15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í sambandi við þetta frv. — Frv. til laga um framlengingu á gildi nokkurra bráðabirgðaákvæða í l. nr. 46/1954 heitir þetta frv., og það er nú orðið svo, að það er orðið safn af frumvörpum, sem við höfum hér í þinginu til meðferðar og öll heita eitthvað svipað: Frumvarp til laga um framlengingu á gildi nokkurra bráðabirgðaákvæða — eða annað þess háttar. Þetta er venjulega upphafið á því, þegar verið er að innleiða hér hluti, sem eru komnir í einhvern hnút hjá ríkisstj. Það eru til lög svipuð þessu hvað snertir formið, sem eru búin að vera hjá okkur í 5 ár sem svona bráðabirgðaákvæði, framlengt á hverju þingi. Það eru jafnvel til frumvörp, sem eru búin að vera í 10 ár, og það eru jafnvel til frumvörp, sem eru búin að vera lengur.

Það er þess vegna rétt að vara við, í fyrsta skipti sem tekið er upp á þessum hætti, vegna þess að hann er ákaflega leiður. Ég þarf ekki að minna á nema t.d. söluskattinn, þar sem tekjuöflunarákvæðin úr sumum greinum laganna eru framlengd og aðrir hlutar greinanna ekki.

En hitt er þó öllu alvarlegra, að mér sýnist þetta bera nokkuð einkennilegan vott um starfshætti hæstv. ríkisstj. Nú á sjöunda mánuði þingsins kemur hæstv. ríkisstj. fram með stjfrv., og það stjfrv. er að framlengja nokkur bráðabirgðaákvæði í lögum, sem hún sjálf í fyrra lofaði mjög hátíðlega að ekki kæmi til neinna mála að stæðu lengur en eitt ár. Og það veldur því eiginlega bara mín forvitni, að ég fór að ræða um þetta. Mig langaði til þess að vita, hvað hefur verið svona óskaplega erfitt í samningum hæstv. ríkisstj. innbyrðis. (Gripið fram í: Það þýðir ekkert að spyrja, því verður ekki svarað.) Hvað veldur því, að nú eftir 7 mánuði kemur hæstv. fjmrh., sem allra ráðherra mest reynir venjulega að gæta þess að framlengja í tíma öll skattaákvæði, með þessa framlengingu? Hvað veldur því, að þetta hefur gengið svona hörmulega? –Nei, ég er alveg viss um, að því verður ekki svarað. Það væru líka skárrí ósköpin, ef ráðherrarnir færu sjálfir að fletta hér ofan af því, að þeir hefðu setið í 7 mánuði og sent þingið heim í einn mánuð af þessum 7 til þess að vita, hvort þeir gætu ekki sjálfir komið sér saman um nokkur smáatriði, og svo hafa þeir setið með sveittan skallann allan þennan tíma og ekki einu sinni getað komið sér saman um smáatriðin, hvað þá um þau stóru. Það er náttúrlega til allt of mikils mælzt, að hæstv. ráðherrar færu að fletta ofan af þessum vinnubrögðum, en það er náttúrlega hins vegar ekkert undarlegt, þó að þm. spyrji um svona vinnubrögð og noti tækifærið til þess að átelja þau eitthvað ofur lítið.

Ég vil nú bara spyrja: Hvernig í ósköpunum á nú ríkisstj., sem getur ekki leyst á 7 mánuðum smáatriði eins og að koma sér saman um, hvernig hún eigi að skattleggja landsmenn, sem er þó það eina, sem hún hefur yfirleitt komið sér saman um, — hvernig á hún þá að leysa stærri mál? Hvernig í ósköpunum á þá svona ríkisstj. að leysa t.d. mál eins og vinnudeilur. Þegar hæstv. fjmrh., sem vafalaust hefur allan tímann barizt mjög harðri baráttu fyrir því að fá þarna í gegn breytingar, er nú loksins orðið augljóst, að það verður engin breyting, og kemur með frv. til laga um framlengingu á gildi nokkurra bráðabirgðaákvæða í lögum, þá væri gaman, ef hann vildi segja okkur ofur lítið, fyrst hann vill nú ekkert segja um, hvernig samningarnir hafa gengið um þetta, hvernig það gengur yfirleitt annars í ríkisstjórninni með samvinnuna.

Mér sýnist, að þetta litla frv. gefi spegilmynd af starfsháttum, sem eru gersamlega óþolandi. Þjóðfélagið ferst að vísu ekki út af því, þó að ríkisstj. sé svona ónýt í því að koma sér saman um, hvernig hún eigi að leggja skatta á auðfélögin í Reykjavík. En þegar vinnubrögðin um skattlagningu, sem er sérgrein ríkisstjórnarinnar, það sem hún hefur mest afrek í, eru svona, hverju má þá búast við af henni á hinum sviðunum?

