16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann með langri ræðu, aðeins segja nokkur orð í sambandi við þær till., sem við í minni hl. hv. fjvn. höfum leyft okkur að flytja.

Eins og hv. þm. hafa nú séð, þá hefur breytingartillagnahalinn við fjárlfrv. enn þá lengst allmikið frá því, að frv. var til 2. umr. Um þessar brtt. er ekki margt að segja. Hv. frsm. n. hefur gert grein fyrir hinum sameiginlegu till. n., og má um þær segja, að sumt er gott og sumt er þarft og um sumt við ekki tölum, þó að það hafi verið látið fljóta með.

Brtt. þær, sem minni hl. hefur leyft sér að flytja á þskj. 237, eru fáar og ekki mjög stórfelldar, svo að um þær er ekki ástæða til að fjölyrða mjög mikið. Hv. frsm. n. gerði grein fyrir því, að samkv. niðurstöðum af brtt., sem n. hefur öll flutt, hefði nú fjárlfrv. að því er gjaldabálkinn snertir hækkað um milli 6 og 7 millj. kr., og get ég þá bætt því við, að samkv. þeim brtt., sem minni hl. flytur, mundi gjaldabálkur frv. í viðbót hækka um 3.3 millj. kr. Þetta byggist á því, að við leggjum til, að liðurinn „læknisbústaðir, sjúkraskýli og sjúkrahús“ fái ekki 2 millj., eins og meiri hl. n. hefur lagt til, heldur 3 millj. kr. Hækkunin er þar um 1 millj. Þá höfum við lagt til, að til byggingar barnaskóla verði ætlaðar 5 millj. kr., og er það A50 þús. kr. hærra en meiri hl. n. hefur viljað fallast á. Í þriðja lagi leggjum við til, að bygging gagnfræða- og héraðsskóla fái 3 millj. kr., í stað þess að hv. meiri hl. n. hefur lagt til, að það yrði 2 millj. kr. Það er 1 millj. kr. hækkun. Og þá leggjum við að síðustu til, að íþróttasjóður fái 1.5 millj. kr., en hv. meiri hl. hefur fallizt á hækkun úr 750 þús. upp í 1 millj., þ.e. 500 þús. kr. hækkun frá því, sem meiri hl. n. leggur til. Þannig nema samtals hækkanir á gjaldabálkinum sjálfum um 3.3 millj. kr.

Við höfum ekki tekið upp neinar af till. þeim, sem við bárum fram við 2. umr. til hækkunar á áætlun teknanna. Teljum við öruggt, að okkar áætlanir um það hafi verið réttar, en sáum þó ekki ástæðu til að fara að flytja þær till. í annað sinn. Hv. meiri hl. Alþingis er búinn að fella þær till., sem við teljum að mundu hafa verið til þess að færa áætlunina til réttara horfs, og við það verður að sitja. En við erum vissir um, að þá smávægilegu hækkun gjalda, sem við leggjum til umfram hv. meiri hl. n., er fyllilega að finna í vanáætluðum tekjum í tekjubálkinum, og teljum því, að við séum ekki að flytja þessar till. út í loftið, þó að við tækjum ekki hinar till. okkar aftur upp til flutnings með einhverjum tölubreytingum til þess að gera þær heimilar til flutnings.

Stærstu till., sem við svo flytjum nú að þessu sinni, eru við heimildagreinina, 22. gr. fjárl. Í fyrsta lagi er það, að ríkisstj. verði heimilað að verja 40 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1954 til eflingar atvinnulífinu á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Í þeirri till., sem við fluttum áður um þetta efni, var í fyrsta lagi lagt til, að upphæðin væri 50 millj. kr., og í öðru lagi, að hæstv. ríkisstj. væri heimilað að útvega þetta fé að láni.

Við 2. umr. lögðum við líka til, að ríkisstj. væri heimilað að verja allt að 43 millj. kr. samtals vegna byggingar íbúðarhúsnæðis, og það átti einnig að vera með lánsútvegun. En nú leggjum við til, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 20 millj. kr. af tekjuafgangi yfirstandandi árs til íbúðarhúsabygginga.

