04.11.1954
Sameinað þing: 11. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (3364)

58. mál, vantraust á menntamálaráðherra

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur nær og fjær. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir til umr., er borin fram af þm. Þjóðvfl. Till. er um, að Alþ. lýsi vantrausti á hæstv. menntmrh.

Ég vil í byrjun máls míns taka það fram, að ég mun ekki nema að mjög litlu leyti ræða um framkomna till. sem vantraust á hæstv. menntmrh. sérstaklega, heldur lít ég á till. sem vantraust á allri ríkisstj., störfum hennar og stefnu. Mun ég því haga málflutningi mínum þar eftir.

Að undanförnu hefur hæstv. menntmrh. sætt harðri gagnrýni í nokkrum blöðum höfuðstaðarins fyrir ráðstafanir á stöðum við menntastofnanir landsins. Hæstv. menntmrh. hefur verið borinn þeim þungu sökum að hafa misnotað aðstöðu sína sem menntmrh. á hinn freklegasta hátt, haft að engu till. þeirra manna og nefnda, sem bezta aðstöðu og kunnugleik hafa haft til þess að meta hæfni umsækjendanna, svo sem skólanefnda og fræðslumálastjóra, gengið fram hjá mönnum með ótvíræða yfirburði, en skipað þess í stað flokksbræður sína og skjólstæðinga þrátt fyrir venjur og almenna réttlætiskennd.

Um sannleiksgildi þessara ásakana get ég verið stuttorður. Það virðist liggja ljóst fyrir, að hæstv. menntmrh. hafi sýnt hlutdrægni í stöðuveitingum og látið flokkssjónarmið ráða gerðum sínum.

Augljóst er, að allt stjórnarkerfi núverandi hæstv. ríkisstj. er gegnumsmogið af pólitískri spillingu. Eitt aðalatriði í stefnu hæstv. ríkisstj. einkennist fyrst og fremst af þeirri meginreglu að skipta til helminga á milli sín embættum og öðrum stöðuveitingum svo og allri aðstöðu til fjárplógsstarfsemi. Stjórnarflokkarnir hafa augsýnilega gert um þetta samkomulag, enda kemur þessi stefna hæstv. ríkisstj. svo berlega fram og í ótal myndum. að ekki verður um deilt. Hins vegar er það staðreynd, að hæstv. menntmrh. hefur brotið þessa reglu hæstv. ríkisstj. um helmingastaðaskiptin og látið halla á Framsfl. í embættaveitingum og gert hlut Sjálfstfl. stærri að dómi Framsóknar en leyfilegt var samkvæmi helmingastaðaskiptunum. Við sósíalistar munum ekki blanda okkur inn í slíkar erjur á kærleiksheimili stjórnarflokkanna.

Hæstv. menntmrh. er þekktur að því að vera einn mesti ofstækismaðurinn í flokki sínum. Slíkir menn líta fyrst og fremst á flokkshagsmuni og flokkssjónarmið. Þetta sjónarmið hefur á allharkalegan hátt ráðið gerðum hæstv. ráðh. í vali hans á mönnum í tiltekin kennaraembætti, og hefur hann hlotið fyrir það óvæga, en um leið að mörgu leyti réttmæta gagnrýni.

Það er vitanlega hinn mesti háski, sem búinn er hverju því þjóðfélagi, þar sem flokkssjónarmiðin eru sett öllu ofar, þar sem gáfur, menntun og starfshæfni eru sett skör lægra en pólitískar skoðanir. Slíkt réttarfar auðkennist af algerri lítilsvirðingu fyrir manngildi og göfugum hugsjónum. Pólitískir misindismenn eru settir til hinna æðstu metorða, ef þeir eru nægilega ötulir til starfa í þágu flokksins, en þeir menn, sem hafa máske margfalda þekkingu og starfshæfni fram yfir hinn ötula flokksmann, eru útilokaðir frá því að fá starf við sitt hæfi.

Þess eru mörg dæmi, að ungir og efnilegir menn, sem lokið hafa erfiðu skólanámi með ágætum árangri, hafa orðið að hrökklast af landi burt, vegna þess að ráðamenn þjóðfélagsins hafa ekki talið sig þurfa á starfskrafti þeirra að halda.

Þetta gerist á sama tíma sem þjóðina vantar sérfræðinga á ótal sviðum. Verkefni fyrir slíka menn virðast ótæmandi. Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur alveg sérstaklega verið lagin á að flæma menn burt frá starfi og sýnt einstakan stirðbusahátt í viðskiptum sínum við suma starfsmenn ríkisins. Nægir að benda á afskiptaleysi hennar af verkfalli verkfræðinganna. Enn þá hefur hæstv. ríkisstj. ekki fengizt til þess að semja við þá verkfræðinga, sem eru í þjónustu ríkisins, enda þótt liðnir séu margir mánuðir frá því þessi deila hófst. Þessi fjandskapur hæstv. ríkisstj. gagnvart verkfræðingunum hefur orðið þess valdandi, að margvíslegar framkvæmdir á vegum hins opinbera hafa verið í hinu mesta öngþveiti til stórtjóns fyrir land og lýð.

