16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

1. mál, fjárlög 1955

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það hefði verið nægilegt tilefni til þess að ræða hér ýmislegt á á við og dreif um sumar af þeim till., sem liggja hér fyrir, og ekki hvað sízt fyrir gamlan form. fjvn. En ég mun nú ekki eyða hinum dýrmæta tíma þingsins til þess að fara mikið út í þau mál, mun þó ekki geta stillt mig um að minnast hér örlítið á einstök atriði, sem koma þó ekki við mínum eigin till.

Ég vil þá fyrst og fremst leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir þær leiðréttingar, sem hún hefur gert hér í sambandi við þær till., sem mér við koma, m.a. í sambandi við Reykhólaveg á þskj. 269. En út af 13. till. n. á sama þskj. þótti mér nú tæplega hv. frsm. meiri hl. gera nægilega grein fyrir þessari hækkun, því að mér skildist svo, að þessi hækkun væri beinlínis bundin við, að hún ætti öll að ganga til Reykhólakirkju. Og ég skal að gefnu tilefni leyfa mér að upplýsa, að ég sendi hv. fjvn. erindi um að taka upp fullt framlag til kirkjunnar, til þess að hægt væri að endurbyggja hana samkvæmt skyldu ríkissjóðs, og vitað er, að á bak við þá skyldu liggur veð í hálfri jörðinni Reykhólum. Fékkst ekki samkomulag um það, en hins vegar var komið samkomulag um það að taka inn á 22. gr. heimild til ríkisstj. til þess að semja um þessi mál við söfnuðinn. Svo var mér tjáð síðar, að hæstv. fjmrh. hefði heldur kosið, að þessi liður yrði hækkaður, og mér skildist þá beinlínis til þess, að ekki kæmi til atkv.till. frá mér um heimildina, og þess vegna féllst ég á, að hún yrði ekki borin hér fram. Nú þykir mér ekki þessi yfirlýsing hv. frsm. meiri hl. nægilega ákveðin. Þætti mér því vænt um, ef hæstv. kirkjumrh. vildi segja um þetta einhver orð. Hins vegar treysti ég því fullkomlega, jafnvel þó að það yrði ekki nú gert, — ég þekki hann svo vel, — að hann standi við það, sem hann hefur lofað mér persónulega, að einmitt þessi upphæð yrði notuð til þess að koma á þessu samkomulagi. Skal svo ekki ræða nánar um það atriði.

Ég vil þá leyfa mér að minnast nokkuð á yfirlýsingar hæstv. menntmrh. út af rekstrarfénu fyrir drengjaheimilið í Breiðuvík. Mér nægir að fullu að sjálfsögðu hans yfirlýsing, sem hann gaf hér, og er þakklátur fyrir, að hann hefur gefið þá yfirlýsingu, sem hann lýsti hér í sambandi við reksturinn. Framkvæmdanefndin mun að sjálfsögðu hafa fullt samráð bæði við hann sem menntmrh. og við fjmrh. um að gera allt, sem hægt er, til þess að draga úr þessum rekstrarkostnaði og gera ekki neitt í þeim málum nema með samþykki rn. En ég get ekki annað en minnt á, að allt útlit er fyrir það, að rekstur á líðandi ári fari upp í 300 þús. kr., eins og áætlað var í fyrra, þó að þá hafi ekki fengizt nema 150 þús. kr. til rekstrarins. Og eftir að yfirlýsing frá hv. frsm. meiri hl. kom um það, að ekki mætti flytja til á milli 20. gr. og 17. gr., þá á stofnunin ekki neins annars úrkosta en að sækja á rn. um þennan mismun. Við höfum orðið að taka að láni ákveðna upphæð, 125 þús. kr., til þess að þurfa ekki að standa í vanskilum við fólkið, og við höfum ekki enn getað fengið fullnaðarsvar frá hæstv. ríkisstj. um það, hvort þetta yrði greitt af þessa árs tekjum ríkissjóðs eða ekki, og liggi það svar ekki fyrir fyrir nýár, þá er ekkert annað en að taka af þessum 250 þús. kr., sem veittar eru á þessu ári, til þess að greiða þann rekstrarhalla, svo framarlega sem ekki er hægt að leysa málið á annan veg, og vænti ég þá, að það verði samþ. af hæstv. ríkisstj. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram í sambandi við þetta mál.

