30.03.1955
Sameinað þing: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (3265)

Minning látinna manna

forseti (JörB):

Í gær varð bráðkvaddur á heimili sinu hér í bænum dr. Einar Arnórsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, 75 ára að aldri, og vil ég minnast þessa þjóðkunna og gagnmerka manns nokkrum orðum, áður en fundarstörf hefjast.

Einar Arnórsson var kominn af bændaættum í Árnessýslu, fæddur 24. febr. 1880 að Minna-Mosfelli í Grímsnesi, sonur Arnórs bónda þar Jónssonar bónda að Neðra-Apavatni Jónssonar og konu hans Guðrúnar Þorgilsdóttur bónda að Stóru-Borg í Grímsnesi Ólafssonar. Hann brautskráðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1901 og lauk lagaprófi í Kaupmannahafnarháskóla 5 árum síðar, 1906, hafði ýmis störf með höndum næstu tvö árin, en var skipaður kennari í lagaskólanum hér 1908 og prófessor í háskólanum 1911, þegar hann var stofnaður. Árnesingar kusu hann á þing 1914, og var hann fulltrúi þeirra til 1919. Á því tímabili varð hann ráðherra Íslands. síðasti maðurinn, sem fór einn með það embætti. Gegndi hann því frá 4. maí 1915 til 4. jan. 1917, en þá var fyrst komið hér á fót þriggja manna ráðuneyti. Þegar Einar lét af ráðherraembætti, tók hann aftur við prófessorsembætti sínu í háskólanum og hafði það á hendi til 1932. Um sjö ára skeið á þeim árum, 1922–1928, var hann jafnframt skattstjóri í Reykjavík og í niðurjöfnunarnefnd bæjarins 1928–1932. Árið 1932 var hann skipaður dómari í hæstarétti og gegndi því embætti fyrst til 1942, en þá var hann undir árslokin skipaður dóms- og menntamálaráðherra í ráðuneyti dr. Björns Þórðarsonar og hafði það embætti á hendi til 21. sept. 1944. Tók hann þá aftur samdægurs við hæstaréttardómaraembættinu og gegndi því í tæpt missiri, til 5. apríl árið eftir, en þá var honum veitt lausn frá því. Eftir það gerðist hann hæstaréttarlögmaður og starfaði að málflutningi allt til æviloka. Auk þingmennsku fyrir Árnesinga, sem áður er getið, hafði hann á hendi þingmennsku fyrir Reykvíkinga á árunum 1931–1932, en sagði af sér, þegar hann var skipaður dómari í hæstarétti. Að meðtöldum þeim tíma, er hann sat í utanþingsstjórninni, átti hann alls sæti á 13 þingum.

Snemma komu í ljós óvenju miklar og fjölhæfar gáfur Einars Arnórssonar og atorka, að hverju sem hann gekk, skarpur skilningur, trútt minni og rökrétt hugsun. Þessir hæfileikar hans komu að góðu haldi, bæði í stjórnmálastarfsemi hans og ekki sízt í þeirri sérgrein, er hann lagði fyrir sig, lögfræðinni Það mun ekki leika á tveim tungum, að hann hafi verið einhver mesti lagamaður, sem uppi hefur verið á Íslandi fyrr og síðar, og ritsmíðar hans í þeirri fræðigrein, svo sem fjöldi vísinda- og kennslubóka og annarra rita margvíslegs efnis, sem of langt yrði hér upp að telja, bera vitni óvenju eljusömum og ritfærum afkastamanni. Um ríkisréttindi Íslands og réttarstöðu þess ritaði hann bækur, sem urðu þjóðinni leiðarstjörnur í sjálfstæðisbaráttu hennar. Hann átti sæti í samninganefndinni við Dani um sambandsmálið 1918 og mun þar ekki hafa átt síztan þátt í því, hver árangur náðist Íslendingum til handa. Allir ljúka upp einum munni um, að hann hafi verið frábær kennari, ljós í framsetningu allri og rökvís, og víst er um það, að enginn maður gekk betur fram í því en hann að fegra og hreinsa íslenzkt lagamál né varð meir ágengt í því efni, enda var hann íslenzkumaður góður og ritaði öðrum fremur hreint og meitlað mál. Hann samdi marga lagabálka, svo sem um réttarfarsmál, og bera þeir fagurt vitni ritleikni hans, framsetningargáfu og öruggri meðferð íslenzkrar tungu. Ritstörf hans voru ekki einskorðuð við lögfræðileg efni. Hann var einnig afkastamikill rithöfundur á sviði íslenzkrar sagnfræði, samdi vísindalegar ritgerðir um þau efni og hafði á hendi útgáfustarfsemi í þeirri grein, var m. a. forseti Sögufélagsins síðustu 20 árin.

Einar Arnórsson á mikið og merkilegt ævistarf að baki sér. Íslendingar eiga þessum þjóðholla og mikilhæfa atorkumanni mikið upp að inna og munu lengi búa að verkum hans.

Ég vil biðja þingheim að votta minningu Einars Arnórssonar virðingu sína með því að risa úr sætum. — [Þingheimur reis úr sætum.]