22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (3366)

3. mál, ríkisborgararéttur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki bæta við þetta mörgum orðum. Það var aðeins örstutt orðsending til míns góða kunningja, hv. 1. þm. Árn., í sambandi við þau orð, sem hann mælti í lok ræðu sinnar hér áðan. Ég hygg, að enginn okkar komi nú fram með nein veigamikil ný rök í þessu máli, sem hér hefur verið deilt um, þó að við körpum um það áfram.

Mér virðist, að það, sem hv. 1. þm. Árn. setur mest fyrir sig, þegar hann er að halda því fram, að tungunni stafi gífurleg hætta af till. okkar, ef hún yrði samþykkt, sé byggt á þeim reginmisskilningi, að það sé ætlunin að halda þessum ættarnöfnum í málinu um alla framtíð. Eins og greinilega segir í till., þá er alls ekki til þess ætlazt, heldur eiga þeir menn, sem nú fá ríkisborgararétt, að fá að bera ættarnafn sitt til æviloka, en síðan á það nafn að falla niður og ekki sjást á íslenzkum ríkisborgara eftir það. En ef það er nú allt í einu orðið stórhættulegt, að þessir menn, sem — eins og sagt hefur verið eru margir orðnir miðaldra og sumir jafnvel aldraðir, fái að halda nöfnum sínum til æviloka, er það þá ekki alveg eins hættulegt íslenzkri tungu, að hér dvelja fjölmargir erlendir menn með erlendum nöfnum, jafnvel þó að þeir hafi ekki íslenzkan ríkisborgararétt? Ættum við þá að fara að stefna að því að neita um landvistarleyfi mönnum, sem skipta ekki um nafn?

Ég skal taka undir það, að ég vil gjarnan, að hér ríki strangar reglur um mannanöfn, og ég hef skýrt frá því, að ég tel það gersamlega óviðunandi, að lögin um þau frá 1925 skuli ekki vera betur í heiðri höfð en þau hafa verið. En mér finnst ekki ríkust ástæða til þess að byrja á því að setja um þetta efni strangari reglur um þá menn, sem nú fá ríkisfang hér, heldur en þá, sem fyrir eru í landinu.

Að síðustu vildi ég aðeins segja hv. 1. þm. Árn., að ég ætla ekki að fara á þessari stundu að ræða við hann almennt um þjóðernismál, enda er hann nú dauður í þessu máli. En ég vil óska honum þess, að hann megi í hverju máli, sem snertir íslenzka menningu og þjóðerni, rísa upp tvíefldur, og þá skulum við sjá, hvort við getum ekki orðið samherjar oftar hér eftir en hingað til.