15.10.1954
Sameinað þing: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

1. mál, fjárlög 1955

Haraldur Guðmundsson:

Herra forsetl. Frv. það til fjárlaga fyrir árið 1955, sem hér liggur fyrir, er lagt fram á 1. fundi þessa þings, laugardaginn 9. þ. m. Daginn eftir birtust í stjórnarblöðunum báðum, Morgunblaðinu og Tímanum, feitletraðar greinar um ágæti frv. og afrek ríkisstj.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, segir í Morgunblaðinu þann 10. þ. m.: „Svo virðist sem afkoma ríkissjóðs muni verða ágæt á árinu. Sjaldan hefur almenningur haft öruggari og betri afkomu en á árinu.“

En fyrirsögnin í aðalgrein Tímans sama dag er á þessa leið: „Lækkun skatta og tolla“. Þar er fullyrt, að hæstv. ríkisstj. hafi stöðugt og einkum nú síðustu ár verið að lækka skatta og tolla á þjóðinni.

Bæði eru þessi blöð sammála um það, að ástandið sé ágætt. Peningarnir streyma í ríkissjóðinn, atvinna er næg — afkoman er örugg. Þó bregður öðru hverju fyrir fölskum tón í þessari fagnaðarhljómkviðu.

Morgunblaðið segir frá því 12. þ. m., að ýmsir spyrji: Er ekki togarastyrkurinn upphaf nýrrar gengislækkunar? Blaðið lætur svo sem því finnist þessi spurning fávisleg og fjarstæðukennd, en segir samt hæstv. forsrh. frá henni. Svar hans er á þessa leið: Þvert á móti. Togaraskatturinn er á lagður til þess að afstýra gengislækkun, segir hæstv. forsrh. Mér varð nú á að spyrja, er ég las þetta: Úr því að til er gnótt peninga og úr því að afkoman er örugg fyrir almenning í landinu, er þá þörf að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afstýra gengislækkun? Ég las svo dálítið lengra í Morgunblaðinu, og þar segir, að umtalið um gengislækkun sé svo útbreitt, „að einstakir kaupsýslumenn hafi jafnvel auglýst í blöðunum, að gengislækkun sé yfirvofandi“. Væntanlega hefur þessi auglýsing komið í Morgunblaðinu, úr því að svo vel er um hana kunnugt í þeim herbúðum. En af þessu tilefni segir svo forsrh. í viðtali við Morgunblaðið sama dag: „Ríkisstjórnin öll er sammála um, að þessar ráðstafanir hafi verið nauðsynlegar, m.a. í því skyni að forðast gengislækkun.“ Og svo bætir hann við: „Og stjórnin er einnig öll sammála um, að ekkert sérstakt í efnahags- eða atvinnulífi þjóðarinnar bendi nú til nýrrar gengislækkunar.“ Og enn bætir hann við: „Ríkisstj. er að sjálfsögðu í fararbroddi í baráttunni gegn því, að slík ógæfa hendi þjóðina.“ „Slík ógæfa“, segir hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu. Öðruvísi mér áður brá. Frá því 1950 hefur hæstv. forsrh. og blöð hans og Tíminn stöðugt kallað gengislækkunina bjargráð við útveginn og hreina þjóðarblessun. Nú er það ógæfa, segir hæstv. forsætisráðherra.

Skal ég svo víkja að ræðu hæstv. fjmrh. Ræða hans var að mestu, þegar frá er tekinn greinagóður kafli, sem fjallaði um tekjur og gjöld á árinu 1953 og horfurnar á árinu 1954, að mestu sami lofsöngurinn um ástandið eins og blöð stjórnarflokkanna og hæstv. forsrh. hafa áður flutt. Peningarnir streyma í ríkissjóð, úr honum aftur til blessunar fyrir landsfólkið. Afkoman er ágæt og örugg. Tollar og skattar eru lækkandi, en samt fara alltaf tekjurnar langt, langt fram úr áætlun, 1954 væntanlega um 100 millj., og á árinu 1953 er rekstrarafgangurinn 92 millj.