Út af till., sem ég á hér ásamt hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 297, það er XXIII. liður, og út af þeim ummælum, sem hæstv. dómsmrh. hafði um þá till. og málið í heild, vil ég lýsa því hér yfir, að ég mun fullkomlega sætta mig við þá brtt., sem væntanleg er hér í sambandi við þessa till., þ.e. að það sé ekki ákveðið endanlega, að bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar verði eign þjóðgarðsins á Þingvöllum, heldur að það verði látið standa opið, hvað gert verður við safnið, og mun fylgja þeirri till., ef hún kemur fram. Fyrir mér og okkur flm. vakir að sjálfsögðu fyrst og fremst að tryggja þjóðgarðinum þessi menningarverðmæti. Hins vegar ef það er opið, þá er það samkomulag við hæstv. ríkisstj. og við eiganda safnsins, hvað af þessu færi t.d. í Skálholt og hvað á Þingvöll. Það gæti vel verið, að samkomulag yrði um það, að allar guðsorðabækurnar færu í Skálholt, vegna þess að Biskupstungurnar þyrftu nú á því að halda vegna sinnar sérstöku sáluhjálpar að eiga eitthvað af slíkum andlegum verðmætum, og að Þingvöllur eða þjóðgarðurinn léti sér þá nægja hin þjóðlegu verðmæti, sögurit og önnur vísindarit, sem til væru í safninu, svo að um þetta gæti orðið fullt samkomulag.

Ég held, að ég hafi leyfi til þess að segja frá því hér, að eigandi safnsins mun vera mjög fús á að láta a.m.k. einhvern hluta safnsins, lítinn eða stóran, ganga til þess að viðhalda safninu árlega, svo að það þyrfti ekki að verða kostnaður af því fyrir ríkissjóðinn, ef samningar næðust á annað borð. Ég treysti nú því, að ef þessi till. verður samþykkt svo breytt sem hæstv. dómsmrh. hefur lýst henni, þá geti allir aðilar orðið ánægðir og eins að þá kosti það ekki ríkissjóðinn allt of mikið fé. Og raunverulega eins og till. er nú, þá á það ekki að þurfa að vera neinn útgjaldaliður fyrir hæstv. ríkisstj., fyrr en vitað er, að hvaða samningum er hægt að komast, og þá getur náttúrlega hæstv. ríkisstj. borið það undir Alþ., hvort hún vill fallast á að samþykkja þá samninga. En ég legg nú mikla áherzlu á það, að reynt verði að tryggja, að þetta safn fari ekki út um hvippinn og hvappinn. Meðan við viljum gera ýmislegt til þess að endurheimta gömul handrit, sem hafa fyrir óforsjálni verið látin út úr landinu, þá ættum við ekki heldur að loka augunum fyrir því að reyna að tryggja okkur þau verðmæti, sem þegar eru í landinu, að þau ekki annaðhvort færu út úr landinu eða til aðila, sem mundu þá ekki gæta þeirra eins vel og ríkissjóður. — Ég skal svo ekki segja meira um það atriði.

Í sambandi við nál. og till. frá samvn. samgm. þykir mér rétt í fyrsta lagi að þakka hv. n. fyrir þær till., sem hún hefur tekið upp í sambandi við Flateyjarbátinn á Breiðafirði, og þann skilning, sem hún hefur haft á þeim málum. Mér er það fullkomlega ljóst, að þetta er að verða að mörgu leyti mjög athyglisvert fyrir okkur. að það skuli hækka jafnan á hverju ári allmikið styrkur til flóabáta og er nú kominn upp í nærri 2 millj. kr. En í því sambandi vil ég benda á, að fyrir ekki alllöngu var skipuð sérstök mþn. til þess að rannsaka þessi mál til hlítar, án þess að nokkuð jákvætt kæmi út af hennar störfum. En ef Alþ. vildi fallast á till. okkar hv. þm. Snæf. á þskj. 186, þá að sjálfsögðu kemur það einnig undir verksvið þeirra manna, sem kjörnir yrðu samkvæmt þeirri till., að athuga þessi mál með flóabátana, og það sýnist sannarlega ekki vanþörf á að gera það. Mér þótti rétt að láta það koma hér fram.