Það er alkunnugt, að enginn af forustumönnum stjórnarflokkanna átti eins mikinn og virkan þátt í því, að núverandi ríkisstj. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins var mynduð að afloknum síðustu kosningum og hæstv. menntmrh.

Nokkru fyrir síðustu alþingiskosningar var samþykkt á þingi Framsfl. vantraust á hæstv. núverandi menntmrh., en þáverandi dómsmrh. Vantrauststill. þeirra framsóknarmanna var rökstudd með því, að hann hefði misbeitt valdi sínu sem dómsmrh. á margvíslegan hátt. Þrátt fyrir þennan dóm, sem flokksþing framsóknarmanna kvað upp yfir þáverandi dómsmrh. hikaði Framsfl. ekki við að taka boði Bjarna Benediktssonar um áframhaldandi stjórnarsamvinnu. Eitt skilyrði var þó sett af hálfu þeirra sjálfstæðismanna, og það var, að ekki yrði skipt um mann í dómsmálaráðherraembættinu. Framsfl. gekk að skilyrðinu. Hæstv. fyrrv. dómsmrh. hafði sigrað, Framsfl. taldi útilokað að mynda ríkisstj. með öðrum en Sjálfstfl., og þá að sjálfsögðu undir forustu formanns Sjálfstfl.

Það er vitað, að Bandaríki Norður-Ameríku höfðu krafizt þess og sett það sem skilyrði fyrir áframhaldandi Marshallaðstoð, að samstjórn þessara flokka héldi áfram, enda slík krafa af hendi hins erlenda stórveldis í vestri í fullu samræmi við skoðanir og vilja forustumanna beggja flokkanna og þá alveg sérstaklega hæstv. núverandi menntmrh., sem hafði öðrum fremur lagt sig fram um að koma á framfæri og berja í gegn kröfu Bandaríkjastjórnar um stórkostlegar herstöðvar með tilheyrandi landaafsali. Þar sem það er staðreynd, að hæstv. menntmrh. var einn aðalforustumaður þeirra manna, sem stóðu að myndun núverandi ríkisstj., er það eðlileg afleiðing, að skoðanir hans í utanríkismálum og atvinnumálum hafa mótað að verulegu leyti stjórnarstefnuna, enda vitað, að skoðanir hans og ráðh. Framsfl. eru furðu líkar í mörgum málum.

Hvað er svo það, sem aðallega hefur verið einkennandi fyrir stefnu núverandi ríkisstj.? Takmarkalaus undirlægjuháttur gagnvart stjórn Bandaríkjanna og kyrrstaða í uppbyggingu atvinnuveganna. Mun ég nú ræða um þessi tvö mál, eftir því sem tími vinnst til.

Árið 1951 fór stjórn Bandaríkjanna fram á að fá að hafa hér setulið og jafnframt að auka herstöðvar, sem fyrir voru, og byggja nýjar. Þáverandi ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar urðu við þessari ósvífnu kröfu Bandaríkjastjórnar. Nýtt setulið var flutt til landsins, og jafnframt var hafinn stórkostlegur undirbúningur að byggingu hernaðarmannvirkja suður á Keflavíkurflugvelli. Hundruð íslenzkra manna voru kvaddir til vinnu við byggingu margvíslegra stöðva fyrir drápstæki suður þar. Auðmenn höfuðborgarinnar voru fljótir að átta sig á því, hvað hér var að gerast. Hófu þeir þá þegar margvísleg viðskipti og þjónustu við forustumenn innrásarhersins og greiddu ásamt þáverandi ríkisstj. götu hans eftir beztu getu. Stofnað var sérstakt byggingarfélag, sem í voru margir háttsettir borgarar höfuðstaðarins og forustumenn stjórnmálaflokkanna og hafa skyldi á hendi byggingarframkvæmdir á veg um hersins.

Alþýða manna lét sér fátt um finnast. Menn gátu ekki komið auga á nauðsyn þess að byggja hér á Íslandi stórkostlegar herstöðvar og það á friðartímum.

Sósíalistaflokkurinn og blað hans, Þjóðviljinn, hóf þá þegar ásamt nokkrum hluta verkalýðshreyfingarinnar harða baráttu á móti hinu nýja hernámi og sýndi fram á með óyggjandi rökum, hvílíka ógnarhættu væri verið að leiða yfir þjóðina með slíkum aðgerðum, jafnframt því sem bent var á hina siðferðislegu og þjóðernislegu hættu, sem þjóðinni væri búin af löngu hernámi.

