31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónason):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra það hjá hv. síðasta ræðumanni, að hann hefur áhuga á því, að deilan um það, hvort Loftleiðir fái að hefja starfsemi sína nú þegar eða ekki, verði leyst. Hv. ræðumaður talaði hér af sanngirni og ég held af fullri hreinskilni og meiningu um, að það sé nauðsynlegt að leysa þetta mál.

Það hefur kveðið við alleinkennilegan tón í sumum dagblöðunum í sambandi við þetta. Það hefur verið sagt — stundum spurningarmerki reyndar á eftir: Hefur flugmálaráðh. eða ríkisstj. kúgað Loftleiðir og komið í veg fyrir, að Loftleiðir semji? Og það hefur verið snúið út úr og túlkað alveg öfugt það, sem ég hef komið við sögu í þessu máli. Þannig er nú málflutningurinn. Og er hin pólitíska barátta á Íslandi þannig í dag, að það þyki nauðsynlegt að snúa hlutunum alveg við og reyna að fá sök á hendur mönnum, þótt þeir geri allt sitt bezta til þess að leysa úr flækjunni?

Stjórn Loftleiða hefur gefið allýtarlega skýrslu, sem talar sínu máli, og hefur sagt greinilega frá gangi málanna. Það út af fyrir sig ætti að vera nægileg skýring á því, að flugmálaráðh. eða ríkisstj. hefur aldrei gert tilraun til þess að kúga Loftleiðir, hefur aldrei gert tilraun til þess að koma í veg fyrir samkomulag í þessu máli. Það væri líka alleinkennilegt, ef ríkisstj. vildi koma í veg fyrir samkomulag í þessu máli.

Flugmálastjóri og framkvæmdastjóri Loftleiða komu að máli við mig fyrir ekki alllöngu og skýrðu mér frá því, hvernig málum væri háttað, óskuðu eftir því að fá fund með mér ásamt samninganefndum frá flugfélögunum, frá flugvirkjum og frá flugmönnum. Sama dag var haldinn fundur í skrifstofu minni, allfjölmennur. Fulltrúar frá flugvirkjum og flugmönnum komu á þennan fund, prúðir menn og glæsilegir, ágætir í sínu starfi. Með þeim var flugmálastjóri, forstjóri Loftleiða og einn úr stjórn h/f Loftleiða. Fundur þessi fór í alla staði vel fram. Og þegar fundinum lauk, fóru menn ánægðir þaðan. Það var fjarri mér að steyta hnefann framan í þessa ágætu menn. Og ég trúi því ekki, að nokkur af þessum mönnum, sem á fundinum voru, hafi þá sögu að segja. Það var rætt í hreinskilni og af ró um þessi mál, og allir, sem á fundinum voru, höfðu áhuga á því að fá lausn í málinu. Og það, sem ég óskaði eftir á þessum fundi alveg sérstaklega, var, að flugvirkjar og flugmenn færu þess á leit við Dagsbrún og Alþýðusambandið, að þeir fengju undanþágu til þess að fljúga fyrir Loftleiðir upp á væntanlegan samning. Þá kom rödd fram á fundinum, sem sagði, að Flugfélag Íslands mundi una illa sínum hlut, ef Loftleiðir fengju undanþágu, en ekki Flugfélag Íslands. En vegna þess að Loftleiðir hafa hér sérstöðu um að fljúga að mestu leyti með útlendinga, þá hafði forstjóri Flugfélags Íslands skrifað bréf, sem forstjóri Loftleiða kom með á þennan fund, og þar var lýst yfir, að Flugfélag Íslands mundi ekki gera neinar sérstakar kröfur eða lita það neitt óhýru auga, þótt Loftleiðum út af fyrir sig væri gefin þessi undanþága. Fundurinn stóð ekki mjög lengi, því að fundarmenn voru einhuga í því að reyna að fá lausn á þessu máli, og flugvirkjar og flugmenn fóru af fundinum með þann ásetning að vinna að því í sínum félögum, að ósk væri borin fram um, að þessi undanþága væri veitt, að flugvirkjar og flugmenn óskuðu eftir því að fá að vinna hjá Loftleiðum upp á væntanlegan samning.

