06.12.1954
Neðri deild: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú víst ekkert einsdæmi, þótt lesa megi í erlendum blöðum ýmsar fréttir héðan að heiman, og hv. þm., sem lagði þessa fyrirspurn fram hér áðan, veit alveg eins vel og ég og allir hv. þingmenn, að slíkum fregnum ber að taka misjafnlega og ekki allt of hátíðlega. Hitt er svo ekkert óeðlilegt, þótt hv. þm. spyrji um það í þessu tilfelli, hvort það, sem um er rætt, hafi við rök að styðjast, því að hér er um stórmál að ræða, ef það lægi fyrir, að eitt ríki hafi boðizt til þess að reisa sementsverksmiðjuna með sérstaklega hagkvæmum kjörum. En því miður liggur það ekki fyrir, og þessi fregn eða skeyti hefur ekki við rök að styðjast frekar en hitt, að það hafi algerlega verið neitað um lán til sementsverksmiðjunnar í öðrum löndum.

Nú veit hv. þm., að það liggur fyrir að byggja sementsverksmiðjuna og það sem allra fyrst, og ég geri fastlega ráð fyrir því, að það ríki, sem byði hagkvæmust og bezt kjör í því skyni, yrði látið sitja fyrir, hvað svo sem það land heitir. En þetta er eins og hver önnur blaðafregn, sem við verðum svo oft varir við í erlendum blöðum. Og blaðamennirnir eru misjafnir, og túlkunin verður oft rangfærð, svo að úr því verður hrein markleysa.