Stjórnarflokkarnir og blöð þeirra brugðust hið versta við, og í ræðu og riti voru allar aðfinnslur og aðvaranir í sambandi við hið nýja hernám stimplaðar sem glæpsamlegt athæfi gagnvart landi og þjóð og þeir menn taldir úrhrak þjóðfélagsins, landráðamenn og njósnarar, sem á einhvern hátt beittu sér fyrir baráttu almennings á móti hernáminu. Siðspillingin og alls kyns ólifnaður þróaðist hröðum skrefum með komu innrásarhersins, í svo stórum stíl, að þess voru engin dæmi til áður meðal Íslendinga, en stjórnarherrarnir létu sem allt væri í lagi, og enginn ráðherranna var ákveðnari í að verja ósómann en hæstv. núverandi menntmrh.

Í tíð núverandi ríkisstj. hefur hernámsvinnan haldið áfram hröðum skrefum. Suður á Keflavíkurflugvelli er haldið áfram að byggja stórkostlega herstöð fyrir innrásarherinn. Þangað suður er stöðugur straumur af flutningabílum, sem flytja byggingarvörur, hergögn, sprengiefni og annað það, sem talið er nauðsynlegt til slíkrar starfsemi, frá flutningaskipum, sem koma með þessar vörur hingað til Reykjavíkurhafnar og skipa hér á land.

Hernámsliðið stendur í miklum byggingarframkvæmdum. Tugir af tveggja og þriggja hæða húsablokkum eru reistir þar syðra fyrir herraþjóðina til að búa í. Hundruð hermannaskála og verkamannaskýla hafa verið byggð og eru í byggingu. Vöruskemmur og flugvélaskýli, sem þekja tugþúsundir fermetra að gólffleti, eru byggð. Stórkostleg stækkun á flugvellinum hefur verið framkvæmd, og enn meiri stækkun er í undirbúningi. Engum manni dettur í hug að halda því fram í alvöru, að hér sé um að ræða varnarstöð, heldur er um árásarstöð að ræða, sem nota á í hugsanlegu stríði við tiltekin ríki í Evrópu, enda opinberlega viðurkennt í amerískum blöðum og staðfest af háttsettum bandarískum hernaðarsinnum. Allar þessar framkvæmdir eru gerðar með fullu samþykki núverandi ríkisstjórnar.

Ekki er látið staðar numið við byggingu herstöðvanna á Keflavíkurflugvelli. Í heiðinni fyrir ofan Sandgerði er þegar búið að reisa radarstöð til afnota fyrir innrásarherinn. Í Hvalfirði er þegar búið að byggja allmarga hermannaskála með öðrum tilheyrandi mannvirkjum. Dvelja þar nú þegar nokkrir bandarískir hermenn. Í Aðalvík og á Hornströndum er þegar hafin bygging mikils háttar hernaðarmannvirkja, þar með radarstöð. Á Langanesi er hafinn undirbúningur að byggingu herstöðva og radarstöðva. Í nánd við Höfn í Hornafirði er langt komið að byggja herstöð og radarstöð. Ríkissjóður hefur þegar látið verja miklu fé til vegalagningar til hinnar nýju herstöðvar í Hornafirði. Samningar hafa verið teknir upp við herstjórn Bandaríkjanna um, að herinn byggi herskipahöfn í Njarðvíkum fyrir innrásarherinn. Margar fleiri framkvæmdir munu fyrirhugaðar á vegum hersins, sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki talið rétt að birta almenningi neinar fregnir af.

Eins og ég gat um áður, eru það íslenzk byggingarfélög, sem sjá um mikið af þessum byggingarframkvæmdum á vegum hersins. Margir af auðmönnum Reykjavíkur eru hluthafar í þessum byggingarfélögum og öðrum þeim félagsskap, sem starfar á vegum hersins beint eða óbeint. Auðmenn beggja stjórnarflokkanna eru beinir aðilar í þessari þokkaiðju, en kórónan á henni er svo sú, að í sumar var að tilhlutan ríkisstj. stofnað félag með einnar millj. kr. höfuðstól, sem á að hafa með höndum nokkurs konar yfirstjórn allra byggingarframkvæmdanna á vegum herstjórnarinnar. Félagsskapur þessi er þannig samsettur, að hluthafar eru fjórir. Hlutafélaginu er þannig skipt: Sameinaðir verktakar, sem í eru margir helztu auðmenn Reykjavíkur og aðrir máttarstólpar Sjálfstfl., eiga 50%. Byggingarfélagið Reginn 25%. Meðlimir þess félags eru margir helztu forkólfar Framsfl. og Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Svo kemur ríkisstj. með 25%. Stjórn þessa nýja félags er skipað 4 mönnum, 2 frá hvorum flokki. Þar með eru helmingaskiptin tryggð. Þetta félag á svo að úthluta til annarra byggingarfélaga þeim framkvæmdum, sem vinna á á vegum hersins. Þessi félög eru þó aðallega tvö: Sameinaðir verktakar og Byggingarfélagið Reginn. Sem sagt helmingaskiptum á milli stjórnarflokkanna við hernámsvinnuna hefur verið komið á í fyllsta mæli. Þannig hefur ríkisstj. tengt auðmannastéttina í báðum stjórnarflokkunum eins örugglega við hernámið og frekast er hægt. Til að sýna landslýð vilja sinn og stefnu í hernáminu á sem allra skýrastan hátt er ríkissjóður látinn gerast hluthafi í félaginu, félagsskap, sem á að hafa yfirumsjón með hernámsframkvæmdunum.

