04.03.1955
Sameinað þing: 42. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (3359)

Bráðabirgðayfirlit um rekstrarafkomu ríkisjóðs á árinu 1954

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan segja fáein orð af tilefni þessarar ræðu hv. 3. landsk. þm. (HV). Ég skal þó ekki vera langorður, því að ég veit, að nokkrir eru á mælendaskrá. Sumt af því, sem hann sagði, var þannig vaxið, að ég vil helzt ekki láta það verða mosavaxið.

Hann sagði, að ég hefði sagt, að stjórnarandstaðan hefði talið það til ódáða, ef greiðsluafgangur varð á ríkisbúskapnum. Þetta sagði ég, það er rétt. Hann sagði þetta bein ósannindi og viðhafði önnur álíka stóryrði í því sambandi. Ég held, að það hefði verið réttara fyrir hv. þm. að viðhafa ekki svo stór orð, því að ég veit, að það kannast hver einasti hv. alþm. við, að á undanförnum árum hafa ádeilur stjórnarandstæðinga fyrst og fremst beinzt að því, að landsfólkinu hafi verið íþyngt með sköttum og tollum, ófyrirsynju. Það hefði verið hægt að komast af með miklu minni álögur en lagðar hefðu verið á, hafa þeir sagt. Það sýndi greiðsluafgangurinn, hefur verið viðkvæðið. Og í hvert skipti, sem fjárlög hafa verið hér til meðferðar, hafa hv. stjórnarandstæðingar lagt til, að felldir væru niður ýmsir tekjustofnar ríkisins eða skertir verulega einmitt á þeirri forsendu, að ekki þyrfti á þeim að halda, það væri hægt að komast af án þeirra, þeir væru aðeins notaðir til þess að fá greiðsluafgang, sem stjórnin notfærði sér svo án þess að hafa um það samráð við Alþingi. Ég spyr: Hver er sá hér inni, sem kannast ekki við þessa gagnrýni af hendi hv. stjórnarandstæðinga nú undanfarið? Þegar ég flutti ræðu mína, hafði ég þetta mjög glöggt í huga. Upptalningin, sem ég gerði um hin mörgu verk, sem hefði þurft að leggja peninga til, og hv. 3. landsk. þm. var svo hrifinn af, að hann hafði hana hér yfir í sínu máli, var einmitt gerð af minni hendi til þess að sýna fram á, hvílík fjarstæða væri og hefði verið þessi gagnrýni út af greiðsluafganginum, þegar hvort tveggja fer saman, að það þyrfti að vera greiðsluafgangur til jöfnunaráhrifa í fjárhagskerfinu og svo hitt, að fjöldi nauðsynjamála bíður fjárframlaga. Þau hrúgast upp og krefjast framlaga, og við getum ekki sinnt þeim nándar nærri sem þyrfti vegna fjárskorts.

Þessi litla framsöguræða, sem ég hélt um daginn, hefur komið rækilega við kaunin hjá hv. stjórnarandstæðingum. Það þykir mér vænt um, því að það var einmitt ætlun mín að sýna hv. stjórnarandstæðingum fram á, svo að þeir fyndu til þess, hvílíkum fjarstæðum þeir hafa haldið fram á undanförnum árum um þessi efni. Ég finn, að ég hef hitt í mark, og það gleður mig.

Það bólaði á þessu sama hér í umr. um daginn, þar sem einn af talsmönnum hv. stjórnarandstæðinga og það ekki sá ógleggsti talaði einmitt um, að afkoma ríkissjóðs á síðastliðnu ári sýndi, að landsfólkinu hefði verið íþyngt að óþörfu. Svo komu á hinn bóginn aðrir stjórnarandstæðingar með alveg nýjar kenningar, sem sé þær, að ríkisstj. og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefði ekki rekið nógu harðhenta fjármálapólitík undanfarið. Það var alveg nýtt úr þeim herbúðum.

Þá sagði hv. 3. landsk. þm., að hefðu nú verið til ráðstöfunar 96 millj. kr., þá hefði allt verið sök sér. Þá gleymir hv. þm. aðeins því, að á 20. gr. fjárlaganna er gert ráð fyrir að greiða út 40–50 millj. kr. af þeim tekjuafgangi, sem verður á rekstrarreikningi.

