04.02.1955
Sameinað þing: 32. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. spurðist fyrir um það, hvað ríkisstj. ætlaðist fyrir út af uggvænlegum horfum í þjóðfélaginu, sem stafa af vinnudeilum.

Það liggur í hlutarins eðli, að sérhver ríkisstj. hefur áhuga fyrir því, að úr slíkum deilum fáist leyst á friðsamlegan hátt, ef þess er nokkur kostur. Þessi tvö atriði, sem hann nefndi, vinnudeilan í Vestmannaeyjum og vinnudeilan á kaupskipaflotanum, hafa bæði verið og eru enn þá í höndum sáttasemjara. Það hefur verið venja hér á landi að grípa ekki fram fyrir hendur sáttasemjara og — ef svo mætti segja — trufla eðlilega rás þessara viðburða, nema í fullkomið öngþveiti sé komið. Það getur náttúrlega að því komið, að ríkisstj. leiti þá samþykkis Alþ., ef nauðir þykja reka til að hafa sig í frammi umfram það, sem venja hefur verið til í þessum efnum.

Hv. þm. gat um það, að vissir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, — ég tók svo eftir, að það væru einhver skipafélög, — hefðu haft arð, og ég dreg það ekkert í efa. En málið er flóknara en svo, að það verði leyst út frá því einu sjónarmiði. Eins og hv. þm. manna bezt veit, þá orkar kauphækkun einnar stéttar hér á landi hækkun annarrar, og málið verður því jafnan, þegar slíkar deilur rísa, að skoðast í því ljósi, hvað atvinnureksturinn yfirleitt fær risið undir.

Ríkisstj. hefur að sjálfsögðu mikið um þessi mál talað í sinn hóp, en hefur ekki á þessu stigi málsins talið það vera eðli málsins samkvæmt, að hún sneri sér til Alþ. um frekari heimildir, þó að geti að því komið. Hins vegar átti ríkisstj. einkaviðræður við Alþýðusamband Íslands og ræddi þá þetta mál almennt, lét í ljós nokkurn ugg um, að almenn kauphækkun í landinu kynni að hafa örlagaríkar afleiðingar. Alþýðusambandsstjórnin sýndi hins vegar frá sínu sjónarmiði þá mynd, að hún taldi, að alþýða manna kæmist illa af með þann hlut, sem hún bæri nú frá borði, og þær viðræður voru meira almenns eðlis. Ríkisstj. lét þá að gefnu tilefni í ljós ótta um það, og ég vil, að það sé alveg skýrt, að ríkisstj. lét í ljós ótta um það, að sá, sem stofnaði til kauphækkunar eða reisti kauphækkunaröldu, mundi einnig ráðast á íslenzku krónuna, — ekki annað en ótta og allra sízt hótanir eða ógnanir. Auðvitað hlýtur ríkisstj. að vera í fararbroddi fyrir því, að krónan falli ekki. En viss lögmál gilda um okkar krónu eins og um gjaldmiðil annarra þjóða, sem við ráðum ekki yfir. Okkur kann svo að missýnast um það, hvort einhver kauphækkun þyrfti að færa þessa hættu yfir krónuna. Enginn er alvitur og hvorki Alþýðusambandsstjórnin né ríkisstj. frekar en aðrir. Menn kann að greina á um þetta. Reyndin sker þá úr, ef í það fer.

Það er rétt, að ríkisstj. tilkynnti þá Alþýðusambandi Íslands, að hún hefði í hyggju að stofna til viðræðna við ýmsa aðila, sem geta haft nokkur áhrif á verðlagsmyndunina, og ríkisstj. hefur skrifað einum átta aðilum í þessum efnum, fengið svör, jákvæð, um þátttöku í slíkum viðræðum frá þeim flestum, og á von á, að nú um helgina verði allir aðilarnir, sem hún skrifaði, búnir að nefna fulltrúa, sem ríkisstj. mun þá eiga viðræður við. Og jafnframt mun ríkisstj., eftir því sem málefni standa til, ræða þau viðhorf, sem þarna kunna að rísa, við Alþýðusambandsstjórnina og aðra þá aðila, sem mestu kunna að ráða um kaupgjaldið í landinu. Ríkisstj. vill að sjálfsögðu leita sem vinsamlegastrar samvinnu við alla þessa aðila og telur sig hafa góða aðstöðu til þess að ræða við þá. Þær undirtektir, sem við höfum fengið frá þessum aðilum, sem stjórnin skrifaði, benda til þess, og viðræðurnar við Alþýðusambandsstjórnina fóru fram á eðlilegum og vinsamlegum grundvelli, þó að nokkur skoðanamunur hafi komið fram og muni að sjálfsögðu koma fram. Ríkisstj. álítur, að ef föng standa til, þá muni sá kostur vera farsælastur að reyna að stuðla að því, að verðlag í landinn fari sem mest lækkandi, en vald stjórnarinnar í þeim efnum er takmarkað og ríkisstj. hefur ekki enn þá tekið neinar ákvarðanir um að biðja Alþingi um að gefa sér aukið vald í þeim efnum, enda hefur reynsla Íslendinga um valdboð á því sviði ekki verið farsæl.

Hv. 4. þm. Reykv. spurði um það sérstaklega, hvort ríkisstj. mundi þá ekki leita samþykkis Alþingis til þessara viðræðna. Okkur hefur ekki hugkvæmzt það, að þess þyrfti. Við teljum, að þær viðræður hljóti að geta farið fram án þess, að Alþingi veiti ríkisstj. heimild til slíkra viðræðna, og þar til rök verða leidd að öðru, munum við sennilega ekki breyta um skoðun í þeim efnum. Það kunna svo að rísa viðhorf, meðan á þeim viðræðum stendur, sem orka því, að ríkisstj. telur sig sækja styrk í umræður á Alþingi og heimildir frá Alþingi til þeirra ákvarðana, sem kynni að þurfa að taka, og þá mun ríkisstj. að sjálfsögðu færa málið inn á vettvang Alþingis.