Ekki verður annað séð en að hæstv. fjmrh. hafi algerlega brostið lagalega heimild til þess að láta ríkissjóð gerast hluttakandi í þessum félagsskap. En það er eins og svo margt annað hjá hæstv. ríkisstj., lög og reglur eru sniðgengnar, en meiri hl. á Alþ. er látinn samþykkja ráðstafanir ráðherranna eftir á.

Það má öllum ljóst vera, svo að ekki verður um deilt, að auðmannastétt landsins hefur stórkostlegra hagsmuna að gæta í sambandi við hernámið. Því meiri hernaðarframkvæmdir á vegum hersins, því meiri verður gróði hennar. Dansinn í kringum gullkálfinn suður á Keflavíkurflugvelli verður æ trylltari og trylltari. Árlega streyma milljónir og aftur milljónir í vasa auðmanna og alls konar braskaralýðs. Hundruð og þúsundir verkafólks streyma í hernámsvinnuna, á sama tíma sem hér við Faxaflóa er stórkostleg vöntun á vinnukrafti við nauðsynleg framleiðslustörf í landi og útgerðarmenn eru í vandræðum með að fá sjómenn á skip sín og báta. En ríkisstj. lætur sig það engu skipta. Hennar hugsjón og stefna er meiri og voldugri herstöðvar, enda eins og hæstv. ríkisstj. sé búin að tapa allri trú á framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar og hún láti sér í léttu rúmi liggja, hvort hægt sé að starfrækja þá af fullum krafti eða ekki. Þessi stefna hæstv. ríkisstj. gagnvart núverandi hernámi landsins verður því óskiljanlegri, þegar það er vitað, að alger friður er nú kominn á um heim allan og forustumenn fjölmargra þjóða gera allt sem þeir geta til að leysa deilur þjóða á milli með samningum.

Á sama tíma sem hæstv. ríkisstj. hefur verið önnum kafin við að framkvæma skipanir húsbænda sinna og vina í Washington um byggingar herstöðva í landinu, hefur alltaf sigið meir og meir á ógæfuhlið í hinum ýmsu landshlutum.

Það hefur verið mikið rætt og ritað um nauðsyn þess að skapa jafnvægi í byggð landsins. Engir hafa verið háværari um það mál en einmitt hv. þm. stjórnarflokkanna og málgögn þeirra. Sérstaklega hefur talið um jafnvægi í byggð landsins verið þeim kærkomið umræðuefni við ýmis hátíðleg tækifæri, fyrst og fremst fyrir allar kosningar. Þá hafa loforðin ekki verið spöruð. Í síðustu kosningum var haldið fram af sumum frambjóðendum stjórnarfl., sérstaklega Sjálfstfl., og að sjálfsögðu undirstrikað í blaðaskrifum þeirra, að það væri gersamlega tilgangslaust að kjósa til þings aðra en frambjóðendur þáverandi stjórnarflokka. Næðu þeir kosningu, mundu vandræði viðkomandi héraða og kjördæma verða leyst. Upp mundu rísa blómleg atvinnufyrirtæki, og fólkið mundi fá nægjanlega atvinnu. Brottflutningur fólksins mundi stöðvast, jafnvægi í bæ og byggð mundi skapast. Í þessu máli sem öðru verður reynslan ólygnust.

Hefur tekizt að halda við jafnvæginu í byggð landsins? Hefur fjármagnið streymt til þeirra staða úti á landi, sem fólu fulltrúum stjórnarflokkanna að fara með umboð sitt á hinu háa Alþ.? Hvað segja staðreyndirnar okkur? Þrátt fyrir það að kjósendur illu heilli héldu áfram að senda þm. úr liði stjórnarflokkanna sem fulltrúa sína fyrir dreifbýliskjördæmin og kaupstaðakjördæmin utan Reykjavíkur á þing, hefur ástandið sjaldan verið verra en nú. Aldrei hefur fólksstraumurinn verið meiri utan af landsbyggðinni hingað suður en nú. Í sumum byggðarlögum liggur við auðn, nema til komi skjót og örugg aðstoð við uppbyggingu atvinnuveganna. Fjármagn til slíkra framkvæmda er ekki til í þessum byggðarlögum. Það verður að fást annars staðar frá.

