16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgöngumálanefndir þingsins hafa, eins og tíðkazt hefur undanfarin ár, unnið sameiginlega að undirbúningi till. um úthlutun flóabáta- og flutningastyrkja og haft samráð um það starf, öflun gagna, upplýsinga, við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins.

Um rekstrarafkomu flóabátanna á þessu ári er svipað að segja og oft áður, að hún hefur orðið töluvert misjöfn. Hjá einstökum bátum hefur reksturinn gengið sæmilega og þeir styrkir, sem veittir hafa verið, hrokkið til þess að halda rekstrinum í sæmilegu lagi.

Samkvæmt till. samvinnunefndarinnar er gert ráð fyrir því, að rekstrarstyrkur til flestra flóabátanna verði svipaður á næsta ári og hann hefur verið undanfarin ár. Hins vegar hefur ekki orðið komizt hjá því að leggja til nokkra hækkun á framlögum til einstakra báta vegna vélakaupa og viðgerða. Eins og kunnugt er, þá eru fæstir eða svo að segja engir þessara báta, sem annast flóabátaferðirnar, notaðir til fiskveiða. Þeir eiga þess vegna ekki aðgang að lánsstofnunum sjávarútvegsins og því þrönga möguleika til þess að fá lán til endurnýjunar á þeim farkostum, sem notaðir eru til flóabátaferðanna, hvort heldur ræðir um til vélakaupa eða viðgerða á sjálfum skipunum. N. hefur því talið óhjákvæmilegt að hlaupa nokkuð undir bagga með einstökum flóabátum og leggur til, að þeim verði veittir styrkir til vélakaupa og viðgerða eins og einnig hefur tíðkazt undanfarin ár.

Skipulag þessara samgangna mun verða mjög svipað á næsta ári samkv. till. n. og verið hefur undanfarið. Þó má geta þess, að lagt er til, að styrkur til eins smábáts á Austfjörðum, Berufjarðarbáts, falli niður, vegna þess að akvegasamband hefur skapazt milli þeirra byggðarlaga, sem hann hélt uppi þjónustu fyrir.

Þá hefur og sú breyting orðið á samgöngum milli Vestmannaeyja og Árnessýslu, að ferðir eru nú farnar frá Þorlákshöfn í stað Stokkseyrar áður til Vestmannaeyja.

Ég vil þá leyfa mér í örfáum orðum að gera grein fyrir till. n. gagnvart einstökum flóabátum. Er þá fyrst til að taka um Breiðafjarðarsamgöngur. Þar er lagt til, að rekstrarstyrkur til Flateyjarbáts hækki lítillega, um 10 þús. kr. Rekstur þessa báts, sem siglir um stórt svæði, mjög strjálbýlt, milli eyja og útnesjabyggða við norðanverðan Breiðafjörð, hefur átt við erfiðleika að etja, og var farið fram á töluverða styrkhækkun vegna ferða hans. Taldi n. rétt eftir atvikum að koma til móts við þær óskir með fyrrgreindri styrkhækkun. Hafa einnig verið uppi till. um það að láta Stykkishólmsbátinn, sem er töluvert stærri og fullkomnari bátur, annast einnig flóabátaferðirnar um norðanverðan Breiðafjörð. Hins vegar hafa komið fram mjög harðorð mótmæli gegn því frá hreppsnefnd Flateyjarhrepps. Hefur m.a. verið bent á það þar, að bæði læknir og prestur séu búsettir í Flatey, en þessir embættismenn leysi einnig af höndum þjónustu fyrir sveitahreppana við norðanverðan Breiðafjörð. Það væri því mjög óhentugt, ekki aðeins fyrir Flateyinga, heldur einnig fyrir fólkið, sem á að njóta þjónustu þessara embættismanna, ef aðsetursstaður flóabátsins yrði fluttur úr eynni. N. féllst á þessi rök Flateyinga og taldi rétt enn um skeið að minnsta kosti, að sérstakur bátur yrði styrktur til þess að halda uppi flóabátaferðum um norðanverðan Breiðafjörð.

