16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

1. mál, fjárlög 1955

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur flutt á þskj. 303 brtt. við fjárlfrv. um uppbót á laun opinberra starfsmanna og lífeyri, og á uppbótin að nema 20% í stað 10–17% uppbótar, sem greidd hefur verið undanfarin ár.

Því ber í sjálfu sér að fagna, að ríkisstj. skuli nú loksins hafa fengizt til þess að bæta að nokkru úr því mikla ranglæti, sem opinberir starfsmenn hafa verið beittir undanfarin ár hvað launagreiðslur snertir. Um það mál hafa undanfarið átt sér stað allmikil átök, og er þessi till. niðurstaða þeirra. Ríkisvaldið hefur verið knúið til þess að fallast á að greiða framvegis 20% grunnlaunauppbót í stað 10–17% áður og jafnframt sömu uppbót eftir á fyrir árið 1954.

Við hv. 4. þm. Reykv. (HG) höfum leyft okkur að flytja brtt. um þetta efni, þannig að uppbótin skuli verða 25%, en ekki 20%, sama uppbót skuli greidd eftir á fyrir árið 1954 og eftirlaunauppbótin verði tilsvarandi.

Fyrir þessari till. okkar viljum við færa eftirfarandi rök:

Farið hefur fram rannsókn á því, hver kauphækkun hefur orðið hjá þeim stéttum, sem búa við frjálsan samningsrétt um kaup og kjör, síðan launalögin voru sett, þ.e.a.s. síðan í apríl 1945, þangað til nú á þessu hausti, eða í október 1954. Það kemur í ljós, að allar stéttir, sem búa við frjálsan samningsrétt um kaup og kjör, hafa fengið meiri hækkun á töxtum sínum heldur en nú er gert ráð fyrir samkv. till. ríkisstj. að opinberir starfsmenn fái.

Ég skal minnast á helztu niðurstöðurnar, sem orðið hafa af þessum athugunum. Vegið meðaltal af kauphækkunum allra faglærðra iðnaðarmanna hefur reynzt á þessu tímabili 23.6%. Mesta hækkunin hefur orðið hjá matreiðslumönnum, 35.1%, en minnst hjá málurum, múrurum og pípulagningarmönnum, 19.4%. Í sambandi við þessa grunnkaupshækkun faglærðra iðnaðarmanna er og þess að geta, að fjölmargir þeirra vinna eftir taxta, vinna eins konar ákvæðisvinnu. Kaup þeirra er miðað við uppmælingu t.d., svo að raunveruleg grunnkaupshækkun þessara stétta hefur áreiðanlega verið talsvert miklu meiri en þau 23.6%, sem vegið meðaltal af sjálfum töxtunum sýnir. Kaup ófaglærðra verkamanna hefur hækkað, þegar einnig er byggt á vegnu meðaltali, á þessu tímabili um 23.7%. Taxti Dagsbrúnarmanna í almennri vinnu hefur þó hækkað nokkru meira, þ.e.a.s. um 25.7%. Taxtar ófaglærðra verkakvenna hafa hækkað á þessu tímabili um 36.8%. Ef þessi vegnu meðaltöl allra þessara flokka eru einnig vegin, þá reynist allsherjarmeðalkauphækkun þessara starfsstétta: faglærðra iðnaðarmanna, ófaglærðra verkamanna og ófaglærðra verkakvenna — 27.2%.

Raunveruleg grunnkaupshækkun þeirra hefur þó áreiðanlega orðið meiri vegna þess, hversu algengt er nú orðið, að um taxtavinnu sé að ræða. Raunveruleg tekjuhækkun hefur þess vegna auðvitað orðið miklu meiri vegna góðrar atvinnu, sem er í sjálfu sér mjög eðlilegt. (Gripið fram í: Þar sem hún hefur verið.) Þar sem hún hefur verið; það er rétt. En á það ber að leggja sérstaka áherzlu, að það gildir engan veginn um allt landið, eins og áður hefur verið vikið að í þessum umræðum. Mjög víða úti um land, á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, hefur alls ekki verið um neina tekjuhækkun að ræða vegna góðrar atvinnu, heldur þvert á móti hafa atvinnuskilyrðin þar verið erfið.

Móti því verður með engu móti mælt, fyrir því liggja skjallegar sannanir, að vegin meðaltalshækkun allra þessara starfsstétta, sem búa við frjálsan samningsrétt um kaup og kjör, hefur numið a. m. k, 27.2%. Með tilliti til þess verður það ekki talið nein ofrausn af hæstv. ríkisstj. að ætla opinberum starfsmönnum nú að taka við 20% hækkun. Það verður enn fremur að hafa í huga, að þeir hafa öll undanfarin ár orðið að sætta sig við það kaup, sem greitt hefur verið, þó að hinar stéttirnar séu þegar fyrir mörgum árum búnar að fá þá hækkun, sem þær hafa orðið aðnjótandi. Þó að greidd sé kaupuppbót fyrir eitt ár eftir á, þá er það auðvitað ekki full bót á því, sem af þeim hefur verið haft, miðað við hinar stéttirnar.

Þetta eru rökin — og þau tel ég vera sterk — fyrir því, að Alþ. gangi nú nokkru lengra en ríkisstjórnin hefur lagt til og samþykki 25% grunnlaunauppbót til handa opinberum starfsmönnum.

Við höfum ekki viljað leggja til, að uppbótin yrði nákvæmlega hin sama og hjá hinum stéttunum, vegna þess að segja má með réttu, að opinberir starfsmenn búi við nokkru meira atvinnuöryggi en hinar stéttirnar og þess vegna megi réttlæta það, að kauphækkun þeirra sé ekki alveg eins mikil. En minna en 25% má hún ekki vera, ef viðurkenna á það, að kjör opinberra starfsmanna eigi að vera í einhverju skynsamlegu samræmi við þær breytingar, sem verða á kaupi hinna annarra starfsstétta þjóðfélagsins, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup og kjör. Í raun og veru ætti það að vera svo, eins og við Alþfl: menn höfum hvað eftir annað bent á í umr. um launamál opinberra starfsmanna, að í gildi ættu að vera lagaákvæði, helzt í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sein tryggðu þeim það, að þeir fengju sjálfkrafa þær launabætur, sem öðrum starfsstéttum, sem gera frjálsa samninga við atvinnurekendur, tekst að tryggja sér í samningum sínum. En meðan svo er ekki, þá er það lágmarkskrafa, að Alþ. samþ. alltaf öðru hverju sem hliðstæðastar bætur til handa opinberum starfsmönnum og hinar stéttirnar fá með frjálsu samkomulagi. Þess vegna vildum við flm. leyfa okkur að vænta þess, að hið háa Alþ. taki þessari till. vel og vilji ekki búa verr að starfsmönnum hins opinbera en viðurkennt er að réttmætt sé og nauðsynlegt fyrir aðrar starfsstéttir þjóðfélagsins að búa við í kaupgjaldsmálum.