Þá vildi ég einnig leyfa mér að benda á, að í fskj., sem birt er með nál., koma fram ýmsar athyglisverðar athugasemdir frá Skipaútgerð ríkisins. Ég vildi nú gjarnan spyrja um það, hvort meiri hl. n. eða n. öll vill gera þessi ummæli, sem standa hér í fskj., að sínum orðum alveg athugasemdalaust, því að hér er ýmislegt í þessu fskj., sem ég á bágt með að trúa að n. vilji gera að sínum orðum. Og þegar ég ber saman ummæli t.d. framkvæmdastjóra Skipaútgerðarinnar um Flateyjarbátinn á Breiðafirði og afstöðu n. til þess máls, þá sé ég, að það hefur ekki fallið saman, svo að ég vonast til þess, að það sé svo á fleiri sviðum. Hér er lagt til af hans hálfu, að Konráð sé lagður niður raunverulega, og mjög rætt um það að láta Stykkishólmsbátinn taka að sér þessar ferðir, á sama tíma sem það er þó sagt hér alveg ákveðið í umsögninni, að Konráð sé allt of stór bátur til þess að annast ferðirnar og þess vegna verði að ráða sérstakan trillubát til þess að taka hluta af ferðunum. En svo á að sameina þetta hvort tveggja undir bát, sem er tvöfalt stærri en Konráð. Þetta sýnir náttúrlega, að þessi ummæli eru byggð á hreinni vanþekkingu, eins og einnig kemur fram í öllum þeim athugasemdum, sem eru hér á bls. 9 og bls. 10. — Ég vildi aðeins benda á þetta. En alveg sérstaklega vil ég taka fram, að hér á bls. 14 er sagt í þessu fskj., með leyfi hæstv. forseta:

„Vér getum ekki látið hjá líða að benda á, að afgreiðsla Borgarfjarðarskipsins (afgreiðsla Laxfoss) hefur tekið að sér afgreiðslu skipa, sem halda uppi óheilbrigðri samkeppni við Skipaútgerð ríkisins varðandi vöruflutninga til og frá höfnum, þar sem Skipaútgerðin verður að láta skip sín hafa reglubundnar viðkomur hvort sem er, yfirleitt með nægu lausu flutningsrými. Viljum vér í þessu sambandi sérstaklega geta um Vestfjarðabátinn Hugrúnu, sem afgreiðsla Laxfoss afgreiðir hér í Reykjavík, en bátur þessi dregur vafalaust flutningsgjöld frá Skipaútgerð ríkisins á óeðlilegan hátt, svo að nemur mörgum hundruðum þús. kr. á ári. Þyrfti að verða breyting á þessu sem fyrst.“

Ég verð nú að segja, að mér þykir ákaflega einkennilegt, að hv. n. skuli hafa látið birta þetta sem fskj. athugasemdalaust. (Gripið fram í: Er þetta ekki fróðlegt?) Jú, það er ákaflega fróðlegt. Það er því fróðlegra þegar maður veit, að þessi sama stofnun hefur haft afgreiðslu fyrir ákveðinn einstakling í fjöldamörg ár hjá sér til þess að starfrækja flutninga á ströndinni og það á beztu leiðunum, á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, og sjálf verið með að flytja vörur um borð í þetta skip og frá því aftur upp í þau hús, sem Skipaútgerðin hefur ráð yfir. En annað félag má ekki koma nálægt þessari sömu starfsemi. Og hvers vegna er ráðizt hér alveg sérstaklega á Hugrúnu? Af því að hún hefur sýnt bezt allra báta, að hægt er að reka þessar ferðir með hreinum ágóða. Hún er búin að sýna það allt síðan 1940–41. Og hvað er svo óheilbrigð samkeppni? Er það óheilbrigð samkeppni að reka vöruflutninga með Hugrúnu, en er það svo heilbrigð samkeppni að reka þá með skipum Sambands íslenzkra samvinnufélaga og með skipum Eimskipafélagsins? Eða er öll óheilbrigð samkeppni um vöruflutninga á ströndinni. ef það er ekki gert með Skipaútgerð ríkisins? Ég held, að jafnsnjall maður og forstjóri Skipaútgerðarinnar hefði átt að hugsa sig nokkuð um, áður en hann lét svona lagað koma fram í þskj. — Svo skal ég ekki ræða frekar um það.

