04.02.1955
Sameinað þing: 32. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (3198)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér, nú þegar þing er komið saman aftur, að beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort hún hefur gert sér ljóst, hvers konar vandræðaástand er að skapast í landinu nú, og hvað hún hefur í hyggju að gera til þess að ráða fram úr því. Ég hef satt að segja undrazt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa látið Alþ. koma saman fyrr, eins og hún hafði heimild til, miðað við það ástand, sem hefur verið að skapast í landinu undanfarið, og þá sérstaklega tvennt: annars vegar stöðvun flutningaskipanna og hins vegar deilan í Vestmannaeyjum.

Nú stendur svo, að hvert flutningaskipið á fætur öðru stöðvast hér í Reykjavík, og nú seinast hafa nokkur stærstu skipafélögin sagt upp öllum sjómönnum á þessum skipum. Þessi skipafélög njóta ýmissa sérréttinda frá hálfu ríkisins, skattfríðinda og annars slíks, og eru eðlilega skuldbundin til þjónustu við landsmenn, en ekki til þess að leggja skipunum. Og ég er hræddur um, að nú þegar sé ástandið að verða þannig víða úti um land, að það liggi við skorti og vandræðum út af því, að skipin ganga ekki. Hins vegar er það vitanlegt mál, að þessi skipafélög hafa sjálf mjög mikinn gróða af sínum ferðum. Ég gæti jafnvel trúað, að sum þeirra skipa, sem nú betur verið lagt hér, tækju um eina millj. króna í hreinan gróða á einni ferð fram og aftur til útlanda, en skipafélögin láta samt sem áður skipin nú stöðvast út af smávægilegum atriðum, sem á milli ber.

En hitt er þó öllu alvarlegra, að í Vestmannaeyjum, langstærstu og þýðingarmestu verstöð landsins, verstöð, sem gefur þjóðinni um 100 millj. kr. á vertíðinni í útflutningsverðmætum, er búið að vera róðrarbann af hálfu útgerðarmanna í heilan mánuð, og það af hálfu útgerðarmanna, sem njóta slíkra fríðinda frá hálfu ríkisins, að þeir fá mjög mikil lán út á sína báta, og hraðfrystihúsaeigendur út á sín hraðfrystihús, og hafa samt sem áður álitið sig hafa efni á því gagnvart þjóðinni að stöðva í heilan mánuð alla róðra frá þessari þýðingarmiklu verstöð. Og hæstv. ríkisstj. á sjálf nokkra sök á því, að nú heldur þessi stöðvun áfram, vegna deilunnar meðal annars um, að sjómennirnir fái sinn eðlilega hluta af bátagjaldeyrinum, því kerfi, sem ríkisstj. sjálf hefur innleitt, upphaflega ólöglega, en reynt að gera að nokkru leyti löglegt upp á síðkastið.

Það er þess vegna engum efa bundið, að það er vandræðaástand, sem yfir vofir í landinu, stórkostlegt tjón, sem vofir yfir vegna stöðvunarinnar, sem búin er að vera í Vestmannaeyjum í heilan mánuð, og vandræðaástand, sem er að skapast með flutningaskipastöðvuninni.

Hvað hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér í þessum efnum? Og hefur hún ekki eitthvað nú, þegar hún kemur saman, að segja Alþingi, fyrst hún hefur ekki séð ástæðu til þess að kalla það saman fyrr, um sínar fyrirætlanir? Það er alveg vitað mál, að eins og ríkisvaldið — ríkisstj. — nú grípur inn í allt okkar atvinnulíf, þá er það á ábyrgð ríkisstj., að okkar atvinnulíf geti gengið.

Ég vil vona, að hæstv. forsrh. geti ofur lítið, þó að það sé ekki nema undan og ofan af, sagt okkur frá því, hvað hæstv. ríkisstj. hefur verið að hugsa í þessum efnum.