02.11.1954
Sameinað þing: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (3178)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar samkomulag varð um það við stjórnarmyndunina í fyrrahaust, að Framsfl. tæki að sér utanríkismálin, var sú verkaskipting gerð samkv. ósk hans. Þess hafði gætt, að óánægja ríkti með ýmislegt í sambandi við varnarsamninginn og framkvæmd hans, enda ekki óeðlilegt á byrjunarstigi framkvæmdanna.

Eftir að Framsfl. hafði tekið við utanríkismálunum, var þegar hafizt handa að undirbúa fyrirhugaðar breytingar, en sumum breytingum varð ekki komið á nema með samkomulagi við Bandaríkjamenn.

Með orðsendingu, sem ég afhenti sendiherra Bandaríkjanna í Reykjavík 4. des. 1953, var farið fram á það af hálfu Íslands, að teknar yrðu upp viðræður milli ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bandaríkjanna um nokkur tiltekin atriði varðandi hervarnarsáttmálann frá 5. maí 1951 og framkvæmd hans. Hinn 21. des. s. l. tjáði Bandaríkjastjórn íslenzku ríkisstj., að Bandaríkin hefðu fallizt á að hefja viðræður og viðræðurnar færu fram hér á landi. Þeir af fulltrúum Bandaríkjanna, sem þaðan voru sendir, komu hingað um mánaðamótin janúar-febrúar, en viðræðurnar milli fulltrúa íslenzku ríkisstj. og Bandaríkjastjórnar hófust í Reykjavík 2. febr. síðastliðinn.

Samningarnir gengu mjög hægt. Var farið fram á margt af okkar hendi, sem Bandaríkjunum þótti erfitt að samþykkja. Er samningamenn Bandaríkjanna voru farnir vestur, hélt utanrrn. og ameríska sendiráðið viðræðum áfram, en lengi stóð á samþykki bandarískra stjórnarvalda á ýmsum atriðum. Gætti töluverðrar óþolinmæði hjá almenningi vegna þess, hve samningarnir gengu seint. Við, sem við samningana fengumst, létum það ekki á okkur fá. Kusum við heldur seinaganginn en að slá af lágmarkskröfum okkar. Samningsgerðinni var loks lokið hinn 26. maí s. l., og birti ég þá í útvarpi og blöðum niðurstöður af samningsgerð og viðræðum, sem átt höfðu sér stað um endurskoðun tiltekinna atriða varnarsáttmálans frá 5. maí 1951 og framkvæmd hans. Hv. Alþ. hafði þá hætt störfum, og tel ég rétt og skylt að gefa því nú skýrslu um samningana svo og skýra frá því, hvernig gengur með framkvæmd þeirra. Mun ég svo taka hér hin ýmsu samningsatriði hvert fyrir sig.

Í fyrsta lagi var samið um, að framkvæmdir á vegum varnarliðsins skyldu skipulagðar þannig, að fullt tillit sé tekið til vinnuaflsþarfar íslenzkra atvinnuvega. Framkvæmd þessa atriðis hefur orðið sú, að um 600 færri Íslendingar vinna að jafnaði fyrir varnarliðið nú en í fyrra. Er því auðsætt, að aukinn vinnuaflsskortur í landinu stafar ekki af fjölgun Íslendinga í varnarliðsvinnu, nema síður sé.

1. okt. s. l. var alls 2391 Íslendingur, menn og konur, við störf fyrir varnarliðið, og til fróðleiks má geta þess, að tala þessi skiptist niður á ýmsa aðila þannig:

Varnarliðið sjálft ....................... 483

Íslenzkir aðalverktakar .................. 9

Metcalfe-Hamiltonfélagið ................. 1049

Sameinaðir verktakar ................... 765

Þar af utan Keflavíkur 168, með talið vinnan

á Langanesi og Hornafirði og víðar.

Wyatt Hedrickfélagið ................... 30

Ýmsar umsýslustofnanir á vellinum ... 55

Síðari tölur, þ. e. a. s. tölur síðar í október, eru lítið sem ekkert breyttar, en þó nokkru lægri.

Í öðru lagi var samið um, að Íslendingum skyldi gefinn kostur á ýmiss konar tækniþjálfun. Skyldi það vera gert til þess, að Íslendingar gætu yfirtekið ýmis störf, sem nú eru framkvæmd af Bandaríkjamönnum. Er hér einkum um að ræða meðferð og viðhald stórvirkra vinnuvéla svo og verkstjórn við vandasöm verk. Bandaríkjamenn leggja til endurgjaldslaust vélar og menn í þessum tilgangi og bera einnig dvalarkostnað þeirra Íslendinga, er fara til Bandaríkjanna til slíks tæknináms.

