31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (3244)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram örstutta fsp. eða kannske öllu heldur tilmæli til hæstv. flugmálaráðh. varðandi einn þátt kaupdeilu þeirrar, sem nú er háð hér á landi.

Svo sem kunnugt er, hefur ein afleiðing hinnar víðtæku kaupdeilu orðið sú, að flugferðir íslenzku flugfélaganna hafa lagzt niður, fyrst og fremst sökum þess, að báðir deiluaðilarnir hafa tök á því, sem flugferðirnar byggjast á fyrst og fremst, sem sagt eldsneytinu. Annar aðilinn á eldsneytið, sem flugvélarnar þurfa að nota, hinn aðilinn afgreiðir það.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að á því sviði, sem hér er um að ræða, hefur á undanförnum árum verið unnið stórmerkilegt brautryðjendastarf. Íslendingar hafa á undanförnum árum verið að gerast loftsiglingaþjóð, og enginn vafi er á því, að hér hafa menn verið að leggja grundvöll að nýjum, voldugum og merkilegum atvinnuvegi á Íslandi. Þó að verkfallið bitni að sjálfsögðu þungt á báðum flugfélögunum, bitnar það sérstaklega þungt á öðru þeirra, sem hefur viðskipti sín einkum og sér í lagi erlendis, hefur að því er talið er allt að ¾ tekna sinna af því að sigla með útlendinga og á á þessu sviði í mjög harðri samkeppni við erlend flugfélög á þeim leiðum, sem það siglir á.

Hin erlendu flugfélög geta eftir sem áður fengið alla sömu afgreiðslu hér á landi og þau hafa fengið áður. Hið íslenzka flugfélag, sem á við þau í harðri keppni, getur ekki fengið þessa afgreiðslu nú, meðan á verkfallinu stendur. Þetta bakar því ekki aðeins geysimikið fjárhagstjón, — það er talið munu nema, að því er ég hef séð í blaðafregnum, allt að 250 þús. kr. á viku, — heldur stórskaðar það einnig samkeppnisaðstöðu þessa félags, þessa íslenzka atvinnuvegar gagnvart erlendum keppinautum, og er það enn alvarlegri hlið á málinu.

Því hefur verið haldið fram, að auðvelt væri að leysa þennan hnút með því, að flugfélögin eða þó sérstaklega þetta flugfélag, sem hefur aðallega gjaldeyristekjur af starfi sínu, geri sérsamninga við vinnusalana. Mér finnst þó, að það hafi verið færð fram fyrir því opinberlega skynsamleg rök, að við því sé varla að búast, að félagið geri það, enda mjög hæpið, að málið leysist fyrir félagið með því máti, sökum þess, að það væri þá komið í beina andstöðu við hinn deiluaðilann, sem eftir sem áður gæti neitað honum um það, sem hann þarf fyrst og fremst á að halda í þessu sambandi, sem sagt eldsneytið.

Mér er kunnugt um, að undanfarna daga hefur farið fram viðleitni í þá átt að leysa þann hnút, sem hér hefur hnýtzt og virðist vera orðinn nokkuð fastur. Hér er ekki staður né stund til þess að ræða um það eða að deila á nokkurn fyrir það, að ekki hefur enn tekizt að leysa hnútinn. En erindi mitt í þennan ræðustól er það eitt að beina þeim tilmælum til hæstv. ríkisstj. og fyrst og fremst hæstv. flugmálaráðh., hvort hann sjái sér ekki fært að beita áhrifum sínum í þá átt, að þessi hnútur verði leystur, þannig að þessi starfsemi geti fengið að halda áfram eins og um venjulegar kringumstæður væri að ræða.

Ég vil undirstrika það sérstaklega, að á þessu sviði hefur verið unnið þrekvirki. Forráðamenn íslenzku flugfélaganna hafa í rann og veru unnið þrekvirki með því að koma á örfáum árum fótum undir sjálfstæða atvinnugrein hér á landi, sem stendur undir geysimiklum gjaldeyristekjum til handa þjóðarbúinu. Það væri hörmulegt, ef sú deila, sem nú er uppi, yrði til þess að skaða þennan atvinnuveg og sérstaklega það félagið, sem hér er um að ræða og á í sérstakri vök að verjast vegna þess, að það er keppinautur erlendra félaga, og hefur að því leyti algera sérstöðu meðal íslenzkra atvinnufyrirtækja, að það á nær eingöngu í keppni við útlenda aðila í starfsemi sinni, því að samkeppnin á milli íslenzku flugfélaganna er á mjög takmörkuðu sviði. Þess vegna er hér í raun og veru um þjóðarhagsmuni að tefla. Þjóðarhagsmunir eru í veði varðandi það, að takist skynsamleg og sanngjörn lausn á þessu vandamáli.

Ég er þess fullviss, að allur almenningur í þessu landi mundi fagna því mjög, ef tækist að finna sanngjarna lausn á málinu, þannig að þessar flugsamgöngur gætu haldið áfram með eðlilegum hætti. Ef hæstv. ríkisstj. vildi í þetta mál ganga af velvilja og dugnaði og henni tækist að leysa það, þá fullyrði ég, að hún mundi hljóta fyrir það alþjóðar þökk. Þess vegna vil ég leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. flugmálaráðh., hvort hann hafi einhverjar upplýsingar að gefa í þessu máli og hvort hann sé ekki reiðubúinn til þess að ganga í málið og beita áhrifum sínum og ríkisvaldsins til þess, að á því fáist viðunandi lausn, þannig að flugsamgöngurnar geti haldið áfram með eðlilegum hætti.