Loks sagði þessi hv. þm. líka um þetta efni, að það væri ekki einu sinni því að heilsa, að þessar 35 millj. kr., sem væru raunverulegur greiðsluafgangur, væru eftir til ráðstöfunar, hefði þegar verið ráðstafað 16 millj. kr. fyrir fram, og líkti þeirri ráðstöfun við það, sem Hitler hefði leyft sér á árunum, þegar hann var upp á sitt bezta. Ég held, að það sé hollast fyrir þennan hv. þm. að hafa ekki stjórn Hitlers í neinum flimtingum yfirleitt eða að líkja atburðum eins og þessum við hana. Ég held, að stjórn Hitlers hafi haft allt of alvarlegar afleiðingar, til þess að viðeigandi sé að hafa slíkt í flimtingum, og það færi bezt á því að temja sér ekki slíkt. (Gripið fram í.) Við getum séð svona hér um bil, hve glöggt þessi hv. þm. hugsar og hvernig auga hann hefur fyrir hlutföllum, á því, að hann skuli leyfa sér að nefna Hitler og stjórnarfar hans í sambandi við atburð eins og þann, að löglegur þingmeirihluti ráðstafar 16 millj. kr. til fiskveiðasjóðs og ræktunarsjóðs og leggur frumvarp um staðfestingu á þeim ráðstöfunum fyrir hv. Alþingi.

Hv. þm. minntist á, að hefðu verið 96 millj. kr. til ráðstöfunar nú, þá hefði það verið sök sér. Um leið rifjaði hann það upp, og mér þótti vænt um það, að Alþingi hefði með sérstökum ákvörðunum ráðstafað nærri 60 millj. kr. af umframtekjunum, — og það er alveg rétt, ég upplýsti það í minni ræðu, — sumpart með sérstökum lagaákvæðum og sumpart með heimildum í fjárlögum. Þá eru eftir af tekjuafganginum á rekstrarreikningi um 36 millj., sem hafa farið í ýmislegt á árinu um hendur stjórnarinnar. Ég tek ekki þegjandi við neinum sérstökum ákúrum frá þessum hv. þm. né neinum öðrum þm. fyrir þetta, vegna þess að umframgreiðslur þessar eru tiltölulega þær lægstu, sem orðið hafa a. m. k. í 30 ár, og mestur hluti af þessu fé hefur farið til lögboðinna útgjalda, sem voru ekki nógu hátt áætluð í fjárlögum. Ég veit, að þó að hv. þm. sé að tala um þetta, þá dettur honum ekki í hug, að þessi gagnrýni sé réttmæt. Hann skilur t. d., að ríkisstj. getur ekki komizt hjá því að standa í skilum með þau lán, sem ríkissjóður hefur tekið ábyrgð á. Ég veit, að hv. þm. skilur, að af þeim verður að greiða, hvað sem fjárlagaáætluninni líður.

