16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

1. mál, fjárlög 1955

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hæstv. fjmrh. flutt smátill. varðandi hækkun á styrk til útgáfu orðabókar, að sá styrkur hækki um 50 þús. kr. frá því, sem hann var á síðasta ári, án þess að mótframlag gegn hækkuninni komi frá Sáttmálasjóði. Forráðamenn þessarar útgáfu, sem eru oddvitar háskólans, hafa talíð þetta eitt mesta vísindaverk, sem hér væri nú verið að vinna, og mjög miklu máli skipta, að því væri haldið áfram með þeim krafti, sem unnt væri, og hafa í því sambandi talið eftir atvikum nægilegt að fá þessar 50 þús. kr. til viðbótar, en tjáð Sáttmálasjóði ógerlegt að leggja mótframlag. Vonast ég til þess, að þessi till. verði samþ.

Þá er smátill., sem enn er ekki búið að útbýta, en verður væntanlega útbýtt hér á eftir og varðar nú fljótt á litið einungis orðalag og er mjög óveruleg. Það er um þann styrk, sem veittur var í fyrra og lagt er til að veittur verði í ár til Hermanns Pálssonar lektors við Edinborgarháskóla. Í fjárlfrv. eins og það er nú stendur, að þessi fjárveiting, sem er aðeins 10 þús. kr., sé síðari greiðsla. Ég legg til, að þessi orð verði felld niður, af því að á s.l. vori var gerður samningur, sem ég átti nokkurn þátt í, við rektor Edinborgarháskóla um að stofna fast embætti fyrir Hermann Pálsson í íslenzkum fræðum við Edinborgarháskóla. En til þess að það yrði sæmilega launað og lífvænlegt, þó að það sé sízt rausnarlega borgað, taldi bæði Edinborgarháskóli og við, eftir að hafa skoðað málið, að nauðsynlegt væri, að viðbótarfé til frambúðar kæmi þarna til umfram það, sem háskólinn í Edinborg gat sjálfur veitt eða hafði laust til ráðstöfunar, og varð að samkomulagi, að embættið skyldi stofnað, ef við skuldbindum okkur til þess að borga 10 þús. kr. til starfans á ári framvegis, meðan þessi maður gegnir stöðunni. Gerði ég fastan samning um þetta við skólann eða rektorinn, en tjáði honum jafnframt, að ég gæti ekki skuldbundið mig endanlega, fyrr en Alþingi formlega samþ. það á þessu þingi, og ég tel, að sú formlega samþykkt fáist um framhald samningsins, ef menn samþ. nú þessa litlu till. um að fella niður orðin „síðari greiðsla“; þá verði á það litið sem Alþingi sé ásátt um að halda áfram þessum greiðslum, meðan þessi ágæti fræðimaður gegnir þessu starfi. Mér var það til mikillar ánægju, að rektor við þennan erlenda háskóla lauk mjög miklu lofsorði á kennslu Hermanns og taldi hann, miðað við atvik, hafa marga nemendur, þótt þeir í sjálfu sér séu auðvitað ekki margir, — en miðað við öll atvuk hefði hann marga nemendur og hefði með fyrirlestrum sínum og störfum áunnið sér mjög gott orð við skólann. Ég tel þess vegna ekki áhorfsmál, að þessa litlu till. beri að samþ. Vonast ég til þess, að hún mæti ekki ágreiningi, enda hafði ég samráð um málið við nokkra þm. óformlega á síðasta þingi, áður en ég samþ. þetta endanlega af minni hálfu.