Meðan ég hlustaði á þessa ræðu hæstv. fjmrh., komu mér í hug ýmsar gamlar öfugmælavísur, sem ég ekki skal þylja hér. Ráðh. er ekki að eðlisfari raupsamur maður, það má hann eiga. Hann getur verið spaugsamur og hefur það stundum til að henda gaman að sjálfum sér. Mér fannst stundum, að hann brygði fyrir sig þessari kímni, þegar hann var að flytja ræðu sína. Öfugmælin voru svo augljós, þegar hann var að tala um lækkun skatta og tolla.

Hvað segja nú staðreyndirnar í þessu efni? Samkvæmt frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að rekstrartekjur ríkissjóðs árið 1955 verði um 500 millj. kr., sem bersýnilega er allt of lágt áætlað, ef miðað er við áætlaðar tekjur 1954. Af þessari upphæð eru um 400 millj. skattar og tollar og um 100 millj. rúmlega tekjur af fyrirtækjum ríkissjóðs. Í því frv., sem hæstv. ráðh. lagði fyrir síðasta Alþ., til fjárlaga fyrir 1954, voru rekstrartekjurnar áætlaðar um 430 millj. alls. Hækkunin er því til þessa frv. 70 millj. kr., þar af um 60 milljónir hækkun af tollum og sköttum, en um 10 millj. kr. aukinn hagnaður á ríkisfyrirtækjum. Mér virðist fullkomið öfugmæli af hæstv. ráðh. að tala um lækkun skatta og tolla í þessu sambandi. Veit ég vel, hvaða rök hæstv. ráðh. flytur gegn þessu. Hann mun segja tollskráða skattstiga hafa ekki verið hækkaða á tímabilinu og benda á, að veitingaskatturinn eigi nú alveg að falla niður. Hann kemst þó aldrei fram hjá því, að gjöldin, sem af landsmönnum eru tekin í ríkissjóðinn, hafa hækkað og eiga að hækka samkv. áætlunum hans um a.m.k. þessar 60 millj. kr. að óbreyttum gildandi skattalögum. Og ekki má hann gleyma nýju viðbótunum, sem hann nefndi ekki í sinni ræðu. Ég vil gera ráð fyrir í öllu falli, að hann gleymi ekki að sjá um, að þær verði innheimtar. Hæstv. ríkisstj. hefur með brbl. lagt nýjan innflutningsskatt á bíla, sem áætlað er að muni nema á þessu ári 16 millj. kr. Þessar 16 millj. koma því í viðbót við þær 60 millj., sem ráðh. áætlar hækkun á gömlu sköttunum. — Það má ekki gleyma stærsta bitanum í þessu sambandi, þeim skattinum, sem stöðugt er reynt að fela fyrir landsfólkinu með því að taka hann ekki inn í fjárlög og ekki inn í ríkisreikninga. Á árinu 1953 munu bátagjaldeyrisleyfi — B-leyfi — hafa numið um 150 millj. kr. Bátagjaldeyrisálagið, styrkurinn til útvegsins, nam til uppjafnaðar nokkuð yfir 50%, eða samtals rúmlega 75 millj. kr. á því ári. Á þessu ári, 1954, er gert ráð fyrir, að upphæð B-leyfa muni nema um 200 millj. kr. og álagið á bátagjaldeyri talið nema 100 millj. kr., eða hækkunin á þessum eina lið, hinum dulda skatti, að minnsta kosti 25 millj. kr. Þessar tvær hækkanir einar saman nema a.m.k. 40 millj. kr. Afnám veltuskattsins, 2–21/2 millj., hrekkur skammt, finnst mér, upp í þessar hækkanir.

Áætlaðar skatta- og tollahækkanir samkv. lögum og samkv. frv. ráðh. í heild á árinu 1955 virðist því mega reikna þannig: Áætlaðar hækkanir eldri skatta um 60 millj. kr., bílaskattur 18 millj. kr. og aukning álaga á bátagjaldeyri 25 millj. kr., og eru þá komnar þarna hækkanir upp á 101 millj. Er þá sleppt því, sem vantar á, að það, sem togurum er lagt með bílaskattinum, nægi til þess að tryggja rekstur þeirra, en það mun vera ekki minna en 20–25 millj. a.m.k. Töluglöggir menn geta reiknað út, hversu miklu þessi upphæð muni nema, þegar búið er að bæta við hana álagningu heildsala, umboðssala, smásala og öðrum milliliðakostnaði. Ætla má, að viðbótin, hækkunin, fari þá að nálgast 200 millj. kr., og í öllu falli verður hún aldrei lægri en eitthvað á milli 160 og 200 millj. kr. Þetta kalla stjórnarflokkarnir og blöð þeirra lækkun skatta og tolla. Þetta leyfi ég mér að kalla fullkomið öfugmæli, því að ljóst er, að hér er um gífurlega hækkun að ræða.