Hér í höfuðborginni og næsta nágrenni hennar er mestum hluta fjármagnsins saman safnað. Hér eru þeir menn, sem því ráða og ráðstafa. Þeir beina fjármagninu til þeirrar starfsemi og til þeirra staða, sem líklegastir eru að gefa sem mestan og fljótfengnastan arð. Í Reykjavík eru höfuðstöðvar allra þeirra mörgu hringa og auðmanna, sem soga til sín arðinn af sjávarútveginum í gegnum útflutnings- og innflutningsverzlunina. Bankar, olíufélög, tryggingafélög og skipafélögin taka til sín ríflegan skerf af þeim verðmætum, sem sjómenn og verkafólk framleiða. Og síðast en ekki sízt kemur svo ríkissjóður, sem í æ ríkara mæli hrifsar til sín hundruð milljóna króna árlega í síhækkandi tollum og margs konar álögum á alla framleiðslu og allan almenning. Dýrtíðin heldur áfram að vaxa jafnt og þétt, en mismunurinn á milli kaupgjalds og verðlags verður stöðugt óhagstæðari fyrir launastéttirnar. Ríkisvaldið verður svo árlega að grípa til margs konar ráðstafana til að bjarga sjávarútveginum, eins og það er kallað, frá hruni. Við þekkjum þessar ráðstafanir. Þær hafa birzt almenningi í gengislækkun, bátagjaldeyri og nú síðast með nýjum bílaskatti. Allar þessar ráðstafanir verða beinlínis til þess að auka stórkostlega auðsöfnun einstakra auðmanna og auðfélaga, en á kostnað hinna mörgu, sem að framleiðslunni vinna.

Á sama tíma sem auðsöfnunin eykst stórkostlega meðal auðstéttarinnar hér í Reykjavík, verður hlutur hinna mörgu bæja og sjávarþorpa víðs vegar um landið verri og verri. Þar býr stór hluti af fólkinu við landlægt atvinnuleysi. Þar er lánsfjárskorturinn í algleymingi, svo að útilokað er, að þessi byggðarlög geti af sjálfsdáðum bætt úr ástandinu að neinu verulegu ráði. Lítið sem ekkert er gert af hendi hins opinbera til að koma þessum byggðarlögum til hjálpar. Það litla, sem kann að vera gert, er hvorki heilt né hálft. Engar skipulagslegar ráðstafanir gerðar til uppbyggingar atvinnuveganna, þó að á þessum stöðum séu víðast hvar miklir, en lítt notaðir möguleikar fyrir hendi. Hæstv. ríkisstj. heldur að sér höndum. Það eina, sem hún gerir, er að veita smávægilega atvinnubótastyrki til sumra þessara staða, sem að sáralitlu gagni koma fyrir allan fjöldann.

Mér gefst ekki tími til þess að lýsa atvinnuástandinu í hinum ýmsu kaupstöðum og sjávarþorpum á Vestur-, Norður- og Austurlandi nema að örlitlu leyti. Ég vil þó benda á eftirfarandi dæmi:

Á nýafstöðnum héraðsmálafundi Vestur-Ísafjarðarsýslu, þar sem rætt var um atvinnuhorfur þessara byggðarlaga og um þá miklu örðugleika, sem útgerðin þar hefur við að stríða, var í fundarályktun látin í ljós sú skoðun, að litlar líkur væru fyrir því, að útgerðarmenn mundu sjá sér fært að gera fiskibáta sína út í vetur á heimamið vegna fyrirsjáanlegs veiðibrests, sem m. a. var talinn stafa af auknum ágangi erlendra togara á grunnmiðum. Samþykkt var áskorun á Alþ. og ríkisstj. að færa út landhelgislínuna á tilteknu svæði fyrir Vestfjörðum upp í 16 sjómílur. Þessi krafa Vestfirðinganna um stækkun landhelginnar er ekki ný. Hún er margra ára gömul, borin fram af brýnni þörf þessara byggðarlaga, svo að ekki leggist niður útgerð á smærri skipum og bátum vegna rányrkju erlendra togara á grunnmiðum.

Ekkert skal um það fullyrt, hver verða viðbrögð hv. Alþ. og hæstv. ríkisstj. í þessu máli Vestfirðinganna og hliðstæðu máli, sem fram er komið á Alþ. fyrir Austfirðinga. Ef dæma skal út frá viðbragðsflýti hv. Alþ. og hæstv. ríkisstj. gagnvart óskum og kröfum ýmissa bæjar- og sveitarfélaga, er ekki að vænta neinna stóraðgerða í þessu mikla hagsmunamáli vestfirzkra og austfirzkra sjávarþorpa.

Ýmsar aðrar ráðstafanir væri og hægt að gera til uppbyggingar atvinnulífsins á Vestfjörðum. Þeir, sem kunnugir eru þar öllum staðháttum, vita, að Vestfirðir liggja mjög vel við fyrir togara til löndunar. Víðast hvar í fjörðum inni eru góðar hafnir og tiltölulega stutt að sækja á þau mið, sem togararnir sækja á mikinn hluta ársins, hin svokölluðu Halamið. Til bjargar við byggðina á Vestfjörðum þarf að auka stórlega frá því, sem nú er, afkastagetu þeirra hraðfrystihúsa, sem fyrir eru, og byggja önnur ný. Gera þarf sjávarplássunum kleift að eignast togara eða tryggja það á annan hátt, að togarar leggi að staðaldri upp afla til hraðfrystingar og til annarrar vinnslu, eftir því sem henta þætti. Rafmagnsþörf Vestfirðinganna þarf að leysa á viðunandi hátt, en eins og nú er, eru slík mál í hinum mesta ólestri. Í þessu sambandi má benda á, að frá Ísafirði eru gerðir út tveir togarar, en hraðfrystihúsaskorturinn er mikill og hin mesta þörf á því, að byggt verði nýtt eða hin eldri stórlega bætt frá því, sem nú er. Ísafjarðarkaupstaður var um langt skeið stærsti og einn elzti útgerðarbær hérlendis. Þaðan var haldið til fiskveiða miklum fjölda fiskiskipa með ágætum árangri, enda vestfirzkir sjómenn orðlagðir sem dugmiklir sjómenn. Nú er ástandið þar þannig, að nokkuð af fiskibátunum hefur verið selt á nauðungaruppboðum burt úr bænum. Atvinnuleysið er áberandi, en fólkið flytur burt til annarra staða og þá fyrst og fremst hingað suður.