Hv. fjvn. hefur tekið upp margar af þeim till., sem ég hafði hér fram að færa, og kann ég henni þakkir fyrir og skal ekki rekja frekar eða rökstyðja umfram það, sem fram kom hjá hv. frsm. n. Slíkt væri aðeins til þess að eyða dýrmætum tíma þingsins í óþarfar málalengingar. Eins og gengur hefur n. þó á ýmsum stöðum ekki treyst sér að verða við öllum fjárbænum míns ráðuneytis frekar en ella, og verður auðvitað að sætta sig við það, vegna þess að hún er að jafna á milli og enginn einn getur ætlazt til þess að fá allt eða nærri allt, sem bann fer fram á. Ég vil þó taka fram, að þar sem n. og hæstv. fjmrh. hafa ekki treyst sér til að verða í öllum tilfellum við þeim fjárveitingum, sem ætlaðar eru til nauðsynlegs rekstrar, án þess að nokkrar till. séu gerðar um mannafækkun eða aðra skipan á málum en verið hefur, þá skoða ég þessa íhaldssemi fjmrn. og hv. n. einungis sem aðvörun um það, að varlega beri að fara með fé, en alls ekkí nú frekar en áður, að þarna sé verið að stöðva eðlilegan rekstur og starfrækslu. Varðandi t.d. nýja stofnun eins og dvalarheimilið í Breiðuvík, sem enn er á nokkru tilraunastigi, og þar eð hv. n. hefur ekki treyst sér til að taka upp að fullu þá fjárhæð, sem forstöðunefnd hælisins telur nauðsynlega til þess að reka stofnunina, þá vil ég lýsa því hér yfir, að ég tel upphæðina vera áætlunarupphæð, þannig að ef það sannast, að skynsamlegur rekstur fari fram úr þessari fjárhæð, þá mun ég í þessu tilfelli eins og öðrum ætlast til þess, að hallinn sé greiddur úr ríkissjóði. Þetta miðast auðvitað við það, að skynsamlega sé að faríð, eins og ég efast ekki um að í þessu tilfelli verði gert. En ég vildi að gefnu tilefni taka þetta fram.

Ég sé, að enn þá er hér heimildagrein í fjárlögunum, 22. gr., þar sem heimilað er í 14. lið að tryggja með samningi, að bókasafn Þorsteins M. Jónssonar verði eign Kennaraskóla Íslands, enda fallist ríkisstj. á skilyrði eigandans um afhendingu safnsins. Ég vil taka það fram, að ég ákvað í sumar að nota þessa heimild, en enn mun ekki vera búið að ganga frá samningum, vegna þess að ég taldi, að nokkur skilyrðanna, sem eigandinn setti, væru nokkuð einstrengingsleg, og mun þess vegna dráttur hafa orðið á afgreiðslu málsins hjá menntmrn. En ákvörðun liggur nú þegar fyrir um að nota heimildina, og veit ég ekki, hvort n. þess vegna telur ástæðu til að veita þessa heimild áfram. En það er auðvitað ekkert athugavert, meðan ekki er lokið samningum. En ég vil taka það fram til þess að firra misskilningi, að um þetta hefur nú þegar verið tekin ákvörðun af minni hálfu. Og ég tel, að þegar einstakir ágætismenn hafa lagt verulegan hlut af sínu lífsstarfi til þess að koma saman ágætum bókasöfnum, þá sé nokkuð á sig leggjandi til þess að hindra, að þau fari út í veður og vind, verði seld hæstbjóðanda í hverja bók eða oft erlendum mönnum — rit, sem þeir hafa lítið við að gera og eru betur komin bjá okkur, þó að á það sé að vísu líka að líta, að það er vinningur fyrir íslenzk fræði, að góð bókasöfn íslenzk séu erlendis, og þess vegna ekki ætíð ástæða til þess að sækjast eftir öllum söfnum hér. — Ég vil taka þetta fram, bæði út af safni Þorsteins M. Jónssonar og eins vegna þeirrar till., sem hv. þm. Barð. (GíslJ) og hv. 4. þm. Reykv. (HG) hafa flutt varðandi kaup á bókasafni Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns, að ég mundi telja mjög illa farið, ef slíku safni yrði ekki haldið heillegu, þar sem jafnmikil aliíð og vinna hefur farið til þess að gera það fullkomið, einmitt í einstökum greinum. Nú sé ég það, að þessir tveir hv. þm. leggja til, að safn Þorsteins sýslumanns verði keypt til að gera það að eign þjóðgarðsins á Þingvöllum. Um það er ef til vill ekki nema allt gott að segja. En þar sem vitað er, að þarna er fullkomnasta guðsorðabókasafn, sem til er á Íslandi, þá mundi ég telja betur farið, að það yrði sett í Skálholt, sem menn eru nú að keppa að að endurreisa, og ég lýsi því yfir, að ég mundi vera því eindregið fylgjandi, ef einhver flytti till. um, að ríkið keypti þetta safn með það fyrir augum, að því yrði komið fyrir í væntanlegum nýbyggingum á Skálholti og yrði ein betri prýði þess staðar, ef menn vilja koma þar upp menntasetri í framtíðinni. Ég vildi minnast á það til þess að tefja menn ekki oftar. (Gripið fram í.) Ég veit nú ekki, hvort hv. þm. er vanur slíku oflæti af þeim, sem eiga skipti við ríkið, eða hann mundi verða svo örlátur sjálfur, að hann mundi vilja gefa ríkinu alla þá ræktun, sem hann hefur lagt í á sínu óðali, og legg ég það mjög að jöfnu, hans lífsstarf og Þorsteins sýslumanns, hvors á sinn veg. (Gripið fram í.) Ég veit, að þeir eru líkir um margt, hv. þm. Borgf. og Þorsteinn sýslumaður, og ég efast ekki um örlæti hvors um sig; hvort það nægir hins vegar til þess, að þeir vilji gefa allt, sem þeir hafa lagt lífsstarf sítt í, veit ég ekki. En það mundi þá á það reyna, þegar samningar væru teknir upp við hann um safnið, hvort og að hve miklu leyti hann mundi vilja gefa safnið. En ég efast ekki um það, að hann mundi vilja láta það með góðum kjörum, og hef raunar um það nokkurt hugboð (Gripið fram í.) — á góðan stað, já.