Það hefur áður verið upplýst, að umframtekjurnar á þessu yfirstandandi ári muni vera nálægt 108 millj. kr., og það hefur, eins og hæstv. fjmrh. gat um hér áðan, verið talað um það af ýmsum, að tekjuafgangurinn mundi vera kannske milli 60 og 70 millj. kr. Nú förum við ekki hærra í að áætla þennan tekjuafgang í fórum hæstv. ríkisstj. en 60 millj. kr., og var hæstv. fjmrh. að vísu að segja okkur það rétt áðan, að það væri fjarstæða að áætla hann 60–70 millj. Við erum þá aðeins með till. um, að verja beri til atvinnulífsins og byggingar íbúðarhúsnæðis allt að 60 millj. kr. Mér þykir næsta ólíklegt, að hæstv. rh. hafi eytt meiru en 40–50 millj. kr. af umframtekjum yfirstandandi árs án heimildar Alþingis, og reikna því með, að upp undir 60 millj. kr. hljóti að finnast í fórum hæstv. ríkisstj., og ber auðvitað engum aðila öðrum en Alþingi að ákveða, hvernig þeim tekjuafgangi skuli varið. Og þá er auðvitað ekkert eðlilegra en það sé ákveðið á fjárlögum ársins 1954, hvernig verja skuli og til hvaða brýnna hluta verja skuli raunverulegum tekjuafgangi þess árs, sem nú er að liða. Enn þá hefur engin till. komið um það frá hæstv. ríkisstj., hvernig skuli ráðstafa endanlegum tekjuafgangi ársins 1954.

Við höfum ekki gert fleiri brtt. við frv. að þessu sinni. Við höfum lagt aðaláherzluna á, að hæstv. ríkisstj. sinni þessum tveimur óleystu stærstu vandamálum þjóðfélagsins nú, atvinnumálum og húsnæðismálum, og teljum, að það sé betra að taka í eigin hendi það fé, sem á að vera afgangs frá þessu eindæma góða tekjuári ríkissjóðs, heldur en þurfa að taka það að láni, eins og við þó lögðum til upphaflega. Þegar því hefur verið hafnað, þá teljum við, að það liggi næst að verja öllum afgangi frá árinu 1954 til þessara tveggja stóru, aðkallandi og brýnu verkefna.

Ég skal ekki fara miklu fleiri orðum um frv. að þessu sinni. Ég vek athygli á því, að sá framkvæmdasjóður, sem ráðgerður var í frv., þegar það var lagt fram, er nú horfinn og uppétinn, án þess að ætlaðar hafi verið neinar stórfelldar fjárveitingar til hinna brýnustu aðkallandi verkefna. Þetta hefur farið í að þægja Pétri og Páli og dreifa þessu í margs konar smástyrki og bitlinga, eins og nú er augljóst, því að þetta frv. til fjárl., með öllum þeim breytingum, sem á því hafa nú orðið í meðferð þingsins, ber víðtækari smástyrkjapólitík vitni heldur en nokkru sinni fyrr í sögu Alþ. En aftur á móti eru stóru viðfangsefnin látin liggja óleyst og illa leyst, eins og líka er nú orðið kunnugt hv. alþm.

Hæstv. ríkisstj. hefur nú á síðustu stundu borið fram till. til nokkurrar leiðréttingar og lagfæringar á launakjörum opinberra starfsmanna, og skal ég viðurkenna, að það var orðin mikil þörf á því að laga launakjör opinberra starfsmanna og embættismanna, einkanlega þeirra lægst launuðu. En samt er sá háttur hafður á, að það er vikið út frá þeirri reglu, sem upp var tekin í sambandi við gengislækkunina, að hæstar uppbætur skyldu koma á laun þeirra lægst launuðu, en aftur lægri á laun hæstlaunuðu embættismannanna. Í þessari brtt. ríkisstj. er að mér skilst ætlazt til, að sama álag komi á há laun og lág, og finnst mér það nú ekki vera alveg í anda launalaganna, því að það raskar dálítið hlutfalli, sem þar var þó ákveðið með aðallöggjöfinni.

Ég vil svo að síðustu aðeins láta í ljós von um það, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þær hóflegu brtt., sem minni hl. ber fram, því að það er víst, að tekjur á móti þeim útgjöldum, sem af þeim leiðir, eru fyrir hendi í fjárl., og yrði því ekki um tekjahallaafgreiðslu að ræða, þó að þær væru allar samþykktar.