Ástandið í austfirzkum sjávarþorpum er á margan hátt svipað því, sem er á Vestfjörðum. Þar er landlægt atvinnuleysi marga mánuði ár hvert og stöðugur fólksflutningur frá kauptúnum og sjávarþorpum suður á land. Rafmagnsmál héraðanna eru í megnasta ólestri þrátt fyrir margra ára baráttu fyrir úrbótum á þessu sviði. Nú kvað það vera í athugun hjá hæstv. ríkisstj. að leysa þetta mikla vandamál Austfirðinganna með áður óþekktum aðferðum, a. m. k. hérlendis, án þess að fyrir liggi fullnægjandi rannsóknir sérfræðinga á því, hvort hin væntanlega leiðsla kemur til með að fullnægja rafmagnsþörf viðkomandi héraða.

Þrátt fyrir alvarlegt atvinnuleysi og margs konar örðugleika á sviði atvinnumála á Vestfjörðum og Austurlandi er þó ástandið á Norðurlandi enn þá verra. Í fjölmörgum sjávarþorpum vantar fiskibáta, fiskmóttökustöðvar, hraðfrystihús og bætt hafnarskilyrði. Í öðrum stærsta kaupstað Norðurlands, Siglufirði, vantar stóraukna útgerð. Þar eru ekki til nema 4–5 fiskiskip og nokkrir opnir vélbátar. Siglufjarðarbær á tvo togara, sem báðir eru undir hamrinum vegna vanskila við stofnlánadeild sjávarútvegsins, eins og reyndar mun vera hjá mörgum öðrum togarafélögum. Þetta eru einu stórvirku framleiðslutækin, sem til eru þar á staðnum og veita mikla atvinnu inn í bæinn, sérstaklega yfir haustið og fyrri hluta vetrar, en það er sá tími, sem togararnir leggja þar upp afla sinn til vinnslu, svo og á vorin. Það er því að vonum, að menn spyrji: Hvað verður gert? Verða togararnir teknir af Siglfirðingum vegna vanskila við stofnlánadeildina? Farið hafa fram viðræður við hæstv. ríkisstj. um málið, en engin endanleg svör hafa fengizt, svo að mér sé kunnugt.

Atvinnuástand sumra annarra staða á Norðurlandi er lítið betra en á Siglufirði. Nokkrir þessara staða gerðu á sínum tíma ítrekaðar tilraunir til þess að fá togara, en án nokkurs árangurs. Sumir þessara staða töldu sig hafa yfir að ráða allmiklu fé til að greiða upp í andvirði skipanna, og vinnslumöguleikar á miklu fiskmagni voru fyrir hendi í landi, í hraðfrystihúsum, og önnur nýting aflans vel framkvæmanleg. Fyrir 2–3 árum var til sölu hér í Reykjavík einn nýsköpunartogari, sem legið hafði yfir lengri tíma ónotaður. Húsvíkingar gerðu ítrekaðar tilraunir til þess að fá þetta skip keypt. Þeir óskuðu eftir aðstoð hv. Alþ. og hæstv. ríkisstj. í málinu. Þáverandi ríkisstj. þvældi málið fram og til baka án sýnilegs árangurs. Að síðustu var svo Húsvíkingum neitað um umbeðna aðstoð. Þar með voru togarakaup þeirra úr sögunni.

Frá Akureyri eru gerðir út fimm togarar með góðum árangri, en í sjálfum höfuðstað Norðurlands er ekki til eitt einasta hraðfrystihús, til ómetanlegs tjóns fyrir útgerðina og allt verkafólk staðarins. Fyrir ötula forgöngu sósíalista í bæjarstjórn Akureyrar hafa nú verið mynduð samtök með þátttöku bæjarfélagsins til að hrinda þessu stórmáli í framkvæmd. Að sjálfsögðu þarf mikið fjármagn til að byggja stórt hraðfrystihús. Þá hlið málsins hefur ekki tekizt að leysa enn sem komið er þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir forustumanna Akureyrarkaupstaðar. Vonir standa þó til, að málið verði leyst með almennri þátttöku bæjarbúa. Hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa séð neina þörf á því að útvega Akureyringum nauðsynlegt fjármagn til byggingar hraðfrystihúss.