Þá vil ég geta eins, eiginlega meira til fróðleiks eða leiðréttingar. Það er komin fram till. um að heimila að borga halla Þjóðleikhússins allt að 250 þús. kr., og er sú till. flutt í samráði við mig. Ég tel nauðsynlegt, að þetta verði gert. Jafnframt vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel æði vafasamt það fyrirkomulag, sem nú er á reikningshaldi Þjóðleikhússins, — með því er ég alls ekki að bera fram ásökun gegn þjóðleikhússtjóra, ég vil setja undir þann leka, — að telja til halla einungis það, sem á vantar til þess, að reksturinn standi undir sér, þegar með tekjunum er talinn allur skemmtanaskatturinn, sem Þjóðleikhúsið fær. Vitanlega er hinn raunverulegi halli þessarar stofnunar sá hluti skemmtanaskattsins, sem til stofnunarinnar rennur, að viðbættu því, sem Alþingi hverju sinni þarf að leggja til. Og úr því að það er nú komið á daginn ár eftir ár og öll árin, sem Þjóðieikhúsið hefur verið rekið, að þessi hluti skemmtanaskattsins hrekkur engan veginn til, og hefur hann þó sum árin verið kringum 1600 þús. kr. á einu einasta ári, og til viðbótar hefur þurft að bæta — ja, í þessu tilfelli núna 250 þús., stundum töluvert hærri upphæð, þá kynni að vera eðlilegra, að allir reikningar Þjóðieikhússins væru teknir upp í rekstur ríkisins, skemmtanaskatturinn rynni einfaldlega í ríkissjóð og Alþingi samþ. svo alla fjárhagsáætlun Þjóðleikhússins. Ég mundi telja þetta miklu yfirlitsbetra og eðlilegra en að vera að fela fyrir sjálfum sér og öðrum, hvað þessi mikla menningarstofnun kostar, og það er engum til góðs, að menn standi í þeirri meiningu, að hallinn af þessari góðu stofnun sé ekki meiri en sú tiltölulega lága upphæð, sem hér er verið að taka upp henni til fyrirgreiðslu.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Eins og ég segi, þá hafa flestar af þeim till., sem ég hafði fram að bera, verið teknar upp af hv. fjvn. eða hún hefur sannfært sig um, að miðað við fjárveitingarnar að öðru leyti er ekki hægt að verða við þeim að þessu sinni, og kann ég henni þess vegna góðar þakkir fyrir þann skilning, sem hún hefur sýnt þeim málefnum, er ég hef haft að flytja.