23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (3215)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég var ekki kominn, þegar hv. fyrirspyrjandi utan dagskrár kvaddi sér hljóðs, en mér skilst, að hann hafi spurzt fyrir um það, hvort ríkisstj. vildi fyrir sitt leyti eiga hlut að því, að hindrað yrði, að þau olíuskip, sem hér liggja og ekki hafa getað losað farm sinn vegna vinnudeilunnar, fengju að flytja farminn úr landi. Ég hef ekki haft tíma til að lesa blöðin í morgun, en þó sá ég það, að olíufélögin hefðu snúið sér til Alþýðusambandsins eða til verkfallsstjórnarinnar, — það er nú ný stjórn í þessu landi, sjálfsagt mjög voldug, — og mælzt til þess, að þessi skip fengjust affermd, og mér sýndist, að það hefði verið neikvæður árangur af þessum tilmælum.

Nú veit ég ekki fyrir mitt leyti á þessu stigi málsins, hvaða afleiðingar það kynni að hafa, ef þessi skip héldu leiðar sinnar, án þess að þau fengju að losa þessa olíufarma. Ef rök hníga að því, að landið kynni að verða olíulaust af þessum ástæðum, er hér náttúrlega um ákaflega veigamikið mál að ræða, og ég er alveg reiðubúinn utan dagskrár og utan þingsalanna að ræða málið við þennan ágæta þingmann, sem áreiðanlega hefur, ef ekki lykla, þá a. m. k. þjófalykla að Alþýðusambandsstjórninni og verkfallsstjórninni. Mér er ljúft að reyna að eiga þátt í því, að þessum voveiflegu viðburðum, sem hann telur vera yfirvofandi, verði afstýrt. Mér skal verða mjög ljúft að vinna að því, að slík ógæfa hendi ekki, að landið yrði olíulaust. Nóg mun þó um að sakast og við að glíma út af þeirri örlagaríku deilu, sem nú stendur yfir.

Annað eða meira get ég ekki, herra forseti, sagt á þessu stigi málsins.