06.12.1954
Neðri deild: 27. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (3197)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi ekki talið óeðlilegt um fregn, sem birzt hefur í áreiðanlegu tímariti, sem er alveg nýtt, sem sé dagsett í dag, eins og ég áðan gat um, og færði okkur fregn um mál, sem hefði verið okkur mikil gleðitíðindi, ef fregnin reyndist á rökum reist, þó að spurt væri um það, hvort hér væri um missögn í hinu erlenda tímariti að ræða, enda skilst mér, að hæstv. ráðh. álasaði mér ekki fyrir það að ganga beint framan að hæstv. ríkisstj. og óska eftir frekari vitneskju um málið.

Það hryggir mig hins vegar, ef enginn fótur er fyrir þessu, og má furðulegt heita, að fréttaskeyti séu send út frá Rvík til útlanda, ef þetta er allt saman úr lausu lofti gripið. Hér er sagt frá einstökum atriðum viðvíkjandi málinu, að hæstv. ríkisstj. hafi verið að leita fyrir sér um lán í Bandaríkjunum og í Evrópu og hafi fengið synjun. Það segir hæstv. ráðh. að sem betur fari sé ekki rétt, það sé ekki komin enn þá synjun um slíkt lán, þar sem leitað hafði verið eftir því. Það er enn fremur sagt, að þetta lán, sem að heimulegum leiðum sé boðið frá Moskva, sé með mjög hagkvæmum kjörum, ekki aðeins þannig sagt frá því, að lán sé til boða, heldur líka sagt, að það séu mjög hagstæð lánskjör, og fregnin bar sem sé það yfirbragð, að það væri af nokkrum kunnugleika spurt eða skýrt frá að því er snerti þann, sem sendi skeytið.

Mér skilst, að hæstv. ráðh. telji, að það sé ofsagt, að búið sé að fá neitanir um lán til sementsverksmiðjunnar í Ameríku og Evrópu, og að honum sé á engan hátt kunnugt um, að Moskva hafi á bak við tjöldin boðið þetta góða boð. Hins vegar gleður það mig, að ráðh. upplýsti, að hæstv. ríkisstj. mundi að sjálfsögðu taka góðu tilboði og hagstæðu um lánsfé til þess að byggja fyrir sementsverksmiðju, hvaðan sem það kæmi.