Tækninám þetta er þegar hafið. Fyrir alllöngu fór 12 manna hópur vestur, og annar hópur er á förum. Er gert ráð fyrir, að 50–60 menn fari vestur.

Annar þáttur í tækniþjálfuninni er sá, að hafin er lagning vega með nýtízku og stórvirkum vélum. Er Íslendingum kennt að stjórna þeim. Ákveðið var að leggja veg ofan við Hafnarfjörð til þess í framtíðinni að beina umferðinni til og frá Suðurnesjum út úr bænum, en forráðamenn Hafnarfjarðar hafa kveinkað sér undan hinni miklu umferð, sem streymir í gegnum bæinn. Vegarlagningu þessari miðar vel áfram, og er mér sagt af fróðum mönnum, að vinnubrögð og tækni þar gæti orðið fyrirmynd fyrir lagningu nýrra íslenzkra vega í framtíðinni.

Í þriðja lagi var samið um, að núverandi aðalverktaki hætti starfsemi sinni hér á landi. Samningar, sem gerðir höfðu verið við þennan aðalverktaka um tiltekin verk, sem voru ekki hafin, hafa verið afturkallaðir. Öruggt er talið, að aðalverktaki hafi lokið útivinnu í kringum áramótin og hverfi síðan af landi brott, er hann hefur gengið frá vélum sínum, varahlutabirgðum og öðrum málum. Allar sögur um það, að samið hafi verið við hinn ameríska aðalverktaka um að starfa hér áfram næsta ár, eru ósannar.

Því hefur verið haldið fram, að krafan um, að ameríski aðalverktakinn hætti, væri fram komin einungis af efnahagslegum ástæðum og til að auka gróða Íslendinga. Ég vil taka það fram, og legg áherzlu á það, að fyrir mér og öðrum þeim, er að samningnum stóðu, vakti það fyrst og fremst, að með brottför erlends verktaka væri leystur erfiður þáttur sambúðarvandamálsins.

Í fyrsta lagi losnum við við verkstjórn útlendinga yfir íslenzkum verkamönnum, sem því miður hefur ekki ætið gefizt vel.

Í öðru lagi hverfa erlendir verkamenn úr landi með verktakanum, og fækkar þá hinum erlendu mönnum að mun í landinu.

Nú eru rúmlega 1000 erlendir verkamenn og starfsmenn á vegum varnarliðsins hér á landi, og er það um 300 færra en í fyrra. Er hér með hrakin sú fullyrðing, sem út hefur verið breidd, að erlendum starfsmönnum á vegum varnarliðsins hafi stórfjölgað í seinni tíð.

Í fjórða lagi var samið um, að nýjum verkum fyrir varnarliðið skyldi úthlutað til íslenzkra verktaka, sem viðurkenndir væru af íslenzku ríkisstj. og þeir væru færir um að framkvæma. Samkomulag hefur orðið um þau verk, sem byrja á eða úthluta á á þessu ári, og samningar um verkefni næsta árs munu hefjast í nóvember-desember. Ríkisstj. fylgist með verksamningum. Ef milli ber með gerð verksamninga, hefur ríkisstj. milligöngu um að leysa úr þeim ágreiningi. Um framkvæmdir þessa atriðis er það að segja, að stofnað hefur verið íslenzkt aðalverktakafirma. Verður hlutverk þess að leysa hinn erlenda verktaka af hólmi, bjóða í verk og úthluta þeim til íslenzkra verktaka eða, ef til kemur, framkvæma þau sjálft.

Hinn nýi aðalverktaki stendur nú í samningum um fyrstu verkin. Er það von mín, að allt fari vel af stað og íslenzkir verkfræðingar sýni, að þeir séu færir um að taka að sér hin vandasömustu störf.

Til þess að gera íslenzkum verktökum kleift að taka að sér hlutverk hins erlenda verktaka, verður þeim gefinn kostur á að fá til umráða vinnuvélar og önnur tæki og efni til framkvæmda, sem Bandaríkin eiga hér á landi, með þeim skilmálum, er um semur, sömuleiðis húsahverfi það, er hinn ameríski aðalverktaki nú notar, jafnóðum og verkefni hans minnka, þ. á m. íbúðir og húsnæði mötuneytis, verkstæði, vörugeymslur og húsnæði og tæki til sameiginlegra afnota fyrir verkamenn í tómstundum þeirra, enda komi þetta ekki í bága við skipulag til aðgreiningar á samningssvæðum.