Viðvíkjandi till. frá hv. þm. N-Ísf. (SB), sem ég einnig flyt, í sambandi við afnotagjald af talstöðvum, þá þykir mér rétt að upplýsa, að kostnaðurinn við þessar talstöðvar hefur orðið svo mikill, sumpart vegna skipulags, sem hefur verið haft á þeim málum, og sumpart óviðráðanlega, að það er alveg rétt, sem hv. flm. hefur sagt, að þetta hefur numið stundum milli 1 og 2 þús. kr., og það er náttúrlega alveg ógerlegt að láta það vera þannig áfram, enda hefur það verið svo í framkvæmdinni. Ég veit hvað snertir þær stöðvar í Breiðafirði og Barðastrandarsýslu, að landssiminn hefur tekið þátt í þessum kostnaði. Hann hefur m.a. alveg núna nýlega endurgreitt einum notanda upphæð nær 500 kr., sem ég hef tekið á móti, í sambandi við viðhald á þessum stöðvum. Auk þess hef ég kvartað undan því, að það sé óþolandi, að landssíminn sé að vátryggja stöðvarnar fyrir miklu hærra gjald en aðilarnir geta sjálfir vátryggt. Ég veit, að þessir aðilar hafa getað vátryggt stöðvarnar fyrir sama og innbú. Hins vegar hefur landssiminn vátryggt stöðvarnar fyrir það sama og hann hefur orðið að greiða í iðgjöld fyrir að vátryggja þær á sjó, en það er allt annað atriði, og slíkt má ekki ske. Ég vænti af hæstv. ráðh., sem fer með þessi mál, að þetta verði lagað, að þeir verði ekki látnir greiða slík gjöld gersamlega að óþörfu. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram. Það er því full ástæða til þess, að sú till. verði samþ.

Ég vildi svo almennt í sambandi við 18. gr. segja hér nokkur orð. Það hefur undanfarin ár, allan þann tíma, sem ég var í fjvn., staðið allmikill styr um 18. gr., og það hefur hvað eftir annað verið minnzt á það við hæstv. fjmrh., hvort honum þætti ekki ástæða til að láta fara fram sérstaka rannsókn á því, hvort ekki skyldi taka þar upp nýjar aðferðir. Mér sýnist, að það liði svo ár frá ári, að ekki sé einasta ekkert gert í þessu máli, heldur hallist hér allt á ógæfuhliðina, og skal nú koma með nokkur dæmi, sem sýna þetta.

Á síðastliðnu ári voru samin lög um þingfararkaup alþm., og þá var stofnaður lífeyrissjóður sérstaklega fyrir alþm., og úr honum ber að greiða sem eftirlaun til alþm. ákveðna upphæð. Þegar þetta var samþ., þá var gengið út frá því, að hv. fjvn. tæki fullt tillit til þess, hvað þessir viðkomandi embættismenn þjóðarinnar taka í eftirlaun úr þeim lífeyrissjóði, þannig að það sparaði samsvarandi upphæð á 18. gr. Nú skilst mér, að það hafi einmitt ekki verið tekin upp þessi regla, eftir því sem lítur út hér á 18. gr. nú. Ég ætla ekki að fara hér í nein sérstök nöfn. En það leiðir óhjákvæmilega til þess, að það verður þegar á þessu þingi að breyta lögunum um lífeyrissjóð alþm., því að það nær vitanlega ekki nokkurri átt, að ákveðnir embættismenn, sem hafa verið þm. og hafa setið í starfi hjá ríkinu, fái síðan full laun, borgi ekki í lífeyrissjóð, en taki 12–15 þús. kr. úr lífeyrissjóði ofan á full laun. Menn sjá, að hér er um svo mikla ofrausn að ræða, að það er ekki stætt á þessu. Mér þótti rétt að benda á þetta vegna þessarar stefnu, sem tekin er upp hér í sambandi við 18. gr.

