04.02.1955
Sameinað þing: 32. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. forsrh. svipaðra spurninga og hv. 2. þm. Reykv. (EOI) nú hefur gert og hef því litlu við það að bæta, sem hann hefur sagt þar um. En jafnframt vildi ég mega spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta og jafnframt hjá hæstv. forsrh. að nokkru leyti, hvenær fyrir verði tekin hér á Alþingi till. til þáh á þskj. 155, sem flutt var af hálfu Alþfl. ég ætla í nóvember s. l. — af Hannibal Valdimarssyni og Gylfa Þ. Gíslasyni og hnígur í þá átt, að ríkisstj. leitist við að koma fram ráðstöfunum til lækkunar á dýrtíðinni.

Ég segi, að ég leyfi mér að beina þessari fsp. bæði til hæstv. forseta og jafnframt til hæstv. forsrh., því að ég hef séð í blöðum nú, að hann sé að einhverju leyti farinn að athuga það, sem farið er fram á í tillögunum, án þess að ég sjái nokkuð, með hverjum hætti það er. En sé svo, að það sé ætlun hans að gera það, sem ég vildi vænta, þá virðist mér einsýnt, að hann leiti til þess samþykkis Alþingis og fái stuðning þess í þeirri viðleitni sinni, sem mér er annars ekki kunnugt um hversu langt er komið eða hvernig hefur verið tekið. Þætti mér vænt um, ef hæstv. ráðh. gæti einnig gefið upplýsingar um þetta atriði ásamt forseta í sambandi við umræður um það, sem spurt var um hér fyrr.