16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

1. mál, fjárlög 1955

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það var aðeins örstutt. — Ég gleymdi áðan að taka það skýrt fram, að þessar grunnlaunauppbætur, sem stjórnin leggur til að samþ. verði, eru til samræmis við þær grunnlaunahækkanir, sem orðið hafa hjá öðrum en opinberum starfsmönnum síðan launalögin voru sett. Og enn fremur, að grunnlaunauppbótin, eins og hún yrði nú eftir þessa hækkun, 20%, mundi ekki nema eins miklu og grunnlaun almennt hafa hækkað síðan launalögin voru lögfest. En í því sambandi er þó sérstök ástæða til þess að benda á, að sett hafa verið lög um réttindi og skyldur embættismanna, síðan launalögin voru lögfest, og að þau lög hafa að geyma réttarbætur nokkrar til handa opinberum starfsmönnum. — Þetta vildi ég taka fram nú, þar sem ég gleymdi að geta þessa mikilvæga atriðis, þegar ég mælti fyrir till. hér áðan.