Ég veit líka, að hv. þm. skilur, að það verður t. d. að greiða samkv. lögum um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla og berklavarnalöggjöfinni og fjöldamargri annarri löggjöf, hvað svo sem áætlun fjárlaga líður. Það er ekki hægt að stöðva greiðslur samkv. lögum né ábyrgðargreiðslur t. d., þangað til þingið kemur saman. Hv. Alþingi er fyrir fram búið að ákveða að greiða þessar greiðslur, og það er óhugsandi, að hægt sé að deila á nokkra stjórn með rökum fyrir það að halda uppi þess háttar útborgunum. Það verður að gerast, og það er aldrei hægt að komast hjá því, að það verði einhverjar umframgreiðslur af þessu tilefni, nema menn séu þá nógu framsýnir og áætli nægilega hátt þessa liði fjárlaganna. Því miður hefur það aldrei tekizt undanfarið, vegna þess að það hefur verið slíkur vöxtur í lögboðnu útgjöldunum. — Það er því engin ástæða til þess að ráðast á stjórnina fyrir umframgreiðslur.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, sem ég vil minnast á fáeinum orðum. Það er út af því, sem hv. þm. sagði hér um kaupgjaldsmál og þau ummæli, sem ég vék að kommúnistum í ræðu minni um daginn. Ég sagði, að það væru til öfl í þjóðfélaginu, sem teldu sig geta sett verðbólguhjólið af stað aftur þrátt fyrir greiðsluhallalausan ríkisbúskap. Og svo sagði ég orðrétt: „Þetta telja kommúnistar sig geta nú, og máske geta þeir það.“ Það hefur farið mikið í taugarnar á hv. 3. landsk. þm., að ég skyldi drótta öðru eins og þessu að kommúnistum, að þeir hefðu áhuga á þessu. Hann setti á langa ádeiluræðu út af þessu. M. ö. o., þessi hv. þm. þolir ekki, að ég deili á kommúnista með þessu móti. Dettur nú hv. þm. í hug, að þetta sé of mikið sagt um starfsemi kommúnista? Dettur honum í hug, að fyrir kommúnistum vaki nokkuð annað en að reyna að koma af stað slíkri ringulreið sem ég talaði um í þjóðfélaginu, bæði nú og oft áður? Mér dettur ekki í hug, að það vaki neitt annað fyrir þeim, og eins og ég sagði hér um daginn, álít ég, að starfsemi kommúnista eigi yfirleitt ekkert skylt við hagsmuni verkalýðsins, og það mundi verða mestur hagur að því fyrir verkalýðinn, ef áhrif kommúnista þurrkuðust út með öllu. Þetta er sannfæring mín, og þetta tel ég mér leyfilegt að segja hvenær sem er og hvar sem er. Satt að segja hélt ég, að það væri hægt að segja þetta án þess að verða fyrir árásum út af því af hendi annarra en kommúnista. En þetta þolir ekki þessi hv. þm. Sannleikurinn er sá, að afstaða þessa hv. þm. til kommúnista er býsna einkennileg og býsna hættuleg. Hann heldur, að það sé ráðið til að berjast á móti kommúnistum með árangri að elta allar fjarstæður, sem þeir halda fram, taka enga sjálfstæða afstöðu gagnvart kommúnistum, heldur elta allt, sem þeir kasta fram, og keppast jafnvel við þá um að halda fram sem mestum fjarstæðum. Þetta virðist vera stefna þessa hv. þm.

Þessi hv. þm. telur sennilega, að hann sé nú voldugur maður. En það grátlega er, að sennilega ræður þessi hv. þm. engu, þegar til kemur, — ég segi: því miður. Það eru víst allt aðrir en þessi hv. þm., sem ráða, þegar til á að taka. Ég segi: því miður, því að ég vil á engan hátt væna hann um, að hann hafi sama tilgang með sínu starfi og kommúnistar hafa. Hitt er annað mál, að hann virðist frá mínu sjónarmiði séð hörmulega misskilja, hvernig á að vinna á móti kommúnistunum.

Hv. 3. landsk. minntist svo í framhaldi af þessu á þær kaupdellur, sem hér standa yfir. Ég skal ekki fara langt út í það, en ég vil þó segja um það fáein orð af þessu tilefni.

Mér fannst hann fara nokkuð einkennilegum orðum um þær athuganir, sem hagstofan og aðrir hafa gert í þessu sambandi, því að hann viðhafði þau orð um þær, að það hefðu verið skýrslur, sem hæstv. ríkisstj. hefði látið malla, — hefði látið malla, ég skrifaði þetta upp eftir hv. þm. Mér finnst í þessu felast fólsleg aðdróttun að opinberri stofnun, hagstofunni, að hagstofustjóri láti ríkisstj. hafa sig til þess að „malla“ einhverjar skýrslur. Í þessu orðalagi liggur það, að hagstofustjóri og þeir, sem með honum vinna, láti ríkisstj. hafa sig til þess að búa út það, sem ríkisstj. sýnist. Það getur ekki legið annað í þessu en slík aðdróttun. Engum, sem þekkir hagstofustjóra, dettur í hug, að nokkuð sé hæft í þessum aðdróttunum af hendi hv. 3. landsk. þm. Það efast enginn um, sem þekkir hagstofustjóra, að hann vinnur að þeim verkefnum, sem honum eru fengin í hendur, af hinni mestu samvizkusemi.