Ég veit, að menn gera sér það ekki almennt ljóst, hvílík gerbreyting hefur orðið á atvinnulífi norðlenzkra bæja og sjávarþorpa og þó alveg sérstaklega Siglfirðinga vegna síldarleysisins undanfarin 10 ár. Eitt er staðreynd. Hæstv. ríkisstj. virðist sízt af öllum skilja það hræðilega ástand, sem síldarleysið hefur kallað yfir íbúa þessara byggðarlaga. Áður fyrr, meðan síldin veiddist allt frá Ströndum til Austfjarða, var fjörugt atvinnulíf á þessum stöðum. Allir, sem vildu og gátu unnið, höfðu næga vinnu frá því snemma á vorin og langt fram á haust og vetur. Síldarverksmiðjurnar voru í fullum gangi yfir veiðitímabilið og höfðu oft og tíðum ekki við að vinna úr þeim afla, sem barst á land. Síldarþrærnar voru í lokin oft fullar af hráefni, og vinnu var haldið áfram við bræðslu síldarinnar langt fram eftir hausti. Á hverju einasta síldarplássi var söltuð síld til útflutnings, hundruð, jafnvel þúsundir karla og kvenna víðs vegar að af landinu unnu dag sem nótt, þegar mest veiddist, við að salta síld og gera úr henni markaðshæfa vöru. Vinna við útskipun á afurðunum var geysimikil. Seinni hluta vetrar og snemma vors var svo hafinn undirbúningur undir næstu vertíð. Þannig tók hvert starfið við af öðru. Á þessum tíma hafði ríkissjóður gífurlegar tekjur af útflutningi síldarafurða. Um skeið var Siglufjarðarhöfn mesta útflutningshöfn landsins utan Reykjavíkur. Nú hefur þessi aðalatvinnuvegur Norðlendinga lagzt í rúst. Eftir standa hálfónýt pláss, bryggjur og síldarverksmiðjur, þar sem vélar hafa ekki verið hreyfðar árum saman, svo að teljandi sé.

Hvað hefur svo verið gert af hendi hins opinbera til hjálpar því fólki, sem orðið hefur fyrir slíku voðaáfalli? Hafa ekki hæstv. ríkisstjórnir brugðið skjótt við og sent sérfræðinga sína til þeirra staða, sem harðast hafa orðið úti, og látið gera till. um stofnun nýrra atvinnuvega og aðstoðað byggðarlögin með ráðum og dáð með útvegun nýrra atvinnufyrirtækja? Í langflestum tilfellum hefur ekkert verið gert, sem til frambúðar geti talizt til úrbóta á hinu óþolandi ástandi.

Rétt er þó að geta þess, að hæstv. Alþingi og ríkisstj. leyfðu síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði að byggja þar hraðfrystihús. Að því hefur verið mikil atvinnubót fyrir plássið, en gæti þó verið miklu meiri, ef það fengi nægjanlegt hráefni til vinnslu, en á það hefur allmikið skort, hverju sem um er að kenna. Það eina, sem orðið getur norðlenzkum bæjum og sjávarþorpum til bjargar frá yfirvofandi hruni og gereyðingu, er aukin þorskútgerð, þó alveg sérstaklega togaraútgerð, en kaupstaðirnir og sjávarþorpin á Norðurlandi geta ekki án beinnar opinberrar aðstoðar eignazt slík framleiðslutæki. Þessir staðir ráða ekki, svo að teljandi sé, yfir neinu fjármagni, sem þarf til slíkra framkvæmda. Slík aðstoð verður að fást annars staðar frá. Það er alveg tvímælalaust skylda ríkisvaldsins á hvaða tíma sem er að aðstoða hvert það byggðarlag, sem verður fyrir áföllum, hvort sem þau stafa af veiðibresti eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.

Sökum hins ömurlega ástands, sem skapazt hefur í síldarbæjunum á Norðurlandi vegna margra ára veiðibrests og vegna sinnuleysis og úrræðaleysis stjórnarvaldanna til að finna leiðir til úrbóta, hefur fjöldi fólks verið neyddur til að yfirgefa heimili sín og eignir og flytja burt og þá aðallega hingað suður. Eftir standa auð hús og önnur mannvirki, ofurseld tortímingu og eyðileggingu. Er það slíkt ástand, sem hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar kalla að tryggja jafnvægi í byggð landsins?

