02.11.1954
Sameinað þing: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

Varnarmálin, skýrsla utanríkisráðherra

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. hefur lagt fyrir mig fjölda spurninga. Ég vil reyna að svara þeim strax, áður en ég gleymi þeim. En ég verð að taka fram, að ég hef ekki heyrt nógu vel sumt af því, sem hann hefur spurt um,svo að það getur vel verið, að ég svari sumu út í hött, og bið hann afsökunar á því.

Það, sem hv. þm. lagði aðaláherzlu á, er að fá upplýsingar um, hvernig vissar reglur séu, þ. e. reglur um leyfi bandarískra manna til þess að fara út af flugvellinum. Þetta hefur verið eitt aðalmál í blöðum stjórnarandstöðunnar í allt sumar. Hv. 4. þm. Reykv. veit, að ég hef lýst því yfir, að þær væru hernaðarleyndarmál. Þess hefur verið óskað, að þær verði ekki gefnar upp, og þess vegna hef ég ekki gert það og álít mér því ekki heimilt að gera það. En ég get upplýst ýmis atriði úr þeim, sem ekki eru neitt launungarmál.

Það hefur verið samið um það við yfirmann hersins, á hvaða tíma hermenn eiga að vera farnir frá Reykjavík og öðrum bæjum og hversu margir megi fara út af vellinum á hverjum degi. Ég get upplýst, að sú tala er mjög lág, t. d. hefur tala þeirra, er leyfi hafa fengið vikuna 18.–24. okt., komizt hæst upp í 52 á laugardagskvöldi og niður í 7. Hermenn og aðrir, er leyfi fá, mega ekki vera lengur í Reykjavík eða öðrum bæjum en til kl. 10, nema eitt kvöld í viku mega þeir vera til 12.

Nú verður því sjálfsagt haldið fram, að hér sjáist bílar bandarískra hermanna eða annarra Bandaríkjamanna á götum að nóttu til. Því er til að svara, að nokkrir Bandaríkjamenn, sem eru kvæntir íslenzkum konum, búa utan vallarins. Það eru allmargir, sem þannig stendur á með og búa bæði í Reykjavík og þó einkum í Keflavík og Njarðvíkum, og enn fremur nokkrir, sem hafa fengið konur sínar frá Bandaríkjunum hingað heim og búa hér í íbúðum.

Ég vil taka það fram, að sömu reglur eru látnar gilda um þá menn, sem búa utan vallarins. Þeim er ekki leyft að vera úti hér í Reykjavík eftir kl. 10 á kvöldin, nema á miðvikudagskvöldum.

Það var spurt um það, hvort við hefðum nokkra möguleika til þess að fylgjast með, að reglunum sé framfylgt. Ég get upplýst, að amerískir lögreglumenn eru hér í bænum til eftirlits, og þeir hafa samvinnu við íslenzka lögreglu, eftir því sem ég bezt veit. Mér er kunnugt um, að amerískir menn hafa verið sóttir inn í kvikmyndahús hér, ef þeir hafa verið lengur úti en leyft er.

Ég veit ósköp vel, af hverju menn eru svo áfjáðir í að spyrja um þessar reglur. Það er af því, að þeir vita, að því hefur verið lofað að gefa ekki upp, hvernig þær eru orðaðar. Af hvaða ástæðu það er, er óþarfi að vera að skýra frá. Það gildir sama um þessar reglur og önnur skjöl og gögn, sem er haldið sem leyndarmáli, að þau eru ekki birt. Þetta hefur alltaf verið þannig og engin breyting orðið á síðan ég tók við utanríkismálunum.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á það, hvernig við gætum ráðið við það, hve mikill íslenzkur mannafli starfaði fyrir varnarliðið. Því er til að svara, að við höfum það í hendi okkar, hvaða framkvæmdir við leyfum. Allar framkvæmdir, sem eru gerðar á vellinum og annars staðar, eru háðar leyfi íslenzkra stjórnarvalda, og því getum við algerlega ráðið, hvaða hraði er á framkvæmdunum, og þar með, hversu margir Íslendingar vinna við þær. Í því sambandi spurði hv. þm., hvort Bandaríkjastjórn hefði fengið leyfi til þess að gera höfn í Njarðvík. Því er til að svara, að leyfi hefur ekki verið gefið enn þá. Er það vegna þess, að eigi hefur orðið samkomulag um, hvernig og hvar höfnin eigi að vera. Í samningunum hafði Njarðvíkurhöfnin sérstöðu. Það var tekið fram, að ef hún yrði leyfð, þá skyldu Ameríkumenn og Íslendingar hafa jafnan rétt til þess að bjóða í verkið, en aðrar þjóðir vera útilokaðar.