Um Stykkishólmsbát, sem annast samgöngur um sunnanverðan Breiðafjörð, er það að segja, að það fyrirtæki, sem rekur hann, hefur fengið nýjan bát til þeirra ferða og látið stækka hann töluvert og búa hann mjög vel, keypt í hann tvær nýjar vélar, þannig að hann er nú mjög ganggott skip. Þessar endurbætur hafa kostað mikið og var farið fram á hækkaðan rekstrarstyrk til bátsins. En n. taldi ekki rétt að hækka rekstrarstyrkinn, en lagði hins vegar til, að honum yrði veittur 40 þús. kr. styrkur til vélakaupa.

Þegar n. hafði svo lokið sínum störfum, þá barst henni erindi frá samgmrn., þar sem þess var óskað, að n. beitti sér fyrir því, að tekin yrði upp í 22. gr. fjárlaga næsta árs heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast fyrir ofangreint hlutafélag, Fláabátinn Baldur h/f, Stykkishólmi, lán að upphæð 250 þús. kr. Nefndin ræddi þetta mál við hæstv. fjmrh. og fékk umsögn hans um það. Varð það að samkomulagi milli hæstv. ráðh. og n., að hún flytti þá heimildartill., sem samgmrn. óskaði eftir, um ábyrgð fyrir lánum, sem umrætt samgöngufyrirtæki tæki, en þó bundið við þó nokkru lægri upphæð. Flytur n. því till. um það, að ríkisstj. heimilist að ábyrgjast gegn þeim tryggingum, sem fjmrh. metur gildar, 200 þús. kr. lán, er Flóabáturinn Baldur h/f í Stykkishólmi tekur vegna endurbyggingar bátsins. Í þessu sambandi vil ég upplýsa það, að endurbæturnar á bátnum munu samtals hafa kostað rúmlega 600 þús. kr., og eru skuldir fyrirtækisins nú vegna hans rúmlega 1 millj. kr. N. taldi, eftir að hafa haft samráð við fjmrh. og þar sem fyrir lá ósk frá samgmrn. um þennan stuðning við bátinn, ekki fært annað en að koma til móts við þessar óskir.

Þá er lagt til, að styrkur til Skógarstrandarog Langeyjarnesbáts verði óbreyttur.

Um Ísafjarðarsamgöngur er það að segja, að þær eru óbreyttar frá því, sem þær hafa verið undanfarin ár. Þar er lagt til, að rekstrarstyrkur til Djúpbátsins, sem þessar ferðir annast, verði óbreyttur, 350 þús. kr. Hins vegar er talin óumflýjanleg sú endurbót á bátnum, að byggt verði á hann nýtt stýrishús. Til þess að styrkja þá framkvæmd voru á síðasta ári veittar 20 þús. kr. Sú fjárveiting er geymd, þar sem ekki hefur verið unnt að ráðast í viðgerðina fyrir svo lítið fé, og leggur n. nú til, að veittur verði 40 þús. kr. viðbótarstyrkur til að ljúka þessari endurbót.

Norðurlandssamgöngur er það um að segja, að á síðastliðnu ári var veittur svipaður styrkur til Húnaflóa- og Strandabáts og gert hafði verið undanfarin ár. Báturinn, sem annaðist ferðirnar, hafði þá verið seldur, og í samráði við þm. Str. (HermJ) var gert ráð fyrir því, að flóabátastyrkurinn yrði á þessu ári notaður til vegabóta í héraðinu til að halda áfram Selstrandarvegi, sem koma mun kauptúninu á Drangsnesi í akvegasamband, og enn fremur til vegabóta milli Gjögurs og Ingólfsfjarðar.

Þetta fór nú samt þannig á þessu ári, að fólk norður þar þóttist ekki geta án bátsins verið, og var 60 þús. kr. af þessum 100 þús. kr. varið til þess að styrkja ferðir nýs báts, sem hóf ferðirnar um norðanverða sýsluna. Ég hygg, að það sé skoðun n., að mjög erfitt verði að fella þennan bát niður. Hann rækir þjónustu við hinar strjálu byggðir á Ströndum, sem búa við mjög erfiðar samgöngur. N. leggur því til, að hann fái óbreytta styrkhæð á næsta ári, 100 þús. kr., og verði leitað tillagna sýslunefndar Strandasýslu um það, hvernig því fé skuli varið, þannig að það komi að sem mestum notum fyrir þær byggðir, sem flóabátaferðanna eiga að njóta.