Auk þess vil ég benda á, að það mun nú vera komið svo um þá menn, sem á einhverjum tíma hafa verið teknir upp með heimild til þess að setja á full laun, — og það er ætlazt til þess, að það sé gert nú einnig, undir 51. till., að greiða skuli Ólafi Lárussyni full prófessorslaun, — að þess vegna hafi verið litið svo á síðar og jafnvel verið þannig framkvæmt, að þessir menn halda fyrst þessum fullu launum og siðan taka þeir ofan á þetta full laun úr lífeyrissjóði, og þá sjáum við það, að þessir menn geta verið komnir upp í 160% af þeim launum, sem þeir höfðu áður. Ef þetta er stefna hæstv. fjmrh. með 18. gr. og með eftirlaunin og hv. fjvn. og þingsins, þá verður að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera miklu sterkari kröfur fyrir vesalingana í þjóðfélaginu, sem sífellt stendur barátta um að sé hægt að fá hækkuð framlög til. Ef það er hið raunverulega, að menn taka full laun og auk þess full framlög úr lífeyrissjóði auk margs konar bitlinga, sem þeir hafa, svo að þeir komast kannske upp í tvöföld eða þreföld laun, þá erum við komnir út á slíka glapstigu, að við náum hvergi fótfestu, að ég nú ekki tali um þá stefnu, sem er verið að taka upp hér, að vera að setja ákveðin verðlaun til ákveðinna manna þar sem hægt er að finna þúsundir manna í landinu, sem eiga jafnmikla kröfu á að fá slík verðlaun. Ég skal ekki fara hér út í nein nöfn, en þessi stefna er náttúrlega alveg ótæk í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. — Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, af því að ég veit um, að þessi dæmi eru svona, ef farið er að athuga þau.

Ég skal svo aðeins að síðustu minnast hér á það, sem hæstv. menntmrh. talaði um í sambandi við Þjóðleikhúsið og þá till., sem liggur hér fyrir um það atriði. Ég minnist þess, að árið 1947 voru samþ. ný lög um þjóðieikhús, og í þessum lögum stendur alveg ótvírætt, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum Þjóðleikhússins og þjóðleikhússbyggingin stendur ekki til tryggingar skuldbindingum þess. Ég verð að segja það, að þær till., sem hafa komið hér fram, og þau ummæli, sem hafa komið hér fram, að nú skuli þetta allt fara á ríkissjóðinn, stríða beint á móti þessu ákvæði 12. gr. laganna. Það var þá mjög rætt um það hér að taka allan rekstur Þjóðleikhússins inn í fjárlögin, og það var staðið mjög á móti því af hv. fjvn. á þeim tíma, sem eðlilegt var, vegna þess að hún vildi sannarlega ekki fá þá stofnun til þess að bera ábyrgð á þeim kostnaði, sem var í sambandi við Þjóðleikhúsið. Nú skilst mér, að 16 hundruð þús. kr. tekjur frá skemmtanaskattinum séu engan veginn nægilegar. En ef það er meiningin að taka þetta upp hér í framtíðinni, svo að ríkissjóður eigi að bera ábyrgð á þessari stofnun, þá skilst mér, að það sé fyrst og fremst nauðsynlegt að breyta lögunum annars vegar og gera hins vegar miklu sterkari og meiri ráðstafanir til þess, að þessi stofnun þurfi ekki á öllu þessu fé að halda. Við vitum, að samhliða þessari stofnun er rekið hér annað leikhús, og það þykir ákaflega mikil rausn að láta þá stofnun fá 40, 50, 60 þús. kr. á hverju ári, og er það þó ekki nema partur af þeim gjöldum, sem það félag verður að greiða í skemmtanaskatt til Þjóðleikhússins. En hversu ótækt er þá ekki þegjandi og hljóðalaust að taka við rekstrarhalla — ekki upp á 16 hundruð þús. kr., heldur upp á 18 eða 19 hundruð þús. kr. á Þjóðleikhúsinu, og skella því á ríkissjóðinn þvert ofan í skýr lagafyrirmæli? Og ég verð að segja það eftir framkomu hv. þm. V-Sk. (JK) í gær í Ed. í sambandi við annað mál, að þá held ég, að hann hefði átt að líta í þessi plögg til þess að fullvissa sig um, að hann var hér á alveg rangri braut og miklu rangari braut en hann þóttist vera í gær. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram hér, úr því að ég á annað borð tók hér til máls.