Fundur var haldinn þennan dag í félögum flugvirkja og flugmanna, og það var samþykkt þar að óska eftir þessari undanþágu. Og þess vegna var von til, að þetta yrði leyst. En á einhverju hefur strandað, því að lausn er ekki enn fengin í málinu.

Ég vildi nú mælast til þess, að Loftleiðir fengju þessa undanþágu, því að eins og sagt var hér áðan, hafa Loftleiðir hér alveg sérstöðu. Loftleiðir þurfa ekki annað en að lenda hér á Reykjavíkurflugvelli og fá leyfi til þess að taka benzín. Þeir fara ekki fram á að mega taka farþega hér, heldur aðeins að mega koma hér við og taka benzín, þegar þeir fljúga með útlendinga frá Evrópu til Ameríku og frá Ameríku aftur til Evrópu.

Allir hljóta að sjá, að þó að þessi undanþága væri veitt, þá hefur það engin áhrif á gang verkfallsins. Verkfallsmenn hafa eigi að siður jafnsterk tök á því að fá sín mál fram, þótt þessi undanþága verði gefin. En ég segi: Það eru ekki aðeins hagsmunir þjóðarinnar, sem hér er um að ræða, ekki aðeins efnalegir hagsmunir, það er einnig þjóðarsómi, að það megi nást samkomulag um þetta, vegna þess að hið íslenzka flugfélag, sem hefur sýnt mikinn dugnað á undanförnum árum að byggja flugið upp, á í harðri samkeppni við erlendan aðila, sterkan aðila, sem brosir, ef illa fer fyrir Loftleiðum.

Mér finnst, að það þurfi ekki að koma málinu við í dag, þegar um þetta er að ræða, hvar í flokki við erum, hvort við erum sósíalistar sjálfstæðismenn, Alþýðuflokksmenn eða framsóknarmenn. Við ættum að geta sameinazt um að leyfa flugvélum Loftleiða að fljúga með útlendinga með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli.

Ég býst nú við því, að einhver komi hér upp í ræðustólinn og segi: Þetta er enginn vandi. Það er ekkert annað að gera en bara að semja strax upp á þær kröfur, sem gerðar hafa verið. — En það er alveg rétt, sem Sigurður Magnússon, fulltrúi Loftleiða, sagði í ágætri grein í Alþýðublaðinu um daginn, að það er ekki hægt fyrir Loftleiðir að gera sérsamninga á þessu stigi málsins. Það þýðir ekkert annað en að játa staðreyndir. Það er ekki unnt að gera sérsamninga nú.

Það þarf ekki að segja öllu meira um þetta. Ég veit, að hv. alþm. og þjóðin öll hefur fylgzt með þessu máli, hefur kynnt sér grg. stjórnar Loftleiða og veit, hvað er að gerast. Ég veit líka, að sá aðili, sem hindrar það, að Loftleiðir fái að hefja starfsemi sína nú, verður dæmdur hart af þjóðinni. Ég veit, að það er verkfall núna. Það er deila um kaup og kjör, ekki á milli verkalýðsins eða launþeganna og ríkisstjórnarinnar, heldur á milli launþeganna og atvinnurekenda. Ég ætla ekkert að segja um það, á hvaða forsendum þessar deilur byggjast, og að þessu sinni engan dóni á það leggja. En það er staðreynd, að það er deila, sem enn er ekki leyst, og við erum núna að ræða um mál til lausnar, sem hefur ekki nein áhrif á þessa deilu, þótt gert væri það, sem beðið hefur verið um, að veita undanþágu til þess, að Loftleiðir geti nú hafið starfsemi sína upp á þá samninga, sem síðar kunna að takast.