28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (3237)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Það skal vera aðeins örstutt aths. Ég vildi segja í sambandi við það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, þar sem hann sagði, að ástæðan til þess, að olía togaranna, svartolían, væri ekki undir verðlagsákvæðum, væri sú, að togaraeigendur hefðu ekki viljað þetta, og ég þar á meðal hefði staðið í vegi fyrir því, að hann og aðrir þeir, sem með verðlagsmálin fara, mættu hafa nokkra hönd í bagga með verðlagningunni á þessari olíu, að þetta er nú svona heldur líklegt, að togaraeigendur hafi sagt nei við því, að það yrðu hafðar einhverjar hömlur á verðlaginu á þessari olíu. En ég vil svo aðeins segja það, að ég hef verið í samtökum með togaraeigendum vegna þess, að ég hef haft það á hendi að stjórna togaraútgerð nú um sinn, en ég hef aldrei heyrt á það minnzt þar nokkurn tíma og aldrei verið um spurður neitt í þá átt, hvort togaraeigendur vildu, að þessi olía væri undir eftirliti ríkisverðlagsins eða ekki. Og ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að allir togaraeigendur mundu telja það mikinn vinning, ef ríkið vildi hafa hemil á þessu verðlagi eins og annarri olíu, en ríkið hefur alltaf skotið sér undan því að vilja nokkuð hafa með verðlagninguna á þessari olíutegund að gera, og það er alveg vitað mál líka, hverjir það eru fyrst og fremst, sem hafa haft þar fingur í spili, að ríkið væri ekki að skipta sér af þessari verðlagningu. Það eru þeir, sem hafa haft með söluna á þessari olíu að gera, en ekki þeir, sem hafa haft með kaupin á henni að gera.

Hitt er svo rétt, að sú hækkun á þessari olíutegund, sem ákveðin hefur verið, meðan á verkfallinu hefur staðið, er 13 kr. á tonn, en hins vegar hafa olíufélögin krafizt þess og tilkynnt það, að þau ætli sér að hækka þessa olíu upp í 38 kr. á tonn, og það jafngildir, eins og ég sagði, jafnmikilli útgjaldaaukningu á meðaltogara og um 5% launahækkun væri að ræða.

Það kom svo fram hjá hæstv. viðskmrh. eins og reyndar áður, þegar minnzt hefur verið á verðlagningu á olíu hér á Alþ., að þegar krafa liggur fyrir um það frá olíufélögunum, að þau telji, að verðlagið þurfi að hækka til verulegra muna frá því, sem verið hefur, m. a. verði öll bátaolía í landinu að hækka um 60 kr. á tonn, að þá er það svar, sem hér fæst, aðeins á þessa lund: Ja, þetta verður athugað; það verður athugað, hvort það þarf að hækka verðið. — Skýrari svör hafa aldrei fengizt hér, en niðurstaðan hefur alltaf orðið sú sama, að þegar olíufélögin hafa heimtað hækkun, þá hefur hækkunin orðið. Það hefði hins vegar verið myndarlegt framlag í þetta mál í sambandi við verðlagsmálin og lausn þessara deilumála, sem nú standa yfir, ef ríkisstj. hefði sagt alveg afdráttarlaust: Þessi krafa olíufélaganna um að hækka olíuna nú um 60 kr. á tonn verður ekki samþykkt. Jafnvel þó að flutningsgjöld hafi hækkað nokkuð á tímabili, en eru núna lækkandi aftur, þá verða olíufélögin látin bera þennan mismun, og þessi hækkun verður ekki samþykkt. — Það hefði verið nokkurt framlag í þetta mál. En þessi almenna afsökun: Málið verður athugað, við verðum að athuga, hvort það þarf að hækka þetta eða ekki, það er búið að segja þetta svo oft, að það tekur enginn þetta nema á einn veg, að þessi hækkun muni eiga að ganga yfir, en kannske verði beðið með hana fram yfir þann tíma, að verkfallinu er lokið, en þá verði hún hins vegar látin ganga í gildi.

Annað það, sem kom hér fram hjá hæstv. ráðh. um það, að verkfallsmenn hefðu fengið miklu meiri samúð landsmanna, ef þeir hefðu leyft að láta losa olíuskipin o. s. frv., og það, sem hann sagði í þeim efnum, ætla ég að leiða hjá mér. Í því efni vildi ég aðeins segja það, að mér fannst hann tala í þessum efnum mjög greinilega eins og hann stæði hér uppi í ræðustólnum fyrir hönd atvinnurekenda, sem eru alltaf að segja þetta þessa dagana, að verkamenn hefðu nú átt að vera svo snjallir að fá samúð landsmanna með því að láta losa skipin. Þetta er atriði, sem ég fyrir mitt leyti ætlaði ekkert að deila hér um við einn eða neinn, hvað hefði átt að gera í þessum efnum, heldur fyrst og fremst hitt, að þeir aðilar, sem óneitanlega eru ekki í deilunni og eiga rétt á því að fá olíu, eiga líka siðferðislega kröfu til ríkisstj. um það, að hún aðstoði þá í því að fá þá olíu, sem frjáls er, flutta til þeirra staða á landinu, þar sem ekkert verkfall er. Hitt er svo aðeins þræta á milli þeirra aðila, sem standa í verkfallinu, hvort það hefði átt að losa þetta skipið eða neita því um losun.

Hæstv. fjmrh. upplýsti hér, að þær 12.2 millj. kr., sem sagt var frá í skýrslu ríkisstj. að útgjöld ríkissjóðs mundu hækka um í sambandi við 7% grunnlaunahækkun, væru einvörðungu 7% hækkun á núgildandi laun starfsmanna ríkisins. Sé þetta svo, þá hefði mátt segja þetta fyrr. Þá er dæmið ákaflega auðreiknað. Þá sýnist mér, að laun starfsmanna ríkisins nú í dag séu rétt í kringum 180 millj. kr., ef það hefur verið valin sú leið að reikna aðeins 7% beint á þessa upphæð. (Gripið fram í.) Hún reiknar nærri því, já. Það er allálitleg hrúga, og kæmi vitanlega fyllilega til athugunar, hvort ekki mætti minnka hana eitthvað, kannske þannig, að a. m. k. þeir þeirra, sem fengu 10% launahækkun fyrir 3 mánuðum, þurfi e. t. v. ekki að fá 7% hækkun líka núna. Það hefði kannske mátt athuga það. (Gripið fram í.) Já, ég veit það, að sumir líta þannig á, að það sé jafnvel meiri ástæða til að hækka hjá þeim, en aðrir aftur, að það sé minni ástæða, en það var þó sannarlega full ástæða til þess að láta það fylgja með í sambandi við þessa skýrslu, hvað þessar tölur í raun og veru þýða. Ég lít þannig á, að það sé mjög blekkjandi í sambandi við útgjöld ríkissjóðs að segja, að 7% grunnlaunahækkun hjá verkamönnum, sem í þessu verkfalli standa, þýði það endilega, að það eigi að hækka líka um 7% öll laun, sem ríkissjóður greiðir. Ég tel, að það sé mjög blekkjandi, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, að þessir menn, sem taka laun hjá ríkinu, eru nýlega búnir að fá grunnlaunahækkun og sumir 10% grunnlaunahækkun, svo að ég teldi líka fulla ástæðu til, að þessar upplýsingar fengju að koma út á meðal manna, að þessi tala er alveg tvímælalaust ranglega upp sett.