02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

Kosningar

Forseti (JörB):

Ég skal játa, að mér hefur ekki gefizt tóm til þess að íhuga þetta og enn síður að athuga nákvæmlega, hvernig þessu kann að vera varið, en hygg nú og lét þess reyndar getið í þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, að að svo vöxnu máli gæti ég ekki orðið við kröfu hv. 8. landsk. um að fella nafnið af listanum.

En ég vil gjarnan taka mér ofur lítinn frest til íhugunar. Upp í huga mínum hafa nú komið, á meðan hv. þm. voru að tala, nokkur atriði, sem snerta þetta mál og mun rétt að komi fram í sambandi við þá ósk, að þetta nafn sé fellt út af listanum við þetta stjórnarkjör.

Ég mun þess vegna fresta fundi um 15 mínútna skeið. — [Fundarhlé.]

Þá hefst fundur að nýju, og verður tekið til meðferðar 2. dagskrármálið, sem frá var horfið áðan.

Hv. 8. landsk. þm. telur, að á A-lista, þar sem stendur nafn Vilhjálms Þórs, sé ekki heimilt að kjósa hann til stjórnarstarfa í áburðarverksmiðju ríkisins, og vitnar þar til 47. gr. l. um Landsbanka Íslands, þar sem svo er sagt: „Ekki mega bankastjórar hafa embættisstörf á hendi, ekki reka sjálfir atvinnu og ekki vera í stjórn atvinnufyrirtækja.“

Hér er um að ræða kjör af hálfu Alþingis til stjórnarstarfa í þessu fyrirtæki, áburðarverksmiðju ríkisins, og umboð þeirra manna, er Alþ. kýs, er veitt af hálfu Alþ., þess opinbera, til þess að ráða af sinni hálfu þessari stofnun og á því ekki skylt við einkaatvinnufyrirtæki, heldur er það fyrst og fremst til að ráða þessu opinbera fyrirtæki ríkisins, sem Alþ. með kosningu veitir umboð þeim mönnum, er til þess eru kjörnir. Ég hygg, að ekki sé annað hægt en að gera mikinn greinarmun á þessu tvennu, hvort um atvinnufyrirtæki er að ræða, sem er óháð ríkinu eða er í höndum einstakra manna. Þetta umboð, sem Alþ. veitir, er fyrst og fremst að gæta fyrirtækisins af hálfu þess opinbera.

Þetta viðhorf mun og hafa ráðið nokkru um það, hver störf auk bankastjórastarfanna bankastjórar hafa haft utan við bankastjórastarfið. Vil ég í því sambandi minna á, að Jón Árnason bankastjóri var um langt árabil stjórnandi Eimskipafélags Íslands, og minnist ég þess ekki, að nokkurn tíma væri að því fundið eða á það væri bent, að óheimilt væri. Þá vil ég og minna á, að Magnús heitinn Sigurðsson bankastjóri var um langt árabil í stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, og nú síðari ár hefur Jón Maríasson bankastjóri verið í stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda.

Ég hygg líka, að hvað þetta atriði áhrærir hljóti það sakir eðli málsins fyrst og fremst að vera komið undir dómi og mati yfirstjórnar Landsbanka Íslands og hún skeri úr um það, hvaða starfsemi geti samrýmzt ákvæðum laganna um störf bankastjóra. Ég tel því ekki í verkahring forseta að úrskurða um það atriði og tel Alþ. í sjálfsvald sett að kjósa til þessa trúnaðarstarfs hvern þann mann, er fullnægi almennum kjörgengisskilyrðum.

Kosning um þessa lista fer þess vegna fram. Ég get að vísu veitt hv. þingmönnum aðeins orðið stutta stund, en ræður um þetta efni breyta í engu þessari niðurstöðu.