04.02.1955
Sameinað þing: 32. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér skilst, að hér sé ekki mikill tími til stefnu, ég skal þess vegna fara mjög fljótt yfir sögu.

Hv. 3. landsk, lét í það skína, að nokkur grunur léki á, að að baki skipaeigenda stæðu einhver öfl, sem hindruðu eðlilega og frjálsa samninga. Ég vil aðeins lýsa því yfir, að ef hann á þar við ríkisstj., þá hefur hún engin afskipti haft af því máli, hvorki bein né óbein. Ég vil svo að öðru leyti ekki um þá deilu ræða.

Ræða hv. 9. landsk. var að mestu leyti utan garna, kjósendaræða, skotið fram hjá markinu. Ríkisstj. hefur engin afskipti haft frá öndverðu af því, hvernig sjómenn og útgerðarmenn skiptu með sér bátagjaldeyrinum. Öll ádeila á ríkisstj. í þessum efnum var þess vegna algerlega út í hött. Hann þurfti engan veginn heldur að vitna í Morgunblaðið, það ágæta blað, til að sanna, að Vestmannaeyjar flytji út þorsk. Allir landsmenn vita, að Vestmannaeyjar flytja út mikinn þorsk til margra landa og margra staða. Það vita allir alþm. ágætlega. Það þarf ekki að vitna í Morgunblaðið um það.

Hv. 2. þm. Reykv. sagðist muna okkar fyrri fund, þegar ríkisstj. var ágæt. Hann vitnaði í það, að þáverandi landsins sómi, sverð og skjöldur, nýsköpunarstjórnin, hefði lagt þrjá ráðherra til þess að reyna að sætta milli verkalýðs og atvinnurekenda. Ja, núverandi ríkisstj. er nú ekki verri en það, að hún hefur lagt til sex ráðh., sem sé helmingi meira þó heldur en sú ágæta nýsköpunarstjórn gerði. Við vorum sex, sem fengum Alþýðusambandið á fund okkar. Það var sízt óuppbyggilegri eða ófriðvænlegri fundur en var á tíma nýsköpunarstjórnarinnar. Eins er það meining núverandi stjórnar, að ráðherrarnir. annaðhvort þrár eða sex, — þrír virðast nú hafa reynzt vel og ætti þá að vera nóg, svo að maður fylgdi nú tillögum hv. 2. þm. Reykv., — ræði við þessa verðlagsmyndandi eða ráðandi aðila, þar með Alþýðusambandíð, í framtíðinni. Einhvern skynsamlegan hátt reyna menn að hafa á því. En það vantar ekkert vilja hjá þessari stj. fremur en hjá nýsköpunarstjórninni fyrrum til þess að reyna að setja niður þessar deilur. — Hv. þm. sagði, að þessi hefði nú verið hátturinn á, áður en var tekið að gæta harðneskju í garð verkalýðsins. Ég mælist alveg undan því, að þessi stj. hafi tilhneigingu til að sýna verkalýðnum einhverja harðneskju. Ég kann ekki skil á því og veit ekki mína félaga seka um það.

