07.02.1955
Sameinað þing: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. öllum er kunnugt, hafa undanfarið birzt í brezkum blöðum mjög ósæmileg og furðuleg skrif í sambandi við skipstapa hér í höfunum norðan við Ísland, þar sem fullyrt er í þessum skrifum, að Íslendingar eigi sök á því, að tveir togarar hafa farizt, og sá málflutningur, að því er kemur fram í íslenzkum blöðum, virðist með þeim endemum, að furðu sætir.

Ég vildi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh., hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hafi gert eða hyggist að gera til þess að mótmæla þessum skrifum. Það liggur í augum uppi, að þeir, sem ekki þekkja til, eins og þorri lesenda þessara blaða í Bretlandi, munu leggja meira eða minna trúnað á þessar frásagnir, og slíkt er með öllu óviðunandi fyrir okkur Íslendinga.