnarandstæðingar hafa ekki gert þetta léttara, þótt þeir komi nú allt í einu úr öfugri átt.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði hér nokkur orð. Mest af því var svo almennt, að ekki er hægt að henda reiður á því. Hann kom inn á, og það gerði hv. 5. landsk. þm. nokkuð líka, að ríkisstj. hefði verið of aðgangsfrek um skattaálögur og tollakröfur. Það vottaði t. d. fyrir því, að sparnaður minnkaði, skildist mér á hv. 2. þm. Reykv., fyrir það að stjórnin gengi svo fast að mönnum. Þetta eru auðvitað hin verstu öfugmæli. Ég er satt að segja alveg hissa á því þreki að geta endurtekið ár eftir ár þessa fjarstæðu, þegar það liggur fyrir, að skattar og tollar hafa verið lækkaðir mjög verulega og beinu skattarnir hvorki meira né minna en um 28 eða 29%. Það kom t. d. fram mjög glöggt í útreikningum þeim, sem hagfræðingar hafa nú gert, að um skattalækkunina munar talsvert, þegar metin er kaupgeta launa nú, samanborið við það, sem var fyrir 2 árum.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., og talaði einnig í því sambandi alveg svart, að ríkisstj. hefði lagt of lítið í framleiðslutæki á undanförnum árum. Þetta eru sem fyrr alveg öfugmæli. Það hefur aldrei verið meiri fjárfesting en einmitt á þessum síðustu árum og aldrei jafnmikil framleiðsla og atvinna og síðustu árin, og það svo, að stórkostlegt vandamál er að fólkseklunni, þó að fækkað hafi verulega því fólki, sem vinnur að varnarliðsvinnunni. Þetta eru því allt saman fullkomin öfugmæli hjá hv. þm.

Þá var hv. þm. að breiða sig út um það, og hv. 8. landsk. þm. (BergS) tók nokkuð undir, að ég hefði sveigt hér sterklega að verkamönnum og talið, að þeir væru þau öfl, sem mundu setja úr skorðum fjárhagskerfið og koma verðbólgunni af stað aftur. Ég tók það greinilega fram, að þau öfl, sem þetta vilja, eru kommúnistarnir, og þeirra starfsemi og öll afskipti þeirra af atvinnu- og fjárhagsmálum eru miðuð við að koma af stað öngþveiti. Starfsemi kommúnista á ekkert skylt við hagsmuni verkalýðsins.

Þá spurði hv. 2. þm. Reykv. hér: Hvað kom fjmrh. til að leggja fram níu hundruð og eitthvað þús. krónur í vexti og afborganir fyrir áburðarverksmiðjuna? Það er von, að hv. þm. spyrjl. Hvað gat valdið þessum undrum? Þetta er þó ósköp einfalt mál. Ríkið er nefnilega í ábyrgð fyrir láni því, sem þurfti að greiða af vexti og afborganir. Þess vegna var ekki um annað að ræða en að leggja þetta út, þegar skuldari gat ekki staðið í skilum.

Þá eru loks fáein orð út af því, sem hv. 5. landsk. þm. (EmJ) sagði. Hann sagði, að það væri bezt, að bráðabirgðauppgjörið lægi fyrir þm., til þess að menn gætu áttað sig á því fyllilega fyrir umr. Það er alveg rétt, að ekki er hægt að búast við því, að menn geti krufið til mergjar uppgjör sem þetta, þótt þeir heyri það lesið, enda er ekki gert ráð fyrir því, að svo geti orðið. Þessar upplýsingar eru gefnar til þess, að hv. þm. geti fengið vitneskju um afkomuna og haft hana til afnota við þær umr., sem síðar verða hér á hv. Alþ. Það er ekki hægt að ætlast til þess af hv. stjórnarandstæðingum t. d., að þeir geti nú á stundinni sagt allt um þetta, sem þeir vildu segja eftir að hafa íhugað málið.

Hv. 5. landsk. þm. minntist nokkuð á, að stjórnin hefði aukið álögurnar, en það er byggt á algerum misskilningi. Stjórnin hefur lækkað skattana og tollana.

Þá minntist hv. þm. einnig á, að stjórnin hefði aukið bátagjaldeyrishlunnindin. En þetta er líka alveg öfugmæli. Stjórnin hefur dregið úr bátagjaldeyrishlunnindunum 10%, þannig að í stað þess, að áður var heimilt að leggja á helming bátagjaldeyrisins, þá er nú aðeins heimilt að leggja á 45% gjaldeyrisins. Þetta er því allt á sömu bókina lært hjá hv. stjórnarandstæðingum.

Þá minntist þessi hv. þm. nokkuð á, og aðrir hv. þm. raunar sumir hverjir líka, að tekjurnar sýndu, að óhætt hefði verið að áætla þær hærra en gert var í fjárlögunum. Sumir hafa kveðið dálítið fastar að orði og sagt, að niðurstaðan sýndi, að það hefði verið hægt að lækka mjög verulega skattana, t. d. söluskattinn. Ég vil benda þessum hv. þingmönnum á, að eiginlega er blærinn á þessum umr. sá, þegar á heildina er litið, — ég miða það m. a. við þá gagnrýni, sem kom fram hér hjá hv. 1. landsk. þm. (GÞG) og hv. 8. landsk. (BergS), — að afkoma ríkissjóðs hafi ekki orðið nógu góð. Sjá þá allir, hvernig mundi farið hafa, ef farið hefði verið eftir uppástungum hv. stjórnarandstæðinga um að lækka tolla og skatta miklu meira en stjórnin beitti sér fyrir.