Ég hefði nú máske álitið, að spurningin um skatt á hlutafélögin, tekjuskatt á þau, tekjuskattsviðauka, stríðsgróðaskatt og eignarskatt, hefði verið ofur lítið tilefni, sérstaklega fyrir hæstv. fjmrh., til þess að vita, hvort það væri ekki hægt að ná í einhverjar tekjur í ríkissjóðinn. Hann hefur stundum verið að tala um það, sérstaklega í sambandi við vinnudeilur, að hann þyrfti að hækka laun hjá starfsmönnum ríkisins, ef lágt launaðir Dagsbrúnarmenn og aðrir slíkir fengju einhverja hækkun, og hann hefur ekki séð, hvernig hann ætti að fara að því að ná þessum tekjum í ríkissjóðinn til þess að borga kannske 12 milljónir í viðbót við þær 12 millj., sem hann borgaði í vetur. Að öllum líkindum mundu hlutafélögin hér í Reykjavík t.d. standa undir því að greiða nokkurn skatt í sjóðinn til hans til þess að standa undir þeirri hækkun, sem hann berst svo mjög fyrir að starfsmenn ríkisins fái. Ég vil minna hann á, að hv. 1. landsk. þm., sem sjálfur er prófessor í hagfræði, hefur upplýst það í umr. hér á þingi, að aðeins 40 ríkustu félögin hér í Reykjavík og ríkustu einstaklingarnir — og er þó þarna mest um að ræða ríkustu félögin — ættu í skattskyldum eignum, ef miðað væri við að margfalda fasteignamat þeirra 12 sinnum, kringum 1000 millj. kr. í skuldlausum eignum. Og hann, hæstv. fjmrh., sem gamall skattstjóri veit vafalaust enn, að stundum koma ekki öll kurl til grafar í sambandi við framtöl, þannig að meira að segja væri hugsanlegt, að þetta væri eitthvað hærra og jafnvel tekjurnar af þessum eignum líka eitthvað hærri. Það væri sem sé ekki alveg óhugsandi, að þarna væri þó nokkur tekjustofn, sem væri eðlilegt að skattleggja, ef ríkisstj. sæi alveg bráða nauðsyn á, ekki sízt í sambandi við lausn vinnudeilunnar, að hækka öll laun starfsmanna ríkisins. Það er breitt bak til þess að bera slíkar hækkanir. Það eru eignir og gróði helztu auðfélaganna í Reykjavík. Og það hefur jafnvei komið fram hér í þinginu og verið staðfest af hæstv. ríkisstj., að slíkur gróði sé það mikill og komi jafnvei svo lítt fram, að það muni vera um að ræða stórkostlegar tekjur af okri á peningum, sem jafnvel komi ekki fram í skattskránum.

Allt þetta virtist nú gefa tilefni til þess, að spurningin um skattlagningu hlutafélaganna — og alveg sérstaklega á ég þar við auðfélögin

hér í Rvík — væri a.m.k. látin bíða, þangað til hin málin, sem ríkisstj. hefur lagt svo mikla áherzlu á í sambandi við lausn vinnudeilunnar, þ.e. hækkun á kaupi starfsmanna ríkisins, væru leyst. Það væri ef til vill ekki alveg fjarri lagi, að það væri hækkaður þó nokkuð sá skattur, sem auðfélögin í Rvík bæru, til þess að það lenti á þeim, ef ríkisstj. áliti óhjákvæmilegt að hækka laun starfsmanna ríkisins í hlutfalli við þá hækkun, sem sanngjarnt er að verkamenn fái. Ég held þess vegna, að það væri alveg óhætt að láta þetta mál ganga hægt í gegnum þingið. Ég held, að það væri óhætt að bíða með þá svipu yfir auðfélögunum í Rvík, sem núna stöðva atvinnu landsmanna, og að láta þau vita, að ef til vill kynni svo að fara, að þau yrðu látin borga með skatthækkunum eitthvað dálítið af því fé, sem hæstv. fjmrh. sérstaklega hefur lagt upp úr að þyrfti að fá í ríkissjóðinn, svo framarlega sem launin yrðu hækkuð hjá verkamönnum.

Þess vegna, þó að þetta frv. auðvitað gangi sína leið til fjhn. nú, þá væri það ekki óeðlilegt, að þetta mál væri rannsakað nokkuð og að fjhn. athugaði, hvernig er um auðfélögin hér í Rvík, hverjar tekjur og gróði þeirra eru og hvað þau eiga í skuldlausum eignum, og gæfi okkur nokkra skýrslu um það, þegar þetta mál kæmi til 2. umr. — Þetta vildi ég aðeins minnast á við þessa 1. umr. málsins og skjóta því til hv. fjhn. Það er ekki ástæða fyrir Alþingi til að loka þeim dyrum að hækka skattana á helztu auðfélögum í Rvík, ef það skyldi vera nauðsynlegt í sambandi við lausn á þessu verkfalli. Það er engin ástæða til að loka þeim dyrum, og þá bregður nú mær undarlega vana sínum, ef hæstv. fjmrh. leggur svo mikla áherzlu á, að þetta frv. þjóti í gegnum þingið, að hann vilji ekki hafa þennan möguleika til, því að sjaldan hefur hann nú verið á móti því að hækka skatta, ef þess hefur verið nokkur kostur. Og hér er þó um að ræða, a.m.k. að allmiklu leyti, að hækka skatt á þeim, sem vel mundu geta borið hann.

Ég held þess vegna, þó að þetta mál gangi nú sína leið til nefndar, að það ætti að hljóta þar góða athugun, og ekki sízt í sambandi við þá deilu, sem nú stendur yfir, og þá nauðsyn, sem hæstv. fjmrh. hefur lýst yfir að væri á því að afla tekna í ríkissjóð í sambandi við lausn þeirrar deilu. Ég sé enga verðugri til þess að leggja fram þá tekjuöflun, ef hún væri nauðsynleg, heldur en auðfélögin í Rvík sjálf.