15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það var ein setning í ræðu hæstv. fjmrh., sem er ástæða þess, að ég kvaddi mér hljóðs til að segja örfá orð við l. umr. málsins.

Hann sagði í sínum meðmælum með þessu frv., að ríkissjóð mundi ekki muna mikið um það, þó að frv. næði fram að ganga, samþykkt þess mundi ekki hafa nein teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Frv. er, eins og búið er að taka fram við umr., um að framlengja bráðabirgðaákvæði gildandi skattalaga um það, að skattur hlutafélaga og annarra skattskyldra félaga skuli lækka um 20% frá því, er verið hafði samkv. áður gildandi skattalögum. M.ö.o.: hæstv. fjmrh. tekur fram í meðmælaræðu sinni fyrir frv., að 20% af skattgreiðslu allra hlutafélaga og annarra skattskyldra félaga í landinu séu svo lítil upphæð, að það hafi nær engin áhrif á fjárhag ríkissjóðs. (Fjmrh.: Það eru tvö ákvæði í frv., sem gera þetta að verkum.) Sem gera þetta að verkum? (Gripið fram í.) En það getur ekki munað svo mikið um þetta tvennt. (Gripið fram í.) Getur þetta, tekjuskatturinn og eignarskattsviðaukinn, munað svo miklu, að það sé undirrót að ummælum ráðh.? Því miður hef ég — og ráðh. ekki heldur — í huganum tölur um þetta, en ég hygg, að þetta geti ekki haggað þeirri meginmeiningu, sem hlaut að vera í orðum ráðh.

Sannleikurinn er sá, að sá skattur, sem samkvæmt áður gildandi l. hvíldi á hlutafélögum og öðrum skattskyldum félögum, er svo hlægilega lítill í samanburði við þann skatt, sem launamenn verða að greiða, að það veldur ekki miklu um afkomu ríkissjóðs, hvort þessi skattur er hækkaður eða lækkaður um 1/5. (Fjmrh.: Það er alveg rétt.) Já, um það erum við væntanlega alveg sammála, og það er kjarni málsins. Þetta finnst mér vera rök fyrir því, að það eigi ekki að framlengja bráðabirgðaákvæði l., en ekki með því, að það eigi að framlengja þau, vegna þess að þetta sýnir, að ákvæði núgildandi 1. um skattskyldu hlutafélaga eru alls kostar óviðunandi. Ég hef ekki í huga mér neina ákveðna áætlun um, hversu mikill hluti af öllum greiddum tekjuskatti sé greiddur af félögum, og efast raunar um, að hægt sé að fá um það rækilegar upplýsingar, en ákveðið hugboð hef ég þó um það, að sú hlutfallstala sé mjög lág, og ég mun reyna að afla mér upplýsinga um það, ef þær eru fáanlegar, við meðferð málsins í hv. fjhn. En ég hygg, að ég fari ekki með rangt mál, er ég staðhæfi, að félagaskatturinn sé undir 1/5 af öllum greiddum tekjuskatti, og getur þá hver maður séð í hendi sinni, hvilikt feikilegt ranglæti það er í skattalöggjöfinni. að öll félögin, sem auðvitað safna í sína sjóði meginhlutanum af allri gróðamyndun í landinu, skuli ekki greiða nema óverulegan hluta af þeim tekjuskatti, sem ríkissjóður innheimtir, að ríkissjóður skuli innheimta margfaldan tekjuskatt frá launamönnum á við það, sem hann innheimtir frá félögunum, að meðtöldum öllum stórgróðafélögunum.

Þessa staðreynd tel ég vera svo athyglisverða, að hennar beri að geta til sönnunar því, að ríkjandi ástand megi ekki haldast í eitt ár enn, og að það sé mjög ámælisvert af hæstv. Ríkisstj. að hafa látið dragast svo lengi sem raun ber vitni að endurskoða gildandi reglur um skattgreiðslu félaganna.

Mþn. í skattamálum var skipuð árið 1952. Hún átti að ljúka störfum, eftir því sem upphaflega var ráðgert, fyrir þingið, sem kom saman það haust. Það varð ekki. Hún lauk ekki heldur störfum á næsta ári. Skattafrv. hennar, sem einungis fjallaði um persónuskattana, var afgr. á þinginu í fyrra, tveim árum á eftir áætlun. Þá var því lofað, að ekki skyldi dragast nema til næsta þings að endurskoða lagaákvæðin um félagaskattana. Nú virðist ætla að fara alveg eins með þetta. Það virðist eiga að dragast í önnur tvö ár. M.ö.o.: hvort tveggja verður tvö ár eftir áætlun, endurskoðun persónuskattanna og endurskoðun félagaskattanna. Þetta er dráttur, sem ég verð að segja að er vítaverður, og það vildi ég láta þegar koma fram við 1. umr. málsins. En á hinu átti ég þó ekki von, að í sjálfri framsöguræðu hæstv. fjmrh. væri að finna gleggstu rökin, sem hægt er að færa fyrir því, að það sé óverjandi að láta þessa endurskoðun dragast svo úr hömlu sem raun ber vitni um.