23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (3218)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að olíufélögin þrjú, Olíuverzlun Íslands h/f, Shell á Íslandi og Olíufélagið h/f, skrifuðu Alþýðusambandinu bréf í gær um það, að í tankskipinu Smeralda, sem nú liggi í Hvalfirði og lagt hafi verið á losunarbann, séu 8000 tonn af brennsluolíu og að þetta magn samsvari um það bil eins mánaðar þörfum alls landsins fyrir þessa olíutegund, en aðalnotendur hennar séu togarar og stærri verksmiðjur. Í þessu bréfi skýra olíufélögin enn fremur frá því, að nú liggi fyrir tilboð hjá þeim um kaup á þessari olíu í einhverri Evrópuhöfn, en áður en tekin sé ákvörðun um það, hvort þeir selji þessa olíu úr landi, vilja þau fá að vita um það, hvort Alþýðusambandið sjái sér fært að heimila, að þessari olíu sé skipað upp í tanka í Hvalfirði gegn skuldbindingu um, að hún verði ekki snert, meðan á verkfallinu standi. Í niðurlagi bréfsins skýra olíufélögin enn fremur frá því, að ef þau taki þá ákvörðun að selja þessi 8000 tonn af olíu, þá sé, eins og þau segja orðrétt, fyrirsjáanlegt, að landið muni verða brennsluolíulaust í heilan mánuð eftir lok verkfallsins.

Nú er það sýnilegt, að olíuhringunum er beitt hér á landi gegn verkalýðssamtökunum. Það er fylkingarbrjóstið. Og þessi 8000 tonna olíufarmur er hér bundinn og ekki kominn í tanka í Hvalfirði fyrir sjálfskaparvíti algert. Þetta skip hafði verið leigt þannig, að það mátti leggja á land olíu í Reykjavík og Hvalfirði, og hefði farið allra sinna ferða frjálst, þangað til það var tæmt til síðasta olíudropa, ef það hefði ekki talið sér henta að leika það hlutverk í deilumálunum hér á landi að smygla olíu í land hér að næturlagi í myrkri, eftir að gefin höfðu verið loforð um að hætta kl. 12, þegar verkfallið hófst. En kl. 12, þegar verkfallið hófst, gat það farið með alla þá olíu, sem það var með innanborðs, upp í Hvalfjörð og losað alfrjálst, en það kaus ekki að gera það, heldur braut verkfallið þessa nótt og setti þess vegna þessi 8000 tonn af olíu föst. Þeir eiga því við engan að sakast nema sjálfa sig, að þeir létu nota sig í fjandskaparskyni við verkalýðssamtökin og festu þessi 8000 tonn og ætla svo að selja þau úr landi og tilkynna, að svo verði landið olíulaust í heilan mánuð. Það er því engin ástæða til þess að ætlast til þess, að verkalýðssamtökin eftir svona frammistöðu komi og svari bréfi þessara herra játandi. Þeir verða sjálfir að bera ábyrgðina. Þeir voru ekki tilneyddir. Auk þess er nú svo komið, að hvert þorpið á fætur öðru úti um land er olíulaust. Það er olíulaust í Höfn í Hornafirði, og fólkið þar getur ekki hitað upp sín hús. Það eru veikindi í þorpinu, hettusótt og inflúenza og báglegt ástand af þessum sökum. Sama ástand er á Patreksfirði. Þar er rafstöðin að stöðvast og fólkið olíulaust til húsahitunar. En hvað hafa olíufélögin gert til þess að sjá þessu fólki fyrir olíum? Þau áttu þess kost eins og Skipaútgerð ríkisins að hafa sín olíuflutningaskip með ströndum fram frjáls og óheft af verkfallinu. En Ríkisskip hefur eitt séð um það, að Þyrill er frjáls sinna ferða, með því að blanda honum ekki inn í verkfallsátökin. En það var hér rússneskt skip, sem varð að stöðva með ofbeldi í Laugarnesi fyrsta verkfallskvöldið. Það lá hér inni á Kollafirði. Olíuskipin bæði, Skeljungur og Litlafell, voru látin leika þann þátt í verkfallinu núna í fyrradag að fara inn í Kollafjörð og láta dæla þar í sig olíu úr þessu skipi, sem var í banni, til þess að þau gætu ekki sinnt því hlutverki, sem þeim bar skylda til að inna af hendi, að flytja olíu til Hornafjarðar og Patreksfjarðar og annarra þeirra þorpa, sem voru olíulaus og olíufélögin vissu vel að voru olíulaus. Og þau áttu nógar birgðir uppi í Hvalfirði og annars staðar til þess að taka olíuna og fara frjáls ferða sinna á þann hátt og leysa úr þörfum landslýðsins. En þau voru sett föst af þessum sökum, og er það annað sjálfskaparvítið til. Olíufélögin haga sér þannig, að þau komist fyrst og fremst í árekstra við verkalýðssamtökin, og svo á að kveina og kvarta á eftir og segja, að neyðarástandið sé öðrum að kenna en þeim. En það er þeim að kenna og engum öðrum. Þessi þrjú olíuflutningaskip gátu öll farið sinna ferða frjáls, eins og Þyrill gerir nú, en Þyrill annar bara ekki þeim olíuflutningum, sem hér þarf að leysa af hendi frá degi til dags.

Það er ástæða til þess að biðja ríkisstj. að hlutast til um, að þessi skip verði tekin af olíufélögunum og í hendur ríkisins, á meðan svona standa sakir, svo að hægt sé að flytja olíu til þeirra þorpa, sem nú eru ljóslaus og hafa ekki möguleika til þess að hita upp hús sín, þrátt fyrir það að sjúkdómsplágur herji þau þar í ofanálag. Olíufélögunum má ekki líðast að gera slíkar ráðstafanir og svíkjast þannig frá þeirri þjónustu, sem þau áttu fyrst og fremst að inna af hendi og var alfrjálst að inna af hendi, ef þau hefðu ekki metið meira að grípa inn í átökin milli verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda í landinu, sem þeim bar engin skylda til.