Lagt er til enn fremur, að Norðurlandsbáturinn, sem heldur uppi ferðum um Eyjafjörð og Skagafjörð, fái óbreyttan rekstrarstyrk, en útgerðarmaður þess báts hefur talið gersamlega óhjákvæmilegt að skipta um vél í bát þeim, sem notaður er til ferðanna. Lánsmöguleikar eru hins vegar ekki fyrir hendifrá lánsstofnun sjávarútvegsins af þeim ástæðum, sem ég greindi áðan. N. hefur talið óhjákvæmilegt, að þessi bátur fái nokkurn styrk til vélakaupa, og leggur til, að hann fái á þessu ári 50 þús. kr. vélastyrk og fyrirheit um það, að honum verði á næsta ári veittar aðrar 50 þús. kr., þannig að hann geti aflað sér lánsfjár út á það vilyrði, sem gefið er í álitsgerð nefndarinnar.

Enn fremur er lagt til varðandi Norðurlandssamgöngurnar, að Haganesvíkurbátur og Flateyjarbátur á Skjálfanda fái óbreytta styrki. Hins vegar verði smávægileg styrkhækkun til Hríseyjarbáts, 4 þús. kr.

Á Austfjörðum er lagt til, að styrkir til Loðmundarfjarðar- og Mjóafjarðarbáts verði óbreyttir, en hins vegar verði felldur niður styrkur til Berufjarðarbáts af þeim ástæðum, sem ég minntist á í upphafi. Í fyrra var felldur niður styrkur til Eskifjarðarbátsins af sömu ástæðum. Er af þessu auðsætt, að bættar samgöngur á landi í einstökum landshlutum leiða til þess, að hægt er að draga nokkuð úr styrkjum til flóabátaferða.

Ég er þá kominn að Suðurlandsskipinu, sem siglir hraðbyri um Suðurland, þó að það sigli hvorki fyrir seglum né gufu. En svo er mál með vexti, eins og hv. þm. er kunnugt, að flutningar á hinni löngu leið frá Reykjavík til Vestur-Skaftafellssýslu hafa löngum verið styrktir vegna þess, hversu gífurlegur kostnaður er við þessa flutninga og miklu meiri en flestir aðrir landsmenn eiga við að búa. Þessi héruð hafa enn fremur þá sérstöðu, að þau njóta ekkí strandferða og yfirleitt ekki samgangna á sjó, þar sem báðar Skaftafellssýslur mega heita gersamlega hafnlausar að öðru leyti en því, að höfn er í Hornafirði, sem hluti Austur-Skaftafellssýslu hefur not af.

Á s.l. ári voru veittar samtals 170 þús. kr. til þessara mála í þágu Vestur-Skaftfellinga, en af þeirri upphæð voru 25 þús. kr. veittar til kaupa á snjóbíll, sem var óafturkræft framlag í eitt skipti fyrir öll. Nú leggur n. til, að héraðið fái sama heildarstyrk og á s.l. ári, þ.e.a.s. 170 þús. kr. Gengur þá sú upphæð, sem í fyrra gekk til kaupa á snjóbílnum, nú einnig til þess að greiða niður flutningskostnaðinn á fyrrgreindri leið.

Enn fremur leggur n. til, að styrkur til Öræfinga til vöruflutninga til Öræfa og bátaferða í Austur-Skaftafellssýslu verði hækkaður um smávægilega upphæð, þ.e.a.s. um 15 þús. kr.