Hér á hv. Alþingi hafa farið fram mjög athyglisverðar umræður um hið ömurlega atvinnuástand ýmissa byggðarlaga á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Þingmenn úr öllum flokkum hafa tekið þátt í þessum umræðum og krafizt skjótra aðgerða til úrbóta á ástandi viðkomandi staða. Til að undirstrika þörfina fyrir slíkar aðgerðir hafa þeir svo flutt frumvörp, sem miða að því að bæta úr atvinnuleysi viðkomandi staða. Jafnvel hv. þingmenn Framsfl., sem kölluðu togarakaup nýsköpunarstjórnarinnar ævintýramennsku og gums, hafa nú flutt frv. um, að keyptir verði fjórir togarar til landsins og afhentir eftir þar til settum reglum til þeirra staða, sem þeirra hafa mesta þörf, eða jafnvel að ríkið sé látið reka skipin og þau notuð til atvinnujöfnunar á þeim stöðum, þar sem ástand er verst. Það mun koma í ljós síðar á þessu þingi, hvort hv. þm. stjórnarflokkanna hafa flutt þessi frv. í alvöru eða hvort þau eiga að verða eitthvert auglýsingaplagg til að veifa framan í hæstv. kjósendur. Við þingmenn Sósfl. munum vinna að því eftir mætti, að þessi frv. nái fram að ganga. Þá hafa þingmenn Sósfl. flutt frv., sem öll miða að stóraukinni atvinnu- og framleiðsluaukningu, m. a. um togarakaup og nýsmíði togara innanlands og frv. um aðstoð við bæjar- og sveitarfélög. Hæstv. ríkisstj. hefur látið allar umr. um atvinnumálin hér á Alþingi sig engu skipta, enda sagði hæstv. fjmrh. við 1. umr. um fjárlögin í sameinuðu þingi, að allir hefðu næga atvinnu. Enginn hæstv. ráðherra hefur tekið til máls undir umr. um þessi mál. Þessi afstaða hæstv. ráðherra til eins mesta vandamáls yfirstandandi tíma, uppbyggingar atvinnuveganna, sýnir svo takmarkalaust ábyrgðarleysi og um leið skilningsleysi á þörfum fólksins, sem býr við stöðugt atvinnuleysi, að undrum sætir.

Það er engu líkara en hæstv. ráðh. telji slíkt mál sem uppbyggingu atvinnuveganna sér algerlega óviðkomandi. Hæstv. ríkisstj. virðist vera önnum kafin við allt önnur og að hennar dómi sjálfsagt þýðingarmeiri mál fyrir þjóðarheildina. Máske er hæstv. ríkisstj. önnum kafin við að skipta á milli gæðinga sinna hernámsgróðanum? Að sjálfsögðu er hún í fullu starfi með samherjum sínum í hernámsliðinu við að finna út leiðir til aukinna hernaðarframkvæmda suður á Reykjanesi og víðar. Það er hvort sem er hennar eina úrlausn á vandamálum þess fólks, sem býr við atvinnuleysi úti á landsbyggðinni. Hæstv. ríkisstj. telur það ekki alvarlegt ástand, þó að atvinnulaust verkafólk sé neytt til að flytja í stórhópum frá Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi suður á land. A. m. k. aðhefst hæstv. ríkisstj. ekki neitt í þá átt, sem orðið gæti til að bæta úr atvinnuástandi viðkomandi staða og stöðva þar með flótta frá þessum byggðarlögum. Alþýða landsins og alveg sérstaklega fólk úti á landi er orðið langþreytt á sinnuleysi og úrræðaleysi hæstv. ríkisstj. í þessum málum. Það krefst breyttrar stjórnarstefnu. Alþýðan mótmælir því að búa við áframhaldandi skort og atvinnuleysi.

Allur almenningur, mikill meiri hluti þjóðarinnar, krefst þess, að það Alþingi, sem nú situr að störfum, geri þær ráðstafanir, sem að gagni megi koma til sköpunar blómlegs atvinnulífs við nytsamleg framleiðslustörf. Sú krafa fólksins verður ekki þögguð niður. Hún er rödd þess fólks, sem trúir á framtíð þessa lands og veit og skilur, að möguleikarnir til aukinnar hagsældar fyrir alla íbúa þess eru lítt tæmandi. Alþýðan á Íslandi hefir mikið lært af reynslu undanfarinna ára. Hún hefur m. a. lært að standa betur sameinuð en áður. Sú sameining og samfylking, sem nú er að skapast meðal allra vinnandi stétta, alls vinnandi fólks á Íslandi, mun verða það reginafl, sem ekkert afturhald og engin kyrrstöðuöfl fá staðizt.

Alþýðustéttin á Íslandi er búin að fá sig fullkeypta á núverandi stjórnarstefnu. Hún krefst athafna í stað athafnaleysis. Hún krefst uppbyggingar íslenzkra atvinnuvega í stað hernaðarframkvæmda. Hún krefst útrýmingar atvinnuleysis í öllum bæjum og sjávarþorpum, hvar sem er á landinn. En alþýðan treystir ekki hæstv. núverandi ríkisstj. til slíkra athafna. Til þess eru dæmin um manndómsleysi hennar of nærtæk. Spor hæstv. ríkisstj. hræða. Fyrir því lítur allur almenningur á fram komið vantraust á einn ráðherra sem verðskuldað vantraust á alla ríkisstjórnina. Á þeim grundvelli og með þeirri skýringu munum við þingmenn Sósfl. greiða fram kominni vantrauststillögu atkvæði.