Eitt af því, sem hv. þm. spurði um, var, hver ætti að dæma um hæfni Íslendinga til að taka að sér verk. Þetta atriði var eitt af þeim erfiðustu og vandasömustu í samningunum. Það var tekið fram, að ef um það væri deilt, hvort Íslendingar væru hæfir til að taka að sér ákveðið verk eða ekki, þá skyldi íslenzka ríkisstj. blanda sér í málið og reyna að leita samkomulags. Þar með er ekki sagt, að endilega þurfi erlendur verktaki að fá verkið, þó að Bandaríkjamenn í bili segi, að Íslendingar séu ekki hæfir til þess að taka það að sér. Þeir geta bætt hæfni sína með því t. d. að fá sér erlenda sérfræðinga til aðstoðar. Ef við á hinn bóginn álítum, að Bandaríkjamenn beiti ósanngirni, þá getum við stöðvað framkvæmdina. Þar með er ekki sagt, að algerlega sé útilokað, að Bandaríkjamenn geti notað erlenda verktaka, t. d. ef þeir gera lægra tilboð í höfnina í Njarðvík en við.

Hv. þm. spurði um það, hvaða framkvæmdum væri ólokið nú á vellinum. Þær framkvæmdir, sem hafa verið hafðar með höndum undanfarið á vellinum, eru aðallega lenging flugbrauta og aðgerðir á brautum og enn fremur bygging húsa. Aðalverkið, sem íslenzku verktakarnir hafa haft með höndum, er húsabyggingar. Ég get ekki svarað því, hversu lengi gert er ráð fyrir að unnið verði á vellinum, um það hefur ekki verið neitt samið enn þá, en öll vinna í framtíðinni er háð samþykki íslenzku ríkisstj. Ég hygg, að aðgerð á brautunum ætti að verða að mestu lokið á næsta ári, ef haldið verður áfram að vinna við þær. Viðgerð flugbrauta verður aðalverkið, sem gert er ráð fyrir að vinna á næsta ári, og einmitt það verk, sem ef til vill er mest hætta á að Íslendingar séu ekki færir um að taka að sér, sem sé malbikun, og í sambandi við hana er einmitt tækniþjálfunin, sem fram fer í Bandaríkjunum.

Hv. þm. spurði um, hvaða störf það væru, sem Íslendingar ættu að læra með tækniþjálfuninni. Ég hélt ég hefði tekið það fram, að það væri aðallega meðferð stórra véla, aðgerðir og viðhald á slíkum vélum og ýmislegt í sambandi við ný tæki, sem ég er ekki nógu fróður um. En af því að um það var spurt, þá er ekki þar innifalin meðferð radarstöðva. Mér er sagt, að það sé mjög vandasamt verk að starfa við radarstöðvarnar og þurfi langt tækninám til þess. Auk þess býst ég við, að störf við radarstöðvar séu tekin sem hernaðarstörf. Við sömdum ekki um radarstöðvarnar, af því að þar virtust ýmsir örðugleikar vera á ferðinni, en þau mál koma vitanlega til samninga síðar meir, þegar stöðvarnar úti um landið verða teknar í notkun.

Ég vil þá um leið svara þeirri spurningu, hvaða ráðstafanir Íslendingar hefðu gert til þess að geta yfirtekið amerísku stöðvarnar á flugvellinum. Um það hefur ekki verið samið, þar eð það mál hefur ekki legið fyrir og við ekki farið fram á það enn þá.

Hv. þm. spurði svo um, hvort það væri rétt, að Hamilton krefjist þess, að íslenzkir starfsmenn gangi úr íslenzkum stéttarfélögum. Ég hef heyrt um þetta talað og sá eitthvað um það í blöðum. Ég hef falið varnarmálanefndinni að athuga þessi mál, en mér er ekki kunnugt um, að nokkrum manni hafi verið sagt upp vegna þessa. Ég veit ekki enn með vissu, hvort það sé rétt, sem um þetta hefur verið sagt í blöðunum, en það verður áreiðanlega athugað.

Hv. þm. kom hér inn á atriði, sem hefur verið deilumál í flokksblöðum hans, hvort hafi verið nokkur girðing gerð um Keflavíkurflugvöll. Ég veit ekkert betra svar við þessari spurningu en að bjóða hv. þm. suður ettir að skoða girðinguna — og helzt ritstjóra Alþýðumannsins á Akureyri með. (EOl: Þurfa þeir ekki passa þá?) Ætli þeim mundi ekki duga að vera undir vernd utanríkisráðherrans? (Gripið fram í.) Já, svo getum við líka séð girðinguna frá hinni hliðinni, að utan, hversu árennilegt er að komast inn. Ég vil ekki tala um þetta mál. Mér finnst það svo mikil fjarstæða að vera að deila um staðreyndir, sem hver einasti maður, sem hefur verið þarna suður frá, veit, og meira að segja veit ég um þingmenn hér inni, sem hafa skoðað girðinguna. En ef blöð hv. þm. hafa ánægju af því að halda þessu þófi áfram, þá er mér sama.

Ég veit ekki, hvort niður hafa fallið einhver atriði, sem hv. þm. hefur spurt um. Ég held, að ég hafi svarað þeim flestum, að því leyti sem ég get svarað. Það væri þá aðallega, að ég hef ef til vill ekki farið nógu greinilega inn á það, sem hann spurði um framkvæmdirnar. En því er til að svara, að það verður samið um það árlega fyrir fram, hvaða framkvæmdir á að gera, og það er íslenzka ríkisstjórnin, sem hefur þar um síðasta orðið, þannig að við höfum ekki sleppt neinu úr höndum okkar.