Er ég þá kominn að Stokkseyrar/Vestmannaeyjabátnum eins og hann hefur heitið undanfarin ár. Sú breyting hefur verið gerð á þeim ferðum, að í stað vikulegra ferða frá Stokkseyri til Vestmannaeyja og til baka sömu leið hafa nú verið teknar upp daglegar ferðir frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Er þetta fyrst og fremst gert vegna flutninga á mjólk og mjólkurafurðum, og hefur þetta breytta skipulag ferðanna haft í för með sér stórkostlegar umbætur fyrir Vestmanneyinga, sem fá nú mjólk og mjólkurafurðir nýjar og óskemmdar, en það þótti oft brenna við áður, meðan ferðirnar voru aðeins vikulegar, að mjólkurafurðir væru mjög lélegar orðnar, þegar þær komu á markaðinn í Eyjum. Hafa einnig bændur hér á Suðurlandi og Mjólkursamsalan, mjólkurbúin, mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við þessar ferðir, þar sem neyzla mjólkur og mjólkurafurða hefur stórkostlega aukizt í Eyjum við þessa skipulagsbreytingu. Hins vegar hafði þessi bátur aðeins 80 þús. kr. styrk á s.l. ári, og var nú farið fram á, að honum yrðu veittar samtals 360 þús. kr. í styrk. Upplýsingar lágu fyrir n., þar sem gert var ráð fyrir, að rekstrarhallí af ferðunum yrði 300 þús. kr.

Ég hygg, að öllum nm. hafi verið það ljóst, að hér var um mjög mikið nauðsynjamál að ræða fyrir íbúa Vestmannaeyjakaupstaðar og einnig fyrir framleiðsluhéruðin á Suðurlandi, að þessar samgöngur héldust sem greiðastar og öruggastar. N. taldi því eðlilegt að koma til móts við þær óskir, sem bornar voru fram af þm. Vestm. og þm. hér á Suðurlandsundirlendinu, og lagði til, að rekstrarstyrkurinn yrði hækkaður úr 80 þús. kr. upp í 200 þús. kr. Enn fremur leggur n. til, að ríkissjóði verði heimilað að greiða rekstrarhalla, ef óhjákvæmilegt reynist, vegna daglegs flutnings mjólkur og mjólkurafurða frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja, allt að 50 þús. kr.

Um þetta var rætt við þm. Vestm., áður en hann hvarf af landi í nauðsynlegum erindum nú fyrir nokkrum dögum. Hann taldi að vísu brýna nauðsyn bera til þess, að upphæðin yrði veitt, sem farið var fram á. N. skildi fyllilega hans sjónarmið og sjónarmið þeirra héraða, sem hér eiga hlut að máli. En með tilliti til þess, að ekki er fengin full reynsla af því, hvað þessar ferðir með hinu breytta skipulagi muni kosta, taldi n. ekki rétt að fara lengra í styrkhækkun til þessa báts en þessar till. hennar bera með sér. Það hygg ég hins vegar að ég geti sagt f.h. nefndarinnar allrar, að hún telji sjálfsagt, að þessum ferðum verði haldið uppi, og það komi ekki til mála, að þessir afurðaflutningar verði felldir niður vegna þess, að rekstrarhalli þess báts, sem annast þær, muni reynast meiri en n. hefur gert ráð fyrir í till. sínum um fyrrgreindar styrkveitingar.

Ég vænti því, að allir aðilar geti vel við unað þessa styrkveitingu. Hins vegar kom fram till. í n. um það frá einum hv. þm., hv. 2. landsk. (BrB), að styrkurinn skyldi verða 300 þús. kr., enda yrði þá sama útsöluverð á mjólk í Vestmannaeyjum og annars staðar á landinu. Er þetta tekið fram í álitsgerð n., og fyrirvari hv. þm. á við þessa till. hans.

Að lokum vil ég svo aðeins minnast á Faxaflóasamgöngurnar. Þær hafa verið reknar með leiguskipum af h/f Skallagrími eins og undanfarið, síðan félagið missti sitt góða skip, Laxfoss. Nú er gert ráð fyrir því, að það skip, sem félagið hefur í smíðum, verði tilbúið um mitt næsta ár, og má gera ráð fyrir því, að hægt verði að reka ferðirnar miklu hagkvæmar, eftir að félagið hefur fengið þetta nýja, glæsilega og fullkomna skip. En engu að síður hefur verið talið óhjákvæmilegt að veita því allháan styrk á næsta ári. Þó að ráðgert sé, að þetta nýja skip komi um mitt ár, þá má vel svo fara, að það dragist töluvert, og menn hafa bitra reynslu af því oft og einatt, þegar um nýsmíði skipa er að ræða, að það dregst oft marga mánuði, að þau komi og að hægt sé að hefja rekstur þeirra.

