02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (3293)

Kosningar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég heyri, að á lista þeim, sem hæstv. forseti las hér upp og lagður hefur verið fram við stjórnarkjör í áburðarverksmiðjunni og merktur var

A-listi, ef ég tók rétt eftir, er nafn Vilhjálms Þórs bankastjóra í Landsbankanum, ef það er rétt skilið.

Nú vil ég til þess vitna, að í l. nr. 10 frá 15. apríl 1928, um Landsbanka Íslands, segir svo í 47. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki mega bankastjórar hafa embættisstörf á hendi, ekki reka sjálfir atvinnu og ekki vera í stjórn atvinnufyrirtækja.“

Samkvæmt þessu sýnist mér, þar sem ekki er unnt, að því er mér virðist, að líta á Áburðarverksmiðjuna h/f öðrum augum en þar sé um atvinnufyrirtæki að ræða, að nafn Vilhjálms Þórs bankastjóra á A-lista við þær kosningar, sem hér fara í hönd, sé ólöglegt og hljóti því að strikast út af listanum, því að ég get ekki séð, að hið háa Alþingi Íslendinga geti leyft sér að brjóta jafnskýlaus lagafyrirmæli og hér um ræðir og ég hef vitnað til. Þess vegna vil ég óska eftir því og jafnframt krefjast þess, að þetta nafn verði strikað út af listanum, sem lagður hefur verið fram.