Svo sagði hv. þm., að þessari skýrslu hagstofunnar tryði enginn nema ríkisstj., og annað þar fram eftir götunum. Hér er ekki um neitt trúaratriði að ræða. Það, sem þarna hefur gerzt, er ekkert annað en að upplýsa staðreyndir, og eru notaðar þær beztu heimildir, sem fáanlegar hafa verið.

Svo spurði hv. 3. landsk. þm., hvort það ætti ekki að lækka kaupið, ef kaupmáttur launa hefði aukizt. Mér finnst þetta vera dálítið einkennilegur hugsunarháttur, og ég veit ekki, hvort þetta er meining hv. þm. En honum fannst það líklegt, að einhverjir hefðu þessa skoðun: ef kaupmáttur launa hefði aukizt, þá ætti að lækka kaupið. Þetta er auðvitað hrein fjarstæða frá mínu sjónarmiði. Það eðlilega í þessu efni er, að kaupgjaldið sé eins hátt og framleiðslan frekast getur borið, og ef kaupmáttur launa eykst og framleiðslan þolir það kaupgjald, sem þá er greitt, þá kemur auðvitað ekki til mála að lækka kaupið. Það er heilbrigt og nauðsynlegt að hækka kaup, þegar atvinnureksturinn þolir það og hægt er að koma því við, án þess að af því leiði verðhækkanir, sem gera kauphækkanirnar gagnslausar. Þegar þannig stendur á, er bókstaflega nauðsynlegt að hækka kaupið, til þess að starfsemi þjóðfélagsins gangi með eðlilegum hætti og full sanngirni eigi sér stað.

Hitt er svo annað mál, að það er auðvitað fullkomin fjarstæða að halda því fram, að það sé alltaf ábati að því að hækka kaupgjaldið. Ef það væri alltaf ábati að því fyrir launastéttirnar að hækka kaupgjaldið, væri ekki vandlifað. Þá væri hægt að bæta lífskjör manna með því einu að reikna með fleiri krónum. En það vita allir, að slíkt er fjarstæða, slíkt er ekki hægt. Málið er ekki svo auðvelt, og engir hafa verið ákafari við að halda því fram en forráðamenn launasamtakanna víðs vegar um lönd, að slíkt sé vitanlega ekki mögulegt, og vandinn sé sá fyrir ábyrga forráðamenn í launasamtökunum að finna út, hvenær hægt sé að hækka kaupið þannig, að ávinningur verði að því fyrir verkalýðinn og fyrir launastéttirnar. Fyrir örfáum árum gáfu launasamtökin hér á landi út smárit um þetta efni, þar sem þetta mál virtist vera mjög skynsamlega rætt, og aðalniðurstaðan í því riti var sú, að væri þannig ástatt, að framleiðslan þyldi ekki hærra kaup en greitt væri, þá mundi ekki borga sig fyrir launamenn að hækka. Þetta var aðalniðurstaða ritsins.

Á hinn bóginn er það vitanlega fjarstæða að halda því fram, að aldrei sé ávinningur að því að hækka kaupið, enda þekkjum við vitanlega mörg dæmi þess, að ávinningur hefur orðið að því að hækka kaupið. Það, sem á að gera, er að láta sem oftast, ekki bara þegar kaupdeilur standa til, en þó ekki sízt þá, fara fram athuganir á því, hvort hægt sé að framkvæma kauphækkanir þannig, að af því verði ávinningur fyrir verkalýðinn. Ef hægt er að hækka kaupið með þeim árangri, ef grundvöllur er fyrir því hjá atvinnurekstrinum, ef þjóðartekjurnar eru þannig og framleiðslan, þá á að gera það. Í sambandi við þessa kaupdeilu ætti að kveðja til hina beztu menn, óvilhalla, og fulltrúa frá báðum aðilum til þess að láta fara fram athugun á þessu og hafa síðan niðurstöður þeirrar athugunar að leiðarstjörnu fyrir þá aðila, sem semja um málið. Þetta er auðvitað hyggilegasta aðferðin við lausn þeirrar launadeilu, sem hér hefur upp risið.