16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

1. mál, fjárlög 1955

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég er hér fim. ásamt öðrum fjórum hv. þm.brtt. á þskj. 309, og er það brtt. við brtt. hv. fjvn. á þskj. 269, 34. brtt., sem þar er flutt í sambandi við till. um styrkveitingu vegna listsýningar í Róm.

Hv. þm. hafa sjálfsagt tekið eftir því, að fjvn. hefur sjálf gert nokkra breytingu á sinni upphaflegu till., sem er þess eðlis, að tillagan um styrk til þessarar sýningar, 100 þús. kr., sé ekki bundin við eitt myndlistarfélag, heldur íslenzka myndlistarmenn í sambandi við þátttöku þeirra í samnorrænni listsýningu í Róm. Þessi brtt. hv. n. fer að sjálfsögðu í rétta átt, því að í þessu sambandi skiptir það ekki máli, þó að myndlistarmenn hafi greinzt í nokkur félög og samkomulag þeirra ekki verið nægjanlega gott til þess að halda þeim öllum innan sömu félagsbanda. Síðan segir í till. hv. fjvn., að undirbúning og tilhögun á þátttökunni skuli ákveða með samþykki menntmrn.

Nú gengur okkar till. út á það, að hér komi nokkur viðbót, þannig að Alþ. ákvarði sjálft, hvernig aðalatriði þessa máls, þ.e.a.s. skipun n. til myndavals, skuli hagað, en um það vill oft standa styr í slíkum samböndum. Er það að mörgu leyti æskilegra, að það liggi fyrir þegar við ákvörðun um styrkveitinguna, hvernig væntanleg nefnd í þessu sambandi skuli skipuð, og er sú till., sem við flytjum um það, flutt með vitund og samþykki hæstv. menntmrh., sem samkvæmt till. fjvn. á að hafa síðasta samþykki í þessum málum. Það vill svo til, að myndlistarfélögin eru 3, sem nú starfa hér, þ.e. Félag íslenzkra myndlistarmanna, Nýja myndlistarfélagið og Félag óháðra listamanna, og leggjum við til, að nefnd til myndavals og til að annast aðrar framkvæmdir sé skipuð tveimur fulltrúum frá fyrrnefndu félögunum og einum fulltrúa frá því síðastnefnda. Hygg ég, að með þessu sé nokkuð sæmilega tekið tillit til mismunandi sjónarmiða hinna einstöku félaga, og ættu þess vegna ekki að þurfa að verða miklar deilur um þessar till. um skipun nefndarinnar. Það er að vísu svo, að félögin eru nokkuð mismunandi að félagatölu, en hún skiptir ekki máli í þessu sambandi. Vil ég alveg sérstaklega vekja athygli á því, að þessari sýningu er ætlað að sýna þróun myndlistar frá aldamótum og í Nýja myndlistarfélaginu eru einmitt tveir af öndvegislistmálurum okkar, þeir Jón Stefánsson og Ásgrímur Jónsson, sem eru svo veigamiklir aðilar í þessu sambandi, að engin sýning mundi sýna þróun íslenzkrar myndlistar frá aldamótum, ef þeir væru ekki þátttakendur í slíkri sýningu.

Ég hygg svo, að um þetta þurfi ekki, a.m.k. ef ekki verður um það neinn frekari ágreiningur, fleiri orð og læt þetta nægja sem grg. fyrir þessari till. okkar.

Í leiðinni vildi ég mega mæla fyrir annarri brtt., á þskj. 310, sem er brtt. við till. XVIII á þskj. 297 í sambandi við bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar. Tveir hv. þm. hafa flutt till. um það, að ríkisstj. sé heimilað að tryggja með samningi, að bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns verði eign þjóðgarðsins á Þingvöllum, enda fallist ríkisstj. á skilyrði eigandans fyrir afhendingu safnsins. Ég tel mjög mikilsvert um þetta hið gagnmerka safn Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns, að höfð sé forsjálni í því, að það gæti á sínum tíma orðið opinber eign. Hér hafa hins vegar komið fram nokkuð skiptar skoðanir um það, hvort það ætti að verða eign þjóðgarðsins á Þingvöllum, ef til vill verða geymt í Skálholti eða einhvers staðar annars staðar. Tel ég ekki, að það skipti öllu máli að ákvarða það á þessu stigi málsins, og felst ekki í minni till. nein ákvörðun eða yfirlýsing um það, að ég sé út af fyrir sig mótfallinn því, að það yrði eign þjóðgarðsins á Þingvöllum. En ég tel það ekki tímabært og væri æskilegra að láta ákvörðun um það mál biða síns tíma og því eðlilegra á þessu stigi málsins að láta nægja að orða till. eins og ég hef gert till. um á þskj. 310, að ríkisstj. sé heimilt að tryggja með samningi, að bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns verði eign ríkisins. Um það er svo á þessu stigi ekki frekar sagt, hvar því skyldi fyrir komið, og tel ég, að það sé eðlilegt, að það bíði sins tíma og þess tíma, að um þetta bókasafn hefði samizt á milli stjórnarvalda og eiganda þess.