N. hefur þess vegna talið rétt, að styrkveitingar til h/f Skallagríms vegna Faxaflóaferða héldust í svipuðu horfi og á líðandi ári. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem lágu fyrir n., taldi hún þó ekki hjá því komizt að hækka styrkinn lítillega eða um 50 þús. kr., þannig að hinn beini styrkur, sem félagið fái, verði samtals 250 þús. kr. Hins vegar hefur s.l. 2 ár verið heimild fyrir ríkisstj. til að greiða allt að 100 þús. kr. halla, sem kunni að verða á þessum ferðum, og hefur hæstv. fjmrh. tekið það upp í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár, og er n. því að sjálfsögðu samþykk.

Ég hygg þá, að ég hafi drepið á aðalatriðin í till. samvinnunefndarinnar. Samkvæmt þeim er lagt til, að heildarstyrkur til flóabáta og vöruflutninga verði á næsta ári 1891500 kr. Er það 284 þús. kr. hærra en á yfirstandandi ári. Þessi hækkun sprettur, eins og ég sagði í upphafi, fyrst og fremst af því, að ekki hefur verið komizt hjá því að styrkja allmarga bátana til vélakaupa og hjálpa þeim við óumflýjanlegar viðgerðir. Rekstrarstyrkirnir hafa hins vegar yfirleitt ekki hækkað, svo að neinu nemi, nema í einstökum tilfellum, og á ég þá fyrst og fremst við Vestmannaeyja- og Stokkseyrarbátinn.

Ég hygg þá, að ég geti látið máli mínu lokið um till. n. Hún hefur flutt 3 till., á þskj. 271 um heildarupphæðina og í öðru lagi um heimild til þess að greiða rekstrarhalla af mjólkurflutningunum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og í þriðja lagi um heimild fyrir ríkissjóð til þess að ábyrgjast gegn þeim tryggingum, sem fjmrh. metur gildar, 200 þús. kr. lán, er flóabáturinn Baldur í Stykkishólmi tekur vegna endurbyggingar bátsins.

Ég vil svo leyfa mér aðeins að minnast hér örfáum orðum á till., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Dal. (ÁB), hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) og hv. þm. Barð. (GíslJ). Hún er við 22. gr., um að heimila ríkisstj. að verja 25 þús. kr. í samráði við símamálastjóra til þess að tryggja, að notendur talstöðva á afskekktum stöðum þurfi ekki að greiða hærra afnotagjald en símanotendur í sveitum. Ég gerði grein fyrir svipaðri brtt. við 2. umr. fjárl., en tók hana aftur til 3. umr. Hv. fjvn. athugaði málið, en þar sem hún fékk bréf frá póst- og símamálastjóra, þar sem hann er tortrygginn gagnvart till., þá hefur hv. n. ekki treyst sér til þess að taka hana upp.

Við höfum nú endurflutt brtt. með þeirri breyt., að heimildin er nú bundin við 25 þús. kr. og á að notast í samráði við simamálastjóra. Það er þess vegna engin hætta á því, sem simamálastjóri lætur liggja að í sínu bréfi, að með styrkjum til talstöðvanotenda yrði farið að verðlauna þá, sem verst reka sínar stöðvar. Ég held, að það sé algerlega sett undir þann leka. Ég skal svo ekki fjölyrða um þessa till. Ég vænti, að hv. þm. sjái það, að hér er um sanngirnismál að ræða. Það er engin sanngirni í því, að það fólk, sem afskekktast er í þessu landi, borgi stórum hærri upphæðir fyrir afnot af talsambandi heldur en annað fólk. Það er fjarri því, að hér sé verið að fara fram á eitthvað óeðlilegt. Það er verið að fara fram á það eitt, að það fólk, sem býr við erfiðastar aðstæður, bæði varðandi samgöngur og talsímasamband, verði jafnt sett og aðrir notendur talsíma í landinu.