23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég er nú bílstjóri með kennsluréttindum, gamall vélstjóri á mótorbátum, en ég er farinn að ryðga í þessu, en eitthvað minnti mig, að ef olía kæmist í eitthvað, sem héti glóðarhaus, þá færi allt út um þúfur. Og mér fannst nú ræða hv. 2. þm. Reykv. (EOl) benda til þess, að eitthvað hefði komizt í glóðarhausinn á honum. Ég skildi a. m. k. ekki, hvað hann var að fara, en að svo miklu leyti sem ég skildi það, var helzt um það að ræða, að ríkisstj. ætti að taka olíuskipin í sínar hendur, fallast á allar kaupkröfur, sem frammi væru, og svo fá að losa þau. Það er mikið snjallræði, en ég veit nú ekki, hvort hann hefur gert sér grein fyrir þeim afleiðingum, sem af því mundu hljótast.

Það, sem fyrir liggur, skilst mér, er það, að fari sú olía, sem nú er í þessum tveimur umræddu skipum, til annarra en Íslendinga, verði þessi skip send með farm sinn og hann verði seldur öðrum, þá geti af því hlotizt geigvænlegt tjón fyrir bátaflotann og togaraflotann. Þetta er mjög alvarlegt; það hljóta allir að skilja. Mér skilst hins vegar, eftir því sem formaður Alþýðusambandsins segir, að vegna þess, að einhverjir, sem verkfallið snertir, hafi brotið eitthvað af sér, muni Alþýðusambandsstjórnin, þótt henni sé þetta allt ljóst, ekki fyrirgefa þessar syndir, sem þeir kunna að hafa framið og mér er ókunnugt um, heldur muni hún láta arka að auðnu um, hvað verður af þessari olíu. Ég segi: Ef Alþýðusambandsstjórninni er það ljóst, að hún færir langvarandi vinnustöðvun yfir skipaflota landsins vegna þess, að einhverjir þrír aðilar af þeim hundruðum, sem hún er nú að deila við, hafa framið yfirsjón, ásetningssynd eða breyskleikasynd eða hvað það nú er, — þó að Alþýðusambandinu sé það ljóst, að þessar geigvænlegu afleiðingar hljótast af því, að skipin fari, þá skuli samt það, að þrír aðilar hafa brotið eitthvað af sér að forminu eða efninu til, geta valdið því, að þessi ógæfa skelli yfir saklausa aðila. Ég segi: Ef Alþýðusambandsstjórnin er ekki alveg önnum kafin við að mynda ríkisstj. á Íslandi, sem mér skilst nú að hún hafi tekið að sér, þá finnst mér, að hún ætti að hugsa sig dálítið betur um. Hún verður sannarlega um það spurð seinna, hvort það, að einhverjir þrír, sem mér heyrðist þar að auki á formanni Alþýðusambandsins að væru sízt beztir í hópnum, heldur jafnvel öðrum verri, hefðu framið yfirsjón, fái valdið því, að Alþýðusambandsstjórnin vitandi vits leiði voða yfir þann atvinnuveginn, sem meginþorri þjóðarinnar lifir á eins og nú standa sakir.

Ég segi svo hins vegar, að ég er reiðubúinn til allra viðræðna um þetta mál. Ég er fús til þess að ganga þar á milli og liðka til, eins og ég mögulega get, því að ég vil engan þátt eiga í því að þetta slys hendi, en allan þátt, sem ég get átt, og mæli þar áreiðanlega fyrir hönd ríkisstj. allrar, í því að afstýra voðanum. Og ef þessi fyrirspurn hv. 11. landsk. gæti orðið til þess að bægja frá dyrum þjóðarinnar því böli, sem af því gæti leitt, að rás viðburðanna leiddi til þess, að þessi skip héldu héðan burt, og af því leiddi þann olíuskort, sem um er að ræða, þá teldi ég mjög farsælt, að hún hefur hér fram komið.