Ég vil svo aðeins út af þessum milljónagróða, sem hv. þm. var að tala um og sagði, að ég hefði játað að væri sannur, til þess að fyrirbyggja misskilning segja það, að ég veit ekkert um þennan gróða. Ég dreg ekkert í efa, að einstök félög á einstökum tímum græði. Mér er ekki kunnugt um það dæmi, sem hann nefndi, og læt það alveg liggja milli hluta. Ég gerði mig aðeins sekan um að taka hann alveg trúanlegan í þessu, en veit sjálfur ekkert um þetta. Aðalatriðið í málinn, eins og ég gat um, var það, hvort atvinnurekstur landsmanna almennt þyldi þær kauphækkanir, sem farið er fram á. Við erum nefnilega komnir inn á nokkuð hættulega braut, góðu félagar. Það er orðið opinbert leyndarmál, að verkalýðurinn á Íslandi gerir kröfur umfram það og að því játuðu, að gjaldgeta atvinnurekstrarins fái ekki risið undir því. Það er nokkuð langt síðan þetta kom fyrir í fyrsta skipti — þrjú, fjögur ár eða meira. Þá sögðu forustumenn hlutaðeigandi félags: Ja, við viðurkennum, að þessi atvinnurekstur fær ekki undir þessu risið. En á hverju á okkar heimili að lifa? Okkur ber að sjá því farborða. — Það er líka sjónarmið. En það getur verið nokkuð hættulegt sjónarmið líka fyrir verkalýðinn sjálfan, því að með því að leggja til grundvallar það sjónarmið, afsalar verkalýðurinn sér að vissu leyti þeim lögmætu áhrifum, sem hann á að hafa á skiptingu arðsins á milli atvinnurekenda og launþega. Að vissu leyti gerir hann það. Taprekstur leiðir til stöðvunar og atvinnuleysis. Síðan segja menn: Ætlar þessi duglausa ríkisstj. — við eða önnur ríkisstj. — að horfa á það auðum höndum, að atvinnurekstur landsmanna stöðvist? Ríkisvaldið gripur í taumana. Það fellir gengið. Við skulum byrja á byrjuninni eins og var hér áður en gengisfallið kom. Ríkið leggur fram nokkra tugi milljóna, sem án gengisfallsins væru nú orðnir mörg hundruð milljónir, til þess að bæta upp útflutningsvörurnar, halda atvinnurekstrinum gangandi. Þessu fé er svo ekki hægt að ná með sköttum. Þá er gengið fellt. Síðan, þegar í ljós kemur, að enn vofir yfir atvinnustöðvun, er settur á bátagjaldeyrir. Ríkið gerir yfirleitt allt, sem hægt er, til þess að hindra það, að atvinnureksturinn stöðvist. Hvernig fer það að þessu? Hvernig fer ríkisvaldið að því? Hvernig fer sú vitra og góða stj. að því, núverandi stj. og fyrrverandi stjórnir? Hún tekur það fé, sem með þarf úr buddu borgaranna. Í önnur horn er ekki að venda. Það er sú braut, sem við höfum farið út á. Með því að hætta að leggja til grundvallar það meginsjónarmið, að launþegi og atvinnurekandi skipta því, sem aflast, milli sin, erum við komnir út á hála braut. Ég skal svo ekki fara lengra út í það að þessu sinni.

Hv. 4. þm. Reykv. lagði mest upp úr því, að við fengjum viljayfirlýsingu Alþ. um, að reynt væri að lækka verðlag í landinu. Að órannsökuðu máli held ég, að ég þyrði að treysta því, að Alþ. mundi allt standa á bak við ríkisstj. í þessari ósk. Ef til þess þarf svo sérstakar aðgerðir, sem heimta lagaheimildir, þá er það ríkisstjórnarinnar að segja um, hvað hún vill í þeim efnum, og ef hún vill eitthvað og óskar eftir lögum, þá náttúrlega leitar hún til Alþingis.

Ég vil svo ekki fallast á það sjónarmið hv. 4. þm. Reykv., að einhverjum sérstökum dýrmætum tíma hafi enn þá verið glatað. Vinnudeilan í Vestmannaeyjum, róðrarbannið og verkfallið virðast vera því máli a. m. k. að mjög litlu leyti viðkomandi, ef ekki með öllu óviðkomandi, og til annarra deilna er ekki komið. En einmitt þegar ríkisstj. sá fram á hættuna af uppsögn samninga 1. febr., sem mundi leiða til stöðvunar 1. marz, þá átti hún tal við Alþýðusambandið og mun halda þeim viðræðum áfram og eftir þeim slóðum, sem hún telur færar og hugsanlegt að mættu leiða til einhverrar jákvæðrar niðurstöðu.

Á 3. fundi í Sþ., 7. febr., utan dagskrár, mælti