En hvað er þá um öryggi atvinnulífsins, öryggi um afkomu almennings, sem ríkisstj. telur í svo ágætu lagi, góðærið, sem hæstv. fjmrh. talaði svo mjög um? Við skulum líta á fjárlagafrv. Í 20. gr. eru ætlaðar 5 millj. kr. til að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu. Allir vita, að sú upphæð þarf að hækka. Í sömu gr. eru ætlaðar 12 millj. kr. til afborgana og vaxta af ýmsum lánum með ríkisábyrgð, sem eru í vanskilum. Sú upphæð er í frv. hækkuð um 4 millj. kr. frá fyrra ári. Gefur þessi liður og hækkunin 50% nokkra mynd af atvinnuástandinu í landinu. Mest af þessum lánum er hjá sveitarfélögum og bæjarfélögum og tekin til þess að reyna að halda atvinnulífi í horfinu á þeim stöðum. Lítum svo loks á 19. gr. Þar eru ætlaðar til dýrtíðarráðstafana 50 millj. kr. Hverjar eru þessar dýrtíðarráðstafanir? Það eru greiðslur úr ríkissjóði til þess að greiða niður vöruverð, aðallega landbúnaðarvörur. Við þessa upphæð, sem án efa á eftir að hækka á þessu þingi, má bæta útgerðarstyrknum til togaranna, sem talið er að þurfi að nema Í millj. kr. á dag á hvern togara eða samtals um 40 millj. kr., ef ekki eru fundnar aðrar leiðir. Fara þá þessar uppbætur og niðurgreiðslur að nálgast 100 millj. kr. eða nærfelt tvöfalda þá upphæð, sem veitt var á fjárlögum fyrir gengislækkunina 1950 í sama skyni og átti þá alveg að falla niður eins og söluskatturinn, sem þá var á lagður til þess að mæta útgjöldum vegna dýrtíðarráðstafana, niðurgreiðslna og annars slíks.

Sveitarfélögunum eru ætlaðar í beinan styrk til að halda við atvinnunni 17 millj. kr. Bátaútveginum er ætlað um 100 millj. kr. álag á gjaldeyrinn, til þess að hann geti haldið í horfinu, og togurunum eru ætlaðir 2000 kr. dagpeningar hverjum, og vantar þó sem svarar hálfri þeirri upphæð til þess, að endarnir nái saman. Auk þess þarf um 40 millj. kr. til þess að greiða niður verð á landbúnaðarvörum, til þess að fólkið við sjóinn geti keypt þær og bændur haldið búskap sinum áfram.

Þetta er hið raunverulega mat ríkisstj. á afkomuöryggi landsmanna, öryggi atvinnulífsins í landinu. Þetta gefur allt aðra og sannari mynd af ástandinu heldur en ræður ráðherranna og þær greinar, sem ég hef vitnað í í blöðum stjórnarfiokkanna. Mér telst svo til, að samtals nemi sá styrkur, sem lög og fjárlög gera ráð fyrir til atvinnulífsins í landinu til þess að halda því gangandi, ekki minna en a.m.k. 200 millj. kr.: 100 millj. í bátaútveginn, 40 millj. í togarana, 40 millj. til niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum, og til atvinnuráðstafana og annars slíks í sveitarfélögunum um 17 millj. kr. Þetta eru um 200 millj. kr., sem þarf til þess að tryggja atvinnulífið, svo vel sem það nú er gert.

Enginn raunsær maður getur tekið fullyrðingu hæstv. ríkisstj. um þessi efni alvarlega. Það er viðurkennd staðreynd, að ástandið í efnahagsmálum okkar, atvinnu- og fjárhagsmálum er svo ískyggilegt sem orðið getur. Bátaútvegurinn, togaraútgerðin, landbúnaðurinn fljóta nú á beinum styrkjum. Frjálsa verzlunin er með þeim hætti, að nú heimta bankarnir allt að 100% fyrirframgreiðslu upp í andvirði þeirra vara, sem pantaðar eru frá útlöndum. Með því móti eru þeir, sem ekki hafa nægileg fjárráð eða innhlaup í bankana, útilokaðir frá slíkum verzlunarviðskiptum, en einokunaraðstaða hinna, sem næg hafa fjárráðin, styrkt að sama skapi. Milliliðirnir raka saman gróða. Töp atvinnuveganna, fólksins, sem vinnur, verða þeim sívaxandi gróðalind. Því meiri sem styrkirnir og uppbæturnar eru, þeim mun meiri verður þeirra gróði.