Ríkisstj. hefur milligöngu um hvers konar ráðningar íslenzks fólks til starfa á samningssvæðunum.

Í fimmta lagi var samið um, að Bandaríkjamenn skyldu girða af dvalarsvæði varnarliðsins á sinn kostnað. Skyldi þar með lokið því sambýli, er átt hefur sér stað á varnarsvæðunum. Girðing á varnarsvæði í Keflavík verður nálega 40 km löng, og er nú þegar búið að leggja um þriðjung hennar. Verkinu er haldið áfram, og veitt hefur verið fé til þess að ljúka því. Hér með vil ég hrekja þann fréttaburð nokkurra blaða, að engin girðing hafi verið gerð eða verði gerð.

Það er einnig ástæðulaust að orða þetta svo, að verið sé að setja varnarliðið í fangabúðir. Alls staðar þar, sem herbúðir eru, er fylgzt með því, hverjir fara inn eða út úr herbúðum, og eins á að gera hér, þótt það hafi verið vanrækt til þessa.

Í sjötta lagi var samið um, hversu margir varnarliðsmenn eða erlendir starfsmenn við varnarframkvæmdir fái orlof hvern dag og fyrir hvaða tíma þeir skuli vera komnir í stöðvar sínar. Með þessu nýja samkomulagi er stórlega dregið úr samskiptum varnarliðsins og landsmanna.

Það bar á því á tímabili, að hermenn bjuggust borgaralegum klæðum, er þeir fóru í leyfi af flugvellinum. Fyrir þetta hefur verið tekið, enda mjög lág tala hermanna, er leyfi fá daglega.

Þegar amerískir verkamenn hafa flutzt úr landi, ætti ekki nein teljandi umferð erlendra manna af flugvellinum að eiga sér stað í Reykjavík eða annars staðar.

Ríkisstj. hefur áskilið sér og á það hefur verið fallizt, að reglur þessar verði endurskoðaðar, jafnskjótt og ástæða kann að þykja til að svo verði gert.

Þá hafa, eins og kunnugt er, verið sett með reglugerð ný ákvæði um ferðir Íslendinga inn á varnarsvæðin, og er tekin upp með henni ný stefna í því máli í samræmi við þá ákvörðun að draga með öllu móti úr samskiptum Íslendinga og varnarliðsins. Eru ferðir Íslendinga inn á varnarsvæðin stórlega takmarkaðar með reglugerðinni.

Þá hefur verið tekið upp vegabréfakerfi til þess að auðvelda framkvæmd þessara ákvæða. Það skal tekið fram, að reglur þær, sem settar hafa verið um ferðir Íslendinga inn á völlinn, miðast eingöngu við það að hindra óþarfa umferð um hann. Hins vegar munu þær ekki baka þeim, er starfa sinna vegna þurfa inn á völlinn að fara, nein teljandi óþægindi.

Ég hef hér í stuttu máli gert grein fyrir samningsatriðum og framkvæmd þeirra, svo sem unnt er á þessu stigi málsins. Ég vil taka fram, að ráðstafanir þær, sem ég hef nefnt, munu að sjálfsögðu greiða fyrir löggæzlu og tollgæzlu, sem hvort tveggja eru vandasöm mál í framkvæmd varnarsamningsins.

Þótt ég hafi hér aðallega talað um Keflavíkurflugvöll, nær samkomulagið einnig og ekki síður til bækistöðva varnarliðsins annars staðar á landinu. Mér er það ljóst, að ýmislegt, sem ekki hefur verið talið upp bér að framan, þarfnast leiðréttinga, enda leiða tíminn og framkvæmdirnar í ljós ný viðfangsefni, sem taka verður til meðferðar. En að sjálfsögðu mun allt kapp verða lagt á meðferð þeirra mála út frá sömu sjónarmiðum sem ráðið hafa, síðan mál þessi voru tekin til endurskoðunar, að gæta í hvívetna málstaðar Íslendinga, svo sem auðið verður.

Stefna stjórnarinnar er að standa við þá samninga, sem gerðir hafa verið um gagnkvæmt öryggi, en um leið gæta þess að fullt tillit sé tekið til sérstöðu Íslands og þjóðlegra íslenzkra sjónarmiða.

Bandaríkjamenn hafa sýnt skilning á þessari aðstöðu okkar, og vænti ég þess, að svo verði einnig eftirleiðis.