22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Gils Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessar upplýsingar, sem hann gaf nú. Það var ágætt að fá þær fram. Væntanlega mun síðar verða tækifæri til þess að ræða þessi mál. En ég vil endurtaka það, sem ég áðan sagði, að ég tel það með öllu óviðurkvæmilegt að hafa þá málsmeðferð í mikilvægum utanríkismálum að sniðganga Alþingi og jafnvel utanrmn., sem sérstaklega er kosin til þess að fjalla um slík mál. Þessi undirnefnd utanrmn., sem hæstv. ráðh. var að tala um, hefur, eins og upplýstist nú, alls ekki verið kosin á þessu þingi, enda munu engin lög til um það, að slík n. sé kosin og starfi, svo að þetta eru aðeins þrír menn, sem tilnefndir hafa verið á síðasta þingi, en þó ekki kosnir af Alþingi sjálfu.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mál komi hér fyrir hv. Alþingi á sínum tíma til staðfestingar, en það er bara of seint. Þá verður Ísland búið að móta sína afstöðu, og henni verður þá vafalaust ekki breytt. Ég ætla ekki á þessu stigi að fara að rökræða við hæstv. ríkisstj. um það, hvort Ísland ætti að hafa þá stefnu að samþ. upptöku Vestur-Þýzkalands í Atlantshafsbandalag, eins og málum er háttað. Ég geri ekki ráð fyrir, að það þyki eðlilegt, að um það fari fram langar rökræður utan dagskrár, en ég vil enn einu sinni mótmæla þeirri málsmeðferð, sem höfð hefur verið.