Hitt vita og allir, sem ekki loka augunum fyrir staðreyndum, að síðan Marshallhjálpinni lauk eru það tveir tekjuliðir, sem fjárhagsafkoma þjóðarinnar í raun og veru að miklu leyti hefur byggzt á. Annar er framkvæmdir varnarliðssveitanna hér í landi og sá erlendi gjaldeyrir, sem þaðan rennur. Hitt er afurðasalan til Sovétríkjanna og þeir útflutningsmöguleikar, sem viðskiptasamningurinn við Rússa hefur opnað. En báðir þessir tekjuliðir eru mjög ótryggir. Hinn fyrri, tekjurnar af dvöl varnarliðsins, vona flestir að verði brátt úr sögunni og falli niður. Menn vona, að vit og ábyrgðartilfinning verði yfirsterkari ofbeldisöflunum í heiminum, þannig að ekki þurfi lengur erlenda hersetu hér á landi. Hinn síðari verður því miður einnig að teljast mjög ótryggur. Því hlýtur jafnan að fylgja mikið öryggisleysi, þegar mikill hluti viðskipta með höfuðútflutningsvöru okkar er bundinn viðskiptum við eina þjóð. Ef það viðskiptasamband rofnar af einhverjum ástæðum, eru miklir erfiðleikar fram undan. Þá er voðinn vís að óbreyttu ástandi að öðru leyti. Verðþenslan er gífurleg og sívaxandi. Vísitalan er nú 158 stig, þrátt fyrir allar niðurgreiðslur, og segir þó ekki allan sannleikann. Krónan hefur stöðugt farið lækkandi síðan árið 1950. Hæstv. ríkisstj. kveðst vera í fararbroddi í baráttunni gegn gengislækkun, gegn því, að slík ógæfa hendi þjóðina, eins og hæstv. forsrh. orðaði það. Ég vil vona, að hæstv. ríkisstj. takist þetta. En traust mitt á hæstv. ríkisstj. til áhrifaríkra aðgerða í þessu efni er mjög veikt, harla litið. Hæstv. ríkisstj. er studd af sömu flokkum og ríkisstj. sú, sem mynduð var árið 1950. Flestir ráðh. eru hinir sömu. Sú stjórn var til þess mynduð að lækka gengið. Það var þá bjargráð, en ekki ógæfa. Hún lækkaði gengið þá þegar á íslenzkri krónu um 42%. Hún hefur haldið áfram á sömu braut síðan, aftur lækkað gengið með bátagjaldeyrisálögum, afnumið verðlagseftirlit og húsaleigueftirlit, svipt burt öllum hömlum á gróðastarfsemi fjáraflamanna í hverri mynd sem er. Enn er haldið áfram á sömu braut.

Húsnæðismálin eru erfiðustu málin viðfangs að mörgu leyti hér á landi nú. Fyrir utan að taka gróða af milliliðastörfum við verzlun með vörur, þjónustu og annað slíkt er það stórfelld tekjulind fyrir gróðamennina í landinu að annast nú peningaverzlunina, taka hana frá bönkunum og í sínar hendur. Verðbréfin, sem menn eru að reyna að selja til þess að fá þak yfir höfuðið og tryggja með öruggum veðrétti og ríkisábyrgð, ganga kaupum og sölum fyrir 2/3 verðs. Tugum milljóna raka fjárbraskarar saman á slíkri peningaverzlun. Á þetta horfir ríkisstjórnin aðgerðalaus. Ég vil fullyrða, að í fjárhagsmálum þjóðarinnar og að því er afkomuöryggi snertir hefur stöðugt sigíð á ógæfuhlið síðan árið 1950. Því miður fæ ég ekki annað séð en að fjárlfrv. það, sem hér liggur fyrir, og stefna ríkisstjórnarinnar á s.l. árum bendi til, að svo verði áfram, því miður.